Skólavarðan - 01.09.2002, Blaðsíða 27

Skólavarðan - 01.09.2002, Blaðsíða 27
Íslensk náttúra er full af ólýsanlegri orku sem flæðir óheft til þeirra sem eru móttækilegir fyrir henni. Dreymir okkur ekki öll um kvöldsól, hlýja golu, kyrrð, gróðurilm, fuglasöng og lækjarnið? Þvílík end- urnýjun á sálinni þegar maður nær að upplifa þessar aðstæður. Ég var svo lánsöm að eiga sannkallaðan dýrðardag á Borgafirði eystra í sumar. Þessi litli byggðakjarni sem ber heitið Bakkagerði er alveg við hafið en einnig um- kringdur einum fegurstu fjöllum Íslands, Dyrfjöllum, þar sem er vinsælt göngusvæði. Í bæjarfélaginu er margt skemmtilegt að sjá, svo sem gamalt uppgert hús nýtt sem sumarhús og steiniðjuna Álfastein sem er þekkt. Kringum byggðina eru einnig margir staðir sem gaman er að ganga á, fara um ríðandi, akandi eða á báti. Sólin skein, blár himinn, hit- inn var yfir 20 ° C og gróðurinn á sínu fegursta blómaskeiði þeg- ar við settum upp tjaldið og komum okkur fyrir. Nokkrir aðrir ferðamenn, íslenskir sem erlendir, höfðu einnig valið þennan sælureit þar sem tjaldstæðið er í boði sveitarfélagsins og hreinlætisað- staða bæði með heitu og köldu vatni. Börnin léku sér á túninu og voru fljót að finna nálæga skurði, kletta og annað sem heillar ungt ævintýrafólk. Eftir að hafa grillað og gætt sér á íslensku fjallalambi með öllu til- heyrandi hélt fjölskyldan í kvöldgöngu um staðinn. Fyrst var gengið yfir hæð með skemmtilegum klettum og komið niður sjávarmegin. Þar var girðing með fjölda hesta með hnakkfarið á bakinu eftir að hafa þjónað mannskepnunni fyrr um daginn. Við gerðum okkur í hugarlund alla þá skemmtilegu staði þarna í nágrenninu sem gaman væri að fara á ríðandi, til dæmis Loðmundarfjörð og Höfn. Eftir að hafa strok- ið hestunum og fengið svolít- inn ilm af þeim á fingurna héldum við áfram göngu með- fram fjörunni. Þar nutu börnin þess að klifra yfir stórgrýtið og horfa á lífríkið í sjónum en við eldri héldum okkur við götuna sem liggur meðfram strönd- inni og er alsett steinum í öll- um regnbogans litum. Þegar komið var að höfninni lá leiðin að nýlegu fuglaskoð- unarhúsi. Þar settumst við niður, horfðum á fjölbreytt fuglalífið fyrir utan og flettum upp í þeim fuglabókum sem þarna voru og ætlaðar gestum og gangandi. Börnin reyndu að greina hettumáfa frá sílamáfum auk þess að læra heiti á fleiri fuglum. Á heimleiðinni gengum við framhjá einu búðinni á staðnum, félags- heimilinu og horfðum á bæjarbúa taka lífinu með ró fyrir utan hús sín í kvöldblíðunni. Dagurinn var á enda, við komum okkur fyrir í pokunum í tjaldinu og nutum þess að sofna út frá kyrrðinni og ómi náttúr- unnar. Þessi hringferð okkar um landið með dvölinni á Borgarfirði skilaði börnum mínum miklum áhuga og fræðslu um það fuglalíf sem hér er og fjölbreytni sem er að finna í íslensku grjóti. Það er mikil gæfa að eiga þess kost að ferðast um Ísland og upplifa það á þenn- an hátt og endurnýja sjálfan sig til að takast á við dag- legt líf. Það er skemmtilegt og eykur víðsýni að ferð- ast erlendis og koma í stórar og fallegar borgir en þá orku sem býr í íslenskri náttúru er hvergi annars stað- ar að finna. Það er ósk mín að á Íslandi verði áfram dreifbýli, óbyggðir og ósnortin náttúra sem afkom- endur mínir fái að njóta um ókomnar aldir. Ég hvet kennara, foreldra og alla þá sem koma að skóla- og uppeldisstörfum til að kenna erfingjum okkar að njóta og virða það dýrmæta land sem okkur hefur verið gefið. Guðrún Snorradóttir Höfundur er náms- og starfsráðgjafi í Lindaskóla, Kópavogi Smiðshöggið 30 Íslensk náttúra er full af orku Það er mikil gæfa að eiga þess kost að ferðast um Ís- land og upplifa það á þennan hátt og endurnýja sjálfan sig til að takast á við daglegt líf.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.