Fréttatíminn - 05.08.2016, Blaðsíða 16
16 | FRÉTTATÍMINN | Föstudagur 5. ágúst 2016
Það er kallað Hálanda-hreinsunin þegar fátækt fólk var flæmt burt úr þorpum og kotum í Hálöndum Skotlands
á átjándu og nítjándu öld. Fólkið
flúði til borganna í Láglöndunum en
einnig til Ameríku og Ástralíu. Þar
sem áður hafði verið samfélag fólks
var sauðfé beitt á heiðalönd og haga.
Sauðfjárrækt stórbýla tók við af smá-
búskap fjöldans.
Efnalegar forsendur þessara
hreinsana voru breyting á eignarrétti
lands. Meginhluti Hálandanna hafði
öldum saman verið skilgreindur sem
almenningur sem öllum var heim-
ilt að nýta. En smátt og smátt höfðu
ættarhöfðingjarnir, með stuðningi
valdhafa í Edinborg og London, skil-
greint landið sem sitt eignarland.
Þeir voru ekki lengur höfðingjar yfir
fólki, eins og goðar þjóðveldisaldar,
heldur eigendur að landi.
Höfðingjarnir slógu eign sinni
á heiðalönd og gerðu smábýli að
hjáleigum. Þá fyrrum smábændur
sem þeir gátu ekki nýtt sem vinnu-
fólk flæmdu þeir burt.
Á tiltölulega skömmum tíma
eyddist byggð í Hálöndunum og sú
skosk-keltneska menning sem þar
hafi lifað öldum saman brotnaði og
hvarf að mestu. Hún er í dag fyrst
og fremst minning sem er seld ferða-
mönnum sem eiga leið um Hálöndin
og minning í ættum fólksins sem
fluttist til Ameríku.
Ástæða þess að ég rifja þetta nú upp
er hversu mikið Hálandahreinsunin
minnir á atburði síðustu áratuga á
Íslandi.
Hér hélst sjávarbyggð meðan haf-
ið og miðin voru skilgreind sem al-
menningur. Útgerðarmenn voru
vissulega eignamenn, en þeir voru
líka héraðshöfðingjar. Staða þeirra
var bundin tilteknu þorpi og þeir
höfðu húsbóndaskyldu gagnvart
fólkinu sem þar bjó. Þrátt fyrir
mikla misskiptingu á auðnum héld-
ust þorpin saman á gagnkvæmri
ábyrgð. Það voru takmörk fyrir hvað
útgerðarmaðurinn gat tekið án þess
að gefa neitt í staðinn.
Með kvótakerfinu var miðunum
breytt úr almenningi í einkaeign.
Það var girt fyrir nýliðun. Sá sem
ekki vildi vinna fyrir stóra útgerðar-
manninn gat ekki lengur róið sjálfur
til fiskjar á litlum báti.
Með heimild til framsals kvótans
varð þessi einkaeign síðan að lausafé,
ótengt tilteknum stað. Það var hægt
að veðsetja kvótann og fjárfesta fyrir
lánið í banka í Reykjavík eða útgerð í
Chile. Það var líka hægt að selja kvót-
ann, yfirgefa þorpið og eyða auðæf-
um sínum allt annars staðar.
Þegar framseljanlegur kvóti rauf
tengsl útgerðarmannsins við þorp-
ið hvarf húsbóndaskylda hans gagn-
vart fólkinu. Hann var ekki lengur
fremstur meðal jafningja heldur var
hann bara fremstur. Og átti enga
jafningja nema aðra útgerðarmenn
og aðra auðmenn. Hann var ekki
lengur höfðingi yfir fólki heldur fyrst
og fremst höfðingi yfir sínum eigin
auði.
Samfélagslegar forsendur þorpsins
brustu með kvótakerfinu, alveg eins
og samfélag smábænda í Hálöndum
Skotlands brast þegar heiðalöndin
voru skilgreind sem einkaeign fárra.
Kvótakerfið breytti íslenska útgerðar-
manninum úr ættarhöfðingja í stór-
eignamann. Skyldur hans gagnvart
fólkinu í þorpinu áttu sér ekki sam-
félagslegar forsendur lengur.
Á síðustu áratugum hafa þessir
umbreyttu útgerðarmenn – Pétur
Þríhross 2.0 – lagt nokkur sjávar-
þorp svo til í eyði. Í fyrra hjuggu þeir
lífsafkomuna undan hundruðum
fjölskyldna á Þingeyri, Húsavík og
Djúpavogi. Í sumar voru það íbúar
Þorlákshafnar sem fengu að kenna á
kvótakerfinu.
Samhliða eyðingarafli kvótakerfisins
gagnvart sjávarbyggðum hefur frá
Hruni orðið augljóst hvað ógnargróði
örfárra stærstu útgerðarfyrirtækj-
anna hefur á samfélagið sem heild.
Lágt gengi krónunnar, lágt olíuverð
og viðvarandi láglaunastefna veld-
ur því að arðurinn af sjávarútvegs-
fyrirtækjum er þrefaldur á við fyr-
irtæki í öðrum greinum. Það gefur
eigendum þessara fyrirtækja algjöra
sérstöðu í samfélaginu, sem þeir nýta
til að kaupa upp fyrirtæki í óskyld-
um rekstri. Ef ekkert verður að gert
munu þessi fámenni hópur eignast
Ísland.
Og á næstu árum og áratugum mun
íslenska sjávarbyggðahreinsunin að
öllu óbreyttu halda áfram. Við erum
aðeins komin þrjá áratugi inn í þenn-
an kafla Íslandssögunnar. Miðað við
stefnu núverandi stjórnvalda er ætl-
un þeirra að þessi kafli vari marga
áratugi enn. Það er því ekkert sem
bendir til að þessari þróun verði
snúið við.
Það verður að segjast eins og er að
stefna stjórnarandstöðuflokkanna
í sjávarútvegsmálum er hálf volg.
Þrátt fyrir augljósa skaðsemisgalla
kvótakerfisins er engin virk and-
staða gegn því á sviði stjórnmálanna.
Þegar Samfylkingin og Vinstri græn
voru í ríkisstjórn og höfðu tækifæri
til kerfisbreytinga strönduðu þær á
sundurlyndi innan flokkanna.
Eins undarlegt og það hljóm-
ar töldu landsbyggðarþingmenn
þessara flokka, sem eiga rætur í
verkalýðsbaráttu láglaunastéttanna,
mikilvægara að þjóna hagsmunum
fárra útgerðarmanna en fólksins
í sjávarbyggðunum sem hafa mest
allra þurft að blæða fyrir kvótakerfið.
Gunnar Smári
KVÓTAKERFIÐ
EYÐIR LANDI
Köllunarklettsvegi 1, 104 Reykjavík. Sími: 531 3300. ritstjórn@frettatiminn.is
Útgefandi: Gunnar Smári Egilsson. Ritstjórar: Gunnar Smári Egilsson og Þóra Tómasdóttir.
Fréttastjóri: Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. Ritstjórnarfulltrúi: Höskuldur Daði Magnússon. Dreifing: Póstdreifing. Framkvæmdastjóri
og auglýsingastjóri: Valdimar Birgisson. Fréttatíminn er gefinn út af Morgundegi ehf. og er prentaður í 83.000 eintökum í Landsprenti.
lóaboratoríum lóa hjálmtýsdóttir
KVÖLD OG MORGUNNÁM Í BOÐI