Morgunblaðið - 23.03.2016, Blaðsíða 14
BAKSVIÐ
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Deilum nágranna á Rangárvöllum
um yfirráðarétt á um 1.000 hektara
landspildu innan landgræðslugirð-
ingar er lokið með dómsátt. Eign
ríkisins og umráð Landgræðslu rík-
isins eru viðurkennd. Bóndi sem
gerði tilkall til landsins segist ganga
nauðugur til dómsáttar, hann hafi
ekki efni á að standa í dýrum mála-
ferlum við ríkið.
Sandfok og vandræði
Eigendur jarðanna Kaldbaks og
Þingskála á Rangárvöllum afsöluðu
sér landi sem var í óskiptri sam-
eign, áður land Víkingslækjar hins
forna, til Sandgræðslu Íslands á
árinu 1939. Það var gert samkvæmt
þágildandi sandgræðslulögum þar
sem gert var ráð fyrir því að land-
eigendur skyldu leggja í kostnað við
friðun og uppgræðslu stórra sand-
fokssvæða eða afhenda Sandgræðsl-
unni landið með eða án eignarnáms-
heimildar.
Sveinn Runólfsson landgræðslu-
stjóri segir að á þeim tíma hafi
sandfokssvæðin verið einskis virði
og raunar byrði á fólki sem ekki átti
fjármuni til að kosta uppgræðslu.
Þannig eignaðist Sandgræðslan sem
síðar varð Landgræðsla ríkisins all-
marga jarðahluta og jafnvel heilar
jarðir, ekki síst í Rangárvallasýslu
og Þingeyjarsýslum þar sem jarð-
vegseyðing var mikil.
Óleyfilegum notum mótmælt
Upp úr 1990 fóru eigendur Kald-
baks að efast um að afhending um-
rædds hluta úr landi Kaldbaks og
Þingskála, sem lenti innan land-
græðslugirðingar ásamt smá skika
úr landi Heiðar, hefði verið með
lögformlegum hætti. Síðan hafa
deilur staðið á milli Landgræðsl-
unnar sem hefur umráð landsins
fyrir hönd ríkisins og eigenda Kal-
baks. Eigendur Kaldbaks segjast
hafa stundað uppgræðslu innan
landgræðslugirðingar í 30 ár og
túnrækt í 20 ár, auk skógræktar.
Þeir fóru fram á það á árinu 2004 að
þeim yrði afhent aftur það land sem
Sandgræðslunni var afsalað 1939.
Landgræðslan neitaði og var
ákvörðun hennar kærð til landbún-
aðarráðuneytisins sem einnig taldi
að landið væri eign ríkisins og ekki
væru lagaheimildir til að afhenda
það.
Í stefnu ríkisins sést að miklar
bréfaskriftir voru á milli bændanna,
Landgræðslunnar og ráðuneytis á
árunum 2009 til 2011, meðal annars
um girðingar bændanna inni á land-
græðslusvæðinu og óleyfilega nýt-
ingu þeirra á landi ríkisins.
Á síðasta ári höfðaði ríkið síðan
mál gegn eigendum Kaldbaks og
hinna jarðanna til að fá niðurstöðu í
málið. Því lauk með dómsátt fyrr í
mánuðinum, sátt sem eigendur
Kaldbaks telja nauðungarsamning.
Eigendur jarðanna viðurkenndu að
ríkið væri eigandi landsins og Land-
græðslan hefði umráð þess. Jafn-
framt samþykkti ríkið að skoða
möguleika þess að eigendur Kald-
baks gætu fengið keypta hluta
landsins, það er að segja ef skilyrði
núgildandi jarðalaga um ástand
gróðurs væru uppfyllt. Ef ekki næð-
ist samkomulag um kaupin myndu
bændurnir fjarlægja girðingar og
hlið sem þeir hafa sett upp.
Oftast ágreiningslaust
Sveinn Runólfsson segir að yfir-
leitt sé eignarhald ríkisins á slíkum
löndum ágreiningslaust. Þó séu
dæmi um ágreining sem hafi eða
gæti þurft að fara með fyrir dóm-
stóla. Nefnir mál í Landsveit sem
ríkið vann í Hæstarétti.
„Það er í sjálfu sér engin ástæða
fyrir Landgræðsluna til að eiga
mikið af landi en í undantekningar-
tilfellum getur ástandið verið svo
slæmt að ekki sé önnur leið til að
verja landið fyrir ágangi búfjár.
Lögin eru svona og ég hef lagt
áherslu á það í minni embættis-
færslu að gæta hagsmuna ríkisins,“
segir landgræðslustjóri.
Eignarhald ríkisins viðurkennt
Aldarfjórðungs löngum deilum um eignarhald á 1.000 ha. landi innan landgræðslugirðingar á
Rangárvöllum lokið Umráð Landgræðslunnar viðurkennd en bændur fá tækifæri til að kaupa
Ljósmynd/Þorkell
Á Rangárvöllum Bóndi rekur fé sitt til fjalls. Mikil gróðureyðing og sandfok var fyrr á árum á Rangárvöllum. Mikið
starf hefur verið unnið til að minnka afleiðingar þess, ekki síst í nágrenni Landgræðslunnar í Gunnarsholti.
14 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. MARS 2016
Z-Brautir og gluggatjöld
Faxafeni 14 - 108 Reykjavík - S. 525 8200 - z.is
Allt fyrir
gluggana
á einum
stað
Úrval - gæði - þjónusta
Viðar Steinarsson, bóndi á Kaldbak, segir að þau hjón-
in hafi gengið nauðug til dómsáttar í máli ríkisins
gegn þeim. Þau hefðu ekki efni á því að standa árum
saman í málaferlum við ríkið.
„Málið var lagt fram með ófullnægjandi gögnum.
Þar var ekki undirritað skjal um afsal landsins til
Landgræðslunnar. Við kölluðum eftir því enda ætlunin
að verjast á þeim forsendum að skjalið væri ekki til.
Við vorum byrjuð að leggja í kostnað við þessa vörn en
þá fundu þeir afsalið frá 1939. Þá var forsendan fyrir
þeirri vörn brostin og aurarnir búnir,“ segir Viðar.
Hann segir að þau hjónin hafi ýmis önnur rök fyrir
máli sínu sem þau hefðu gjarnan viljað láta reyna á
fyrir dómi. „En við höfum enga burði til að standa
gegn risanum, ríkinu okkar allra.“
Hann segir að vissulega sé sárt að tapa þessu landi.
„Þetta er gróðurrýr jörð sem við búum á. Stór hluti af
okkar ævistarfi liggur í því að græða hér upp, bæði
innan landgræðslugirðingar og annars staðar á jörð
okkar. Við höfum lagt allt okkar í það, vinnu og kostn-
að við að græða upp og planta trjám,“ segir Viðar.
Hann segir að möguleikarnir á að kaupa það land sem
þau hafa notað innan landgræðslugirðingar verði
kannaðir.
Gengu nauðug til dómsáttar
BÓNDINN Á KALDBAK SEGIST EKKI HAFA EFNI Á AÐ VERJAST Í MÁLAFERLUM VIÐ RÍKIÐ
Hæstiréttur hefur dæmt 33 ára
gamlan karlmann, Andra Þór Guð-
mundsson, í 26 mánaða fangelsi
fyrir ítrekuð umferðarlagabrot en
hann var síðast í október 2014 stað-
inn að akstri undir áhrifum ávana-
og fíkniefna. Hann var jafnframt
sviptur ökuréttindum ævilangt.
Þetta er í sjötta sinn sem Andri
Þór hlýtur dóm fyrir að aka undir
áhrifum áfengis eða óhæfur til að
stjórna bíl örugglega vegna áhrifa
ávana- og fíkniefna. Hann hefur
einnig hlotið fjölda dóma fyrir önn-
ur umferðarlagabrot og verið
ítrekað sviptur ökuréttindum.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafði
áður dæmt Andra Þór í 4 mánaða
fangelsi fyrir brotið. Hæstiréttur
vísar hins vegar til þess að Andri
Þór hafi fengið reynslulausn í
ágúst 2014 á eftirstöðvum dóma,
samtals 675 dögum. Engin efni
væru til annars en að taka reynslu-
lausnina upp og ákveða refsingu
með hliðsjón af hinni óloknu refs-
ingu.
Vildi ómerkja dóminn
Andri Þór krafðist þess að hér-
aðsdómur yrði ómerktur á þeirri
forsendu að sú tilhögun á skipan
dómsvalds í héraði, að heimila að-
stoðarmönnum dómara meðferð og
úrlausn sakamála, samrýmdist
hvorki fyrirmælum stjórnarskrár
Íslands né mannréttindasáttmála
Evrópu.
Hæstiréttur segir hins vegar að
ráðning og störf aðstoðarmanns
dómara, þar með talin þau tak-
mörkuðu dómstörf sem honum
mætti fela, væru með öllu á ábyrgð
og forræði dómstjóra héraðsdóm-
stóls. Gætu handhafar fram-
kvæmdavalds hvorki skipt sér af
störfum aðstoðarmanns né ráðið
neinu um það ráðningarsamband
sem þar lægi til grundvallar. Því
var ómerkingarkröfunni hafnað.
26 mánaða dómur fyr-
ir umferðarlagabrot
Margdæmdur fyrir sömu brot
Morgunblaðið/Kristinn