Skólavarðan - 01.10.2007, Blaðsíða 6
6
SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 7. ÁRG. 2007
flestum töluspurningunum líka. Ég bendi
í því sambandi á uppáhaldskennslubókina
mína í tölfræði, hina klassísku „How to Lie
with Statistics“. Tölfræði og talnamöndlun
eru nefnilega óskaplega sveigjanleg og
skapandi líka, ef vel er að gáð. Þetta veit
ég vel, sjálfur tölvutónlistarmaðurinn. Með
þetta í huga ættum við þess vegna ekki að
taka hóti meira mark á talnafrömuðunum,
a.m.k. að óathuguðu máli, heldur en
graffaranum sem skreytir almennings-
veggi með úðabrúsa.
Það er semsagt gott að geta reiknað,
en það skilur á milli feigs og ófeigs hvað á
að reikna og hvernig. Þar kemur skapandi
hugsun til sögunnar og því óskynsam-
legt að vanmeta hana. Af einhverjum
ástæðum virðist hins vegar vera miklu
eftirsóknarverðara í þessu þjóðfélagi að
reikna heldur en að hugsa. Þetta er mikill
misskilningur sem verður að leiðrétta af
öllu afli.
Svo farið sé í annað mál sem mér er
hjartfólgið og varðar einnig þessa baráttu
staðla og mælanlegra gilda annars vegar
og skapandi hugsunar og vangaveltna hins
vegar. Hér er um að ræða menntun raf-
tónlistarmanna og raftónskálda. Fyrir tólf
árum settum ég og annað tónskáld upp
námsbraut í raftónlist við Tónlistarskóla
Kópavogs. Námið reyndist ótrúlega vinsælt
og fljótlega fór að koma fram krafa um að
það yrði metanlegt í tónlistarskólakerfinu
og lánshæft hjá LÍN. Þá byrjaði ballið.
Um leið og átti að fara að meta námið
til stiga og hvort það væri lánshæft
helltust yfir okkur kröfur um frammistöðu
í klassísku hljóðfæranámi og hinum
og þessum aukagreinum. Þrennt var
augljóst: 1. Stór hluti af þessum fögum
var raftónlistarmönnum gagnslaus eða
gagnslítill. 2. Ef öllum þessum kröfum
var fullnægt yrði sáralítill tími eftir til að
stunda sitt aðalfag og 3. Við hefðum þurft
að setja upp inntökukröfur sem hefðu
útilokað marga af þeim nemendum sem
við sóttumst helst eftir að fá. Ef við hefðum
orðið við þessum kröfum hefði námið ekki
orðið svipur hjá sjón og algerlega misst
marks fyrir stóran hluta nemenda.
Eftir þessa reynslu tókum við þá
ákvörðun að gleyma öllu sem hét gráður,
útskriftir eða lánshæfni. Nemendur koma
með mismunandi þarfir og stefna að
mismunandi hlutum. Við kennum þeim
einhvern grunn en leyfum þeim að öðru
leyti að fara sína eigin leið gegnum námið.
Við bjóðum semsagt upp á nám sem er
gersamlega laust við prófgráður eða
viðurkenningar af nokkru tagi. Nemendur
hafa sagt sitt álit á þessu fyrirkomulagi
með því að fjölmenna í námið.
Kerfi sem sendir nemendur í gegnum
samræmt prógramm er að steypa þá alla í
sama mót. Það getur verið í lagi þegar verið
er að ala upp verkfræðinga til að byggja
brýr en það er ekki í lagi þegar verið er að
ala upp tónskáld framtíðarinnar. Við vitum
ekki hvernig tónlist framtíðarinnar verður.
Því verðum við að ala upp tónlistarmenn
sem eru opnir, endurnýtanlegir og
sveigjanlegir í allar áttir, hugsanlega
einhverjar allt aðrar áttir en nú er kennt í
tónlistarskólum.
Við vitum að bestu nemendurnir munu
standa sig hvernig sem fer, en það er
ekki skemmtileg tilhugsun að þeir geri
það þrátt fyrir skólakerfið. Þá erum við
ekki að vinna vinnuna okkar. Svo er líka
spurning hverjir eru bestu nemendurnir.
Uppáhaldsnemandinn í dag er kannski
sá sem ekkert verður úr á morgun og
skussinn í dag verður jafnvel snillingur
framtíðarinnar. Þetta er kannski skrýtin
fullyrðing en í skapandi listum er þetta
mjög raunveruleg staða, einmitt vegna
þess að við vitum ekki hvernig fólk
þroskast, hvað framtíðin ber í skauti sér
eða hvaða hæfileikar verða eftirsóttir þá.
Án þess að ég ætli að gerast mikill
spámaður hér ætla ég þó a.m.k. að
halda því fram að einn geiri, sem ljóst er
að verður stór vinnuvettvangur tón- og
hljóðsmiða í framtíðinni, er framleiðsla á
hvers kyns „media content“ fyrir stafræna
fjölmiðlunartækni í víðasta skilningi.
Þar verða gerðar kröfur um þekkingu
á hljóðfræði og forritun sem enginn
listaskóli á Íslandi nálgast að uppfylla
eða hefur yfirhöfuð áhuga á að uppfylla.
Tónlistardeild Listaháskólans er þar engin
undantekning, enda skilgreinir hún sig
sem tónlistarskóla samkvæmt gömlu
merkingunni. Hér væri sóknarfæri og lag
fyrir aðra skóla að fylla upp í tómarúmið;
fjölbrautaskóla, tækniskóla, Háskólann
í Reykjavík? Á þessum stöðum er til nóg
tæknileg þekking og þarf litlu að bæta við
til að ná listrænu hliðinni upp í hæfilegt
jafnvægi á móti.
Eftir því sem tæknin verður fyrirferðar-
meiri hluti af listum verða snertifletirnir
fleiri og leiðirnar inn í listina opnari úr fleiri
áttum en úr hefðbundnum listaskólum. Á
meðan listaskólarnir dragast aftur úr sé
ég fleiri efnilega listamenn koma úr hópi
tækninema sem vilja nota þekkingu sína
og færni á skapandi hátt. Klípan sem við
lentum í hjá Tónlistarskóla Kópavogs er að
koma í bakið á öllu tónlistarskólakerfinu.
Stór hluti tónlistarmanna framtíðarinnar
hefur lítið þangað að sækja.
Hefðbundnu tónlistarskólarnir bjóða
upp á nám sem er ákaflega gott og
mannbætandi á allan hátt. Ég get ekki
annað en mælt sterklega með því fyrir sem
flesta. Það er hins vegar að stórum hluta
tónlistarleg fornleifafræði sem þessi nýja
gerð tónlistarmanna á í fyrsta lagi lítið
erindi í og í öðru lagi yrði þeim ekki hleypt
inn. Þeir kjósa því annaðhvort að fara
beint í nám erlendis eða fara í tækninám
til þess að læra þar a.m.k. tæknina og
bæta tónlistarhliðinni við sjálfir. Sjálfsnám
er eflaust ágætt en ég get ekki að því gert
að halda að þessi hópur væri betur kominn
í formlegu námi en að þurfa að finna upp
hjólið einu sinni enn. Tæknin er fín en það
þarf að læra listina líka.
Listaháskólinn fékk um daginn viður-
kenningu byggða á „úttektum erlendra
matsmanna sem eru sérfræðingar í
háskólarekstri“. Þessa vottun fékk hann
vegna þess að hann stóðst skilyrði um
m.a. „inntak og framkvæmd náms og
uppbyggingu prófgráða“. Þetta var gert
„í ljósi aðþjóðlegra staðla og samþykkta“.
Eftir reynslu mína frá Tónlistarskóla
Kópavogs fer fullt af aðvörunarbjöllum að
hringja. Þegar staðlarnir taka völdin er það
á kostnað skapandi hugsunar. Það er eins
mikið náttúrulögmál og þyngdaraflið.
Það þarf sérstaka hæfileika og sterk
bein til að fara eftir öllum stöðlum og
samþykktum og rækta um leið skapandi
hugsun. Það er ekki öllum gefið og örlög
flestra eru að enda sem „apparatnikar“ í
stóru og stífu kerfi. Ég óska Listaháskólanum
góðs gengis í baráttunni.
Cató gamli endaði allar sínar ræður í
rómverska öldungaráðinu á því að leggja
til að Karþagó yrði lögð í rúst. Ég ætla að
fara svolítið í sömu áttina og enda á því
að leggja til að menn taki stöðlum með
miklum fyrirvara, en umfram allt: Ekki
gleyma að hugsa skapandi.
Ríkharður H. Friðriksson
Höfundur er tónskáld, raftónlistarmaður,
gítarleikari og sagnfræðingur. Hann kennir
raftónlist, tónlistarsögu og tónsmíðar við
Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskólann í
Reykjavík og Listaháskóla Íslands.
Listaháskólinn fékk um daginn viðurkenningu byggða á „úttektum
erlendra matsmanna sem eru sérfræðingar í háskólarekstri“.
Þessa vottun fékk hann vegna þess að hann stóðst skilyrði um
m.a. „inntak og framkvæmd náms og uppbyggingu prófgráða“.
Þetta var gert „í ljósi aðþjóðlegra staðla og samþykkta“.
Eftir reynslu mína frá Tónlistarskóla Kópavogs fer fullt af
aðvörunarbjöllum að hringja. Þegar staðlarnir taka völdin er
það á kostnað skapandi hugsunar.
GESTASKRIF: RÍKHARÐUR H. FRIÐRIKSSON