Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.04.2018, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.04.2018, Blaðsíða 18
S tríðið endalausa í Sýrlandi virðist óralangt frá Íslandi og er það í hugum margra. Fáir Íslendingar hafa lagt leið sína þangað, enda eitt hættulegasta svæði jarðar um þessar mundir. Því kom það öllum í opna skjöldu að heyra um meint andlát ungs Íslend- ings þar, en fréttir af því bárust í byrjun mars. Haukur Hilmarsson er talinn hafa fallið í loft- árás tyrkneska hersins 24. febrúar, en hann barðist með Kúrdum í Sýrlandi. Móðir hans, Eva Hauksdóttir, vissi ekki um fyrirætlanir sonar síns að fara til Sýrlands og segir það hafa verið áfall að frétta af honum þar. Þrátt fyrir að hún hafi lengi leitað svara er enn flest á huldu um afdrif Hauks, en ekkert hefur til hans spurst síðan í byrjun febrúar. Eva hefur ekki gefið upp alla von þótt hún bú- ist ekki við að hitta son sinn aftur. Sendir Erdogan móðgunarpósta Eva hefur ekki gefið upp alla von en segir ekk- ert nýtt hafa komið fram í leitinni að Hauki á síðustu vikum. Hún hefur gagnrýnt íslensk stjórnvöld sem hún segir hafa geta staðið sig betur. Eva segist ósátt við að stjórnvöld hafi ekki aflað upplýsinga varðandi fréttir tyrk- neskra fjölmiðla í mars um að Tyrkir væru með lík Hauks og ætluðu að skila því heim. „Mér skilst að utanríkisráðuneytið hafi látið einhverja hafa samband við einhverja sem höfðu samband við einhverja sem vita ekkert. Ráðuneytið sjálft hefur ekkert haft samband við þessa fjölmiðla. Mér finnst það lélegt, en ég hef svo sem engar væntingar til íslenskrar stjórnsýslu. Rannsóknin hjá lögreglunni hefur farið þannig fram að þeir bjuggu til málsnúmer og biðu svo eftir að upplýsingar kæmu til þeirra. Mér finnst það mjög einkennileg rann- sóknaraðferð á mannshvarfi,“ segir Eva. „Ég hélt fyrst að utanríkisráðuneytið gæti aflað upplýsinga en þetta virðist bara vera ein- hvers konar viðskiptaráðuneyti. Ég held ekki að málið sé að þau vilji ekki gera þetta vel, heldur að þau séu bara algjörlega úrræðalaus. Það kemur t.d. fram í gögnum frá þeim að þau hafi fylgt leiðbeiningum tyrknesku lögregl- unnar um upplýsingaöflun. Við erum að tala um ríki þar sem yfirvöld skilgreina alla and- spyrnumenn sem hryðjuverkamenn. Og í raun alla sem standa gegn þeim, þar með talinn Macron Frakklandsforseta. Þetta eru ráð- gjafar utanríkisráðuneytisins – tyrknesk stjórnvöld sem líta á Hauk sem hryðjuverka- mann. Ég hef ákveðna samúð með þeim því þetta sýnir bara að þau vita ekkert hvernig þau eiga að snúa sér.“ Hefur þú sjálf reynt að afla upplýsinga eða haft sjálf samband við tyrknesk stjórnvöld? „Nei, ekki tyrknesk stjórnvöld, við vorum strax vöruð við því. Það gæti verið hættulegt og hefði örugglega ekkert upp á sig. Við höfum hins vegar verið í sambandi við þessar kúrd- ísku hreyfingar sem Haukur var að vinna með og blaðamenn sem eru að reyna að afla upplýs- inga,“ segir Eva en segist sjálf efast um að tyrknesk stjórnvöld hafi nokkrar upplýsingar um málið. „Og ef þau hafa upplýsingar hef ég ekki trú á að þau myndu láta þær af hendi. Þau væru búin að því ef þau vissu eitthvað og vildu upp- lýsa okkur um það.“ Þú hefur verið að skrifa bréf til Erdogan, hvers vegna? „Já, ég hef skrifað Erdogan nokkra móðg- unarpósta. Sumir virðast halda að ég sé að því til þess að fá svör. Það er ekki málið, mér finnst ég hafa rétt á því að móðga stríðsglæpamenn og fasista og mér finnst fáránlegt að það skuli vera í gildi íslensk lög sem vernda mestu drullusokka veraldar sérstaklega. Ég vil að þessi lög verði afnumin. Ég áskil mér rétt til þess að ausa skít yfir hvern þann fasista sem mér sýnist, hvenær sem mér sýnist. Ef Íslend- ingar eru tilbúnir að halda í þessi fornaldarlög er ég tilbúin að láta reyna á tjáningarfrelsi mitt fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Það er hneisa að þessi lög skuli vera í gildi.“ Styður ekki för vina Hauks Nú hefur komið fram að vinir Hauks vilja fara til Sýrlands að leita svara. Er það í bígerð? „Já, það er í bígerð en ég vona að það verði ekki gert fyrr en það er óhætt. Um daginn mættu nokkrir vinir Hauks á þingpallana og Lárus Páll Birgisson sjúkraliði kom þeim skilaboðum áleiðis að stjórnvöld ættu að greiða fyrir för þeirra til Afrin með því að semja við tyrknesk stjórnvöld um að hleypa þeim inn á svæðið. Það eru fleiri en fjölskyldan sem finnst óbærilegt að fá ekki staðfestingu á því hvort Haukur er lífs eða liðinn.“ Veistu hvenær þau ætla að fara? „Nei. Það setur skiljanlega ugg að fólki við þá tilhugsun að fleiri setji sig í hættu og í kjöl- farið hafði maður á sjötugsaldri samband við utanríkisráðuneytið og spurði hvort væri frek- ar hægt að greiða fyrir leiðangri eldri borgara á svæðið. Það getur nefnilega verið að Tyrkj- um stæði ógn af Lalla sjúkraliða því hann hef- ur tvívegis verið handtekinn fyrir að ógna er- lendu ríki,“ segir Eva í háði og útskýrir að Lárus hafi staðið fyrir utan bandaríska sendi- ráðið með pappaspjöld og mótmælt stríði. „Þessari beiðni var synjað. Skiljanlega telur utanríkisráðuneytið ekki rétt að stjórnvöld greiði fyrir því að fólk fari á hættusvæði.“ Styður þú það að vinir Hauks fari út og leggi sig í hættu? „Ég vil alls ekki að þeir geri það. Ég ræð því ekki, en ég hef beðið fólk að bíða aðeins og ég trúi því að þau muni bíða,“ segir hún og bætir við: „Mér finnst sjálfsagt að kanna mögu- leikana og fara á stúfana seinna þegar það er óhætt. Þessi hópur er í sambandi við blaða- menn sem vita hvernig er öruggast að komast inn á svæðið. Hvar eru minnstu líkur á að mað- ur verði skotinn. En mér þykir vænt um vini Hauks og ég vil ekki að fleiri fjölskyldur missi börnin sín eða systkini.“ Mjög reið og hneyskluð Nú eru komnir næstum tveir mánuðir síðan hann hvarf. Er enn von um að hann sé á lífi? „Á meðan við höfum engar sannanir um að hann sé látinn er auðvitað von. Ég vona að ég muni sjá hann aftur en reikna ekki sérstaklega með því.“ Hvernig er samband ykkar? „Samband okkar hefur alltaf verið mjög náið og sennilega óvenjunáið. Við höfum verið alveg óskaplega góðir vinir og aldrei hefur borið neinn skugga á þá vináttu. Ég hef aldrei reiðst Hauki fyrr en ég frétti af þessu,“ segir Eva, en hún vissi ekki að Haukur ætlaði til Sýrlands til að taka þátt í vopnuðum átökum. Varstu þá reið út í hann að hafa farið til Sýr- lands? „Ég var mjög reið yfir því að hann skyldi setja sig í lífshættu án þess að láta mig eða pabba sinn vita, en auðvitað vissi hann að ég hefði gert allt til að stoppa hann. Já, ég var reið, og hneyksluð á honum fyrir að fara þessa leið að því að styðja Kúrda þótt ég hafi fullan skilning á málstaðnum. Ég hef aldrei beinlínis reiðst honum áður, þótt stundum hafi fokið að- eins í mig. Þetta var áfall.“ Veistu hvað það var sem rak hann á þennan stað, af hverju honum fannst hann þurfa að ganga svona langt að taka beinan þátt í stríði? „Hann útskýrði sjálfur í myndbandi að í Ro- java væri eina alvöru lýðræðistilraunin í Mið- austurlöndum. Hauk hefur alltaf langað til að taka þátt í einhvers konar byltingu þótt ég hafi nú ekki haldið að hann myndi beita vopnavaldi sjálfur. Þarna er bæði í gangi samfélagsleg bylting og alvöru lýðræðistilraun sem honum fannst ríma við sinn anarkisma. Hann hefur líka ofboðslega andúð á fasisma,“ segir Eva. „Maður hefur séð myndbönd þar sem ísl- amska ríkið brenndi flugmann lifandi. Þeir krossfesta fólk opinberlega, þeir hafa háls- höggvið menn og raðað hausunum á grindverk á stærsta torgi Raqqa. Það eru til myndir af þessu á netinu og auðvitað misbýður öllu sæmilegu fólki. En flest okkar eru ekki sæmi- legt fólk, flest okkar horfa bara í hina áttina,“ segir Eva. „Haukur segir í þessu myndbandi að við höf- um engan rétt til þess að dást að þeim sem standa í þessari baráttu og gera svo ekkert sjálf, lyfta ekki litla fingri. Og það er alveg rétt hjá honum. En hins vegar ber okkur ekki skylda til að stefna lífi okkar í voða. Við eigum að styðja ofsótta eftir pólitískum leiðum, en það er enginn vilji til þess. Það er ekki einu sinni vilji til þess að lýsa yfir stuðningi við Kúrda.“ Evu er mikið niðri fyrir. „Við skrifum ekki einu sinni undir undir- skriftalista, við gerum ekkert. Flestum er and- skotans sama. Haukur er ekki aumingi, en hann fór ansi langt í hina áttina. Ég vona að aðrir taki hans hugrekki ekki til fyrirmyndar.“ Klikkaður raunveruleiki Finnst þér þetta vera hetjuskapur? „Hetjuskapur? Samkvæmt orðabókarskil- greiningu er Haukur hetja. Hvort það gleður mig er svo annað mál. Það skiptir mig engu máli hvort sonur minn er heigull eða hetja, hann er bara Haukur í mínum huga. En já, hetja er sá sem vinnur afrek, tekst á við ofur- efli og gengur ótrauður til móts við miklar hættur. Þá er hann hetja. Og ég vildi óska að hann hefði ekki verið svona mikil hetja.“ Það var svo undarlegt að lesa um það að hann hefði verið gerður að liðsforingja eftir að- eins tveggja vikna þjálfun. „Það er þessi dauðans óvissa“ Þjóðin var slegin þegar fréttir bárust í byrjun mars um að Íslendingur væri mögulega fórnarlamb stríðsins í Sýrlandi. Nú um tveimur mánuðum síðar hefur enn ekki tekist að finna Hauk Hilmarsson, lífs eða liðinn. Móðir hans Eva Hauksdóttir segist lifa í voninni þó að sú vonartýra sé dauf. Hún talar um sorgina og reiðina og um byltingar- manninn son sinn sem vissi vel að hann væri að stofna lífi sínu í hættu. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is ’ Ég var mjög reið yfir því aðhann skyldi setja sig í lífs-hættu án þess að láta mig eðapabba sinn vita, en auðvitað vissi hann að ég hefði gert allt til að stoppa hann. Já, ég var reið, og hneyksluð á honum fyrir að fara þessa leið að því að styðja Kúrda þótt ég hafi fullan skilning á málstaðnum. Ég hef aldrei beinlínis reiðst honum áður, þótt stundum hafi fokið aðeins í mig. Þetta var áfall. Fjölskyldan saman árið 2010, Eva og synir henn- ar tveir, Darri og Haukur Hilmarssynir. Ljósmynd/Ingólfur Júlíusson VIÐTAL 18 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22.4. 2018

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.