Dagblaðið Vísir - DV - 04.11.2014, Side 32
32 Menning Vikublað 04.–06. nóvember 2014
Í
lok síðasta mánaðar voru 150 ár
liðin frá fæðingu Einars Bene-
diktssonar, skálds og athafna-
manns. Í tilefni af því lagði Ill-
ugi Gunnarssonar, mennta- og
menningarmálaráðherra, fram til-
lögu um að nefna afmælisdag
skáldsins, 31. október, Dag ljóðs-
ins. Daginn áður hafði meirihluti
borgarráðs enn fremur samþykkt að
flytja styttu af Einari frá Klambratúni
að heimili Einars forðum, Höfða,
en þar bjó hann frá 1914 til 1917 og
er sagður hafa gefið húsinu nafnið
Héðinshöfði – sem var síðar stytt í
Höfði. Borgarfulltrúar Sjálfstæðis-
flokkins höfðu lagt fram tillögur um
þetta í ágúst með þeim rökstuðningi
að minningu Einars væri ekki sýnd-
ur nægilegur sómi á Klambratúni og
styttan þyrfti að vera sýnilegri.
Þessir tveir gjörningar, hátíðar-
dagurinn og flutningur styttunn-
ar á sýnilegri stað, eru á vissan hátt
til vitnis um að vilji sé til að festa
Einar Benediktsson enn frekar í sessi
sem einn af hinum helgu mönnum
þjóðarinnar, veraldlegum þjóðar-
dýrlingum íslenska ríkisins.
Þjóðartákn og -dýrlingur
Í fræðiritinu Ódáinsakur sem kom
út árið 2013, fjallar Jón Karl Helga-
son bókmenntafræðingur um lík-
indi trúarlegra dýrlinga kirkjunnar
fyrr á öldum og veraldlegra þjóðar-
dýrlinga ríkisins frá og með nítjándu
öld. Jón Karl notar orðið helgifesta
um þær aðferðir og hefðir sem stuðst
er við þegar einstaklingur er festur í
dýrlingasessi. Með orðaforða kirkj-
unnar getum við sagt að þetta sé gert
með íkonamyndum (t.d. á frímerkj-
um og seðlum), líkneskjum (t.d.
styttum), helgum stöðum (t.d. sér-
stakri áherslu á heimili dýrlingsins),
helgum dómum (t.d. söfnum tileink-
uðum dýrlingnum), nafngift (t.d.
götum og stöðum sem nefndir eru
eftir dýrlingnum), messudögum (t.d.
opinberum hátíðsdögum tileink-
uðum dýrlingnum), korpus, helgi-
siðum, helgisögnum, innrætingu,
möntrum og fjölmörgum öðrum
athöfnum til að viðhalda minningu
þjóðardýrlingsins.
Jón Karl færir rök fyrir því að
verald legir þjóðardýrlingar og helgir
dómar þeim tengdir séu meðal
annars nýttir til að móta formgerð-
ir og gildi þjóðríkisins sem stofnun-
ar. Þannig eru leifar úr lífi þjóðar-
dýrlingsins nýttar „til að koma reglu
á samfélagslegan veruleika og virkja
eða beisla ólíka þjóðfélagshópa.“
Val á þjóðardýrlingum byggist því
ekki einungis á gæðum eða vinsæld-
um verka þeirra heldur á pólitísk-
um aðstæðum og þörfum valdafólks
hverju sinni. Dýrlingurinn á að vera
borgurunum gott fordæmi og fyrir-
mynd.
Það þarf ekki að varpa rýrð á
skáldverk Einars Benediktssonar að
reyna að skilja hugmyndafræðilegar
ástæður þess að þjóðardýrlingn-
um Einari er hampað frekar en öðr-
um skáldum sem gætu átt jafn mik-
ið tilkall til slíkrar helgifestu. Hér
verður einungis reynt að varpa ljósi
á hvernig persóna skáldsins (frekar
en skáldskapurinn sjálfur) er not-
uð, meðvitað eða ómeðvitað, til að
staðfesta ákveðin gildi og heims-
mynd. Að hvaða leyti er hugmyndin
og sagan um Einar Ben notuð til
að móta formgerð og gildi íslenska
þjóðríkisins?
Ævintýraleg ævi,
umdeild skáldverk
Einar Benediktsson er mikilsvirt
skáld. Í ræðum á málþingi í Há-
skóla Íslands um helgina sann-
færðu fræðimenn undirritaðan um
hæfileika Einars og mikilvægi hans í
íslenskri bókmenntasögu. Hann hef-
ur hins vegar oft verið gagnrýndur
fyrir skrifa tyrfinn og uppskrúfað-
an texta. Það er ekki síður ævin-
týralegt lífshlaup Einars sem hefur
haldið nafni hans á lofti í þjóðarvit-
und Íslendinga: hann var ritstjóri,
lögfræðingur, embættismaður og
allrahanda athafnamaður og frum-
kvöðull.
„Ég held að þessi mynd af hon-
um sem þjóðsagna- eða goð-
sagnapersónu hafi mynd-
ast mjög fljótt, en hann
var alveg gríðarlega um-
deildur og menn skiptust í
tvo hópa: með og á móti,“
segir Guðjón Friðriksson
sagnfræðingur sem skrif-
aði þriggja binda ævisögu
Einars.
Hann hefur lengst af
verið tengdur borgara-
legum gildum, bæði sem
persóna og skáld. Ljóðin hans bera
vitni um þá nýrómantísku einstak-
lingshyggju sem var að verða til í lok
nítjándu aldarinnar og byrjun þeirr-
ar tuttugustu í bland við hetjudýrk-
un, tækni- og framfarahyggju.
„Honum hefur verið hampað
mjög af mörgum í Sjálfstæðisflokkn-
um. Áður var sagt að heildsalar hafi
dýrkað hann. Þá hefur hann verið
dýrkaður mjög af athafnamönnum.
Ýmsir athafnamenn kunnu öll kvæði
hans utanbókar og þuldu upp, hann
var þeirra ídol,“ segir Guðjón.
Enn eru dæmi um athafnamenn í
samtímanum sem líta upp til Einars,
má þar nefna Jón Ólafsson, sem
nefndi fjölmiðlafyrirtækið Norður-
ljós til heiðurs Einari, og Skúla
Mogen sen, sem nefndi fjárfestinga-
félag sitt í höfuðið á fossafélagnu Tít-
an sem Einar stofnaði utan um virkj-
anaframkvæmdir í Þjórsá.
Aftur á móti hafa jafnaðarmenn
og kommúnistar einnig reynt að
eigna sér Einar Ben. Ljóðið Sjá hin
ungborna tíð er oftar en ekki sung-
ið á frídegi verkamanna 1. maí og
verkalýðsleiðtoginn Einar Olgeirs-
son hafði miklar mætur á Einari.
Guðjón segir mjög erfitt að stað-
setja Einar Benediktsson á stjórn-
málalitrófi samtímans: „Ég hugsa
að hann myndi ekki hafa rekist vel í
neinum flokki.“
Helgifesta
Þegar persóna er smám saman fest í
sessi sem opinber dýrlingur er auð-
vitað ekki um úthugsuð samantek-
in ráð að ræða heldur eru einstak-
lingar með ákveðnar pólitískar
skoðanir að bregðast við ákveðnum
aðstæðum. Ástæðurnar og ástandið
er vissulega margþætt en það má
færa rök fyrir því að Einar geti gegnt
því hlutverki að brúa gjá milli þeirra
sem skilgreina sig sem listamenn og
pólitískra hugmynda hægrisins, að
minna á að hugsjónir hægri manna
séu ekki ósamræmanlegar menn-
ingarlífinu.
Mestalla tuttugustu öldina voru
ólíkar listamannakreðsur á Ís-
landi sem skiptust eftir pólitískum
skoðunum. Í dag er listin yfirleitt
tengd miðju- eða vinstrivæng stjórn-
málanna. Hin árlega deila um lista-
mannalaun virðist til dæmis vera
rifrildi milli andstæðra póla menn-
ingarsinna og frjálshyggjumanna,
þar sem hinir fyrrnefndu kvarta
yfir því að ríkið meti menninguna
ekki að verðleikum, og hinir síðar-
nefndu segja það ekki hlutverk rík-
isins að niðurgreiða ákveðna fram-
leiðslu (þ.e. menningarframleiðslu)
en ekki aðra. Sama pattstaða er uppi
í deilunni um bókaskatt, myndlistar-
sjóð og kvikmyndasjóð: „ríkið met-
ur ekki bókaútgáfu / myndlist / kvik-
myndaiðnaðinn að verðleikum,“
segja listamenn, en frjálshyggju-
menn að það sé ekki hlutverk rík-
isins að niðurgreiða ákveðna gerð
(menningar)neyslu umfram aðra.
Þó að á tuttugustu öldinni hafi
verið nokkuð sterkari tenging milli
listrænnar sköpunar og jafnað-
arhyggju, getum við sagt að vinstrið
hafi á undanförnum áratugum tek-
ist að „eigna sér“ listina í meira mæli
en áður.
Messudagurinn
Illugi Gunnarsson er á vissan hátt
milli steins og sleggju. Hann er full-
trúi menningarinnar í ríkisstjórn,
skapandi og listelskur einstaklingur,
en fylgir hugmyndastraumi sem
kveður á um að listin eigi ekki að þrí-
fast fyrir tilstuðlan styrkja hins opin-
bera.
En á sama tíma og framlög til
einstakra menningarmála eru
minnkuð eða vilyrði dregin til baka
(þess ber reyndar að geta að heildar-
útgjöld til menningarmála í fjárlaga-
frumvarpi hafa aukist frá síðasta ári),
er hann sannfærður um að blóm-
legt lista- og menningarlíf sé samfé-
laginu til hagsbóta.
Niðurskurðurinn er álitinn
nauðsynlegur til að ná fram halla-
lausum fjárlögum, en einnig er það
pólitískt markmið frjálshyggjunnar
að minnka hlutverk hins opinbera
í listaheiminum jafnt sem annars
staðar.
Verkefni Illuga felst í því í að
sannfæra Íslendinga um að listalíf og
pólitíski hægrivængurinn séu ekki
andstæður. Viðskipti og listir vinni
saman en útiloki ekki hvort ann-
að. Til þess beitir hann nú þjóðar-
dýrlingnum Einari Ben.
Hugmyndafræðileg kynning
Í aðsendri grein í Morgunblaðinu
færir Illugi rök fyrir upptöku þessa
opinbera messudags. Hann tal-
ar vissulega um ljóðlist Einars en
áhugavert er að taka saman þær
framkvæmdir og lífsskoðanir Einars
sjálfs sem Illugi ákveður að nefna og
máta þær við stefnu og hugmyndir
þeirrar íhaldssömu frjálshyggju sem
Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir.
Viðskiptafrelsi Illugi bendir á að
Einar hafi verið jákvæður gagnvart
viðskiptafrelsi og samkeppni – en
þetta eru óumdeilanlega grunngildi
efnahagslegrar frjálshyggju. Hann
segir Einar hafa álitið peninga vera
afl þeirra hluta er gera skyldi. Hér
eru lykilorðin frelsi, samkeppni og
peningar.
Iðnaður Ein helsta hugmynda-
fræðilega barátta samtímans snýst
um hvernig haga skuli nýtingu nátt-
úrunnar, en þarna reynist Einar
vissulega sterkur bandamaður virkj-
anasinna. Illugi talar um að Einar
hafi verið jákvæður í garð orku-
iðnaðar, hann vildi (þrátt fyrir ást á
náttúrunni) nýta náttúruauðlind-
ir til að auka hagsæld Íslendinga.
Boðskapurinn er þessi: það er hægt
að elska náttúruna og virkja hana á
sama tíma. Hér eru lykilorðin því
iðnaður, nýting og hagsæld.
Ættjarðarást Þriðja deilumálið
sem Einar er látinn miðla málum
í er deilan um þjóðerniskennd og
-hyggju. Deila milli þeirra sem leggja
áherslu á hversu sérstakt Ísland er
og hversu miklum möguleikum land
og þjóð búi yfir og þeirra sem gagn-
rýna þann málflutning sem þjóðern-
ishyggju. Illugi nota Einar til að sýna
að ættjarðarást sé ekki heimóttar-
skapur (enda Einar víðförull heims-
borgari) og síðar grípur hann til
hugtaksins þjóðmenning sem hefur
verið umtalað frá því að það var sett
inn í stjórnarsáttmála Sjálfsæðis-
flokks og Framsóknar. Peningar eru
„lyftistöng fyrir nýja þjóðmenn-
ingu á fornum stofni,“ segir Ein-
ar Ben í gegnum penna Illuga, eða
á mannamáli: það er engin list án
blómlegs viðskiptalífs. Þetta tengir
hann svo einnig hugmyndinni um
að ættjarðarástin kristallist í til-
raunum Einars til að selja aðgang
að náttúrunni. Hérna eru lykilorðin
ættjarðarást, þjóðmenning og ferða-
mennska.
Við þetta má bæta að Illugi segir
hugmyndir Einars eiga vel við í bar-
áttunni fyrir meira læsi. Þessi full-
yrðing er órökstudd – hvaða hug-
myndir þessa tiltekna skálds umfram
annarra það eru sem eiga vel við í
þessari baráttu er ekki ljóst – en hef-
ur tilfinningalegt gildi.
Líkneskið að Höfða
Staðsetning líkneskis á borð við
styttu af persónu skiptir máli: því
sýnilegra sem það er í opinbera rým-
inu, því mikilvægari getur persónan
talist í vitund borgaranna. Þá er ljóst
að hægt er að lesa táknræna merk-
ingu úr umhverfi þess staðar þar sem
líkneskinu er komið fyrir.
Eftir að hugmyndir komu frá hópi
áhugamanna um Einar Ben höfðu
borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks veg
og vanda að tillögunni um að flytja
styttu Ásgríms Sveinssonar af Einari
af Klambratúni að Höfða. Reykja-
víkurborg greiðir helming af 15 millj-
óna króna kostnaði við flutninginn
en áhugamennirnir borga helming.
Það er ljóst að mun fleiri ferða-
menn heimsækja Höfða, sögu-
legan stað sem skrifað er um í ferða-
mannabæklingum, en Klambratún,
útivistarsvæði borgarbúa. Þó að
Höfði sé í eigu Reykjavíkurborgar er
það kannski fyrst og fremst tákn um
heimsborgarahátt Íslendinga: hús-
ið er brennt inn í vitund Íslendinga
sem staður þar sem þjóðhöfðingj-
ar stórvelda hittast. Staðurinn er
því hentugur fyrir heimsborgarann
og ferðamálafrömuðinn Einar Ben.
Höfði er enn fremur staddur rétt við
viðskiptahverfið Borgartún þar sem
athafnamaðurinn og viðskiptamað-
urinn, og embættismaðurinn Einar
Ben sómir sér vel. Frekar en eitthvert
skáld sem spókar sig í almennings-
garðinum er Einar Ben við Höfða
frekar tákn um veraldlegan athafna-
mann og frumkvöðul. n
Þjóðardýrlingurinnn Einar Ben
n Fæðingardagur Einars gerður að Degi ljóðsins n Íslenskir hægrimenn festa skáldið í sessi
Kristján Guðjónsson
kristjan@dv.is
Þjóðardýrlingurinn Stytta Ásgríms
Sveinssonar af Einari Benediktssyni er nú
staðsett á Klambratúni við Miklubraut.
Mynd SiGtryGGur Ar
Íkon Mynd af Einari Ben var á 5.000 króna
seðlinum.
Fluttur
Reykjavíkurborg greiðir helming
flutningskostnaðarins að Höfða.
„Boðskapurinn er
þessi: það er hægt
að elska náttúruna og
virkja hana á sama tíma.
„Val á þjóðar-
dýrlingum byggist
því ekki einungis á gæð-
um eða vinsældum verka
þeirra heldur á pólitískum
aðstæðum og þörfum
valdafólks hverju sinni.