Morgunblaðið - 04.09.2015, Síða 23

Morgunblaðið - 04.09.2015, Síða 23
23 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. SEPTEMBER 2015 Handagangur í öskjunni Það var heldur betur líf og fjör í gær á grænmetismarkaði með lífrænni uppskeru sem Bjarkarás hélt í Reykjavík, en þar er dagvist fyrir fólk með þroskahömlun. Styrmir Kári Barack Obama fór til Anchorage í Alaska mánudaginn 31. ágúst, fyrstur forseta Banda- ríkjanna norður fyrir heimskautsbaug. Að enginn forveri Obama hafi farið svo langt norður skilur að ráða- menn Rússlands og Bandaríkjanna þegar málefni norðurslóða ber á góma. Jósef Stalín sat í útlegð í Síberíu áður en hann varð harð- stjóri Sovétríkjanna. Eftir það átti norðurhjarinn jafnan sess í hjarta hans. Undir forystu Stalíns var lagður grunnur að norður- slóðastefnu Kremlverja og Vladimír Pútín leggur mikla rækt við hana – nú síðast með hervæðingu á Norð- ur-Íshafi. Í tilefni af för Obama og ráð- stefnu bandaríska utanríkisráðu- neytsins í Alaska um loftslagsmál í þessari viku birti bandaríska hug- veitan Brookings Institute á vefsíðu sinni grein eftir Pavel K. Baev, rannsóknarprófessor við Friðarrannsóknastofnunina í Osló (PRIO). Hún ber fyrirsögnina: Tál- vonir Rússa á norðurslóðum. Hann segir að rússnesk áform á norður- slóðum séu í besta falli reist á gam- aldags og oftar en ekki gagns- lausum geópólitískum hugmyndum. Vissulega eru Rússar risaveldi á norðurslóðum, segir Baev. Íshafs- strönd þeirra er gífur- lega löng. Talsverður fjöldi fólks býr norðan heimskautsbaugs. Rússar eiga sex kjarn- orkuknúna ísbrjóta á svæðinu (41 alls) og reka mjög mengandi stóriðju í Nikel og Norilsk. Rússnesk stjórnvöld hafa áréttað umsvif sín með árleg- um, fjölsóttum ráð- stefnum sem Vladimír Pútín hefur heiðrað með návist sinni. Nú er ekki lengur boðað til þessarar ráðstefnu, ekki aðeins vegna þess að Úkraínu- deilan hefur eitrað andrúmsloftið heldur einnig vegna þess að á tveim- ur mikilvægum sviðum hefur slegið í bakseglin hjá Rússum. Bendir Baev í fyrsta lagi á lækk- un olíuverðs og vandræði við leit að olíu vegna viðskiptabanns Banda- ríkjanna og ESB. Ríkis-risaolíufyrirtækið Rosneft hafi til dæmis orðið að hætta leit í Norður-Íshafi. Í öðru lagi sé norð- urleiðin minna notuð til alþjóðasigl- inga en rússneskir ráðamenn væntu. Hið gamla sovéska þjón- ustukerfi við leiðina sé svo rotið að sigling á þessum slóðum sé of áhættusöm. Þá hafi Egyptar í skyndi gripið til endurbóta á Súez- skurðinum sem sé öruggari flutn- ingsleið fyrir olíu og gáma. Þegar í ljós kom að viðskiptalegar forsendur brugðust á Norður-Íshafi gripu Kremlverjar til þess ráðs sem þeir kunna best: að efla herinn, seg- ir Baev. Fyrir mánuði staðfesti Pút- ín nýja flotastefnu þar sem sérstök áhersla er lögð á gæslu rússneskra hagsmuna á norðurslóðum. Það þurfi töluvert hugmyndaflug til að ímynda sér að þessum hagsmunum sé ógnað. Rússneska öryggislög- reglan telji þó hættu af hryðju- verkamönnum. Í september 2013 efndu félagar í Greenpeace til mót- mæla við borpall í Pechora-hafi. Viðbrögð Rússa voru svo harkaleg að alþjóðlegi gerðardómurinn í Haag hefur dæmt þá til að greiða skaðabætur, rússneskum stjórn- völdum til mikillar skapraunar. Grein sinni lýkur Pavel K. Baev á þessum orðum: „Rússar virðast staðráðnir í að hervæða Norður-Íshaf. Á svæði þar sem atvinnustarfsemi er að mestu hnignandi og þar sem umhverfis- vandamál vaxa, virðast Rússar stunda einhliða vígbúnaðarkapp- hlaup. Sérfræðingar utan Kremlar telja algjörlega augljóst að hinn mikli efnahagssamdráttur í Rúss- landi kippi stoðunum undan þessari stefnu. Rússar kunna að hafa stór- veldisdrauma á Norður-Íshafi en þar er lítið að hafa og ólíklegt er að Rússum takist að ná í það.“ Bandaríkjamenn úr biðstöðu Árum saman hefur togstreita inn- an bandaríska stjórnkerfisins og milli stjórnmálamanna tafið fyrir nauðsynlegum fjárveitingum til verkefna á norðurslóðum. Í maí 2013 kynnti Obama þó stefnu sína fyrir svæðið og í janúar 2015 skipaði hann stýrihóp framkvæmda á norðurskautssvæðinu. Í Alaskaferðinni sagði hann að hraðað yrði smíði nýrra ísbrjóta fyr- ir strandgæsluna. Það yrði að minnka forskot Rússa. Í The New York Times (NYT) var 1. september vitnað í Bill Walker, ríkisstjóra Alaska, sem lýsti áhyggjum yfir því að fækkað væri í herafla Bandaríkj- anna á norðurslóðum þegar Rússar ykju hernaðarmátt sinn. Ríkisstjór- inn sagði: „Þetta er mesta uppbygg- ing herafla Rússa síðan í kalda stríðinu. Þeir taka tíu herstöðvar í notkun að nýju og reisa fjórar til viðbótar, þeir láta sig Norður- Íshafið miklu varða, okkur líður dá- lítið illa umluktir þessu öllu.“ Ný skýrsla frá hugveitunni Cent- er for Strategic and International Studies í Washington ber heitið The New Ice Curtain, Nýja ístjaldið, sem er vísan til járntjaldsins á Sovéttímanum og gefur til kynna óvinsamlegt framferði Rússa á Norður-Íshafi. NYT segir að yfir- gangur Rússa í Úkraínu hafi svo gott sem bundið enda á samstarf ríkjanna í Norðurskautsráðinu. William E. Gortney aðmíráll, yfir- maður bandarísku Norður- herstjórnarinnar og loftvarnasvæðis Norður-Ameríku, segir að Rússar endurnýi nú búnað sinn eftir ára- langa vanhirðu en í því felist enn sem komið er ekki nein marktæk ógn. Aðrir benda á að fyrir Rússum vaki að auka öryggi á Norðurleið- inni eins og þeir hafi lofað í Norður- skautsráðinu. Einkennilegt sé hins vegar að þeir telji sig þurfa loft- varna-eldflaugar í því skyni. Þær verði ekki notaðar nema gegn loft- árásum. Hvort Rússar búist við að NATO-vélar geri þær? Kuldi í samskiptum Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sat fundi um norðurslóða- mál í Anchorage aðeins nokkrum dögum áður en Barack Obama kom þangað. Má segja að hann hafi hitað upp fyrir komu Obama. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fór fyrir íslensku sendinefndinni á ráðstefnunni mánudaginn 31. ágúst. Ólafur Ragnar undirbjó á ferð sinni til Alaska Arctic Circle, ráð- stefnuna sem er hugarfóstur hans. Hún verður haldin í þriðja sinn hér á landi 16. til 18. október. Þar mun skýrast enn betur hver eru áhrif stækkandi ísbreiðu á Norður-Íshafi, samdráttar í sigl- ingum, lækkaðs olíuverðs og her- væðingar Rússa. Barack Obama fór til Alaska til að leggja áherslu á aðgerðir gegn hlýn- un jarðar. Hvað sem henni líður kólna samskiptin við Rússa í norðri eins og víðar. Eftir Björn Bjarnason » Þrátt fyrir ótta við hlýnun jarðar kólna samskiptin við Rússa í norðri. Björn Bjarnason Höfundur er fyrrv. ráðherra. Obama í Alaska

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.