Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.05.2016, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.05.2016, Blaðsíða 20
20 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.5. 2016 Þ egar ég var nýfædd kom frændi minn, sem var sjálfur sundgarpur, í heimsókn, leit á mig og sagði; „Þetta verður sundkona mikil,“ segir Hrafnhildur Lúthersdóttir, sem um helgina náði besta árangri sem nokkur ófatlaður íslenskur sundmaður hefur náð. Hrafnhildur vann til tvennra silf- urverðlauna og einna brons- verðlauna á Evrópumótinu í sundi í 50 metra laug í Lundúnum um síð- ustu helgi. Það stóð heima. Þegar Hrafnhild- ur kom í fyrsti skipti að sundlaug pínulítil stakk hún sér út óhrædd í laugina eins og hún hefði aldrei gert neitt annað áður og það varð fjöl- skyldunni líka fljótlega ljóst að þarna fór ekki aðeins spriklandi ofur- sundkona heldur hafði hún keppn- isskap upp á tíu plús. „Mamma þurfti ólétt að elta mig nokkurra ára gamla niður götuna í hverfinu því ég stakk hana af þar sem ég vildi fara í spretthlaup. Og bróðir minn hafði mikinn húmor fyrir því og gerði ofurlítið grín að mér því ég vildi gera keppni úr öllu. Við vorum kannski bara einhvers staðar að ganga saman fjölskyldan og ég fór að strunsa fremst; „Já, já, Hrafnhildur. Þú ert að vinna, til hamingju,“ kallaði hann á mig. Efst í huga mínum er gjarnan að drífa hlutina af. Og þótt það hafi ekki beinlínis verið haft fyrir mér að vera í einhverjum keppn- isham voru og eru fyrirmyndir mínar, mamma og pabbi, alltaf mjög vinnu- söm og dugleg í öllu því sem þau taka sér fyrir hendur. Ætli ég hafi samt ekki mesta keppnisskapið í fjölskyld- unni.“ Hrafnhildur er Hafnfirðingur í húð og hár, fædd 1991, úr svokallaðri Auðunsætt í Hafnarfirði. Faðir hennar, Lúther Sigurðsson, er barnameltingarlæknir og er fjöl- skylda hans hafnfirsk aftur í ættir. Móðir hennar, Ingibjörg Ragn- arsdóttir hjúkrunarfræðingur, er ættuð að vestan, úr Vatnsdalnum, og að austan, frá Jökuldalsheiði og Vopnafirði, en móðurafi hennar, Ragnar Björnsson, var mikill sund- garpur. Eru Hafnfirðingar öðruvísi en annað fólk? „Ég held að við séum svolítið sér- stök en ekki á þann hátt sem Hafn- firðingabrandararnir segja. En ég hugsa að það sem einkenni Hafnfirð- inga sé vinnusemi og dugnaður. Við vinnum vel og það er stutt í þennan sjómannskraft. Þetta er í blóðinu.“ Er fjölskyldan þín íþróttamenn? „Nei, það er enginn svona í nán- asta hring nema að litlu frændsyst- kini mín eru núna komin á fullt í sundinu og mamma segir okkur stundum að Gylfi Þór Sigurðsson knattspyrnumaður sé skyldur okkur, en ég veit ekkert í hvaða lið! Við er- um trúlega meiri listamannaætt og bróðir minn fékk til dæmis feikimik- ið af þeim genum. Hann er á fullu í tónlist og var núna að komast inn í leiklistardeild Listaháskóla Íslands.“ Bróður Hrafnhildar kannast margir við, Auðunn Lúthersson, en sem tón- listarmaður gengur hann undir lista- mannsnafninu Auður. Úr læknisfræði í almannatengsl Sjálf lærði Hrafnhildur almanna- tengsl og útskrifaðist úr Flórída- háskólanum í desember síðast- liðnum, en hún hefur búið þar undan- farin fimm ár og synt að auki með afar öflugu sundliði skólans. „Ég byrjaði í læknisfræði því ég hélt að það væri fag sem ég vildi læra. Ég sýndi læknabókum föður míns víst mikinn áhuga þegar ég var yngri og kippti mér ekkert upp við það þótt í þeim væru miður fallegar myndir. Ég áttaði mig þó fljótt á því að líffræðin höfðaði ekki til mín og að það væri þá óviturlegt að eyða sjö ár- um í viðbót í að læra það ef ég væri ekki að hafa gaman af. Ég endaði því á að prófa almannatengslafræðin og fannst það nám mjög skemmtilegt og áhugavert og held ég sé bara nokkuð góð í því. Ætli sú hugsun hafi ekki líka spilað inn í í undirmeðvitundinni að ef ég færi í læknisfræði gæti ég aldrei toppað mömmu og pabba í því sem þau eru að gera,“ segir keppn- ismanneskjan Hrafnhildur og hlær. Hrafnhildur keppir á Ólympíu- leikunum í Ríó í þremur greinum nú í ágúst og segir hún líf sitt eftir þá keppni að miklu leyti óskrifað blað. „Frá því að ég útskrifaðist í desember hefur líf mitt bara snúist um að vakna, synda, borða og sofa. Ég hef reynt að hugsa ekki of mikið út í það hvað ég muni gera eftir Ól- ympíuleikana til að geta einbeitt mér að þeim án truflunar. Möguleikarnir eru margir, sem er auðvitað algjört fyrsta heims vandamál. Það er spurning hvort ég fari í frekara nám, út á vinnumarkaðinn eða ferðist eitt- hvað. Það hafa margir sagt við mig að í Ríó, um leið og ég sé búin að klára síðasta sundið, muni ég fatta hvað það er sem ég vilji gera. En eft- ir Ríó stend ég vissulega á tímamót- um, með allt óráðið.“ Kærastinn „venjulegur“ Hrafnhildur er enn búsett í Banda- ríkjunum og telur góðar líkur á því að hún verði eitthvað áfram vestan- hafs. Hún á kærasta þar sem hún kynntist í háskólanum, en hann er frá Venesúela, er á viðskiptafræðil- ínunni og á sjálfur ár eftir í námi. Hún segir að hann sé það sem íþróttafólk kalli „normal“ og líf hans sé ekki undirlagt af íþróttaiðkun. „Ég varaði hann við áður en við fórum að vera saman – að ef hann vildi fara út í þetta væri sundið yfir- gnæfandi þáttur í lífi mínu. Ég væri alltaf að ferðast, að keppa og æfa mikið og hann jánkaði bara og sagð- ist vera til. En vissulega var þetta svolítið erfitt fyrst og skrýtið meðan hann var að átta sig á því hvernig þetta virkaði svo í alvörunni. En hann er mjög mikill stuðningur fyrir mig og skilningsríkur. Alltaf fyrstur til að senda mér SMS og hamingju- óskir og fylgist vel með á netinu. Hann er búinn að venjast þessu að mestu.“ Foreldrar Hrafnhildar búa líka í Bandaríkjunum, en hálfu ári áður en Hrafnhildur flutti út bauðst föður hennar staða við Háskólaspítalann í Wisconsin sem hann þáði. Meðan bróðir Hrafnhildar var yngri voru foreldrar hennar, sérstaklega móðir hennar, á töluverði flakki milli Ís- lands og Bandaríkjanna, en þau búa að stærstum hluta úti núna. „Á tímabili vorum við fjögurra manna fjölskyldan öll í mismunandi heimsálfum, en bróðir minn fór sem skiptinemi til Panama. Það er frá- bært að hafa þau í Bandaríkjunum því það er þá bara tveggja tíma flug á milli okkar og þau hafa verið dug- leg að koma og hvetja mig á mótum. Ég er því alls ekki ein þarna þótt ég sakni auðvitað Íslands oft, bæði vin- anna og ekki síst matarins!“ Þegar Hrafnhildur pakkar niður eftir Ís- landsdvöl raðar hún mörgum fernum af kókómjólk, smjörstykkjum og skyrdósum í ferðatöskuna sína. „En það hjálpar eflaust að ég bjó í Bandaríkjunum fyrstu átta ár ævi minnar þar sem foreldrar mínir voru að læra úti. Fyrst í Connecticut og svo Pennsylvaníu, svo að mér líður svolítið eins og þetta sé mitt annað heimili þótt ég vilji alls ekki gangast við því að það sé neinn Kani í mér heldur 100% Hafnfirðingur.“ Fegin að hafa fært fórnir Hrafnhildur þakkar foreldrum sín- um margt og segir það hafa skipt hana og bróður hennar miklu að þau hafi alltaf fundið fyrir stuðningi þeirra til að gera það sem þau vildu. Hún segir að sundferill hennar hefði aldrei orðið eins og hann varð ef hún hefði ekki átt foreldra sem hefðu vaknað til að keyra hana á æfingar kl. 6 á morgnana og sótt til að keyra svo í skólann. Hún valdi sundið eftir að hafa prófað óteljandi íþróttagrein- ar og spilaði þar inn í að það kom svo fljótt í ljós að hún hafði umframhæfi- leika í vatninu. „Að stórum hluta er það að ná ár- angri í sundinu mikill agi. Vera full- komlega stundvís og skipulagður og með allt á hreinu. Þegar ég var ung- lingur voru þetta morgunæfingar frá 6-8, skóli frá 8-16 og svo aftur sund frá 18-20. Og þá átti líka eftir að sinna heimavinnu.“ Hrafnhildur átti því ekki hið hefð- bundna menntaskólalíf, það voru að minnsta kosti ekki margir unglingar með svona þétta dagskrá. Var hún alltaf sátt við það? „Það komu vissulega tímar, og gera það hjá öllum sundmönnum, þar sem manni leiddist og fannst maður vera að missa af einhverju í félagslífinu. Þar sem það var ball og ég gat ekki farið því það var keppni daginn eftir. Á slíkum stundum komu félagarnir og þjálfararnir inn í þetta og gáfu mér rými til að finna út úr mínum málum en studdu mig samt til að halda áfram og það hefur greinilega virkað því ég er enn í þessu. Eftir á að hyggja er maður feginn að hafa fært þessar fórnir.“ Þegar þú horfir yfir þessa miklu velgengni núna undanfarið – er eitt- hvað sem þér finnst þú vera að gera öðruvísi en áður? „Ég held að aðalskýringin sé að ég hef náð mjög góðum tökum á hugs- unum mínum. Andlegi þátturinn verður að vera afar sterkur og það hefur stundum háð mér að ég er allt of stressuð, er búin að ofhugsa sund- in og það var stundum eins og ég væri hreinlega búin að keppa áður en ég stakk mér í laugina. Undanfarið hef ég frekar upplifað Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona er fædd keppnismann- eskja sem segist alltaf hafa þurft að vera fyrst. Afrekin á EM um síðustu helgi séu tilkomin vegna aga, góðra fyrirmynda og hafnfirskra kraftagena. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is Með silfrið fyrir 100 metra bringusundið á EM um síðustu helgi ásamt gull- verðlaunahafanum Ruta Meilutyte og bronsverðlaunahafanum Chloe Tutton. AFP „Þetta verður sundkona mikil“ VIÐTAL

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.