Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.04.2018, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.04.2018, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22.4. 2018 H ún er fíkill í bata, sportlega klædda konan á fertugsaldri sem bíður á kaffihúsinu. Krist- ín, sem kýs að gefa ekki upp föðurnafnið, eygir nú von um betra líf en í áraraðir hefur hún verið háð ópí- umskyldum lyfjum. Það er einungis rúmt hálft ár síðan hún kom síðast úr meðferð; vonandi þeirri síðastu af mörgum. Kristín hefur lengi búið í hryllingsheimi eit- urlyfja og hefur margoft verið við dauðans dyr. Hún er eins og köttur með níu líf, en segist lík- lega búin með öll sín níu. Nú vandar hún sig svo hún fari ekki sömu leið og margir vinir hennar, í gröfina langt fyrir aldur fram. „Við sem lendum í þessum heimi verðum ekki mörg edrú,“ segir Kristín alvarleg. Markeruð á sál og líkama Á móti mér situr hún, útitekin, ljóshærð kona með blá augu og stórt bros, en mörkuð á sál og líkama eftir neysluna. Hún er með stórt ör á miðjum hálsi, eftir slöngur öndunarvélar og handleggirnir eru alsettir örum eftir spraut- urnar. Aðspurð segir hún æskuna hafa verið góða; hún fékk gott uppeldi þar sem hvorki skorti ást né umhyggju. „Þau hafa auðvitað lokað á mig þegar ég hef verið í neyslu. En ég á falleg sam- skipti við fjölskylduna í dag,“ segir hún. Þegar unglingsárunum lauk gerðist hún fé- lagsliði og nuddari, svo þriggja barna móðir og eiginkona. Það var áður en fíknin tók öll völd. Kristín hefur upplifað margt á þessari veg- ferð með fíkniefnum, eins og að fá lifrarbólgu C, sem hún er nú laus við. „Ástæðan fyrir því að ég fékk lifrarbólgu var að ég klikkaði einu sinni,“ segir Kristín og út- skýrir að hún hafi eitt sinn sprautað sig með sömu sprautu og önnur stelpa sem smituð var. „Ég vissi alveg hvað myndi gerast.“ Vissir þú að þú fengir lifrarbólgu ef þú sprautaðir þig með þessari sprautu? „Já.“ En þú gerðir það samt. „Já. Fíknin var þannig.“ Kvalin af sjúkdómi En við byrjum á byrjuninni. Upphaf þessarar þrautargöngu Kristínar hófst inni á sjúkrahúsi en veikindi komu af stað atburðarás sem litaði allt hennar líf. „Ég veikist 2004 og var þá greind með leg- slímuflakk (endómetríósa), eftir að hafa verið mis- greind í fyrri aðgerð. Ég fór inn á spítala á 25 ára afmælisdaginn og þá byrjaði boltinn að rúlla; það var alltaf verið að reyna að verkjastilla mig. Ég byrjaði að fá parkódín, svo parkódín forte og svo sterkari verkjalyf. Ég fór í þrettán kviðarhols- aðgerðir á árunum 2004 til 2011. Þeir byrjuðu á að taka hægri eggjastokkinn en þá versnaði ég og þá tóku þeir legið og svo tóku þeir vinstri eggja- stokkinn. Ég var samt alltaf svo kvalin og svo kom í ljós að annar eggjastokkurinn var kominn aftur, hann óx aftur. Ég er fyrsta konan á Íslandi sem lendir í því en læknirinn hélt að hann væri orðinn geðveikur. Þetta gerðist í þrígang. Þarna á árunum 2004 til 2009 fór ég úr parkódíni í oxycontin. Einhvers staðar á þessu tímabili varð ég fíkill,“ segir hún. Með fulla plastpoka af morfíni Aldrei hefði Kristínu dottið í hug að hún ætti eftir að enda sem forfallinn fíkill. Sem ungling- ur og ung kona fór hún út að skemmta sér eins og aðrir á hennar reki. „Mér fannst gaman að djamma áður en ég var aldrei í fíkniefnum og reykti ekki. Ég var íþróttamanneskja. Það er mikill alkóhólismi í báðum ættum og ég hefði kannski þróað það með mér með tímanum, eða ekki. En ég hefði ekki farið út í fíkniefni, ég var þarna eiginkona með þrjú börn,“ segir hún og rekur sína sögu. „Ég eignast fyrsta barnið tvítug og skildi svo við barnsföður minn þegar strákurinn var tveggja ára. Þegar ég var 23 ára kynntist ég fyrrverandi manninum mínum og var með hon- um í átta ár. Hann á stelpu fyrir sem ég tók sem mína eigin og svo eignuðumst við barn 2006 og vorum saman til 2011. Við vorum mjög ham- ingjusöm og það gekk allt vel þar til ég veiktist og allt fór í klessu,“ segir hún og útskýrir betur veikindin. „Þarna árið 2009 var ég búin að fara í fjölda aðgerða. Ég var komin á oxycontin en þá fóru verkirnir að leiða niður fótinn og ég var þá lögð inn á taugadeildina. En vegna læknamistaka í einni aðgerðinni hafði verið skorið á taug. Ég var í sjö vikur á taugadeildinni en þeir voru þrjár vikur að ná verkjaköstunum niður og ég endaði með mænudeyfingu, með sterkustu morfín- blönduna. Og var með þessa blöndu í tíu daga,“ segir hún en hún greindist á þessum tíma með taugaverkjasjúkdóminn RSD/CRPS. „Hann er svakalegur. Brunaverkir og eins og beinin séu að springa,“ lýsir hún og heldur áfram að rekja söguna. „Í janúar 2010 fór ég á Grensás í endurhæfingu. Ég fór þaðan með tvo plastpoka fulla af lyfjum með mér heim. Taugalyf, róandi, sterk verkjalyf. Þarna labbaði ég heim með hreint morfín og sprautur. Ég átti að sprauta mig undir húð þegar ég væri mjög slæm en þarna var ég búin að þróa þessa fíkn með mér og var með hreint morfín í höndunum. Ég náttúrlega bara elskaði þetta. Á einhverjum tímapunkti er ég farin að sprauta mig í æðarnar á fullu. Ég gerði mér enga grein fyrir því að ég væri orðin fíkill og það kóuðu flestir með mér, eiginkonunni með þrjú börn. Ég gerði þetta allt ómeðvitað og sá engan veginn hvað ég var komin út í. Ég man eftir einu skipti þegar ég jók skammtinn. Ég man eftir vímunni sem kom í hausinn á mér. Mér leið vel, eins og ég væri í himnaríki,“ segir hún. Himnaríki sem átti fljótt eftir að breytast í hreinasta helvíti. Missti allt á tveimur mánuðum „Hjónabandið var að fara í vaskinn vegna neyslu minnar og árið 2011 sáu allir hvernig var komið fyrir mér og fólk sagði að ég yrði að fara í afeitr- un. Ég fór í fyrstu afeitrunina í ágúst 2011 og skildi við manninn minn þar um sumarið. Í með- ferð kynntist ég kærasta mínum og var með honum í fimm ár. Við vorum meira og minna edrú í tvö ár en þegar ég fór í fyrstu meðferðina trúði ég ekki að ég væri alkóhólisti, ekki séns,“ segir hún og brosir út í annað. „Árið 2012 féll kærastinn minn og ég datt í það í kjölfarið og fór að prófa amfetamín, kók- aín og rítalín, allt í nefið. Svo fór ég aftur í með- ferð, í þriðja sinn og var þá edrú í 15 mánuði. Þá viðurkenndi ég loksins að ég væri alkóhólisti og hefði ekki stjórn. En ég var ennþá með krón- ískan taugasjúkdóminn og legslímuflakkið og þurfti að taka ábyrgð á edrúmennskunni. Ég þurfti að vera á einhverjum lyfjum og svo féll ég 26. janúar 2014 og á tveimur mánuðum var ég búin að missa allt frá mér. Ég fór að sprauta mig aftur,“ segir hún. „Það var allt farið, börnin fóru til feðra sinna og allt innbúið og milljón króna bíllinn minn, allt farið í handleggina á mér,“ segir Kristín sem hafði fram að þeim tíma haldið heimili með börnum sínum. Áður hafði hún dottið út af vinnumarkaði árið 2007 sökum veikindanna og hafði verið úrskurðuð öryrki. Í dag er sonurinn átján, fósturdóttirin fimm- tán og yngsta dóttirin tólf ára. „Hún fagnaði nýlega tólf ára afmæli og ég sex mánaða edrúmennsku,“ segir Kristín og segist þakklát fyrir að fá að taka aftur þátt í lífi barna sinna. Í dái í heilan mánuð Á árunum 2014 til 2017 var Kristín inn og út úr meðferðum. Árið 2014 fékk hún heiftarlegar sýk- ingar í blóð og í hjartalokur. „Ég lá í dái í fjórar vikur og mér var ekki hugað líf. Það var bara beðið eftir að það myndi slokkna á mér. Fyrir kraftaverk vaknaði ég af þessu og er í rúma tvo mánuði á spítala. Þaðan fór ég á deild 33 og var með sýklalyf í æð í sex vikur og fór svo á áfanga- heimili en viku seinna er ég dottin í það. Og mán- uði eftir það er ég komin aftur á gjörgæslu með sýkingu. Og svona er saga mín búin að vera. Ég er búin að fá sex eða sjö sýkingar í blóð og hjartalokurnar og ég er komin með svo miklar skemmdir í míturlokurnar að það þarf að skipta um þær,“ segir hún. Kristín segist hafa mætt fordómum á bráða- móttökunni en þangað þurfti hún oft að leita vegna ofneyslu eiturlyfja en einnig vegna taugaverkja, fylgikvilla taugasjúkdómsins. „Það eru endalaus „overdose“ og ég fæ enga fagaðstoð því ég er dæmdur fíkill, ég get ekki farið upp á slysó í taugaverkjakasti af því ég fæ ekki viðeigandi hjálp. Það er bara sagt, þú ert fíkill. Þá gleymist bara allt hitt. Ég er rauð- merkt í skýrslunum,“ segir hún. „Hinn 6. ágúst fór ég á bráðamóttöku með sýkingu og ég var mjög hætt komin, ég átti bara nokkra daga eftir, var gangandi tímasprengja. Ég sagði við þá að þeir yrðu að taka blóðprufu og óma hjartað í mér því það hafði verið sagt við mig í mars, ein sýking í viðbót og þú deyrð. Og ég sagði bara, fínt, leyfið mér bara að fara út og deyja. En þegar ég kom þangað þennan dag var ég undir áhrifum og rosalega illa á mig komin. Hjúkrunarkona tók lífsmörk á mér og sendi mig svo fram í biðstofu,“ segir hún. Hún fékk svo að hitta lækni eftir tvo tíma. „Hann skrifaði upp á sýklalyf í töfluformi en ég sagði honum að ég yrði að komast í meðferð, ég mætti ekki fá aðra sýkingu. Hann sendi mig bara út í opinn dauðann. Þetta eru bara for- dómar,“ segir hún en bætir svo við: „En ég hef líka fengið frábæra þjónustu, eins og á gjör- gæslunni. Og margir hafa viljað allt fyrir mig gera en maður finnur að það er mikill fjár- skortur,“ segir Kristín. Tveimur dögum síðar komst hún svo aftur í meðferð. „SÁÁ hefur bjargað mínu lífi. Þeir taka við mér aftur og aftur. Þeir hafa trú á öllu. Ég spurði síðast, af hverju þetta ætti að takast núna. Svarið sem ég fékk var, af hverju ætti þetta ekki að takast núna?“ Ákvað að deyja Áður en hún varð edrú, í ágúst á síðasta ári, var hún komin á endastöð. „Síðasta sumar var ég búin að ákveða að ég ætlaði að deyja úr þessum sjúkdómi. Ég ætlaði bara að klára þetta. En dóttir mín, þá ellefu ára gömul, samdi lag til mín. Í laginu er hún að grát- biðja mömmu sína að fara ekki frá sér. Hún var búin að segja að ég ætti að hlusta á þetta lag næst þegar við myndum hittast en ég sagði að það yrði ekkert næst. Ég bað pabba hennar og fósturmömmu að fara að undirbúa krakkana en sagði dóttur minni að senda mér myndbandið með laginu strax, sem fósturmamma hennar gerði,“ segir Kristín. Hún hlustaði á lagið og það fékk mjög á hana. „Ég bara brotnaði, gjörsam- lega. Þá fór ég að hugsa, ég á þrjú börn sem ég elska út af lífinu. Ég á foreldra sem ég var að ganga frá af áhyggjum. Ég á bróður og frænd- fólk og vinkonur. En ég var orðin viss um það að það væri bara best að ég væri undir grænni torfu. Og ég hélt það af öllu hjarta, því auðvitað var fólk búið að loka á mig,“ segir hún. „Ég kaus ekki að labba í burtu frá öllu saman en fíknin yfirtók allt saman,“ segir hún. Rændi þá sem vildu kaupa vændi Hvernig fjármagnaðir þú neysluna? „Ég rændi perra. Ég rændi þá sem ætluðu að kaupa mig. Ég hikaði ekki við það, þetta eru menn að notfæra sér ástand fársjúkra kvenna. Ég hef aldrei selt mig, ég dró línuna þar og er rosalega þakklát fyrir það í dag. Ég seldi allt. Ég keypti stundum rítalín og seldi helminginn dýrara en ég keypti á. Maður þarf að vera út- sjónarsamur, en ég var ekki í innbrotum eða ránum, nema af þessum giftu mönnum. Oft mönnum í áhrifastöðum. Auðvitað er það ekkert í lagi,“ segir hún. Hvað kostaði neyslan á dag? „Ef ég ætlaði að eiga „góða neyslu“ þá kost- aði það um 44 þúsund á dag. Lífið snerist um það um leið og maður vaknaði að redda sér fyrir næsta skammti. Ég reyndi alltaf að vera á und- an áætlun svo ég myndi ekki verða veik.“ Hvernig tilfinning er það, fráhvörfin? „Þér finnst líkaminn þinn vera að öskra. Hann öskrar. Og þú verður bara vitstola af verkjum, af fráhvörfum. Hjartslátturinn fer Fíknin yfirtók allt Þegar Kristín var komin á botninn og búin að fara í sautján meðferðir, liggja í dái í mánuð og búa við hrylling fíknarinnar í langan tíma ákvað hún að deyja. Lag sem yngsta dóttirin samdi til hennar þar sem hún grátbað mömmu sína að fara ekki frá sér breytti öllu. Kristín ákvað að reyna enn einu sinni að brjótast úr heimi neyslunnar en hún ánetjaðist morfíni eftir alvarleg veikindi. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is ’Ég fór þaðan með tvo plastpokafulla af lyfjum með mér heim.Taugalyf, róandi, sterk verkjalyf.Þarna labbaði ég heim með hreint morfín og sprautur. Ég átti að sprauta mig undir húð þegar ég væri mjög slæm en þarna var ég bú- in að þróa þessa fíkn með mér og var með hreint morfín í höndunum.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.