Morgunblaðið - 27.04.2018, Page 28
28 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. APRÍL 2018
✝ Guðný LindaÓladóttir fædd-
ist 2. október 1971.
Hún lést á Land-
spítalanum 17.
apríl 2018.
Foreldrar henn-
ar eru Óli Már Guð-
mundsson, f. 24.
júní 1940, d. 21.
mars 1997, og
Hrefna Guðmunds-
dóttir, f. 9. septem-
ber 1944. Bræður hennar eru
Klemens Arnarson, f. 5. janúar
1968, og Guðmundur Loftur
Ólasson, f. 21. febrúar 1976.
Eftirlifandi maki
Guðnýjar Lindu er
Markús Hallgríms-
son, f. 13. janúar
1966. Börn þeirra
eru Hallgrímur, f.
1. júlí 1988, og
Magnea Sif, f. 4.
desember 1997.
Hún átti þrjú
barnabörn, þau
eru: Róbert Máni,
Markús Júlían og
Bríanna Rós Hallgrímsbörn.
Útför Guðnýjar Lindu fer
fram frá Neskirkju í dag, 27.
apríl 2018, klukkan 13.
Þriðjudagurinn 17. apríl er
mikill sorgardagur fyrir okkar
fjölskyldu, þegar eiginkona mín
Guðný Linda Óladóttir lést á
Landspítalanum eftir stutt veik-
indi. Guðný fæddist í október
1971 og hún var hrókur alls
fagnaðar hvar sem hún fór og
var elskuleg manneskja. Leiðir
okkar lágu saman árið 1996 og
byrjuðum við búskap nokkrum
mánuðum seinna. Hallgrímur
sonur minn var strax í miklu
uppáhaldi hjá Guðnýju enda tók
hún hann sem sinn eigin og svo
fæddist Magnea Sif dóttir okkar
árið 1997, hún var augasteinn
móður sinnar. Guðný var alltaf
ákveðin og hafði mikil áhrif á líf
mitt og hvatti mig áfram, sem
varð til þess að ég fór í flug-
virkjanám í Tulsa í Bandaríkj-
unum árið 2000. Þar bjuggum
við í tvö ár öll saman og Guðný
stundaði nám í Tulsa Comm-
unity College á þessum árum.
Næsti stóri kafli í lífi okkar var
þegar Guðný fékk inngöngu í
Sussex University í Englandi
árið 2002 og bjuggum við í
Brighton, þar sem Guðný hafði
áður verið au pair hjá yndislegri
fjölskyldu sem hún var alltaf í
sambandi við. Á þessum þremur
og hálfa ári sem við bjuggum í
Brighton eignuðumst við frá-
bæra vini til lífstíðar. Við flutt-
um heim til Íslands árið 2005
eftir að ég fékk vinnu sem flug-
virki og Guðný vann við skrif-
stofustörf fram að 2011 en hætti
að vinna vegna lungnaveikinda.
Þrátt fyrir mikil veikindi var
hún samt sem áður mikil sel-
skapsmanneskja og mikill gleði-
gjafi. Líf Guðnýjar breyttist í
ágúst 2014 þegar hún fékk ann-
að tækifæri á nýju lífi með
lungnaígræðslu í Svíþjóð eftir
árs bið. Þessi þrjú og hálft ár
voru mjög viðburðarík hjá okk-
ur. Við ferðuðumst mikið er-
lendis sem innanlands enda var
það draumur hennar að ferðast
og sjá heiminn. Á þessum árum
var hún kosin formaður Sam-
taka lungnasjúklinga og sat í
stjórn Öryrkjabandalags Ís-
lands ásamt setu í nefndum
SÍBS og áttu þau störf hug
hennar og hjarta. Eiginkona
mín Guðný Linda gerði mig að
þeim manni sem ég er í dag og
er ég endalaust þakklátur fyrir
þessi 22 ár sem við fengum sam-
an. Við munum sakna þín að ei-
lífu ástin mín og „ég elska þig út
í geim, í kringum sólina og aftur
heim“, eins og þú sagðir oft við
Magneu dóttur okkar.
Hvíldu í friði elsku ástin mín.
Þinn eiginmaður
Markús Hallgrímsson og
börn.
Til Guðnýjar Lindu dóttur
minnar.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
Kveðja,
mamma.
Það er til lítill harðgerður
fugl, alpasvölungur, sem talinn
er ein harðgerðasta dýrategund
á jörðinni. Þessi litli fugl, sem
sjaldan hættir sér hingað til
lands, berst á móti vindinum, í
hvaða veðri sem er í allt að sex
mánuði án þess nokkurn tíma að
unna sér hvíldar, hvað þá stíga
til jarðar. Þessi einstaki eigin-
leiki þessa fallega fugls, að berj-
ast áfram og gefast ekki upp
þótt veður séu válynd og dökkir
skýjabólstrar allt um kring, lýs-
ir í mínum huga persónuleika og
karaktereinkennum systur
minnar sem nú er fallin frá
langt um aldur fram.
Það þarf sérstakan karakter
til að berjast í gegnum þá
sjúkrasögu sem systir mín barð-
ist í gegnum hin síðari ár. Í
mörg ár var barist við sjálfs-
ofnæmi sem hægt og hljótt eyði-
lagði alla virkni í lungum. Sú
vegferð var oft á tíðum mjög
erfið en endaði samt á svo ljúf-
sáran hátt þegar hún naut ein-
stakrar fórnfýsi líffæragjafa
sem blés í burt öllum óveðurs-
skýjum hennar og gaf henni
áframhaldandi líf. Sem var svo
eintakt.
Lífið er jú gjöf, í raun stærsta
gjöf sem hver fær, og systir mín
tók því opnum örmum eftir
lungnaskiptin. Hún hafði varla
tíma til að taka pappírinn af
pakkanum, enda þolinmæði
nokkuð sem öðrum var gefið.
Nú skyldi „liffa og njóta“. Brölt
var út um allt – bæði innanlands
og utan, með einn tvífættan eða
einn fjórfættan lafmóðan í eft-
irdragi. Allt skyldi gert í öðru
eða þriðja veldi enda læðist að
manni sá grunur að hún hafi
alltaf vitað að þau spil sem hún
hafði á hendi myndu nú ekki
fleyta henni langt.
Hin síðari ár hefur systir mín
verið óþreytandi í því að vinna
fyrir ýmis líknarsamtök enda
upplifað það á eigin skinni hvað
það óeigingjarna starf sem þar
fer fram skiptir miklu máli. Hún
gaf af sér eins og hún gat til
annarra sem stóðu frammi fyrir
þeim áskorunum sem hún hafði
þurft að berjast í gegnum hin
síðari ár. Sú fórnfýsi skipti hana
öllu máli og mótaði að miklu
leyti lífssýn hennar, sem síðan
varð grunnurinn í lífsstarfi
hennar.
Það eru um margt nöturleg
og svo óendanlega ósanngjörn
örlög að lúta í lægra haldi fyrir
krabbameini á nokkrum vikum,
þegar búið er að berjast við
annan vágest í mörg ár og rétt
merja sigur. Að ná 46 árum þeg-
ar lífaldur hennar kynslóðar
verður örugglega rúmlega 90 ár
er sorgleg staðreynd. En samt
er þetta veruleikinn sem við
okkur blasir.
Kæri Markús. Ég veit að
missir þinn er mikill. Ég vil
þakka þér fyrir einstaka fórn-
fýsi og þrautseigju í gegnum öll
árin og veikindin. Það er gott til
þess að hugsa að þið náðuð að
lifa lífinu að fullu síðustu þrjú
árin og þú fékkst aftur að upp-
lifa lífið í sinni fallegustu mynd
með systur minni. Það eru ekki
margir sem hefðu gengið í gegn-
um þennan langa kræklótta stíg
með jafn miklu æðruleysi og
þrautseigju og þú. Þú hefur alla
mína virðingu fyrir það.
Hvíl í friði, elsku systir.
Klemens.
Elskuleg frænka mín, Guðný,
lést langt um aldur fram þriðju-
daginn 17. apríl síðastliðinn.
Þegar ung kona er kvödd og
hefur barist hetjulegri baráttu
við æðri öfl og tapað setur mann
hljóðan og maður upplifir einnig
reiði yfir óréttlátum örlögum.
Hún Guðný frænka mín hafði
reynt svo margt síðustu árin og
sigrast á erfiðleikum á aðdáun-
arverðan hátt. Ég dáðist að
æðruleysi hennar og dugnaði.
Hún hafði fengið annað tækifæri
í lífinu, var svo yfirmáta þakklát
fyrir það og lifði lífinu til fulls
síðustu árin. Því er það svo
óréttlát að hún hafi fengið ann-
an banvænan sjúkdóm sem lagði
hana að velli á ótrúlega skömm-
um tíma.
Ég og Guðný ólumst upp
næstum eins og systur í Vestur-
bænum, aðeins örfá hús á milli
heimila okkar. Og þegar við vor-
um litlar voru margir sem héldu
að við værum einmitt systur,
bæði vegna þess hve mikið við
vorum saman en einnig vegna
þess að við vorum taldar líkar.
Æskan leið við leik og gleði og
við brölluðum ýmislegt saman í
góðra vina hópi. Guðný var
tveimur árum eldri en ég en
leyfði yfirleitt þessari litlu
frænku sinni að fylgja með án
þess að kvarta yfir því, allavega
þannig að ég yrði vör við. Mörg
sumur fékk ég til dæmis að
fylgja henni í sumarbúðir norð-
ur í land þar sem Ægir frændi
sem var jafngamall Guðnýju tók
á móti okkur og við þríeykið
vorum ávallt miklir og góðir
vinir. Við eyddum alltaf miklum
tíma saman hjá ömmu okkar
sem var okkar besti vinur, ætt-
móðirin sem dró alla í fjölskyld-
unni saman, þar sem allir vildu
koma og drekka kaffi, fá mjólk-
urkex eða möndluköku og þar
hittumst við Guðný yfirleitt dag-
lega. Þegar við vorum unglingar
breyttist vinskapurinn aðeins,
aldursmunurinn skipti enn
minna máli og ef eitthvað var
urðum við nánari. Við tók
skemmtilegur tími þar sem við
unnum saman, skemmtum okk-
ur saman og ferðuðumst saman.
Þegar við svo fullorðnuðumst
breyttust hlutirnir eins og oft
gerist og hjá okkur varð fjar-
lægðin meiri, en væntumþykjan
og gleðin þegar við hittumst
alltaf til staðar. Við systkina-
barnahópurinn höfum alla tíð
búið að þeim miklu tengslum og
vináttu sem sköpuðust á heimili
ömmu okkar, svo miklum að oft
hefur þótt eftirtektarvert. Við
höfum sem betur fer lagt rækt
við að viðhalda þessum
tengslum og enginn var dug-
legri en Guðný við að passa upp
á það. Reglulegir hittingar
skipulagðir víðs vegar um heim-
inn og hún yfirleitt potturinn og
pannan í því. Það er mikið skarð
í hópi okkar nú og mikill sökn-
uður en ég veit að við erum
ákveðin í að passa að halda
áfram að rækta tengsl okkar og
minnast okkar yndislegu
frænku.
Tilfinningar mínar titra og
tárakirtlarnir eru barmafullir
þegar ég kveð frænku mína allt,
allt of snemma. Elsku Markús,
Magnea, Halli, Hrefna, Klemens
og Gummi, innilegar samúðar-
kveðjur, minning um yndislega
konu mun lifa.
Saknaðarkveðja.
Sólrún Kristjánsdóttir.
Óréttlæti! Það var það fyrsta
sem kom í huga minn þegar mér
var tilkynnt um andlát vinkonu
minnar Guðnýjar Lindu Óla-
dóttur. Guðný hafði barist
hetjulega við sinn lungnasjúk-
dóm, fengið ný lungu og nýtt
tækifæri til að taka þátt í lífinu,
en fékk ekki að njóta nema í
þrjú og hálft ár.
Guðnýju kynntist ég í
Vesturbæjarskóla. Leiðir okkar
lágu ekki mikið saman í byrjun
en í Hagaskóla myndaðist með
okkur vinskapur og vinkvenn-
ahópur sem hefur haldist síðan.
Guðný kynntist klettinum sín-
um, Markúsi, og syninum Halla
og hófu þau sambúð í Kópavogi.
Stuttu seinna eignuðust þau
Magneu Sif. Ekki leið á löngu
áður en að fjölskyldan flutti til
útlanda. Ekki hafði það áhrif á
samskiptin og oft urðu símtölin
ansi löng. Stundum hafa sam-
skiptin verið lítil, stundum
meiri, en síðustu ár hefur vin-
skapurinn verið mikill og ein-
lægur.
Guðný var hörkutól, kraft-
mikil, ákveðin, hafði sterka rödd
og líka réttlætiskennd. Hún lá
ekki á skoðunum sínum og tjáði
þær þegar hún vildi að þær
heyrðust. Guðný var sönn vin-
kona, hrein og bein og góður
hlustandi.
Þegar Guðný veiktist fyrir
nokkrum árum var hún stað-
ráðin í því að breyta heiminum
ef hún fengi tækifærið til þess,
og það gerði hún heldur betur.
Hún varð formaður Samtaka
lungnasjúklinga og hafði áhrif á
marga til að skrá sig sem líf-
færagjafa.
Guðný naut þess að ferðast
og hitta fólk. Við fjölskyldan og
vinir fengum að njóta tímans
með henni töluvert undanfarin
ár. Ferðirnar okkar til Barce-
lona, Parísar, Krakár og Þakgils
eru ógleymanlegar, auk allra
göngutúranna. Zumba- og jóga-
tímarnir verða tómlegri en áður.
Við munum sakna hennar sárt.
Elsku Markús, Magnea Sif,
Halli, Hrefna og fjölskylda. Við
vottum ykkur okkar dýpstu
samúð, Guðný mun lifa í hjört-
um okkar allra um ókomna
framtíð.
Katrín, Ómar og fjölskylda.
Fyrir tveimur árum var
Guðný Linda kosin formaður
Samtaka lungnasjúklinga. Hún
kom með ferskan blæ inn í félag
okkar og var einstaklega áhuga-
öm um velgengni félagsins og
félagsmanna. Guðný sat í ýms-
um nefndum á vegum samtak-
anna, t.d. í stjórn SÍBS og fleiri.
Hæfileikar og frumkvæði Guð-
nýjar nutu sín vel innan samtak-
anna, sem við þökkum og mun-
um minnast hennar fyrir.
Samtök lungnasjúklinga
senda Markúsi, Magneu, Hall-
grími og barnabörnum, einnig
öðrum aðstandendum, innilegar
samúðarkveðjur.
Fyrir hönd stjórnar Samtaka
lungnasjúklinga,
Aldís Jónsdóttir.
Kveðja frá SÍBS
Fram undan var sumarið og
tilhlökkun þegar lóan, spóinn og
krían og aðrar vængjaðar tón-
listarverur fá einar rofið kyrrð-
ina í sveitasælunni. Vorið
breyttist skyndilega í vetur þeg-
ar dánarfregn Guðnýjar Lindu
barst okkur. Nú er litrófið
breytt og birtan hefur dofnað.
SÍBS syrgir góðan félaga og
máttarstólpa í starfi. Skarð er
fyrir skildi í Samtökum lunga-
sjúklinga þar sem Guðný starf-
aði sem formaður af miklum
eldmóð áður en kallið mikla
kom.
Nú þegar himnafaðir kallar
hana á sinn fund þá sitjum við
hin eftir hljóð og ringluð.
Hvernig má þetta vera? Það er
enginn sanngirni í því að ung
kona falli frá í blóma lífsins. Við
trúum því samt að þeir sem
deyja séu ekki horfnir. Þeir eru
aðeins komnir á undan.
Hugsanir um liðna tíð brjót-
ast fram, um þá gleði sem
Guðný var okkur öllum og það
sem er komið í stað, sorgina.
Eðlilega koma minningar upp á
yfirborðið s.s. stjórnarfundir
SÍBS þar sem Guðný var ávallt
staðföst og lagði fram mál sitt af
rökfestu og sanngirni. Jólafögn-
uður fyrir starfsfólk og stjórn
SÍBS í desember síðastliðnum
eru góðar minningar. Hún talaði
svo fallega um eiginmann sinn
og hversu mikils virði hann væri
henni. Hann var hennar besti
félagi. Hún lagði greinilega mik-
ið upp úr fjölskyldulífinu.
Ekki var hægt annað en að
þykja vænt um Guðnýju, bara
fyrir þá mannkosti sem hún bar.
Hún var áhugasöm um líf og til-
veru fjölskyldu sinnar, ættingja
og vina sinna. Guðný var hrein-
lynd, hógvær og heiðarleg
manneskja en um leið glaðvær
og einlæg. Í nálægð hennar leið
manni vel. Líkt og sólin breiddi
Guðný birtu og yl til samferða-
manna sinna. Hún hafði skoð-
anir á mönnum og málefnum og
setti mál sitt vel fram og var
sanngjörn.
Guðný var áhugasöm um vel-
ferð þeirra félaga og einstak-
linga sem störfuðu með henni.
Samtök lungnasjúklinga voru
henni mikils virði. Hún lagði sig
alla fram og átti mikinn þátt að
byggja upp þá dagskrá sem var
orðin umfangsmikil þegar hún
féll frá.
Félagar í SÍBS og aðildar-
félögum kveðja góðan félaga
með söknuði og þakklæti fyrir
samfylgdina.
Sorgin er mikil og sendum við
fjölskyldu hennar dýpstu sam-
úðarkveðju. Mannsandinn líður
ekki undir lok, minning um góða
manneskju lifir í hjarta og
minni. Líkt og sólin sem virðist
ganga undir, en alltaf heldur
áfram að lýsa.
Sveinn Guðmundsson,
formaður SÍBS.
Guðný Linda
Óladóttir
✝ Þórólfur Þor-steinsson fædd-
ist á Innri-Kleif í
Breiðdal 24. janúar
1935. Hann lést á
heimili sínu,
Laugartúni 19a á
Svalbarðseyri, 12.
apríl 2018.
Foreldrar hans
voru Þorsteinn Sig-
tryggsson, f. 1900,
d. 1967, og Aldís
Sigurgeirsdóttir, f. 1896, d.
1988. Systkini Þórólfs: Sig-
tryggur, f. 1929, d. 2014, Árný
Elsa, f. 1933, hálfbróðir: Stein-
grímur Vigfússon, f. 1918, d.
1975.
Þórólfur kvæntist 27. desem-
ber 1964 Önnu Jóhannesdóttur
frá Hóli í Höfðahverfi, f. 1944.
Foreldrar hennar voru Jóhann-
es Jónsson og Sig-
rún Guðjónsdóttir.
Dætur Þórólfs
og Önnu eru: 1)
Þórdís, f. 9. ágúst
1965. Eiginmaður
hennar er Þorvald-
ur Vestmann, f.
1963. Börn Þórdís-
ar: Eva Dís Guð-
mundsdóttir, f.
1987, og Bjarki Þór
Guðmundsson, f.
1990. Eva Dís á soninn Daníel
Snæ, f. 2013, og Bjarki Þór dótt-
urina Aríönu Ísis, f. 2015. 2)
Árný Sveina, f. 16. júlí 1969.
Eiginmaður hennar er Tryggvi
Jónsson, f. 1965, og dóttir þeirra
Anna Stella, f. 2000.
Útför Þórólfs fer fram frá
Svalbarðskirkju í dag, 27. apríl
2018, klukkan 13.30.
Kynni okkar Þórólfs Þor-
steinssonar hófust fyrir um það
bil 70 árum þegar hann fluttist
með foreldrum og systkinum úr
Breiðdal, að Hvalnesi við Stöðv-
arfjörð, þar sem þau bjuggu í
nokkur ár, en fluttu síðar yfir í
kauptúnið. Tóti byrjaði mjög ung-
ur að vinna, eins og títt var á þeim
árum. Fyrst við búskapinn, en
síðan réðst hann til sjóróðra á
trillubáti með þekktum aflamanni
og sjósóknara, Þorgrími Vil-
bergssyni á Stöðvarfirði, og vann
hjá honum bæði á sjó og í landi
um nokkurt skeið. En lífið var
ekki bara vinna, Tóti var virkur
þátttakandi í leikjum og ærslum
æskunnar á Stöðvarfirði, þegar
hlé varð á róðrum og annarri
vinnu og/eða skóla. Hann hefur
líklega verið 16 ára þegar hann
tók þá sjálfstæðu ákvörðun að
ráða sig í kaupavinnu norður til
Eyjafjarðar. Lengst var hann
kaupamaður á Skipalóni, eða 13
ár, og vann þá stundum utan
heimilis, og við Eyjafjörð bjó
hann og starfaði alla tíð. Hann
vann á ýmsum stöðum bæði á sjó
og í landi, eftirsóttur enda bæði
hagur og duglegur. Endurminn-
ingar mínar um samveru okkar
Tóta á sumarmánuðum 1984 og
85, þegar við rerum saman á
trillubáti sem ég átti á Stöðvar-
firði, fiskuðum vel og ræddum
margt, hér vorum við sannarlega
á heimavelli, við rifjuðum oft upp
þennan tíma.
Tóti var gæfumaður í einkalífi.
Hann kvæntist 27.12. 1964 Önnu
Jóhannesdóttur frá Hóli í Grýtu-
bakkahreppi. Þau bjuggu nánast
allan sinn búskap á Svalbarðs-
eyri, fyrst í Sunnuhvoli, en í bíl-
skúrnum þar rak Tóti verkstæði
um nokkurt skeið. Þau byggðu
sér síðar íbúð í raðhúsi í Laugat-
úni 19a og fluttu þangað 1980. Ár-
ið 1995 lentu þau hjón í alvarlegu
rútuslysi í Hrútafirði og slösuðust
bæði, en hann þó enn verr. Ég
held að Tóti hafi í raun aldrei bor-
ið sitt barr eftir það.
Gagnkvæmar heimsóknir fjöl-
skyldna okkar eru fjölmargar í
gegnum tíðina og fyrir þær er nú
þakkað af heilum hug. Tóti spilaði
oft fyrir okkur á harmónikuna og
sungum við gjarnan hér fyrr á ár-
um, þá var gjarnan skálað. Ég
rifja einnig upp eitt sinn þegar ég
kom til þeirra Tóta og Önnu. Ég
stoppaði hjá þeim í nokkra daga
en þegar ég fór tók ég hann með
og við fórum norður um og gistum
fyrir sunnan en héldum svo áfram
ferðinni til Hafnar, þar sem hann
stoppaði hjá mér í nokkra daga.
Þegar lagt var upp í þessa ferð
vorum við vel nestaðir af neftób-
aki, sem við notuðum á þeim tíma
báðir, og allar eldhúsrúllubirgðir
heimilisins fyrir norðan hurfu.
Þær Anna og Þórdís grínuðust oft
með að ég hefði rænt Tóta.
Einkar ljúft er að minnast síðustu
samverustunda okkar síðastliðið
haust, þegar við Þórey heimsótt-
um þau hjónin í sumarhús við
Eiðavatn, en þá náðum við að fara
öll saman í mjög góðu veðri niður
yfir Breiðdalsheiði um Breiðdal
og Stöðvarfjörð.
Ég og fjölskyldan öll sendum
Önnu, Þórdísi, Árnýju Sveinu og
þeirra fjölskyldum hjartans sam-
úðarkveðjur.
Kæri vinur, við hittumst síðar.
Björn Kristjánsson (Bjössi).
Þórólfur
Þorsteinsson