Skólavarðan - 01.12.2008, Side 16
16
SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 8. ÁRG. 2008
FRAMHALdSSKóLINN FUNdAR
Félag framhaldsskólakennara hélt auka-
fulltrúafund á Grand hóteli í Reykjavík þann
7. nóvember sl. Fundurinn var vel sóttur og
stútfullur af áhugaverðu efni.
Aðalheiður Steingrímsdóttir formaður FF
fjallaði um kjaramál í kreppuumhverfi og um
nýju framhaldsskólalögin í inngangserindi
sínu. Hún sagði m.a. að vinnan að útfærslu
laganna þyrfti að hafa í sér fólgna tiltekna
yfirsýn og samræmingu þar sem lögin myndu
leiða til mikilla breytinga á skólastarfinu.
„Það þarf því að festa vel niður tjaldhælana
áður en skólarnir geta reist tjaldið“, sagði
Aðalheiður.
Margir fyrirlestrar voru fluttir á fundinum
og meðal fyrirlesara var Guðrún Geirsdóttir
lektor á menntavísindasviði HÍ með erindið
Námskrárþróun í ljósi viðmiða ESB um
menntun og lokapróf. Hvað þarf til?
Ávinningur fyrir nám, kennslu og skólastarf?
Fyrirlesturinn vakti mikla athygli en Guðrún
var í stýrihópi í HÍ sem sá um innleiðingu
hæfniviðmiða í skólanum og situr einnig
í ráðgjafanefnd menntamálaráðuneytis
um styrkveitingar til þróunarverkefna í
framhaldsskólum og til fullorðinsfræðslu.
Um útfærslu og framkvæmd námskráa lagði
Guðrún áherslu á að hugmyndafræðivinnan
þyrfti að fara fram á allri kennarastofunni.
„Ef kennarar kaupa ekki nýju námskrána þá
hrynur hún,“ sagði Guðrún. Hún hvatti hvern
og einn kennara til að spyrja sjálfan sig:
Hvað er það sem skiptir máli í minni grein?
Og sagði námskrárbreytinguna taka til
hagnýtra hluta og líka hugmyndafræðilegra
– mikilvægt væri að vera vakandi fyrir
muninum á þessu. Sem dæmi mætti nefna
muninn á eftirfarandi spurningum: Hvað er
mikilvæg hæfni? og Hvernig á að skrifa sjálf
hæfniviðmiðin? Guðrún lagði áherslu
á mikilvægi eignaraðildar (ownership) í
námskrárvinnu, eða með öðrum orðum
virkrar þátttöku sem flestra kennara í náms-
krárþróun. Skapa þyrfti gott svigrúm til
vinnunnar, samnýta þekkingu innan og milli
skóla og sækja stuðning, ráðgjöf og aðstoð.
Mikil gerjun á sér stað í námskrárþróun um
þessar mundir og sagði Guðrún aðspurð
um efni fyrirlestrarins að hluti umræðunnar
væri nú þegar að úreldast. Því væri nær
lagi að ræða við hana fyrir næsta tölublað
Skólavörðunnar, enda væri þá ef til vill
tíðinda að vænta.
Oddur S. Jakobsson hélt fyrirlesturinn
Fjárhagsstaða framhaldsskóla - kjaraþróun
kennara - næstu kjarasamningar. Hann
sagði meðal annars að ef hann ætti að
sýna einungis eina glæru með fyrirlestrinum
innihéldi hún hugtakið óvissa og ekkert
annað. Oddur fór m.a. yfir hugsanleg áhrif
nýrra framhaldsskólalaga á væntanlega
kjarasamninga s.s. vegna flutnings náms-
mats af prófatíma yfir á kennsludaga.
Aðrir fyrirlesarar voru Eiríkur Jónsson,
Elna Katrín Jónsdóttir, Arnór Guðmundsson,
Guðni Olgeirsson, Sigurjón Mýrdal og
Magnús Ingólfsson. Efni fundarins er á www.
ki.is á vef Félags framhaldsskólakennara,
nánar tiltekið hér: ff.ki.is/lisalib/getfile.
aspx?itemid=5587
Á fundinum voru samþykktar tvær
ályktanir, annars vegar um brýnar aðgerðir
í menntamálum vegna samfélagsþrenginga
og hins vegar um stöðu framhaldsskólans í
tengslum við útfærslu og framkvæmd nýrra
menntalaga.
Í ályktun um aðgerðir segir meðal annars að efnahagur fjölskyldna megi
ekki ráða úrslitum um það hverjir geti notið þeirrar þjónustu sem stendur
til boða í skólum landsins. „Draga þarf stórlega úr gjaldtöku í skólakerfinu
til að létta undir með fjölskyldum og heimilum,“ segir ennfremur í
ályktuninni. „Þeir sem missa atvinnu sína eiga að geta styrkt stöðu sína
með námi í framhaldsskólum og háskólum. Öll börn og ungmenni verða
að geta notið námsvistar í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum.
Stórefla þarf Lánasjóð íslenskra námsmanna og styrkja félagslegt hlutverk
hans.“ Í ályktun um stöðu framhaldsskólans er meðal annars kallað eftir því
að samvinna komist á milli KÍ, yfirvalda menntamála og skólastjórnenda
um framkvæmd nýju laganna, inntak reglugerða, námskrármál og tengsl
laganna við kjarasamninga.
Jóhann Kristjánsson, kennari við MÍ, spurði: Hvaðan
koma ákvæðin í lögunum um 180 starfsdaga nemenda
að lágmarki? Svar barst úr sal að bragði: Til að deilingin
gangi upp, 180 dagar/3d/e = 60e!
Aukafulltrúafundur FF 2008
Guðrún Geirsdóttir