FLE blaðið - 01.01.2013, Blaðsíða 18
þjónustuvef þar sem notendur geta sótt sér gögn og sniðmát
sem unnt er að setja upp á þeirra kerfi og einfalda þannig notk-
un kerfisins. Hafa íslenskir endurskoðendur og FLE haft með
sér sérstakt samstarf með þennan þátt og er það mikilvægur
liður í innleiðingarferlinu.
Er frelsari vor fæddur?
Reynsla af kerfinu hefur verið misjöfn. í skemmstu máli má
segja að kerfið reyndist ekki jafn mikil töfralausn eins og margir
höfðu vonast eftir. Kerfið leiðir notandann ekki í gegnum endur-
skoðunarferilinn með einföldum fyrirfram uppsettum endur-
skoðunarfyrirmælum heldur er gerð sú krafa til notandans að
hann þekki aðferðarfræði ISA staðlanna. Kerfinu má því frekar
lýsa sem nokkurs konar ramma til að uppfylla skjölunarkröfur
ISA staðlanna.
Einnig hentar kerfið ekki sérstaklega sem skjalakerfi fyrir vinnu-
pappíra, líkt og margir gerðu ráð fyrir og þekkja úr sambæri-
legum kerfum sem eru í notkun hjá stærri endurskoðunarfyrir-
tækjum.
Þó verður að segjast að ástæðu þessara vonbrigða megi fyrst
og fremst rekja til mikilla væntinga sem gerðar voru til kerfisins
í upphafi. Kostir kerfisins eru hins vegar þeir að það er einfalt
í notkun og rammar nokkuð vel inn annars ítarlegar kröfur ISA
staðlanna. Það gefur notendum einnig nokkuð frjálsar hendur
við skipulagningu og framkvæmd endurskoðunar sem þó upp-
fylla skjölunarkröfur ISA staðlanna en eru þó í samræmi við
íslenskar aðstæður og stærð þeirra fyrirtækja sem verið er að
endurskoða. Einnig er auðvelt að koma sér upp gagnagrunni af
skjölunar- og endurskoðunarfyrirmælum og setja upp sniðmát
sem nýtist þá við stofnun nýrra verkefna í kerfinu. Slíkt kallar á
mikla upphafsvinnu. Notendur geta hins vegar sparað sér þá
vinnu þar sem slík gögn eru aðgengileg notendum á þjónustu-
vef íslenskra endurskoðenda gegn vægu gjaldi.
Staðreyndin er þó sú að enginn verður sérfræðingur í notkun
kerfisins á einni nóttu. Kerfið getur hins vegar verið mjög öflugt
tól þegar kunnátta og færni notandans vex.
Enginn er eyland
Það er mat undirritaðs að innleiðing alþjóðlegra endurskoðunar-
staðla þurfi að vera samstillt átak. Þeir sem vilja standast þær
kröfur sem gerðar eru til nútíma endurskoðunar standa allir
gagnvart sömu viðfangsefnunum og því mikilvægt að til staðar
sé vettvangur þar sem menn geta aflað sér aðstoðar og ráðgjaf-
ar, og eftir atvikum sáluhjálpar. Hafa þarf í huga að hér er um
langtímaverkefni að ræða sem ekki verður klárað á einni nóttu.
Descartes innleiðingin er mikilvægur hlekkur í þessu átaki og
hefur reynslan af því starfi sem átt hefur sér stað verið góð.
Það hafa niðurstöður opinbers gæðaeftirlits borið sérstaklega
með sér.
Það skal einnig hafa í huga að viðfangsefnin sem við glímum
við hér á landi eru ekki einskorðuð við ísland. í nágrannalöndum
okkar hefur verið mikil umræða um þær miklu kröfur sem gerð-
ar eru til endurskoðunar fyrirtækja og að ekkert skuli slegið af
þeim kröfum í endurskoðun á minni fyrirtækjum. Hafa fagfélög
endurskoðenda á Norðurlöndunum sett þetta á oddinn, þrýst
á breytingar á staðlaverki eða kallað á breytingar á regluverki í
sínum löndum. Við stöndum því ekki ein frammi fyrir þessum
viðfangsefnum.
Horfttil framtíðar
Væntingar eru um að notkun kerfisins eiga eftir að aukast þegar
fram líða stundir. Bæði hafa fleiri endurskoðunarfyrirtæki tekið
kerfið í sína notkun auk þess sem vitað er til þess að fjölmargir
sem voru í upphaflegum hóp notenda hafa ekki innleitt hjá sér
kerfið að fullu ennþá. Eftir því sem notendahópurinn vex mun
samfélagið í kringum kerfið fara stækkandi og það er von mín
að kerfið muni að lokum standa undir væntingum allra þegar
fram líða stundir.
Sturla Jónsson
Af hverju fóru endurskoðendurnir yfir götuna?
Því þeir litu á vinnupappírana frá því árið áður og sáu að þeir höfðu gert það þá.
Tveir endurskoðendur voru í þanka þegar tveir þankaræningjar ryðjast inn í bankann
með látum. Annar ræningjanna fer og tæmir peningaskúffur gjaldkeranna en hinn
stillir viðskiptavinunum upp við vegg og byrjar að hirða af þeim veski og önnur
verðmæti. Meðan á þessu stendur réttir einn endurskoðandinn hinum eitthvað
samanvöðlað án þess að þeir líti niður. „Hvað er þetta" spyr hinn endurskoðandinn.
„Þetta eru 5 þúsund krónurnar sem ég fékk lánaðar hjá þér í síðustu viku"
16 • FLE blaðið janúar 2013