Morgunblaðið - 23.10.2015, Side 21
21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 23. OKTÓBER 2015
Góð tvenna Ætli gúmmískór og ullarhosur séu ekki besta tvennan í kaldri
haustrigningu en gulur gúmmíjakki toppar mögulega klæðnaðinn.
Styrmir Kári
Árin 2009-2013 sat
vinstristjórn við völd.
Harðskeytt vinstri-
stjórn sem komst til
valda eftir upplausn
og óeirðir, þegar
fæstir höfðu náð átt-
um eftir bankahrunið.
Frá fyrstu stundu var
ljóst að vinstrimenn
ætluðu að nýta færið
sem þeir fengu upp í
hendurnar. Þjóðfélaginu skyldi
bylt, eins hratt og hægt væri.
Stjórnarskráin var vinstrimönnum
sérstakur þyrnir í augum og fisk-
veiðikerfið ekki síður. Skattar
skyldu hækkaðir og að sjálfsögðu
var mikið kapp lagt á að gera upp
reikninga við pólitíska andstæð-
inga. Í rúm fjögur ár reyndu
stjórnvöld allt sem þau gátu til að
færa þjóðfélagið til vinstri, og ef
ekki hefði verið fyrir einstaklega
ófarsæla verkstjórn hefði stjórnin
náð enn meiri og enn verri ár-
angri.
Kjósendur höfnuðu
vinstristjórninni
Vorið 2013 fengu kjósendur
loksins að segja hug sinn til
vinstristjórnarinnar. Niðurstaðan
varð ótvíræð. Vinstristjórninni var
alfarið hafnað. Ný stjórn tók við,
með mikinn þingmeirihluta. En
hvað hefur svo gerst? Hefur verið
tekið til eftir vinstristjórnina? Hef-
ur verið gerð úttekt á þeim laga-
breytingum sem vinstristjórnin
stóð fyrir og síðan farið í tiltekt?
Núverandi kjörtímabil er meira en
hálfnað.
Fyrsta verk minnihluta-
stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur
var hennar hjartans mál. Hún vildi
losna við einn af bankastjórum
Seðlabankans og til þess voru í of-
boði sett ný lög um bankann. Þau
standa enn óbreytt.
Vinstristjórnin stóð fyrir mikl-
um breytingum á stjórnarráðinu.
Stjórnarráðslögunum var bylt.
Ráðuneyti, sem ekkert áttu sam-
eiginlegt, voru sameinuð og nöfn-
um þeirra og annarra
breytt. Sjálfstæðis-
menn gagnrýndu
breytingarnar harð-
lega, en þær standa
allar óhaggaðar.
Vinstristjórnin
hóf mikla atlögu að
stjórnarskránni. Hélt
ógilda kosningu til
„stjórnlagaþings“,
skipaði svo alla þá
sem „kosnir“ voru í
„stjórnlagaráð“ og það
skilaði allskyns frá-
leitum tillögum. Í stað þess að lýsa
yfir að stjórnarskráin fengi nú frið
í eitt kjörtímabil hefur áfram verið
unnið að stjórnarskrárbreytingum
og nú stendur til að færa ýmis
draumaákvæði vinstrimanna í
stjórnarskrá. Meðal annars að
heimila framsal íslensks fullveldis
til erlendra stofnana.
Vinstristjórnin hækkaði skatta
eins og hún gat. Tekjuskattur var
hækkaður og skattþrepum fjölgað
úr einu í þrjú. Þau eru enn þrjú,
en nú stendur til að fækka þeim í
tvö. En um leið ætla menn að
lækka mörkin yfir í hæsta þrepið
og draga þannig úr þeirri litlu
skattalækkun sem þó verður.
Fjármagnstekjuskattur var
hækkaður. Sú hækkun stendur
óbreytt.
Erfðafjárskattur var tvöfald-
aður. Sú hækkun stendur óbreytt.
Tryggingagjald var hækkað
verulega. Þær hækkanir standa
næstum óbreyttar. Hækkun trygg-
ingagjalds kemur sérstaklega illa
við minni fyrirtæki og dregur úr
möguleikum þeirra.
Vinstristjórnin réðst á sjávar-
útveginn með verulegri hækkun
veiðigjalda. Sú hækkun hefur að-
eins að mjög litlu leyti verið dreg-
in til baka.
Sett voru lög um endurnýtan-
legt eldsneyti, sem stórauka inn-
kaupsverð á eldsneyti og dreifing-
arkostnað þess. Lögin kosta landið
hundruð milljóna króna í erlendum
gjaldeyri. Þau standa óhögguð.
Sett voru lög um neytendalán
sem krefjast þess að fólk fari sí og
æ í greiðslumat ef það ætlar að
taka lán eða hækka lánaheimildir
sínar. Þetta tefur fólk í viðskiptum
sínum og er til óþæginda. Þessu
hefur ekki verið breytt.
Byggingarreglugerð var
breytt og stóraukinn kostnaður
lagður á húsbyggjendur. Þessu
hefur ekki verið breytt með full-
nægjandi hætti.
Ákveðið var með lögum að
borgarfulltrúum í Reykjavík skyldi
fjölgað frá og með kosningunum
2018. Þeir eru nú 15 en geta sam-
kvæmt lögunum orðið allt að 31.
Þessi lög standa óbreytt.
Þetta eru nokkur dæmi um mál
sem vinstristjórnin lagði mikla
áherslu á í valdatíð sinni. Af ein-
hverjum ástæðum hefur enn nær
ekkert verið gert til að snúa hér af
vinstribrautinni. Á sama tíma
minnkar fylgi Sjálfstæðisflokksins
jafnt og þétt, án þess að nokkur
virðist hafa minnsta grun um
hugsanlegar ástæður þess.
Tíminn er ekki óþjótandi
Ríkisstjórnin hefur haft í mörgu
að snúast, ekki síst oddvitar henn-
ar. Undirbúin hafa verið stór skref
til losunar hafta og efnahagslífið er
á öruggri uppleið. En Sjálfstæðis-
flokkurinn verður sem fyrst að
segja kjósendum að hann hafi í
raun skýra pólitíska stefnu og að
henni verði hrint í framkvæmd
þegar hann er við völd, en ekki
verði látið nægja að bregðast við
því sem upp kemur frá degi til
dags, rétt eins og embættismenn
marki stefnuna. Forystumenn
stjórnarflokkanna eru mjög vand-
aðir og velviljaðir menn, en stund-
um læðist að manni sá grunur að
margir í liði þeirra haldi að kjör-
tímabilið sé hundrað ár, og því
liggi ekkert á. En okkur fannst
vinstristjórnin vond og það voru
margar ástæður fyrir því. Af ein-
hverjum ástæðum eru þær flestar
enn í lögum.
Eftir Bergþór
Ólason » Flest það sem gerðivinstristjórnina
vonda er enn í lögum.
Bergþór Ólason
Höfundur er framkvæmdastjóri.
Af hverju fannst okkur
vinstristjórnin vond?
Eftir bankahrunið
2008 hef ég sem
áhugamaður og þol-
andi tekið þátt í um-
ræðu um aðkomu end-
urskoðenda að
áritunum fjármálafyr-
irtækja fyrir hrun og
reyndar síðar. Eftir
lestur á áritunum end-
urskoðenda á milli-
uppgjörum íslenskra
banka í lok júlí 2008 minnist ég
ætíð orða biskups við Umba: „taktu
vel eftir því um hvað þeir þegja!“
Formaður Félags löggiltra end-
urskoðenda, Sturla Jónsson, skrifar
pistil í Viðskipta Mogga 15. október
sl. og er vert að staldra við. Þetta
horn í ViðskiptaMogga hefur und-
anfarið verið nýtt fyrir fræðilegt
efni um endurskoðun. En nú ber
nýrra við. Pistill formannsins verð-
ur vart skilinn öðruvísi en að hann
sé að þagga niður opinbera umræðu
um vinnubrögð endurskoðenda.
Gagnrýni
Gagnrýni á störf endurskoðenda
hefur verið af skornum skammti þó
að bráðnauðsynleg sé til að gera
upp hruntímabilið. Skrif formanns-
ins virka eins og öfugmæli enda hef
ég yfirhöfuð ekki orðið var við
gagnrýna umræðu frá Félagi end-
urskoðenda nema frá örfáum fé-
lagsmönnum. Niður-
staða formannsins er
að öll sú gagnrýni hafi
verið ómálefnaleg og
ómakleg. Formaðurinn
vísar allri gagnrýni á
bug án þess að færa
rök fyrir þeirri niður-
stöðu. Þó er það þann-
ig að stétt endurskoð-
enda er ein fárra
stétta sem býr við það
að siðareglur hafi nán-
ast lagagildi!
Einn einfaldur þátt-
ur í rekstri allra þriggja stóru við-
skiptabankanna í aðdraganda hruns
þeirra var það að allir áttu þeir eða
höfðu að veði stórum meira en 10%
af eigin hlutabréfum en slíkt er
brot á lögum um hlutafélög. Enginn
endurskoðandi hinna þriggja stóru
viðskiptabanka gerði athugasemd
við það í birtum athugasemdum sín-
um, hvorki í árshluta- eða ársupp-
gjörum. Vissulega hefði slík vitn-
eskja verið fróðleg fyrir almenna
hluthafa bankanna og vakið spurn-
ingar um raunverulegt eigið fé
þeirra.
Spurt er
Mér er spurn: Er það svo að end-
urskoðendur fjármálafyrirtækja
hafi ekki kastað rýrð á stétt sína í
aðdraganda bankahruns? Af skrif-
um formannsins dreg ég þá ályktun
að honum finnist þar ekkert at-
hugavert. Ekki verður annað skilið
en það hafi verið í góðu lagi að árita
fjármálafyrirtæki fullri áritun fyrir
árið 2007 og athugasemdalausum
milliuppgjörum bankanna þremur
mánuðum fyrir hrun, finnst for-
manninum afar gagnrýnisvert að
gerðar séu athugasemdir við þær
sömu áritanir?
Formaðurinn segir:
„Án sjálfsgagnrýni verður þróun
stéttarinnar takmörkunum háð og
líklegt að aðrir hagsmunaaðilar taki
í stjórnartaumana í þeim efnum og
þá í gegnum lagasetningar og
breytingar á regluverki.“
Hér rekur sig hvað á annars
horn. Ekki hefur heyrst af mikilli
sjálfsgagnrýni frá stjórn Félags
löggiltra endurskoðenda og því
undarlegt að fjalla um það sem ekk-
ert er. Hitt, sem sennilega vegur
þungt í huga formannsins, eru
hagsmunir og það er væntanlega
kjarni málsins. Hvaða hagsmuna-
aðila er formaðurinn að nota til að
hræða lesendur sína, er meining
formannsins að eftirlit á vegum rík-
isins sé hagsmunagæsla fyrir ein-
hvern tiltekinn hagsmunaaðila?
Getur verið að formaðurinn eigi við
að það séu hagsmunir endurskoð-
enda að sjá sjálfir um eftirlit með
eigin störfum? Er jafningjaeftirlit
endurskoðenda trúverðugt áður en
endurskoðendur fjármálafyrirtækja
gera hreint fyrir sínum dyrum.
Ófarnaður sparisjóða
Telur formaðurinn að nýleg
dæmi af ófarnaði sparisjóða séu til
merkis um að þessi sjálfsgagnrýni
eftir hrun hafi skilað sér eða fór
hún ef til vill aldrei fram af nokkr-
um heilindum? Skörp utanaðkom-
andi gagnrýni frá Siglufirði á störf
endurskoðenda í aðdraganda yfir-
töku sparisjóðs bendir ekki til að
endurskoðendum hafi tekist vel til í
þessu efni. Formaðurinn hefur lýst
því svo vel skilst að önnur gagnrýni
en frá honum sjálfum er að hans
mati ekki málefnaleg. Það má þó
ekki dyljast að hans eigin sjálfs-
gagnrýni hljóti að vera settar nokk-
uð þröngar skorður. Verkin sýna
merkin.
Getur það verið að hægt sé með
einu blóðrauðu pennastriki að
draga strik yfir hlutverk endur-
skoðenda í mikla bankahruninu og
afgreiða með því einu að yppa öxl-
um? Því miður virðist þetta mögu-
leg niðurstaða enda eru ný endur-
skoðunarslys í boði og það hjálpar
til að gleyma hinum eldri.
Svo spurningu formannsins sé
svarað, já það er fullkomlega eðli-
legt að löggjafinn grípi inn í og
skoði hvort ekki sé þörf á að laga
umgjörðina. Það kann að vera
hræðsluefni fyrir formanninn en
óbreytt ástand hræðir aðra.
Nóbelsskáldið hefur sett fram
ígildi siðareglna í ritverkum sínum
og er hér vitnað til tveggja slíkra.
Siðareglur eru settar og til þeirra
vitnað þegar eitthvað er að en for-
maðurinn virðist misnota þær sem
skjöld til að komast hjá uppgjöri
endurskoðenda við fortíðina.
Formaðurinn virðist í pistlinum
vera að segja lesendum sínum að
það sé eitthvað mikið að í félags-
starfinu sem hann veitir forstöðu.
Hann finnur einnig að því að þau
vandamál sem uppi kunna að vera
skuli sett í opinbera umræðu. Og þá
er spurt, ef mál mega ekki vera í
opinberri umræðu, af hverju leysir
formaðurinn ekki þessi meintu inn-
anhússvandamál án þeirrar þver-
sagnar að hengja sjálfur óhreina
þvottinn út?
Minnumst orða prestsins
Endurskoðendur skulu minnast
orða prestsins; „En þó ég sé ekki
góður að sýngja, þá veit ég að til er
einn tónn og hann er hreinn.“
Fagmaður verður listamaður með
því að vanda smáatriðin, hitt gerir
sig sjálft. Það eru nefnilega lagðar
miklar skyldur á endurskoðendur í
hlutafélagalögum, að vanda sig við
smáatriðin.
Eftir Vilhjálm
Bjarnason » Getur það verið að
hægt sé með einu
blóðrauðu pennastriki
að draga strik yfir hlut-
verk endurskoðenda í
mikla bankahruninu...?
Vilhjálmur Bjarnason
Höfundur er alþingismaður.
Um endurskoðendur og störf þeirra