Gerðir kirkjuþings - 2010, Blaðsíða 125
125
Val sóknarnefndar
Sóknarnefnd er kjörin á aðalsafnaðarfundi til fjögurra ára í senn. Sóknarmenn njóta
kosningaréttar og kjörgengis á safnaðarfundum þegar þeir eru fullra sextán ára.
Sóknarnefndarmenn eru þrír í sóknum þar sem sóknarmenn eru færri en 300, en ella
fimm, þó svo að þegar sóknarmenn eru 1.000 hið fæsta mega sóknarnefndarmenn vera
sjö og níu ef sóknarmenn eru 4.000 eða fleiri, allt miðað við 1. desember næstliðinn.
Sóknarnefnd skiptir með sér verkum formanns, gjaldkera og ritara og varamanna
þeirra þegar eftir að kjör í sóknarnefnd hefur farið fram. Sóknarnefnd er heimilt að
kjósa úr sínum hópi framkvæmdanefnd er starfi á milli funda sóknarnefndar. Hún kýs
jafnframt safnaðarfulltrúa og varamann hans og ákveður verkefni er hann hafi með
höndum.
Lög og starfsreglur
Um störf sóknarnefnda er kveðið á í þjóðkirkjulögunum nr. 78/1997 og í starfsreglum
um sóknarnefndir nr. 732/1998.
24.12 Æskulýðsfulltrúi/fræðslufulltrúi
Meginhlutverk
Æskulýðsfulltrúi/fræðslufulltrúi hefur umsjón með og sinnir barna- og unglingastarfi
eða annarri fræðslu við ákveðinn söfnuð eða söfnuði, samstarfssvæði, prófastsdæmi
eða aðrar starfseiningar kirkjunnar.
Menntun og þjálfun
Æskulýðsfulltrúi/fræðslufulltrúi skal hafa hlotið menntun á sviði guðfræði, uppeldis-
og menntunarfræði, eða sambærilega menntun.
Helstu verkefni
Helgihald
Æskulýðsfulltrúi/fræðslufulltrúi getur leitt barna- og fjölskylduguðsþjónustur og
helgistundir í umboði og á ábyrgð sóknarprests. Hann skal stuðla að þátttöku barna og
unglinga í helgihaldi safnaðarins.
Boðun og fræðsla
Æskulýðsfulltrúi/fræðslufulltrúi hefur umsjón með eða sinnir foreldrastarfi,
barnastarfi, fermingarstarfi, unglingastarfi eða fullorðinsfræðslu í samstarfi við presta.
Hann er í samstarfi við leikskóla/skóla, stofnanir og félagasamtök um heimsóknir og
fræðslu. Sjá nánar í kaflanum um boðun og fræðslu.
Kærleiksþjónusta, sálgæsla og hjálparstarf
Æskulýðsfulltrúi/fræðslufulltrúi er vakandi yfir velferð skjólstæðinga sinna og vísar
þeim til djákna eða prests hvað varðar sálgæsluviðtöl. Hann fræðir um hjálparstarf og
kærleiksþjónustu og hvetur til þátttöku.
Menning og listir
Æskulýðsfulltrúi/fræðslufulltrúi skapar vettvang fyrir menningu barna og unglinga í
kirkjustarfinu og kennir þeim að meta menningu og hefðir kirkjunnar.