Dagblaðið Vísir - DV - 18.10.2016, Page 14
Vikublað 18.–20. október 201614 Fréttir Erlent
n Hús hrynja í iðnaðarborginni Norilsk í Rússlandi n Ein af afleiðingum hlýnunar jarðar
Í
búar í iðnaðarborginni Norilsk
í norðurhluta Rússlands glíma
í vaxandi mæli við vanda sem
rekja má til hlýnunar jarðar. Mörg
hús í borginni eru að hruni kom-
in vegna þess að jarðvegurinn undir
þeim er ekki lengur frosinn. Norilsk
hefur gjarnan verið kölluð kaldasta
borg Rússlands enda er hún nyrsta
borg heims þar sem íbúafjöldi er yfir
hundrað þúsund.
Sprungnir veggir
Jarðarbúar þurfa á komandi árum að
bregðast við mörgum áskorunum
vegna hlýnunar jarðar og þiðnandi
sífreri undir Norilsk hefur valdið
mönnum þar í borg áhyggjum.
Breska blaðið Guardian fjallaði á
dögunum um stöðu mála í borginni
og ræddi við nokkra íbúa sem hafa
orðið fyrir skaða vegna sprunginna
veggja og hrynjandi húsa. Einn
þeirra er Yuri Scherbakov sem fór
að taka eftir sprungum í veggjum á
heimili sínu ekki alls fyrir löngu.
Yuri taldi að sprungurnar væru
vegna slælegra vinnubragða verk-
takanna sem byggðu húsið. Hann
áttaði sig þó á alvarleika málsins
þegar fleiri veggir fóru að springa og
gólfið í húsinu að síga. Í mars 2015
úrskurðuðu borgar yfirvöld að ekki
væri óhætt að búa lengur í húsinu
og þurftu Yuri og eiginkona hans,
Nadezhda, að hafa sig á brott.
60 prósent húsa
orðið fyrir skemmdum
Yuri og Nadezhda eru langt því frá
þau einu sem glíma við þennan
vanda. Valery Tereshkov, næstráð-
andi í ráðuneyti umhverfismála í
Krasnoyarsk-héraði, segir að 60 pró-
sent allra bygginga í Norilsk hafi
orðið fyrir skemmdum vegna þiðn-
andi sífrera. Rýma hefur þurft yfir
hundrað byggingar í borginni og hafa
þúsundir íbúa þurft að leita annað.
Í umfjöllun Guardian er bent
á að aðrir þættir en hlýnun jarð-
ar eigi hlut að máli. Nefna verk- og
jarðfræðingar að hita í húsunum sé
að hluta til um að kenna en hlýnun
jarðar auki á vandann. „Þetta hefur
verið vandamál í gegnum tíðina en
samhliða hlýnun jarðar hefur þetta
gerst hraðar,“ segir Ali Kerimov,
verkfræðingur hjá borgaryfirvöldum
í Norilsk.
Flóð og skógareldar
Hlýnun jarðar á undanförnum
árum hefur valdið illviðráðanlegum
skógareldum og flóðum í Rússlandi
en þiðnandi sífreri er það sem veldur
mönnum hvað mestum áhyggjum.
Sífreri þekur um tvo þriðju hluta
Rússlands og nú þegar má rekja
dauðsföll beinlínis til þessarar
þróunar. Hið minnsta sjö stórir gígar
hafa myndast í Síberíu vegna þiðn-
andi sífrera. Metangas hefur streymt
upp úr þessum gígum og í ágúst síð-
astliðnum lést tólf ára drengur af
völdum miltisbrands sem komst
upp á yfirborðið. Þá hefur hlýnun
jarðar orðið til þess að margar eyjur
við norðurströnd Rússlands eru að
sökkva í sæ, hafís hefur bráðnað og
öldugangur aukist með tilheyrandi
landbroti.
Hiti hvergi hækkað jafn mikið
Aðstæður í Norilsk eru ekki fyrir
hvern sem er enda er borgin talin
ein sú mengaðasta í heimi auk þess
að vera ein sú kaldasta. Frostið þar
getur auðveldlega farið niður í 40
gráður en helsti atvinnuvegur íbúa
er vinnsla á nikkel. Þó að frostið sé
mikið á veturna getur hitinn orðið
sæmilegur yfir sumar tímann. Í um-
fjöllun Guardian kemur fram að frá
árinu 1900 hafi meðalhitinn á norð-
urheimskautasvæðinu hækkað um
tvær gráður. Hvergi annars staðar
á jörðinni hefur hitastigið hækkað
jafn mikið. Og frá árinu 1999 til 2013
hækkaði hitinn í jarðveginum um
eina gráðu að meðal tali.
Vantar fjárfestingu
Það er ljóst að mikil vinna bíður
rússneskra yfirvalda til að leysa úr
þessum aðsteðjandi vanda sem nú
þegar er farinn að hafa áhrif. En til
þess þarf fjármagn og miðað við nú-
verandi stöðu efnahagsmála í Rúss-
landi vaxa peningar ekki á hverju
tré. „Það er hægt að leysa úr ýmsum
vandamálum sem tengjast loftslags-
málum með fjárfestingu. En hvaðan
á þessi fjárfesting að koma?“ spyr
Oleg Anisimov, sem fer með umsjón
loftslagsmála hjá Jarðvísindastofnun
Sankti Pétursborgar. „Svo lengi sem
mannfólk er ekki í bráðri hættu mun
enginn gera neitt,“ bætir hann við. n
Einar Þór Sigurðsson
einar@dv.is
Sprungur og gólfsig Nadezhda og eiginmaður hennar, Yuri, töldu í fyrstu að sprungnir veggir væru slælegum vinnubrögðum verktaka að
kenna. Þau áttuðu sig á alvarleikanum þegar vandinn fór að ágerast. Mynd AlEc luHn
ÞiðNaNdi sÍfRERi
skEmmiR boRgiNa
lagfæringar Eins og sést á þessari mynd hefur verið reynt að laga þau hús sem á annað borð er hægt að laga. Mynd AlEc luHn
Slæmt ástand Talið er að 60 prósent allra húsa í Norilsk hafi orðið fyrir skemmdum vegna þiðnandi sífrera. Mynd AlEc luHn