Morgunblaðið - Sunnudagur - 18.03.2018, Blaðsíða 22
Laufey á sér annað
heimili í Ölverki og
sér um reksturinn.
Ungum hjónum í Hveragerði fannst upp-lagt að opna einstakan veitingastað þarsem bjórinn væri bruggaður á staðn-
um. Reyndar var það kannski bjóráhugi bónd-
ans sem kom ævintýrinu af stað en Elvar Þrast-
arson hafði lengi gengið með þá hugmynd í
maganum að opna brugghús og veitingastað.
Kona hans, Laufey Sif Lárusdóttir, sem er
innfæddur Hvergerðingur, var til í slaginn og
opnuðu hjónin staðinn Ölverk í maí á síðasta ári,
ásamt vini þeirra Ragnari Karli Gústafssyni.
Þau byrjuðu í matargerð en brugggerðin hófst í
október síðastliðnum og segir Laufey bæði
heimamenn og ferðamenn vera hæstánægða
með þessa viðbót í veitingahúsaflóru bæjarins.
Jarðgufan notuð til bjórframleiðslu
Það sem gerir Ölverksbjórinn einstakan er að
hann er bruggaður með jarðgufu sem ekki
skortir í bænum.
„Við ákváðum strax að við vildum nýta jarð-
varma í bruggframleiðslunni. Við erum staðsett
í Hveragerði og nýting jarðgufu í atvinnurekstri
einkennir sögu bæjarins svo það var aldrei
spurning um hvort við myndum vilja nýta þessa
orkulind. Við erum eitt örfárra brugghúsa í
heiminum sem nýta þessa framleiðslutækni og
höfum þannig skapað okkur vissa sérstöðu,“
segir hún.
Laufey útskýrir að í venjulegri bjórfram-
leiðslu þurfi rafmagn til þess að hita upp vatn en
þau nýta 150 gráðu heita gufu sem hitar upp
bruggið, en það þarf að ná 110°C til þess að það
sé heilnæmt.
Laufey rifjar upp upphaf ævintýrisins.
„Maðurinn minn byrjaði sem heimabruggari.
Hann yfirtók garðskúrinn okkar og henti öllum
garðtólunum út og sat gjarnan þar á hækjum
sér að brugga. Humlalyktin lá yfir hverfinu og
héldu án efa einhverjir nágrannar að eitthvað
ólöglegt væri í gangi þarna,“ segir Laufey og
hlær.
Nú er bruggið flutt að mestu í Ölverk þar sem
Elvar hefur nóg pláss til að þróa nýjar tegundir
bjóra.
„Bjórinn okkar er einungis seldur hér og það
fer oft eftir í hvaða skapi Elvar er hvað er
bruggað hverju sinni. Núna er hann farinn að
hugsa um sumarbjórinn og gott ef hann er ekki
einnig farinn að leiða hugann að jólabjór,“ segir
hún en Ölverk er 300 lítra míkróbrugghús.
Pítsa með blómum eða hangikjöti
Ölverk býður upp á fleira en bjór; ekki má
gleyma matnum. „Svo erum við með eldbakaðar
pítsur en hugmyndin var að á boðstólum væri
bæði matur og drykkur. Við leggjum mikið upp
úr góðum og vönduðum pítsum; deigið er hæg-
gert á tveimur dögum og lítið ger notað þannig
að þær eru léttari í maga. Svo erum við með
létta smárétti sem við pörum saman við bjórinn
og bæði bjórostadýfu og bjórlaukssultu. Þannig
að við nýtum bjórinn í matargerðina líka,“ segir
hún.
„Við bjóðum upp á skemmtilega flippaðar
árstíðabundnar pítsur. Til dæmis um Hinsegin
daga helgina vorum við með regnbogalitaða eft-
irréttapizzu með kandýfloss, á blómstrandi dög-
um var það pítsa með ætum blómum og nú um
jólin var á boðstólum hangikjötspítsa með rauð-
káli og uppstúf, alvöru jólapítsa eins og amma
myndi gera ef hún myndi bjóða upp á pítsu á
jóladag!“ segir hún og segir þau gjarnan nota
það ferska grænmeti sem fæst í bænum.
„Í gróðurhúsum bæjarins eru ræktaðar hinar
ýmsu grænmetistegundir og jarðarber sem við
nýtum eins og við getum.“
Ekki setjið þið jarðarber á pítsur?
„Jú, við erum með mjög vinsæla eftirrétt-
arpítsu sem er með jarðarberjum, bönunum,
nutella og flórsykri.“
Eftir viðtalið var smakkað og getur blaða-
maður vottað að þessi pítsa er ekkert slor.
Fjölskyldurekið og umhverfisvænt
Var ekkert erfitt að fara út í bjórframleiðsluna?
„Nei ekki með Elvar yfir því sviði en hann er
mikill áhugamaður um bjór, með starfsreynsl-
una sem bruggmeistari og svo fór hann til Bret-
lands í skóla og nældi sér þar í gráðu í þessum
fræðum. Hann er hugmyndasmiðurinn á bakvið
bjórgerðina og matinn og svo kem ég og sé um
stjórnun og utanumhald,“ segir Laufey sem er
með menntun í notkun stafrænna miðla og
markaðssetningu.
„Svo er ég með gráðu í hússtjórnun frá Hall-
ormsstað og fyrir það nám er ég hvað eina
þakklátust í dag. Þar voru og eru kenndir
áfangar eins og hreinlætisfræði sem kemur sér
heldur betur vel í dag með Ölverk sem okkar
annað heimili og mikið um gestagang,“ segir
hún og brosir.
Laufey segir heimamenn duglega að sækja
staðinn en einnig koma margir ferðamenn
þarna við. „Sumir álpast hingað óvart inn en
aðrir koma gagngert hingað af því að þeir vita af
brugghúsinu og það er greinilegt að það er
stækkandi hópur ferðamanna sem stundar það
að heimsækja brugghús vítt og breitt um landið.
Það er þá gaman fyrir þá að smakka íslenskan
bjór sem er bruggaður á staðnum og sem ein-
ungis fæst þar. Ferðamaður er að sækjast eftir
einhverju einstöku, því sem hann fær ekki upp-
lifað annars staðar. Ölverk er fjölskyldurekið
fyrirtæki, af fólki sem býr á staðnum, við erum
umhverfisvæn með því að nota þær nátt-
úruauðlindir sem eru í boði og þetta þrennt
tikkar í viss box yfir staði sem ferðamönnum
þykja áhugaverðir og þess virði að skoða betur.“
Eru þið að vinna hér allan sólarhringinn?
„Já, nánast. Þetta er mikill skóli en skemmti-
legt og er að virka af því að við stöndum saman í
þessu ævintýri,“ segir Laufey, en þau hjón eiga
tvo drengi saman, eins árs og fimm ára.
„Þeir eru strax farnir að aðstoða á einn eða
annan hátt eða alla vega sá eldri og þykir hon-
um það mjög gaman. Styttist í að þeir fari að
æfa sig í pítsugerðinni,“ segir hún.
Bjór á sér stað og stund
Á Ölverki er oft tekið á móti hópum í bjórkynn-
ingar. Þar er farið yfir sögu bjórsins hér á landi
og hvernig bjórmenningin hefur þróast en í
sumar hyggjast hjónin fara í gang með daglegar
bjórkynningar.
„Í kynningunum tölum við um jarðhitanotk-
unina á Íslandi og um staðsetningu Hveragerðis
við Mið-Atlantshafshrygginn og þau áhrif á
svæðið. Hvernig það hjálpar okkur og hvernig
við nýtum þessa orkulind í bjórframleiðslunni,“
segir Laufey.
„Svo auðvitað smökkum við fullt af bjór og
höfum gaman.“
Elvar situr á barnum, þó ekki við bjórsull, og
svarar nokkrum spurningum blaðamanns.
Af hverju fórstu til Bretlands að læra að bjór-
gerð?
„Ég byrjaði að brugga heima hjá mér og
gekk með þann draum í maganum lengi að opna
stað eins og Ölverk þannig að fyrsta skrefið var
að læra meira og fór ég út til Bretlands til þess.
Þegar ég kom heim fékk ég strax vinnu sem
bruggmeistari hjá Ölvisholti og var þar í þrjú
ár. Svo snemma árið 2017 losnaði þetta húsnæði
við aðalgötuna hérna í Hveragerði og þá fór
boltinn að rúlla,“ segir Elvar.
Hvað er svona sérstakt við bjórinn?
„Mér þykir hann góður,“ segir hann en vill
ekki meina að hann eigi sér uppáhaldsbjór.
„Hver bjór á sér stað og stund.“
Drekkur þú mikinn bjór?
„Alltof lítinn. Ég drakk örugglega mun meira
áður en ég byrjaði að brugga.“
Morgunblaðið/Ásdís
Flippaðar pítsur
með ölinu
Hjónin Laufey og Elvar
eru samstiga í vinnunni en
saman eiga þau Ölverk.
Í Hveragerði má finna brugghúsið og veitingastaðinn Ölverk.
Eldbakaðar pítsur og smáréttir renna ljúflega niður með
heimagerðu ölinu, sem bruggað er með hjálp jarðvarmans.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Elvar hefur brennandi áhuga á bjórgerð og byrj-
aði í skúrnum heima hjá sér.
MATUR Ef baka á góðan pítsubotn er best að nota „00“ hveiti sem fæst íflestum stórverslunum. Það er fíngerðara en annað hveiti og inni-
heldur minna glúten sem hentar best fyrir pítsubakstur.
„00“ hveiti best í pítsur
22 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18.3. 2018