Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.10.2016, Page 37
„Hundruð kílómetra í næsta nágranna.“ Ísrael er
eina raunverulega lýðræðisríkið á öllu hinu umdeilda
svæði. Því eru gerðar aðrar og meiri og oft ósann-
gjarnari kröfur til þeirra en annarra þar um slóðir.
Þetta vill stundum gleymast, þegar dómar eru í fljót-
ræði felldir.“ Síðar segir: „„Stjórnmál nútímans
skortir þá ógn og örvæntingu, sem einkenndi þau
forðum tíð. Átakamennirnir, mikilmennin sækja því
annað. Þeir vilja fá viðnám við afl sitt og áræði.“ Full-
yrðingar af þessu tagi kunna að eiga við um háþróuð
velferðarsamfélög norðursins, þar sem þéttriðið net
laga og reglugerða hefur minnkað svigrúm stjórn-
málamanna og dregið úr þýðingu daglegra starfa
þeirra. Vettvangur Símonar Peres hefur verið annar.
Tilveruréttur þjóðar hans hefur ekki verið fyllilega
tryggður einn einasta dag frá sjálfstæðisyfirlýsing-
unni 1948 og líf þeirra, sem þar hafa í fremstu röð
farið, verið í sífelldri hættu. Við slíkar aðstæður eiga
öfgamenn margar innkomur á sviðið og hinir verða
að gæta sín, svo þeir verði ekki hrópaðir niður sem
svikarar, hugleysingjar og jafnvel landráðamenn.
Símon Peres hefur sýnt að hann er enginn flaðrandi
friðkaupandi. En hann fyllist á hinn bóginn ekki
skelfingu þótt friðarskilyrði séu skoðuð af alvöru.
Hatur og heitstrengingar eru ekki alltaf ríkasti vott-
ur um hugrekki og hetjulund. Hógværð og æðruleysi
kallar oftar en ekki á meiri kjark. Peres er ríkulega
vistaður af hvorutveggja. Hann hefur aldrei ráfandi
leitt þjóð sína út í óvissuna. Fum og fát er ekki til.
Hann veit hvert lokatakmarkið verður að vera. Hag-
ur þjóðar hans og framtíðaröryggið er í fyrirrúmi.
Það er leiðarljósið og ekkert annað kemst að. En
Símon Peres hefur einnig nægan styrk og stærð til að
átta sig á að friður og öryggi verða aldrei varanlega
fengin nema með sáttargjörð, þar sem ekki er tjaldað
til einnar nætur. Sanngirni verður að ríkja ofar öðru
og andstæðingnum verður að sýna traust. Staðfesta
Símonar Peres, yfirburða þekking og sálarró, þegar á
mestu hefur gengið, eru sennilega hans helstu kostir.
Það er enginn algildur mælistokkur til, sem einn
ákveður, hvort einstaklingur sé mikilmenni. Sagan
fer kannski á endanum næst því að kveða afgerandi
úrskurð í slíkum efnum, eins og í svo mörgum öðrum.
Sá hluti sögunnar, sem kallast samtímasaga, hefur
þegar gefið ótvírætt til kynna, að þannig muni Símon
Peres að lokum verða flokkaður.“
Þau tæpu 20 ár, sem liðin eru frá því að þessi orð
voru skrifuð, reis Símon Peres myndarlega undir
þeim.
Hann er því kærlega kvaddur.
Morgunblaðið/RAX
Símon Peres og
Davíð Oddsson.
2.10. 2016 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 37