Orð og tunga - 01.06.2007, Síða 20
10
Orð og tunga
með fyrirvara. í (8d) má til dæmis sjá að YFIRHEITI (maður, rún) er
gilt en orðið rún er ekkert tengt orðunum glímukappi eða keppandi sem
eru neðar í stigveldinu. Þrátt fyrir þetta gæti listi allra orða í slíku stig-
veldi með tengingu við viðkomandi flettu(r) komið að gagni við leit í
orðabókinni. Greining yfirheita gefur einnig möguleika á því að finna
öll undirheiti ákveðins orðs:
(9) UNDIRHEITI (stelpa, (dugga, flekon, fruska, gaflhlað,
gandála, glofra, hveðra, lausastelpa, skoffín, sleggja,
stelpugopi, stelpuskjáta, stelputrippi, strákaflenna,
strækni, trilla, trýta, vammaskjóða)
Greining undirheita úr skýringum er ekki algeng. Eins og er skila ein-
ungis skýringar af forminu X(-) eða (-)Y undirheitum:
(10) fyrirtak 1 ágæti, úrvalsmaður eða -hlutur
UNDIRHEITI (fyrirtak, úrvalsmaður)
UNDIRHEITI (fyrirtak, úrvalshlutur)
3.2 Samheiti
Samheiti teljast þau orð sem í ákveðnu samhengi er hægt að skipta út
hvort fyrir annað án þess að merking eða sannleiksgildi setningarinn-
ar breytist:
(11) a. Merin hans Jóns er inni í hesthúsi
b. Hryssan hans Jóns er inni í hesthúsi
Algjör samheiti, það er að segja tvö orð sem geta í öllum hugsanlegum
tilvikum komið hvort í stað annars, eru sjaldgæf eða ekki til (sjá t.d.
Cruse 1986:265ff). Við greiningu samheita úr ÍO er heldur ekki leitað
eftir algjörum samheitum í þessum skilningi heldur er gengið út frá
því að flettur, sem eru skýrðar með einu orði eða upptalningu orða,
hafi í ákveðnu samhengi sömu merkingu og orðið (orðin) í skýring-
unni, sbr. (1) hér að ofan. Samheiti eru reyndar ekki hátt hlutfall heild-
argreiningarinnar þar sem skýringar eins og í (1) eru yfirleitt merktar
sem jafnheiti í gagnagrunni ÍO og hljóta greiningu samkvæmt því. Eft-
irfarandi eru dæmi um skýringar þar sem MerkOr greinir samheiti: