Gerðir kirkjuþings - 2010, Blaðsíða 53
53
1. mál kirkjuþings 2010
Flutt af forsætisnefnd
Samþykkt þannig að lokinni umfjöllun í löggjafarnefnd
Starfsreglur um rannsóknarnefnd um viðbrögð
og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur
Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðisbrot.
1. gr.
Kirkjuþing 2010 kýs þriggja manna rannsóknarnefnd til að rannsaka alla starfshætti
og viðbrögð þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi um
kynferðisbrot. Nefndin skal leggja mat á hvort um mistök, vanrækslu eða vísvitandi
þöggun eða tilraun til þöggunar hafi verið að ræða af hálfu vígðra þjóna og
starfsmanna kirkjunnar, eða annarra þeirra sem gegnt hafa trúnaðarstörfum í þágu
kirkjunnar, eftir að ásakanir um kynferðisbrot voru komnar fram, og hverjir kunni að
bera ábyrgð á því.
Rannsóknarnefndin skal koma með ábendingar og tillögur um breytingar á
starfsháttum kirkjunnar vegna ásakana um kynferðisbrot af hálfu starfsmanna hennar.
Forfallist einhver nefndarmanna eða láti af störfum í rannsóknarnefndinni skal
forsætisnefnd kirkjuþings skipa annan í hans stað.
2. gr.
Forsætisnefnd kirkjuþings skal leggja fyrir þingið rökstudda tillögu um skipan
nefndarinnar. Nefndarmenn skulu vera með öllu óháðir stofnunum og embættum
þjóðkirkjunnar og með engum hætti hafa átt nokkra aðkomu að ásökunum á hendur
Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðisbrot. Þá skulu þeir ekki hafa tjáð sig opinberlega
um rannsóknarefnið.
Formaður nefndarinnar skal uppfylla skilyrði laga til að gegna embætti hæstaréttar-
dómara. Nefndarmenn skulu að öðru leyti vegna menntunar sinnar og starfsreynslu
hafa sérstaka hæfni til að rannsaka og leggja mat á þau atriði sem tiltekin eru í 1. mgr.
1. gr. og koma með ábendingar og tillögur samkvæmt 2. mgr. sömu greinar.
Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir sömu reglum og fram koma í 3. gr. stjórn-
sýslulaga nr. 37/1993. Ber nefndarmanni að víkja sæti að því marki sem hann tengist
aðilum sem rannsókn nefndarinnar beinist að.
3. gr.
Rannsóknarnefndin skal eiga óheftan aðgang að öllum þeim heimildum, gögnum og
skjölum, sem finnanleg kunna að vera í fórum þjóðkirkjunnar og stofnana hennar og
varpað geta ljósi á rannsóknarefnið. Starfsmönnum þjóðkirkjunnar, hvort heldur er á
biskupsstofu eða annars staðar, ber skylda til að greiða fyrir störfum nefndarinnar og
veita henni óskorað liðsinni við gagnaöflun. Nefndin skal veita þeim einstaklingum
sem telja sig hafa sætt kynferðislegri áreitni eða kynferðislegu ofbeldi af hálfu Ólafs
Skúlasonar biskups kost á viðtali og einnig að skila nefndinni skriflegri greinargerð sé
þess óskað. Nefndin skal einnig ræða við þá starfsmenn kirkjunnar, núverandi og
fyrrverandi, sem ætla má að búi yfir upplýsingum um rannsóknarefnið og er hinum
fyrrnefndu skylt að hlýða kalli hennar. Þá skal nefndin leitast við að afla annarra
gagna eftir því sem frekast er kostur, bæði munnlegra og skriflegra.
Nefndinni er heimilt að hljóðrita viðtöl við þá sem hún ræðir við samkvæmt 1. mgr.
enda fáist til þess samþykki hlutaðeigandi.