Morgunblaðið - 20.02.2016, Síða 47
MINNINGAR 47Aldarminning
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. FEBRÚAR 2016
Þegar við Ragn-
hildur dvöldum við
nám í Cheltenham
kom Kristín þangað einu sinni.
Það var löngu áður en ég steig
fæti á Ísland; þetta framandi, fjar-
læga land sem ég vonaðist til að fá
einhvern tíma að líta augum með
öllum sínum fjarstæðum og þver-
stæðum. Svo birtist Kristín.
Heimsborgarabragur hennar,
klæðaburður og stíll stungu í stúf
við almennar hugmyndir okkar
um þetta land á hjara veraldar.
Frjálslegt fas hennar og hlýtt við-
mót samlagaðist hins vegar sam-
stundis okkar sundurleita náms-
mannahópi.
Mér finnst Kristínu best lýst
með því að líkja henni við þetta
land sem hún unni svo mjög. Í
mínum augum hefur hún verið svo
samgróin því – ekki eingöngu sem
náinn og hjartfólginn fjölskyldu-
meðlimur – heldur einnig með
snertingu við alla fleti íslensks
samfélags á fyrstu skrefum þess
sem sjálfstæðrar þjóðar. Í sam-
ræmi við landið, eitt og óskipt,
sem hún var svo stolt af, gaf hún
lítið fyrir flokkadrætti. Hún var
gædd þeim hæfileika að geta sætt
það sem virtist ósamrýmanlegt,
vikið hindrunum úr vegi.
Líf Kristínar var ekki alltaf
auðvelt. Hún var ekkja í 46 ár. Sál-
arþrek hennar var orðlagt meðal
þeirra sem til hennar þekktu. Með
aðdáunarverðri hugprýði hafnaði
hún því að gefa sig andstreyminu
á vald. Róleg, ísblá augun lýstu af
kjarki og eldheitum baráttuvilja.
Hvorki kafbátar Hitlers né and-
rúmsloft karllægrar þjóðrembu
megnuðu að aftra för hennar þeg-
ar hún hélt til Ameríku til náms,
þótt áratugum saman nyti braut-
ryðjendastarf hennar, sem fyrsta
híbýlafræðings á Íslandi, ekki
þeirrar viðurkenningar sem henni
bar. Nýútkomin bók um ævistarf
hennar hefur ótvírætt skorið úr
um það efni.
Litla stúlkan sem á sínum tíma
horfði á kýrnar rölta í moldarleðj-
unni upp Njarðargötuna; fékk
Duke Ellington til að spila auka-
lög fyrir sig; drakk te með Frank
Lloyd-Wright og var boðin vinna
hjá Walter Gropius; hefur skilið
eftir sig óafmáanleg spor í híbýla-
menningu þjóðarinnar, svo og í
Kristín
Guðmundsdóttir
✝ Kristín Guð-mundsdóttir
fæddist 12. júní
1923. Hún lést 10.
febrúar 2016.
Kristín Guð-
mundsdóttir var
kvödd 19. febrúar
2016.
hjörtum og hugum
þeirra mörgu sem
hana elskuðu.
Hennar líki mun
seint verða á vegi
okkar.
Alistair
Macintyre.
„Þegar menn
þekkja móðurina,
vita þeir, hvers
vænta má af börnunum.“ Svo
mælir Lao Tse í Bókinni um veg-
inn sem Kristín Guðmundsdóttir
færði mér að gjöf þegar ég varð
stúdent fyrir tæpum 40 árum. Orð
að sönnu.
Ég hafði þá í nokkur ár verið
tíður gestur í húsum fjölskyldunn-
ar í Hvassaleiti; börn hennar þrjú,
Ragnhildur, Kristinn Haukur og
Ögmundur, voru samtímis mér í
Hamrahlíð og bundumst við
traustum vináttuböndum.
Kristín var einstök rausnar-
kona, smekkvís eins og heimilið
bar gott vitni um, alúðleg og upp-
örvandi í öllum samskiptum fyrr
og síðar. Ég get sagt það í fullri
einlægni að ég fór alltaf glaðari og
fróðari af fundi hennar en ég kom.
Ánægjulegt var að fylgjast með
þeirri verðskulduðu en síðbúnu
viðurkenningu sem Kristínu
hlotnaðist á síðustu árum fyrir
brautryðjandastarf í íslenskum hí-
býlafræðum.
Hún var fyrsti háskólamennt-
aði innanhússarkitekt okkar; kom
heim frá námi í Bandaríkjunum
1947 og var þá langt á undan sinni
samtíð hvað viðhorf og þekkingu á
því sviði snerti.
En verka hennar og hugmynda
sér víða stað og munu halda nafni
hennar á lofti.
Blessuð sé minning hennar.
Guðmundur Magnússon.
Ég kallaði hana Kristínu sem
unglingur. Seinna eftir því sem við
kynntumst betur bað hún mig um
að kalla sig Kiddý, gælunafninu
sem átti svo vel við hana og aðeins
hennar nánustu fengu að nota.
Það hafa verð sönn forréttindi að
hafa átt hana að vini í yfir 40 ár.
Kjarkur er það orð sem lýsir
Kiddý sérstaklega vel. Hún hafði
óbilandi kjark. Hún sýndi það svo
sannarlega þegar hún sigldi í júní
1943 – rétt tvítug – vestur um haf í
miðju stríði, áleiðis til Chicago til
að hefja nám við Northwestern
háskólann, einn af bestu háskólum
Bandaríkjanna. Hún varð fyrst ís-
lenskra kvenna til að ljúka námi í
innanhúsarkitektúr. Kjarkur og
hugrekki fylgdi henni í gegnum
lífið. Líf sem sannarlega var ham-
ingjuríkt og farsælt, en líka fullt
af sorg og áföllum og ber þar
hæst þegar elskaður eiginmaður
hennar Skarphéðinn féll frá í
blóma lífsins.
Stíll er annað orð sem lýsir
Kiddý vel. Hún hafði einstakan
stíl, bæði í klæðaburði og í híbýl-
um sínum. Persónutöfrar hennar
fóru ekki framhjá neinum sem
hana hittu. Ávallt var hún smart
til fara og kunni að gera hvert
aldurskeið að sínu. Hún hafði ein-
staklega næmt auga og gat gert
hverja kytru huggulega og heim-
ilislega. Þau fjögur heimili henn-
ar sem ég fékk að kynnast á yfir
40 árum báru merki þess að
þarna var að ferðinni kona sem
kunni til verka. Hvert sem hún
fór og hvað sem hún gerði, Kiddý
var heimsborgari í sannri merk-
ingu þess orðs.
Heilsteypt er þriðja orðið sem
ég vel til að lýsa Kiddý. Hún var
hrein og bein og óhrædd við að
segja sínar skoðanir á hlutunum.
Þess vegna var svo gott að tala
við hana og eiga við hana sam-
skipti. Þau voru fá svið mannlegs
lífs sem við ekki ræddum. Hún
hafði mikla réttlætiskennd og var
sjálfri sér samkvæm. Kiddý var
einlæg og viðkvæm, en duldi það
vel. Hún var alltaf bjartsýn og
hafði frábæra kímnigáfu og smit-
andi hlátur. Kiddý var einfaldlega
skemmtilegur félagi. Hún var
vinur og stuðningsmaður í stóru
og smáu.
Saga dóttir mín þekkti hana
sem ömmu Kiddý. Það var ein
stærsta gjöf sem Kiddý gaf mér
fyrir utan einstaka vináttu henn-
ar og barna hennar. Þau sterku
bönd munu vara að eilífu.
Mínar innilegustu samúðar-
kveðjur til barna hennar sem
voru henni svo mikið kær; vina
minna Ragnhildar, Kristins
Hauks og Ögmundar, sem og ást-
vina þeirra.
Kiddý, takk fyrir allt.
Edda Helgason.
Það var ekkert vanalegt við
Kristínu, hún var „orginal“. Há-
vaxin, glæsileg, vel menntuð,
skörp, smart og fyndin. Aldurs-
laus, þrautseigur töffari með
húmorinn í lagi til hinsta dags.
Hún var fagurkeri fram í fingur-
góma.
Það var alltaf fallegt í kringum
hana, sama hvar hún var. Fyrir
mér var hún alltaf konan í kast-
alanum á Bergstaðastrætinu.
Hún tók kastalann með sér hvert
sem hún fór síðar um ævina og ég
held ég geti sagt það hreint út að
hún hafi innréttað langsmartasta
herbergið á Hrafnistu. Hún var
alltaf til fara eins og kvikmynda-
stjarna og sló ekkert af þó að ald-
urinn færðist yfir hana, níræð og
töff í hvítri buxnadragt með
fjólubláa slæðu. Það var og verð-
ur enginn eins smekklegur í fjólu-
bláu og Kristín.
Kristín var dæmalaust
skemmtileg og lá ekki á skoðunum
sínum, manni leiddist ekki í návist
hennar. Vel að sér um menn og
málefni og höfðingi heim a sækja.
Fáum tekst að halda sínum sí-
unga, sjarmerandi karakter fram
á tíræðisaldur en Kristín fór létt
með það. Mínar innilegustu sam-
úðarkveðjur til fjölskyldunnar.
Hvíl í friði, elsku vinkona. Þín,
Sigríður Ásgeirsdóttir.
Þeim sem kynntust Kristínu
Guðmundsdóttur er hún var á
miðjum aldri undraði er þeir
hermdu síðar fjölþættan og glæst-
an námsferil hennar. Hún ræddi
aldrei afrek sín eða miklaði. Þó var
hér kona sem vílaði ekki fyrir sér
að halda til náms í Bandaríkjunum
á stríðsárunum í fagi sem enginn
hafði áður stundað á háskólastigi;
sem var svo nýstárlegt að orðhag-
ir þurftu að smíða heitið híbýla-
fræðingur til að fanga umfang
þess. Kristín var brautryðjandi
bæði sem fagmaður og ekki síst
sem fagkona. Hún hélt námskeið,
fyrirlestra og útvarpserindi í
þeirri viðleitni að auka meðvitund
landsmanna um það sem mætti
nefna hagkvæmni fegurðar á
heimilum. Samræming á hag-
kvæmni og fegurð var markmið
Kristínar. Eldhúsið er miðdepill
heimilisins; svefnherbergið er
friðhelgur staður. Kristín hannaði
eldhús í glæsihús en hún kunni
ekki síður að kveða í knöppu
formi: Kaupið heldur góðar dýnur
en gljáfægð húsgögn, ráðlagði hún
ungum hjónum er voru að hefja
búskap. Það kostaði lítið að velja
rétta liti. Hugvit hennar í hagræð-
ingu var einstakt. Vinnurými
hennar á Húsnæðismálastofnun
var sem kennslubókardæmi í hag-
kvæmri niðurröðun hluta. Hirslur
af öllum stærðum sneið hún sjálf
úr pappa. Vel fór á því að samið
var og útgefið á liðnu ári veglegt
rit um verk Kristínar og braut-
ryðjendastarf. Ekki síður að þar
náðist hennar eigin vitnisburður.
Öllum varð ljóst að ævintýrið í
lífi Kristínar var árin með Héðni.
Þau voru sálufélagar og vinnu-
félagar þar sem heimili og vinna
var samofið ferli. Með Skarphéðni
tókst Kristín á við mörg áhuga-
verð verkefni. Þá komu þau þrem-
ur börnum vel á legg. Þrátt fyrir
farsælan feril var fjölskyldan
ávallt í fyrirrúmi. Árin urðu þó
alltof fá. Skarphéðinn féll frá langt
um aldur fram og Kristín var orð-
in ekkja 46 ára að aldri með þrjú
börn og í raun þröngan fjárhag,
þrátt fyrir að vera erfiðasta árið
einn hæsti skattgreiðandinn. Í
sínu mesta mótlæti sýndi hún
hvað var í hana spunnið. Hún bjó
fjölskyldunni nýtt heimili þar sem
hún sjálf fórnaði hægindum í þágu
hagkvæmni. Hélt ótrauð á nýjar
slóðir í atvinnulífinu. Kát og sæl-
leg. Harm sinn bar hún í hljóði.
Kiddí var heimskona, sem vildi
fara árlega til stórborgar og lagði
ótrauð í ferðalög á fjarlægar slóð-
ir.
Þó var Kristín á vissan hátt líkt
og fornkona þar sem hún sat við
handverk í rökkurró og hlýddi á
lágstemmt útvarpið. Alltaf slökkti
hún ljós í þeim herbergjum sem
ekki voru í notkun. Það varð öllum
ljóst að Kristín hafði ákveðnar
skoðanir á mönnum og málefnum
sem hún hélt ótrauð fram. Eitt var
víst: að þeir sem nutu velvildar
Kristínar voru lukkunnar pamfíl-
ar. Okkur félögunum sýndi Kiddí
langlundargeð og hlýju líkt og við
værum endurvaktir gamlir skóla-
félagar hennar úr MR – úr grall-
aradeildinni.
Hún hafði mynd af okkur Ög-
mundi í þvottahúsinu sér til hug-
arhægðar á þvottadögum; við vor-
um hennar Gög og Gokke. Kristín
Guðmundsdóttir var höfðingleg í
fasi.
Hún var kát kona og hlátur-
mild. Besta minningin er af henn-
ar hvella hlátri og breiða brosi
sem alltaf náði til augnanna.
Ásgeir Ásgeirsson.
Í gær voru
hundrað ár frá fæð-
ingu móður minnar,
Sigurbjargar Guð-
leifar Guðjónsdótt-
ur, f. 19. febrúar
1916, d. 26. septem-
ber 2005.
Hún var fædd á
Raufarfelli,
Austur-Eyjafjöll-
um, dóttir hjónanna
Guðjóns Vigfússon-
ar og Þorbjargar Jónsdóttur,
bænda á Raufarfelli. Hún ólst
þar upp ásamt tíu systrum sín-
um. Föður sinn missti hún 29.
mars 1932. Þegar hún fór að
heiman fór hún sem vinnukona
að Skarðshlíð til Guðrúnar
Sveinsdóttur, frænku sinnar, og
manns hennar, Jóns Hjörleifs-
sonar. Þar bjuggu líka foreldrar
Jóns, Sigríður og Hjörleifur.
Þetta fólk var mikið velgjörð-
arfólk hennar og mikil vinátta
þar á milli sem ég fékk að njóta.
Skarðshlíðarhjónin voru heið-
urshjón. Ég var skírður eftir
Hjörleifi. Þaðan fór hún til Vest-
mannaeyja sem vinnukona hjá
Vigfúsi og Jónu í Vestmanna-
eyjum og þar hittust þau faðir
minn og hún og þau hófu búskap
í Pétursborg, þar sem foreldrar
pabba, Finnboga Rósinkranz
Sigurðssonar, f. 20. desember
1906, bjuggu, þau Sigurður Vig-
fússon og Ingibjörg Björnsdótt-
ir. Þar fæddist systir mín, Ingi-
björg Sigríður, 21. febrúar 1936.
Þau bjuggu í Eyjum til 1945 er
þau fluttu til Reykjavíkur. Pabbi
hélt áfram sjómennskunni fyrstu
árin í Reykjavík en flutti sig síð-
ar til Byggingafélagsins Brúar
og var fljótlega sendur á Kefla-
víkurflugvöll. Hann var þar með
steypuflokk sem sá um upp-
steypu á íbúða-
blokkum á vellinum
og malbikun á al-
þjóðaflugvellinum
og vegum á vellin-
um. Þau keyptu sér
íbúð á Framnesvegi
68, þar sem ég
fæddist 5. ágúst
1947. Fljótlega fóru
þau að leita sér að
lóð og fengu hana á
Silfurteig 3 í Laug-
arneshverfi og bjuggu þar til
ársins 1964. Síðan byggðu þau í
Stigahlíð. Pabbi hafði þá hafið
rekstur á fiskbúð í Hlíðunum og
vildi vera nær versluninni, en
þar bjuggu þau þar til pabbi dó
1969. Þá flutti mamma aftur í
Laugarneshverfið, keypti íbúð á
Laugarnesvegi og fór að vinna í
Afurðasölu SÍS á Kirkjusandi.
Áður hafði hún starfað við ræst-
ingar í Laugarnesskóla í nokkuð
mörg ár þegar við áttum heima
á Silfurteignum og svo síðar
vann hún í býtibúrinu í Iðnó.
Einnig starfaði hún eitt sumar á
hóteli við Skógaskóla í heima-
sveit sinni. Hún var hörkudug-
leg og samviskusöm. Við erum
tvö systkinin, Ingibjörg Sigríð-
ur, var gift Ingólfi Kristjánssyni
og eiga þau sex syni. Ingólfur
lést 2010. Guðjón H. Finnboga-
son kvæntur Jóhönnu Jónu Haf-
steinsdóttur og eiga þau fjórar
dætur. Finnbogi Rósinkranz,
sonur Ingibjargar, ólst upp hjá
foreldrum okkar. Hún var mjög
frændrækin, fylgdist með börn-
um, barnabörnum og frændfólki
sínu sem dáði hana mjög. Henni
þótti vænt um sveitina sína, átti
hún frændfólk á flestum bæjum
sveitarinnar.
Guðjón Hjörleifur
Finnbogason.
Sigurbjörg Guðleif
Guðjónsdóttir
✝ Gylfi fæddist íReykjavík 4.
nóvember 1942.
Hann lést 14. janúar
2016. Foreldrar
hans voru Anna Sig-
urðardóttir verka-
kona og Sigurður
Þorsteinsson inn-
rammari. Systkini
Gylfa voru níu tals-
ins og eru tvö á lífi.
Gylfi var kvæntur
Hrafnhildi Guð-
mundsdóttur, prent-
ara og leikskóla-
kennara. Börn þeirra
eru sjö, barnabörnin
eru tuttugu og fimm
(eitt þeirra látið) og
barnabarnabörnin
fimm.
Kveðjuathöfn fór
fram í kapellu í Aa-
benraa 22. janúar
2016.
Okkar kæri mágur hefur nú
kvatt þennan heim, en hann varð
bráðkvaddur 14. janúar síðastlið-
inn. Gylfi og Hrafnhildur, eldri
systir okkar, hófu búskap ung að
árum og því er samfylgdin orðin
löng. Gylfi hafði góða nærveru,
var ljúfur, jafnlyndur og bóngóð-
ur.
Hann naut þess að eiga sam-
verustundir með fjölskyldu sinni
og vinum, var víða vel heima og
hafði sterkar skoðanir á ýmsum
málefnum. Undanfarin ár hafa
þau hjónin búið í Danmörku og
minnumst við systur margra
góðra samverustunda þegar við
lögðum land undir fót og heim-
sóttum þau.
Þegar Gylfi varð sjötugur var
haldin veisla á Íslandi honum til
heiðurs. Það var í síðasta skipti
sem hann átti samverustund með
ættingjum og vinum hér á landi
og minntist hann þeirrar stundar
með þakklæti. Gylfi var mikill
listunnandi og fagurkeri og ber
heimili þeirra hjóna þess glöggt
merki. Ungur að árum lærði
Gylfi prentiðn og starfaði lengst
af við iðn sína, fyrst í prentsmiðju
Þjóðviljans en síðar í prentsmiðj-
unni Klóa sem þau hjónin ráku í
mörg ár. Hann bar virðingu fyrir
fagi sínu og þau verk sem Gylfi
lét frá sér báru þess merki að
vera unnin af smekkvísi og alúð.
Um tíma málaði Gylfi myndir og
þá kom í ljós næmt auga hans
fyrir litum og formum.
Hann naut þess að ferðast,
einkum til fjarlægra landa, og afl-
aði sér góðrar þekkingar á sögu
og menningu þeirra landa sem
sótt voru heim. Undanfarin ár
nutu þau Hrafnhildur þess að
ferðast um Evrópu enda hæg
heimatökin.
Þegar við nú kveðjum elsku-
legan mág eftir áralanga sam-
fylgd er okkur efst í huga þakk-
læti fyrir tryggð og vináttu sem
aldrei bar skugga á. Hrafnhildi,
systur okkar, og fjölskyldunni
allri vottum við innilega samúð.
Kristrún Guðbjörg og
Edda Sigrún.
Gylfi Sigurðsson
Móðir okkar, tengdamóðir, systir og
mágkona,
HRAFNHILDUR L. ÞORLEIFSDÓTTIR,
dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund,
lést 2. febrúar. Jarðarförin hefur farið fram í
kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Sérstakar þakkir til starfsfólks Grundar
fyrir einstaka umönnun og umhyggju.
.
Anna Jónína Sigurbergsdóttir Sigurður Kristjánsson
Þórarinn Sigurbergsson Inga Elín Kristinsdóttir
María Þ. Þorleifsdóttir Hreiðar A. Aðalsteinsson
Innilegar þakkir til ættingja og vina fyrir
auðsýnda samúð og ómetanlegan stuðning
vegna fráfalls elskulegs föður míns,
GUÐMUNDAR BJÖRNSSONAR
frá Múla í Álftafirði.
Bestu þakkir til starfsfólks dagdvalar í
Sunnuhlíð fyrir hlýlegt viðmót og til
starfsfólks blóðlækningadeildar LSH fyrir frábæra umönnun.
.
Gerður Guðmundsdóttir.
Ástkær móðir mín, tengdamóðir, amma,
langamma og systir,
MARGRÉT MARTA JÓHANNESDÓTTIR
frá Merkigili í Skagafirði,
Vallarbraut 7, Seltjarnarnesi,
lést á Landspítalanum við Hringbraut
miðvikudaginn 3. febrúar.
Útför hennar fór fram í kyrrþey 19. febrúar frá Grafarvogskirkju.
.
Monika S. Baldursdóttir, Hilmar Einarsson,
Margrét St. Hilmarsdóttir, Ágúst F. Ágústsson,
Hildur María Hilmarsdóttir,
Einar Örn Hilmarsson,
Róbert Hilmar Ágústsson
og systkini.