Tímarit Máls og menningar - 05.12.2002, Blaðsíða 42
Af örlögum íslenskra hafnarbyggða
Ásgeir Jónsson
Kvikmyndin Hafið hefur beint athyglinni að ís-
lenskum sjávarbyggðum á síðustu misserum,
og hefur dregið fram fremur ófegraða – ef ekki
ófagra – mynd af lífinu þar um slóðir. Vitaskuld
er hægt að deila um hvort þetta sé raunsönn
lýsing eða hvort Hafið sé aðeins safn af göml-
um og vel tuggðum klisjum. Hitt er aftur á móti
ljóst að mörgum íslenskum sjávarbyggðum
hefur hnignað mikið vegna fólksfækkunar. Hér
er einkum um að ræða þéttbýlisstaði á Vest-
fjörðum, Austfjörðum og Norðurlandi, sem eru
girtir fjöllum og eiga óhægt með landsamgöng-
ur. Margir hafa rakið ástæðurnar til breytinga í
sjávarútvegi, og þá sérstaklega til kvótakerfis-
ins sem hefur verið ráðandi í veiðistjórnun síð-
ustu tvo áratugi eða svo. Og satt er það. Sjáv-
arútvegur er helsta atvinnugreinin í títtnefndum
sjávarbyggðum og í þeirri grein hafa átt sér
stað gífurlegar breytingar, sem má rekja til
tæknivæðingar, markaðsvæðingar, kvótavæð-
ingar og svo framvegis. En þegar nánar er að
gáð sést að hnignun sjávarbyggðanna hófst
mun fyrr en kvótakerfið kom til sögunnar, og
reyndar mun fyrr en orðin skuttogari og
aflaskerðing komust inn í orðabækur lands-
manna.
Hnignunin hófst um miðbik tuttugustu aldar en
þá nam fólksfjölgun staðar í sjávarbyggðum
kringum landið eftir mikinn vöxt áratugina á
undan. Síðan hefur fólksfækkun tekið við.
Fækkun íbúa hefur verið mun hraðari en fækk-
un starfa í sjávarútvegi, sem mikill fjöldi erlends
farandverkafólks í fiskvinnslu sýnir ljóslega.
Sumar byggðir hafa lent í alvarlegum vanda
vegna þess að kvótinn hefur verið seldur, en
þeir staðir eru samt mun fleiri þar sem afla-
heimildir eru til staðar og næg vinna í fiski, en
íbúum fækkar engu síður.
Til þess að skýra hnignun áðurgreindra
plássa er nauðsynlegt að grafast fyrir um rætur
þess að sjávarbyggðir á ystu annesjum urðu
svo eftirsóknarverðar til búsetu sem raun bar
vitni á fyrri hluta tuttugustu aldar og af hverju
þær síðan glötuðu aðdráttarafli sínu á síðari
helmingi sömu aldar. Hér verður þeirri tilgátu
varpað fram að þessi umskipti á högum hafnar-
byggðanna megi rekja til tveggja samgöngu-
byltinga á Íslandi. Sjávarbyggðirnar urðu
skyndilega eftirsóknarverðar til búsetu þegar
strandsiglingar hófust eftir 1876. Þá lentu
margir staðir í þjóðbraut sem áður voru af-
skekktir. Vitaskuld nutu staðirnir þess einnig að
sjávarútvegur var þá ört vaxandi og ábatasöm
atvinnugrein sem dró að sér fólk. En það að
vera miðsvæðis í samgöngukerfi landsins vóg
mun þyngra en að vera verstöð þar sem fólk
dvaldi um einhvern tíma til þess að veiða fisk
en hafði ekki fasta búsetu. Uppgangur téðra
staða var því vegna þess að þeir nutu flutninga-
hagræðis í vegalausu og óbrúuðu landi og
komust þess vegna í hringiðu hagvaxtar og
framfara.
Af þessum stól var sjávarbyggðunum síðan
steypt um leið og vegakerfi landsins var byggt
upp eftir 1940 og bifreiðir tóku við af skipum
sem samgöngutæki. Það varð til þess að hafn-
arbyggðirnar lentu utanveltu og samkeppnis-
hæfni þeirra sem atvinnu- og þjónustumið-
stöðva rýrnaði verulega. Aftur á móti tóku aðrir
staðir fjörkipp er sátu í miðju héraði og lágu vel
við landsamgöngum. Þetta bendir til þess að
mjög þung undiralda vinni nú gegn búsetu víða
um strendur landsins, sem tengist ekki nema
að litlu leyti þeim pólitísku þrætum sem nú eru
í brennidepli í byggðamálum.
Skipabyltingin
Á fyrri öldum reiddu landsmenn vörur á hestum
eða gengu með þær á bakinu. Skipakostur
landsins var smár í sniðum og ekki til siglinga á
milli landshluta. Utanríkisverslun landsins var í
höndum danskrar einokunar og var sinnt af
skipum sem sigldu beint á milli Kaupmanna-
hafnar og verslunarhafna hérlendis. Hins vegar
voru engar skipulegar siglingar á milli hafna á
Íslandi. Það varð m.a. til þess að rekaviðarstafl-
ar lágu við afskekktar strandir landsins, þrátt
fyrir timburskort í landinu á sama tíma. Einnig
mætti geta þess að ein af tillögum Skúla Magn-
úsar landfógeta til viðreisnar landsins var að
hefja strandsiglingar. Hann fékk tvær skútur til
innréttinganna í Reykjavík og önnur þeirra fór
eina ferð til þess að sækja rekavið norður á
Hornstrandir.1 Íslendingar virðast þegar á þess-
um tíma hafa gert sér grein fyrir nauðsyn sjó-
samgangna. „Ó, að vér hefðum fiskiduggur,
bæði til að afla á djúpinu og líka að flytja bjarg-
ræði milli landsins útkjálka.“ Ritaði til dæmis
húnvetnski klerkurinn Þorsteinn Pétursson á
Staðarbakka árið 1771 í Landbetrunarþönkum
sínum til yfirvalda.2 Í þessum málum gerðist þó
fátt á næstu áratugum, enda voru Danir fremur
áhugalausir um íslenska atvinnuvegi. En þegar
Alþingi var endurreist 1845 voru úrbætur í sam-
göngumálum eitt tíðasta umræðuefni þing-
funda. Til marks um umræðuna á þeim tíma er
lýsandi að vitna í bænaskrá frá héraðsfundi í
Suður-Þingeyjarsýslu árið 1863, sem beint var
til Alþingis. Þar segir:
42 Samgöngur Ásgeir Jóns 5.12.2002 16:56 Page 42