Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.09.2017, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.09.2017, Blaðsíða 17
ar þegar þeir eru á skátafundi eða í skáta- ferðalagi, þeir læra þessi gildi og í sínu daglega lífi er þetta það sem hvetur þá áfram í að vera gott fólk og vera þau sjálf.“ Ímyndaðir þú þér þegar þú byrjaðir að eftir átta ár værir þú orðin skátahöfðingi Íslands? „Nei, ekki fyrst en ég vissi fljótlega að ég myndi vilja taka þátt og leggja mitt af mörkum fyrir starfið á landsvísu.“ Síðar hugsaði hún, af hverju ekki skátahöfð- ingi? Og velti fyrir sér hvort hún væri að hugsa of stórt. „En þetta er allt í takt við markmið hreyfingarinnar sem er að virkja ungt fólk til góðra verka. Skátahreyfingin er hreyfing fyrir ungt fólk studd af fullorðnum.“ Hættu að láta svona fullorðinslega! Kona hefur áður verið skátahöfðingi hérlendis en ekki svona ung kona. Hún segir að í ferðum erlendis finnist fólki þetta áhugavert og hún stingi aðeins í stúf. Það sé þó í takt við kynja- hlutföll í öðru en Marta er þá gott fordæmi fyr- ir skáta í öðrum löndum. „Þegar ég er í skátaferðum spyr ég aldrei um aldur. Það er regla sem ég hef bakvið eyr- að. Þarna mætast allir á jafningjagrundvelli.“ Hún segir að henni líki ekki setningin, hættu að láta svona barnalega. „Það er skrýtin setn- ing. Börn hafa svo marga fallega eiginleika. Það ætti að vera jákvætt að einhver sé barna- legur, heiðarlegur, einlægur og góður. Ég myndi frekar segja við fólk, hættu að láta svona fullorðinslega! En samt ekki, það er alveg jafn mikil della.“ Marta var í skiptinámi í Minnesota í Banda- ríkjunum þegar hún var kjörin skátahöfðingi. „Skátaþingið fór fram þegar ég var í vorfríinu mínu,“ segir hún en í kjölfarið tók við annasam- ur tími með hjálp Skype og tölvupósts þann mánuð sem hún átti eftir af náminu. „Ég er að læra uppeldis- og menntunarfræði með viðskiptafræði sem aukagrein. Mig langar að skoða bak við tjöldin í menntakerfinu,“ segir hún og leggur áherslu á að hún sé ekki að ræða um skólakerfið heldur menntakerfið í víðara samhengi. „Skátarnir hafa til dæmis mikið menntunarlegt gildi. Mér finnst mjög áhuga- vert að taka þátt í því að þróa menntun áfram. Þú mátt ekki setja alla í sama boxið. Ég horfi mikið á það að allir hafa eitthvað og það má ekki gefa einhverju einu meira vægi en öðru. Við viljum efla fólk og byggja það upp. Það er alltaf markmiðið.“ Skátastarf í Bandaríkjunum allt öðruvísi Hún tók þátt í skátastarfi meðan hún dvaldi í Bandaríkjunum og segir að hún hafi fengið heilmikil viðbrögð þegar hún sneri aftur úr vorfríinu sem skátahöfðingi Íslands. Hún segir að ímynd margra hérlendis af skátunum sé lituð af því hvernig Hollywood sýni skátastarf í kvikmyndum sínum. „Skátarnir í Bandaríkjunum eru ótrúlega ólíkir mörgu því sem er að gerast í heiminum. Þó þetta séu sömu gildi í grunninn er uppbygg- ingin hjá þeim allt önnur. Það er margt gott þar en líka margt sem við myndum ekki gera. Augljósasti munurinn er að stelpur og strákar fá ekki sömu tækifæri hjá þeim. Líka er starfið byggt upp á því að klára ákveðna hæfni og fá merki fyrir getuna. Þarna er meira verið að setja sömu kröfur á alla. Við söfnum ekki merkjum hér og skátaforinginn sníður starfið að þeim sem eru í því hverju sinni og þátttak- endurnir ráða sjálfir hvaða verkefni verða fyrir valinu,“ segir hún og bætir við að skátafélögin í Evrópu séu miklu líkari innbyrðis þó starfið taki mið af landi og menningu á hverjum stað. Skátastarf er í öllum löndum heimsins nema fimm og það gefur augaleið að aðstæður milli landa eru mjög ólíkar og endurspeglast það að mörgu leyti í skátastarfinu þó allsstaðar sé starfið það sama í grunninn, útskýrir Marta. Framundan hjá henni eru ótal verk innan- lands sem miða að því að efla skátastarf á Ís- landi og í alþjóðastarfi er skátahöfðingjafundur í Tékklandi, þar sem næstu skref eru ákveðin og góðum ráðum deilt. Á undan því á dagskrá er hinsvegar heimsþing WAGGGS, heims- samtaka kvenskáta . Það er haldið á þriggja ára fresti og fer nú fram í Delhi á Indlandi. Hún segir að erlendir skátar hafi mikinn áhuga á því hvernig íslenskir skátar safni pen- ing en það hefur gengið ágætlega hér í gegnum fyrirtækið Grænir skátar. „Það er fjáröfl- unarfyrirtæki fyrir skátahreyfinguna,“ segir hún en fólk þekkir áreiðanlega dósasöfn- unargámana sem er að finna víða. Þetta er jafnframt vinnustaður fyrir fólk með skerta vinnugetu. Hagnaðurinn fer í að efla skátastarf á land- inu. Skátastarf er rekið að mestu á sjálf- boðaliðastarfi og hún segir að þá þurfi að huga að umgjörðinni, það þurfi að vera ákveðin að- staða og net til staðar svo fólk sé tilbúið til að gefa tíma sinn. Sjálf segist hún hafa hoppað út í djúpu laug- ina þegar hún gerðist skátahöfðingi. Þetta sé umfangsmikið starf. „En ég hef ákveðnar skoð- anir á mörgu og vil breiða út boðskapinn, þess vegna fór ég í þetta. Þetta er tímafrekt en gef- andi og ég trúi svo mikið á hugsjónina á bak við skátastarfið.“ Það verður enginn ríkur af því að vera skáta- höfðingi enda um sjálfboðastarf að ræða en hún þurfi að minnsta kosti ekki að borga undir sig. Hún sinnir starfinu meðfram hálfu námi og er í hlutastarfi um helgar heima í Grundarfirði. „Ég safna mér pening upp í íbúð seinna. Mig langar að hafa góðan tíma fyrir skátastarfið og sinna því vel,“ segir hún en skátahöfðingi er kosinn þrjú ár í senn og má vera þrjú tímabil. Vantar fleiri fullorðna Hvaða sýn langar þig að framkvæma í starfi? „Ég vil að við verðum mikið fleiri, á fleiri stöðum, að það verði fleiri fullorðnir sem sjái hag sinn í því að vera með í starfinu. Eftirspurn frá börnum og ungmennum er til staðar en okkur vantar fleiri fullorðna, það er bara stað- reynd,“ segir Marta sem vill koma því á fram- færi að skátahreyfingin taki vel á móti nýjum sjálfboðaliðum. „Hafi einhver áhuga á því að leggja hönd á plóg í skátastarfi má til dæmis fara á skatarnir.is eða hafa samband við næsta skáta sem maður þekkir og hann mun koma manni í eitthvað,“ segir hún og minnir á að starf með börnum hjá Bandalagi íslenskra skáta krefjist hreinnar sakaskrár þegar kemur að ofbeldisbrotum, kynferðisbrotum og ávana- og fíkniefnabrotum. „Ég vil líka að við verðum viðurkenndara menntaúrræði. Það er mikið menntunarstarf sem fer fram innan hreyfingarinnar og við verðum bara að halda ótrauð áfram að láta vita af okkur. Við erum eitthvað sem íslenskt þjóð- félag þarf að hafa. Ég vil að fólk líti ekki á þetta bara sem eitthvert tómstundagaman heldur eitthvað sem verði að vera til staðar. Ég vil að fólk geri sér grein fyrir því hvað þetta geti haft jákvæð áhrif á marga og út í samfélagið. Þetta er líka mjög gefandi starf. Í skátunum hættir enginn að leika sér.“ Sterkar kvenfyrirmyndir í Grundarfirði Talið berst að æskuárunum og segist Marta hafa átt ánægjuleg uppvaxtarár í Grundarfirði. Hún segist hafa haft sterkar kvenfyrirmyndir á staðnum. „Þegar ég var að alast upp er bæj- arstjórinn kona, allir skólastjórarnir konur, í leikskólanum, grunnskólanum og framhalds- skólanum. Forseti bæjarstjórnar var kona, það voru bændur sem voru konur, presturinn var kona, útibússtjórinn var kona og læknirinn var kona. Karlarnir voru líka að gera eitthvað snið- ugt en konurnar báru alla þessa titla.“ Hún segir að í Grundarfirði sé maður meira og minna með sama fólkinu í bekk til tvítugs. „Þú ert mikið með sama fólkinu í 20 ár. Vinir mínir í Reykjavík áttu marga vinahópa, fót- boltavinahópinn, skátavinahópinn, grunn- skólavinahópinn og framhaldsskólavinahópinn. En hjá mér var bekkurinn bara mitt fólk. Það áttu ekkert endilega allir rosalega vel saman en við þurftum bara að lifa í sátt og samlyndi. Þú þarft að sýna umburðarlyndi og taka fólki eins og það er. Þú myndar mjög sterk sam- bönd, nánast eins og fjölskyldutengsl. Maður umgengst þetta fólk svo mikið.“ Henni líður hvergi betur en í Grundarfirði. „Náttúran er falleg, ég fær reglulega svona Kirkjufellsþörf,“ segir hún um tilfinninguna sem grípur hana þegar hún dvelur fjarri heimahögum. „Bæjarbragurinn er líka góður, þarna er skemmtilegt og gott fólk, jákvæðni og maður finnur fyrir því að fólk hugsar um náungann. Ég hef búið í Ekvador, Bandaríkjunum og nú Reykjavík. Ég stefni ekki á að setjast að í Reykjavík, frekar að kanna útlöndin en Grund- arfjörður er alltaf mitt heima. Mér finnst líka svo gaman að maður fær að umgangast svo fjölbreytt fólk og allan aldur,“ segir sveita- stelpan Marta. „Ég er ekki týpan sem unir sér vel í borg. Borgir eru frábærar fyrir það sem þær hafa fram að færa og byltingar hefjast oft í borgum en þegar ég fer til útlanda er það fyrsta sem ég vil gera er að koma mér útúr borginni.“ Heimsótti Ekvador og norðurpólinn Eftir framhaldsskóla fór Marta að vinna á bóndabæ í Ekvador. „Þarna var ræktað græn- meti og svo vorum við að mjólka beljur og gefa svínunum að éta. Síðan var naggrísarækt á bænum. Þeir eru borðaðir þarna!“ Hún gekk líka í skátasveit og fékk þannig tengsl við samfélagið á staðnum. „Ég eignaðist í sveitinni minni 20 vini sem eru vinir mínir ennþá í dag. Ég var komin með traustan vina- hóp eftir að hafa verið í landinu í aðeins tvær vikur og á það allt skátahreyfingunni að þakka,“ segir Marta sem var á bóndabænum í fjóra mánuði en ferðaðist í kjölfarið um Suður- Ameríku í tvo mánuði. Hún hefur sannarlega gert víðreist, hún hef- ur til dæmis komið á norðurpólinn. Hún neitar því að vera einhver Vilborg Arna en norð- urpólsferðina fékk hún í verðlaun. „Ég fór á ráðstefnu í Rússlandi um ungt fólk og norð- urslóðir. Mér fannst hún hljóma vel. Þetta tengdist ekki skátunum en hugarfarið og sjálfstraustið sem ég hef frá skátunum sagði mér að drífa mig þangað. Þarna var keppni í gangi og verðlaun voru í ferð á norðurpólinn. Ég lenti í fjórða og fimmta sæti í keppninni en topp fimm fengu ferð. Ég og fjórir aðrir, allt Rússar, fórum því á norðurpólinn,“ segir hún en keppnin fór fram í febrúar í Rússlandi og gist var í tjöldum. „Einhverjar þrautirnar voru skátaþrautir,“ segir Marta sem fór út ákveðin í því að vinna þessa ferð en þetta var fyrir tveim- ur árum. Pólfarana hitti hún síðar á Svalbarða og fylgdi kvikmyndagerðarfólk þeim alla leið en verið var að taka upp heimildarmynd. Eftir vikutöf á Svalbarða flugu þau með sérstakri flugvél til að heimsækja fljótandi vísindastöð Rússa á ísnum. Þaðan var farið með þyrlu á pólinn. Hún segir Rússa hafa verið einstaklega góða gestgjafa og þetta hafi verið mikil upp- lifun en meðal annars baðaði hún sig í vök á ísn- um. Skátastarfið og ævintýri því tengd hafa því leitt hana á marga staði. „Þú eignast vini til lífs- tíðar. Meirihluti af mínum bestu vinum eru skátar, íslenskir og erlendir.“ Hún sér fyrir sér að skátahreyfingin geti fengið meira vægi í framtíðinni. „Það er talað um að þetta sé stærsta friðarhreyfing í heimi og ætli það sé ekki það sem við þurfum núna. Það eru mörg göfug markmið í gangi og verk- efni á vegum heimsbandalagsins til að þoka öllu í þessa átt. Fólk vinnur lókalt en hugsar glóbalt. Skátar vita að þeir eru hluti af ein- hverju stærra.“ „Það sem við erum að gera í dag og síð- ustu hundrað árin er það sem er í tísku í þjóðfélaginu, náungakærleikur, að vera trúr sjálfum sér, vera virkur í samfélag- inu, vilja skapa betri heim, hugsa um náttúruna og náungann,“ segir Marta meðal annars í viðtalinu. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon 24.9. 2017 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17  Skáti er hjálpsamur  Skáti er glaðvær  Skáti er traustur  Skáti er náttúruvinur  Skáti er tillitssamur  Skáti er heiðarlegur  Skáti er samvinnufús  Skáti er nýtinn  Skáti er réttsýnn  Skáti er sjálfstæður Skátalögin

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.