Morgunblaðið - 30.09.2017, Qupperneq 28
28 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 30. SEPTEMBER 2017
Um ýmislegt má fræðast á sveitasímanum (feisbók), t.d. það að„þegar fólk varar sig hvert á öðru þá er það kallað koss“.Svona fyndni fær mörg „lík“ (e. like) sem betur fer. Reyndareru Íslendingar örlátir á „líkin“ enda vita þeir að það getur
verið ávísun á „lík“ til baka. Þannig fékk hégómlegur málfræðingur 161
„lík“ fyrir að spá „dauða íslenskunnar“, myndarleg líkfylgd það.
Uppgjafartónninn og nöldrið eru óvinir íslenskunnar.
Stundum fremja Íslendingar helgispjöll án þess að ætla sér það. Hús-
freyja á Austurlandi hafði það
fyrir sið að raula fyrir munni
sér við húsverkin en þurfti þá
kannski að segja eitthvað sem
tengdist því sem fram fór í
kringum hana. Eitt sinn þeg-
ar hún var að raula „þjóðsöng
Austfirðinga“, hið undurfagra
lag Inga T. Lárussonar,
Hríslan og lækurinn, hljóm-
aði miðerindi þessa „ástríka“
kvæðis Páls Ólafssonar
svona:
Svo þegar hnígur sól til fjalla
[Svona nú, þar fór brauðbitinn]
og lætur á kvöldin laufblað falla
[Leiktu þér úti, Daddi minn]
Hvíslar þá lækjar bláa buna
[Bjössi minn, hvar er úrið þitt?]
Þig skal ég ætíð, ætíð muna
[Óttalegt gutl er kaffið mitt]
Jón G. Friðjónsson segir í
einum af sínum snilldarpistlum um íslenskt mál:
Má bjóða þér meira? – Nei, ég er góður
Hvernig hefurðu það? – Ég er góður
Þarftu ekki að hvíla þig? – Nei, nei, ég er góður
Jón bætir því við að vissulega sé hér hvert orð íslenskt „en merkingin
eða vísunin er framandleg. Við getum sagt: Hann er góður í ensku;
Hann er góður við börn/dýr; Hann er orðinn góður í maganum o.s.frv.
En í íslensku er engin hefð fyrir merkingunni ‘vilja ekki meira af e-u;
vera saddur; líða vel …’.“
Jón G. Friðjónsson hefur um árabil safnað dæmum um mál og mál-
breytingar í tímans rás. Vonandi líður ekki á löngu uns þetta birtist allt.
En hér minni ég á bók hans, Mergur málsins, þar sem hann skýrir ís-
lensk orðtök, merkingu þeirra og sögu svo vel og skemmtilega að unun
er að lesa.
Halldóra Thoroddsen hefur vakið athygli síðustu misserin fyrir
skáldverk sín. Nóvellan Tvöfalt gler kom út fyrir tveimur árum hjá for-
laginu Sæmundi, „lágstemmd og fögur saga“, svo vísað sé í ritdóm; hún
er líka kaldhæðin á köflum, sbr. það að forstjóri ellihússins róar um-
sækjendur (par sem nýlega hefur tekið saman) um pláss með því að
segja að það verði í mesta lagi árs bið, það sé svo mikil „umsetning“ hjá
þeim:
„Þau kíma bæði við orðalagið en forstjórinn sem er kona um fimm-
tugt virðist halda að það feli staðreyndir lífsins. Það er eins og allt þjóð-
félagið sé á flótta undan þessu óþægilega orði. Enda höfum við afmark-
að dauðanum bás utan alfaraleiðar“ (54).
Við útför vinar aðalpersónu fer presturinn „með sín hefðbundnu
huggunarorð, eilíft líf, eilíft persónulegt líf í húsi pabba“ (62).
Að lokum: „Soðgreifi“ er gamalt orð yfir bryta, kokk.
Og: Ég á tvenna skó og tvö pör (ekki ‘tvenn pör’) af sokkum.
Líkfylgd = „líkin“
á sveitasímanum
Tungutak
Baldur Hafstað
bhafstad@hi.is
Það er sjaldgæft að við hér í fámenninu í Norður-höfum fáum tækifæri til að kynnast viðhorfumþeirra sem lifa og hrærast í hringiðu þeirramiklu og hröðu breytinga sem eru að verða í
heiminum.
Við erum yfirleitt á bólakafi í okkar litlu og þröngu
músarholu þar sem ekki sést mikið til annarra átta.
Þess vegna er ekki fráleitt að halda því fram að fyrir-
lestur manns að nafni Dominic Barton, sem er einn af
æðstu stjórnendum hins alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækis,
McKinsey & Company, á 100 ára afmælisfundi Við-
skiptaráðs Íslands (áður Verzlunarráðs Íslands) fyrir
skömmu sé einn merkasti fyrirlestur sem hér hefur verið
haldinn, jafnvel í áratugi.
Fyrirlesarinn dró upp skýra og skiljanlega mynd af
því sem er að gerast í kringum okkur, hvernig mið-
punktur efnahagskerfis heimsbyggðarinnar hefði færst
frá austri til vesturs og væri nú aftur að færast til aust-
urs og nefndi sérstaklega Kína, Indland og
Indónesíu svo og Afríku.
Hann benti á að öll fyrirtæki væru að verða
tæknifyrirtæki, að mannfólkið væri að eldast og
að spennan sem skapast vegna þessara breyt-
inga valdi óánægju og reiði sem aftur hefur orð-
ið til þess að hafin sé leit að nýjum samfélagssáttmála.
Af um 60% starfa væru um 30% að verða sjálfvirk
vegna tækninýjunga sem leiddi af sér að sumir misstu
vinnu en aðrir högnuðust vegna tækniframfara sem
leiddi til vaxandi ójöfnuðar. Nú er svo komið að sjálf-
keyrandi flutningabílar eru komnir á vegi í Bandaríkj-
unum, svo að dæmi sé tekið, og þeim á eftir að fjölga um
leið og flutningabílstjórar missa vinnuna.
Allar þessar breytingar kalla á ný viðhorfi m.a. í
rekstri fyrirtækja. Einu sinni var algengt að fyrirtæki
næðu 100 ára aldri. Í nálægri framtíð kann lifitími þeirra
að verða nær 15 árum. Hin viðtekna skoðun í viðskiptalíf-
inu er sú að það sé hlutverk fyrirtækja að hugsa fyrst og
fremst um hagsmuni hluthafa. Það segir Dominic Barton
að sé gamaldags hugsun. Nú verði fyrirtæki að hugsa
bæði um starfsmenn og viðskiptavini og nærumhverfi al-
mennt.
Þéttbýlisvæðingin verður að hans mati einn helzti drif-
kraftur í efnahagskerfi heimsins. Á næstu áratugum
muni 2,4 milljarðar manna færast í millistétt og skapa
aukna eftirspurn. Við þurfum ekki að búa í nálægð við
þessa nýju millistétt heldur vita hvar hún er og tengjast
henni og það getur fólk gert hvort sem það býr í fjöl-
mennum samfélögum eða fámennum, sagði Dominic
Barton.
Allt kallar þetta á miklar fjárfestingar í innviðum og í
því samhengi minntist fyrirlesarinn á hin miklu áform
Kínverja um að tengja Asíuríki og Evrópuríki með þjóð-
vegum og lestum sem hann segir jafngilda 12 Marshall-
áætlunum.
Allar þessar breytingar þýða að matvælaframleiðsla
fær stórvaxandi þýðingu. Fyrir tæpum tveimur öldum
ruddi iðnbyltingin landbúnaðinum úr vegi sem þá var
helzta atvinnugreinin í okkar heimshluta.
Af framangreindum ástæðum er landbúnaðurinn að
rísa á ný, sagði Dominic Barton en nú sem hátækni-
atvinnugrein.
Ein af forsendum fyrir blómlegum landbúnaði er vatn
og á næstu áratugum verður 56% meiri eftirspurn eftir
vatni en framboð, sagði fyrirlesarinn og bætti við: vatn er
hin nýja olía.
Nú vill svo til að við Íslendingar eigum nóg af vatni og
höfum stundað hér landbúnað í bráðum 1.200 ár.
Áratugum saman hafa sum stjórnmálaöfl hér, aðallega
jafnaðarmenn, stundað niðurrifsstarfsemi gagnvart
landbúnaðinum sem atvinnugrein.
Þegar hlustað er á Dominic Barton (og það
er hægt að gera á heimasíðu Viðskiptaráðs)
er auðvelt að draga þá ályktun að landbún-
aður á Íslandi muni rísa á ný og verða ein
mikilvægasta atvinnugrein okkar þegar líður
fram á öldina. Til þess höfum við allt: vatn, stórt land,
kjöraðstæður til að stunda hér lífrænan landbúnað sem
kallað verður eftir í vaxandi mæli. Þess vegna er það
áreiðanlega rétt hjá þeim bændum sem vara við því að
draga sauðfjárrækt svo mikið saman að ekki verði kostur
á útflutningi á lambakjöti. Það sýnist þvert á móti ástæða
til að endurhugsa landbúnaðarstefnuna á þann veg að við
getum nýtt okkur þá möguleika sem við munu blasa á
næstu áratugum.
Með því að bjóða þessum fyrirlesara hingað til lands
stuðlar Viðskiptaráð að því að við horfum til lengri tíma
en næstu mánaða í mati á uppbyggingu og framþróun at-
vinnuveganna. Kannski ætti ráðið sjálft eða einhver önn-
ur samtök í atvinnulífinu að taka upp þennan þráð frá
Dominic Barton og skipuleggja ráðstefnur sem leggi
drög að nýrri stefnumörkun í atvinnumálum til lengri
tíma.
Það er ekki sízt mikilvægt vegna þess að framtíðin er
ekki alveg einföld fyrir nýjar kynslóðir þegar tækni-
framfarir eru líklegar til að fækka störfum en ekki fjölga.
Þessi stóra framtíðarmynd er þó ekki bara mál at-
vinnulífsins. Þá kröfu verður auðvitað að gera til laun-
þegahreyfingarinnar að hún hafi eitthvað um þessa þró-
un að segja svo og til stjórnmálamannanna og flokka
þeirra.
Flokkar sem fylgjast ekki með þessari þróun verða
ekki langlífari en fyrirtæki sem gera það ekki.
Þótt fyrirlestur Dominic Barton væri merkur var hann
þó ekki stjarna þessa hátíðafundar Viðskiptaráðs.
Það var 11 ára gömul stúlka, Ásta Dóra Finnsdóttir,
sem lék á píanó með þeim hætti að vakti ljúfar minningar
um einleikstónleika Þórunnar Jóhannsdóttur Askenasí,
þegar hún var barn að aldri.
Það er til orðinn nýr snillingur á meðal okkar.
Vatn er hin
nýja olía.
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Landbúnaður – hátækni-
atvinnugrein framtíðar
Bandaríski hagfræðiprófessorinnDavid D. Friedman flytur
fyrirlestur kl. þrjú í dag, laugar-
daginn 30. september, á ráðstefnu
Evrópusamtaka frjálslyndra stúd-
enta og Samtaka frjálslyndra fram-
haldsskólanema í Háskólanum í
Reykjavík. Hyggst hann ræða um,
hvernig lög geti myndast án ríkis-
valds. Eitt dæmið, sem honum er
hugleikið, er íslenska þjóðveldið.
Friedman er afar fróður um Ís-
lendinga sögur, eins og kemur
fram í ritgerð, sem hann birti 1977
í bandarísku fræðitímariti um þjóð-
veldið og íslenskuð var í tímaritinu
Frelsinu 1981. Þar reyndi hann af
mikilli hugvitssemi að skýra hag-
fræðilega út ýmsar reglur þjóðveld-
isins.
Friedman er sonur hins áhrifa-
mikla hagfræðings og Nóbelsverð-
launahafa Miltons Friedmans og
konu hans og samstarfsmanns,
Rose Friedman. David var fyrsti
gestur Félags frjálshyggjumanna,
sem stofnað var vorið 1979 og
starfaði í tíu ár. Flutti hann fyrir-
lestur í Reykjavík þá um haustið.
Hann er smávaxinn og hnellinn, líf-
legur, víðlesinn, skrafhreifinn, alltaf
að brjóta heilann um gátur sögu og
samtíðar, en sýnir hversdagslegum
umræðuefnum takmarkaðan áhuga.
Doktorspróf hans var raunar í
fræðilegri eðlisfræði, þótt hann hafi
gefið út margar bækur um hag-
fræði og lög.
Friedman er sannkallaður fjöl-
fræðingur. Hann hefur auk fræði-
rita sinna birt tvær ævintýrasögur
frá miðöldum, en hann hefur mik-
inn áhuga á því skeiði, Harald 2006
og Salamander 2011. Hann hefur
ásamt konu sinni líka samið mat-
reiðslubók með uppskriftum frá
miðöldum. Auk erindisins nú í dag
talar Friedman á málstofu, sem
lagadeild, hagfræðideild og sagn-
fræði- og heimspekideild Háskóla
Íslands halda saman á mánudag kl.
fjögur í stofu 202 í Odda. Þar legg-
ur hann út af frægri lýsingu
Adams frá Brimum á Íslendingum
frá því á ofanverðri elleftu öld:
„Apud illos non est rex, nisi tantum
lex.“ Þeir hafa ekki konung, heldur
aðeins lög.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Erindi Davids
FriedmansDIV INE YOUTH FACE OILNýja Divine Youth Face Oil hefur einstök yngjandi áhrif á húðina. Ný ogbetrumbætt formúla inniheldur einstakt hlutfall ilmkjarnaolía úr
Immortelle*, blóminu sem aldrei fölnar. Andoxunarefnin í ilmkjarnaolíunni
hafa tvöfaldan kraft á við E-vítamín** sem þekkt er fyrir yngjandi krafta
sína. Niðurstöður rannsókna sýna að áhrif Divine Youth Face Oil eru
greinilega frá fyrstu notkun: húðin verður stinnari, meira geislandi og
ásýnd er unglegri.
MEIRA AF
ANDOXUNAREFNUM
2X MEIRIVIRKNIEN Í E-VÍTAMÍNI**
* Í fyrsta skipti í Divine húðvörulínunni.
**Prófanir í tilraunaglasi á efnasambandinu skvalen
í eintengi við súrefni.
UNGLEG OG HEILBRIGÐ
Kringlan 4-12 | s. 577-7040