Tölvumál - 01.10.2012, Blaðsíða 4
4
Tölvuleikjaiðnaðurinn á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum á allra
síðustu árum. Það er í raun ekki ýkja langt síðan að aðeins var
hægt að telja til eitt, eða mögulega tvö, fyrirtæki sem komu að
fram leiðslu leikja og höfðu náð einhverjum árangri á því sviði. Það
mátti að vísu finna Íslendinga sem störfuðu hjá erlendum tölvu-
leikja framleiðendum og að sama skapi var hægt að benda á
nokkur félög sem höfðu gert tilraunir á sviði leikjaþróunar. Hins
vegar var erfitt að færa rök fyrir því að hér væri hægt að tala um
iðnað.
Nú er öldin önnur. Á síðustu sex til sjö árum hafa fleiri fyrirtæki litið
dagsins ljós og hafið starfsemi innan ýmissa sviða leikjageirans.
Tugir og jafnvel hundruðir starfsmanna hafa tekið þátt í rekstri
þessara fyrirtækja og hlotið þar ýmis konar þjálfun. Eins og gengur
hefur mönnum reitt misjafnlega af og árin hafa verið misgóð en
engu að síður er óhætt að segja að um jákvæða þróun sé að
ræða. Það virðist ekkert lát vera á því að nýtt fólk ryðjist fram á
völlinn með spennandi og áhugaverðar viðskiptahugmyndir sem
tengjast tölvuleikjum.
samtök íslenska leikjaiðnaðaRins
Samtök íslenska leikjaiðnaðarins, Icelandic Games Industry, voru
stofnuð fyrir nokkrum árum til þess að styðja við þessa þróun,
halda utan um þau fyrirtæki sem starfa innan geirans og gæta að
hagsmunum þeirra. Óhætt er að segja að samtökin hafi haft
talsverð áhrif því þeim hefur tekist að vekja athygli á því að hér er á
ferðinni alvöru iðnaður sem vert er að taka eftir og hlúa að.
Að auki hafa samtökin reynt að gæta vel að grasrótinni, nýjum
fyrirtækjum og öllum þeim sem hafa hug á að taka þátt í hinum
magnaða heimi tölvuleikjaframleiðslu. Samtökin hafa alltaf haft það
að markmiði að byggja upp sterk og öflug tengsl við skólakerfið,
stuðla að aukinni menntun í raungreinum og aðstoða við framboð
námsefnis og áfanga sem tengjast iðnaðinum með beinum hætti.
ÁRið 2012 eR gott ÁR
Það má í rauninni færa ágætis rök fyrir því að árið 2012 verði besta
ár íslenska tölvuleikjaiðnaðarins. Fyrirtækjum fjölgar og þau sem
fyrir voru hafa stofnað til viðskiptasambanda sem hefðu verið
óhugsandi fyrir nokkrum árum. Jafnvel eru dæmi um erlenda fjár-
festingu í nýjum tölvuleikjasprotum.
Í dag starfa Íslendingar, sem tóku sín fyrstu spor hjá íslenskum
fyrirtækjum, víða um heim hjá mjög stórum og öflugum fyrirtækjum
sem teljast meðal þeirra sem fremst fara. Þarna má nefna félög
eins og Riot Games, sem rekur einhvern stærsta tölvuleik heims í
dag. Einnig má nefna Rovio, framleiðanda Angry Birds og félög
eins og Massive, Crytek og Zynga.
Hér má sjálfsagt tala um hið fræga hálf-fulla eða hálf-tóma glas en
í raun er það gríðarlega jákvætt að íslensk fyrirtæki skili af sér
starfs fólki sem er bæði fært og eftirsóknarvert. Það segir töluvert
um þann árangur sem hefur náðst á undanförnum áratug, eða þar
um kring. Hins vegar væri betra ef umhverfið hér heima væri
nægilega fjölbreytt og eftirsóknarvert til þess að halda þessu fólki í
landi.
Nýtt útgáfufélag, Meteor Entertainment, ákvað að ráða Íslending til
þess að sinna markaðs- og kynningarmálum í Evrópu. Það þætti
kannski ekki vera í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að hér er
á ferðinni fyrirtæki sem stendur að útgáfu einhvers umtalaðasta
leiks í heiminum í dag og er fjármagnað af stjörnu fjárfestum sem
hafa getið sér gott orð í tölvuleikjaiðnaðinum.
Nú styttist í að CCP gefi út nýjan leik sem er einstakur vegna þess
að hann tengist inn í hinn magnaða tölvuleik EVE Online með hætti
sem enginn hefur áður reynt. Ef vel tekst til verða áhrifin ugglaust
umtalsverð bæði fyrir CCP og fyrir íslenskan leikjaiðnað í heild
sinni. Enn og aftur hefur CCP tekið að sér starf brautryðjandans,
ekki bara á íslenskan mælikvarða heldur einnig á alþjóðlegan.
Háskólinn í Reykjavík hefur tekið forystu þegar kemur að því að
aðstoða þá sem áhuga hafa, við að kanna alla kima tölvuleikja-
framleiðslu í námi sínu. Skólinn hefur lengi kennt áfanga sem
tengjast t.a.m. þrívíddarvinnslu en á síðustu árum hefur áföngum
verið bætt við er varða hönnun tölvuleikja, forritun leikjavéla og
einstakra þátta er tengjast leikjagerð. Þetta er frábær þróun og
það hefur sannanlega sýnt sig að nemendur skólans eru mjög
áhuga samir um frama innan þessa iðnaðar.
HoRFt til FRamtíðaR
Þetta eru spennandi tímar. En það þarf að byggja á þeim árangri
sem hefur náðst. Gæta að því að sá grunnur sem er til staðar sé
nýttur með skynsamlegum hætti. Í dag skapar þessi iðnaður
milljarða í gjaldeyristekjur og það er ekkert því til fyrirstöðu að þær
tekjur geti vaxið margfalt. Svo fremi sem haldið verður áfram að
hlúa að þessu nýjabrumi íslenskra atvinnuvega.
FRÁ baRni til
manns – íslenski
tölvuleikja
iðnaðuRinn vex
úR gRasi
Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóri Gogogic