Morgunblaðið - 04.04.2018, Qupperneq 4
4 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 4. APRÍL 2018
Vöðuselurinn á myndinni er í hópi um 50 dýra
sem undanfarnar vikur hafa haldið til í Öxar-
firði. Vöðuselur er svipaður landsel að stærð, en
mjög ólíkur að lit. Ungir selir eru gráir með
svörtum blettum en fullvaxnir eru svart-
skjöldóttir, með svart höfuð og svartan dindil.
Vöðuselir eru félagslyndir og oftast margir sam-
an á ferðinni. Þaðan er íslenska heitið dregið.
Þeir eru árlegir gestir við Íslandsstrendur, sér-
staklega fyrir norðan, koma yfirleitt á vorin og
eru hér yfir sumarið. Í Norður-Atlantshafi eru
þrír stofnar, þeir kæpa í Barentshafi, Íslandshafi
(norðan Jan-Mayen) og við Nýfundnaland. Talið
er að vöðuselir sem hingað koma séu úr Jan-
Mayen-stofninum.
Fjölmargir vöðuselir hafa haldið sig í Öxarfirði undanfarnar vikur
Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Árlegur gestur við Íslandsstrendur
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Þegar tvö ökutæki rekast saman á
90 kílómetra hraða eru miklar líkur
á því að alvarleg slys verði. Bílar
eru eiginlega ekki hannaðir til að
verja farþega og ökumenn á svona
mikilli ferð. Þess vegna erum við að
aðskilja akstursáttir á umferðar-
miklum vegum,“ segir Sævar Helgi
Lárusson, rannsakandi á umferðar-
sviði Rannsóknarnefndar sam-
gönguslysa.
Aukinn umferðarþungi hér á
landi samfara miklum ferðamanna-
straumi síðustu ár hefur falið í sér
fleiri umferðarslys. Af fréttum af
slysum að undanförnu má ætla að
algengara sé nú en áður að bílar
fari yfir á rangan vegarhelming.
Þetta virðist hafa verið tilfellið í
tveimur alvarlegum umferðarslys-
um um helgina, við Blönduós og á
Grindavíkurvegi. Sama var uppi á
teningnum í alvarlegu slysi við
Kirkjubæjarklaustur í síðasta mán-
uði, svo dæmi séu tekin.
Sævar segir að erfitt sé að slá
neinu föstu um að slíkum slysum
hafi fjölgað. „En það liggur fyrir að
þrjú af fjórum banaslysum ársins
eru vegna framanákeyrslna. Í fyrra
voru 13 banaslys og þar af voru
þrjú vegna framanákeyrslna,“ segir
hann.
Sævar segir að með aukinni um-
ferð aukist líkurnar á slíkum slys-
um. „Þetta gerist, fólk veikist, sofn-
ar eða gleymir sér við akstur. Það
er bara þannig að mannskepnan er
ekki fullkomin. Inni á milli eru líka
óhæfir ökumenn sökum ölvunar,
fíkniefna, veikinda eða einhvers
slíks. Því miður getur þetta alltaf
gerst, að einhver fari yfir á öfugan
vegarhelming.“
Sævar segir að auk mikillar um-
ferðar sé í þessu tilliti ástæða til að
hafa áhyggjur af ástandi vega hér.
„Það er ekkert hægt að líta fram
hjá því. Áralangur niðurskurður í
viðhaldi er að koma niður á okkur
núna. Þetta vita allir sem hafa aug-
un opin þegar þeir aka um þjóðveg-
ina. Ég vona að nú verði unnið
kröftuglega í að hefja viðhald þar
sem þess er þörf.“
Þrjú banaslys vegna framanákeyrslna
Tvö alvarleg umferðarslys um helgina þar sem bíl var ekið á röngum vegarhelmingi Sérfræðingur
hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir líkurnar á slysum sem þessum aukast með aukinni umferð
Víkurfréttir/Hilmar Bragi
Slysstaður Þrír fólksbílar skullu harkalega saman á Grindavíkurvegi.
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Við erum að skoða upptökur úr
öryggismyndavélum, hvaða mann-
skapur var hér á ferðinni. Það er
auðvitað allskonar fólk sem liggur
inni á spítalanum. Þetta er tiltölu-
lega lítið verk og því ekki flókið að
taka það með sér. Verk merkt
Tolla hefur einfaldlega verið of
freistandi fyrir einhvern,“ segir
Anna Sigrún Baldursdóttir, að-
stoðarmaður forstjóra Landspítala.
Eftirprentun af verki lista-
mannsins Tolla, Morgunstemning
á Mýrunum, var stolið af gjör-
gæsludeild Landspítalans í Foss-
vogi fyrir helgi. Verkið var í her-
bergi sem ætlað er aðstandendum
á deildinni.
Verkið er ein 20 áritaðra eft-
irprentana sem Tolli færði styrkt-
arfélaginu Von að gjöf árið 2013.
Von var stofnað af starfsmönnum
gjörgæsludeildar árið 2007 og hef-
ur félagið safnað fé til að styrkja
sjúklinga og bæta húsnæði deild-
arinnar. Von kom til að mynda upp
umræddu aðstandendaherbergi
þaðan sem myndinni var stolið.
Eftirprentanir af Tolla-verkinu
voru seldar starfsmönnum deild-
arinnar og ágóðinn rann til Vonar.
Landspítalinn á umtalsvert safn
málverka og prýða verk þekktustu
listamanna þjóðarinnar veggi spít-
alans. Anna Sigrún segir að haldin
sé skrá yfir frumgerðir verka í
eigu spítalans. Málverkin séu kirfi-
lega fest upp á veggi og hún þekki
ekki dæmi þess að þeim hafi verið
stolið. Vel sé fylgst með ástandi
þeirra og hvort þau séu á sínum
stað. „Það er almennt ekki algengt
að hlutir hverfi hér á spítalanum.
Nema kannski spritt,“ segir hún.
Tolla-mynd stolið á gjörgæslu
Verið að kanna
mannaferðir í ör-
yggismyndavélum
Tolli Eftirprentun af þessu glæsi-
lega verki var stolið á Landspítala.
Ríkissaksóknari
hefur áfrýjað
máli ákæruvalds-
ins gegn Magn-
úsi Ólafi Garð-
arssyni til
Landsréttar. Er
því Tesla-
rafbifreið hans
sem lögreglan
lagði hald á enn í
vörslu lögreglu,
samkvæmt upplýsingum embættis
ríkissaksóknara, og verður það að
öllum líkindum þar til dómur
Landsréttar hefur gengið.
Magnús er stofnandi og fyrrver-
andi forstjóri kísilvers United Sili-
con í Helguvík. Hann var í byrjun
febrúar dæmdur í Héraðsdómi
Reykjaness í fjögurra mánaða fang-
elsi, skilorðsbundið, fyrir hrað-
akstur á Tesla-bifreið sinni á
Reykjanesbraut í desember 2016 og
fyrir að hafa valdið umferðarslysi.
Ákæruvaldið krafðist þess að bif-
reið Magnúsar sem hann ók í um-
rætt sinn yrði gerð upptæk á
grundvelli greinar í umferðarlögum
sem heimilar að ökutæki séu gerð
upptæk þegar um sérlega vítaverð-
an akstur er að ræða. Hérðasdóm-
ur féllst ekki á kröfuna.
Tesla enn
í vörslu
lögreglu
Bíll Ökutækið er
af Tesla-gerð.
Dómi yfir Magnúsi
Garðarssyni áfrýjað
Meiðsli þeirra sem slösuðust í
árekstri á Grindvíkurvegi á
mánudag voru minniháttar. Sjö
einstaklingar sem fluttir voru á
spítala eru útskrifaðir.
Þrír slösuðust alvarlega við
Blönduós og voru fluttir á Land-
spítalann. Ekki fengust upplýs-
ingar um líðan þeirra í gær. Aðr-
ir fjórir sem slösuðust minna
fengu aðhlynningu á Heilbrigð-
isstofnun Norðurlands.
Flestir eru
útskrifaðir
14 FLUTTIR Á SLYSADEILD
RAFVÖRUR
Dalvegi 16c | 201 Kópavogur | Sími 568 6411 | rafvorur@rafvorur.is
Amerísk
gæða heimilistæki
Þvottavél tekur 17 kg og
þurrkari tekur 10 kg