Morgunblaðið - 24.03.2018, Blaðsíða 14
14 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. MARS 2018
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Ýmsar breytingar má lesa út úr skýrslu um
talningu á fuglum á helstu vötnum og mýrlendi í
Garðabæ í fyrra. Þannig á flórgoði misjöfnu
gengi að fagna, en Garðbæingar hafa reynt að
búa í haginn fyrir hann með því að útbúa hreið-
urstæði á Vífilsstaðavatni. Skúfönd styrkti sig í
sessi á efri vötnunum og er algengasta öndin
þar. Duggöndin er hins vegar nær horfin og hef-
ur henni fækkað mikið á landinu öllu síðustu ár.
Talningarnar voru gerðar á Vífilsstaðavatni,
Vatnsmýri, Urriðavatni, Bessastaðatjörn, Kast-
húsatjörn og Breiðabólsstaðatjörn. Talninguna
önnuðust Jóhann Óli Hilmarsson og Ólafur Ein-
arsson og var verkið unnið fyrir umhverfisnefnd
Garðabæjar. Alls var talið 13 sinnum og voru
niðurstöður bornar saman við eldri talningar,
m.a. frá 2013 og 2014.
Hættur að verpa við Bessastaðatjörn
Alls sáust 50 fuglategundir á öllum talning-
arsvæðum, flestar á Bessastaðatjörn (43) og
fæstar á Vífilsstaðavatni og í Vatnsmýri (24).
Mýri við austanverða Kasthúsatjörn var end-
urheimt í ársbyrjun 2017 og jafnframt var mýri
við Urriðavatn endurheimt síðla árs.
Skúfönd var algengasta öndin á Vífilsstaða-
vatni eins og undanfarin ár. Þær fyrstu sáust
11. apríl og sáust þær fram í október. Tæplega
120 skúfendur voru á vatninu frá miðjum júlí og
fram í september. Aðeins færri fuglar sáust nú
að meðaltali á Vífilsstaðavatni en 2013 eða 64 nú
á móti 72 þá. Árið 2004 var meðaltalið 69 og
2005 var það 72 fuglar á talningu, svo það eru
ekki miklar sviptingar í fjölda fugla á vatninu.
Grágæs og æðarfugl voru algengustu fugl-
arnir á Bessastaðatjörn, en stórt æðarvarp er í
Bessastaðanesi. Hettumáfur er hættur að verpa
við Bessastaðatjörn, en þar var um tíma stærsta
hettumáfsvarp landsins. Eina stóra varpið á
Innnesjum er á Ástjörn við Hafnarfjörð.
Stormmáfur, háleggur og hrísastelkur
Stormmáfur varp í Vatnsmýri í fyrsta sinn en
varpið misfórst. Kríur eru að sækja í sig veðrið
á ný á Álftanesi, eftir lægð frá árinu 2005. Ekk-
ert varp að ráði er þó á talningarsvæðunum.
Fáeinir sjaldgæfir flækingsfuglar sáust, þar
má nefna hálegg, fugl sem sást til skiptis á Suð-
urnesjum, Seltjarnarnesi og við Kasthúsatjörn.
Þessi tegund hefur ekki sést á landinu fyrr.
Hrísastelkur er einnig nýr fugl á Álftanesi en
þar sáust tveir fuglar.
Svo aftur sé vikið að flórgoða þá verpti hann
bæði við Urriðavatn og Vífilsstaðavatn í fyrra.
Sumarið 2016 reyndu flórgoðar varp á sjö til-
búnum hreiðurstæðum með misjöfnum árangri,
fimm ungar komust á legg. Í fyrra voru útbúin
tvö hreiðurstæði á vatninu og voru þau bæði
nýtt, en einungis einn ungi komst á legg.
Skortur á varpstöðum og óskýrð vanhöld
„Flórgoðar hófu að verpa við Vífilsstaðavatn
sumarið 2008 og hafa orpið þar síðan, en voru
áður og eru enn mest áberandi síðsumars.
Skortur á varpstöðvum virðist há fuglinum, en
einnig óskýrð vanhöld og jafnvel truflun af
mannavöldum,“ segir í skýrslunni.
Á Urriðavatni komust a.m.k. tveir ungar á
legg bæði árin. Flórgoðinn er að færa út kví-
arnar á Innnesjum, þótt honum gangi brösug-
lega á Vífilsstaðavatni. Nú fannst hann með
unga á Hvaleyrarvatni í fyrsta skipti og á
Rauðavatni í fyrsta sinn í rúm 100 ár. Lítið
varp var aftur á móti við Ástjörn, segir í
skýrslunni.
Sáu 50 fuglategundir
á vötnum og mýrlendi
Misjafnt gengi flórgoða í Garðabæ Skúfönd
sterkari á efri vötnunum Duggönd nær horfin
Morgunblaðið/Bogi Þór Arason
Aufúsugestur Fyrsta flórgoðaparið hefur oft sést á Vífilsstaðavatni fyrri hluta aprílmánaðar.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Vífilstaðavatn Gissur Hrafn Gíslason og Ásta
Leifsdóttir útbúa hreiður fyrir flórgoða.