Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.07.2018, Síða 17
1.7. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17
ekki síst eftir að einhver óprúttinn netverji komst í mynd-
bandið og skeytti við það þemalaginu úr teiknimyndunum
„Sögur úr Andabæ“.
Kvennabanni Írana aflétt – í bili
Íranar unnu dramatískan og sögulegan sigur á Marokkó í
fyrsta sigurleik sínum á HM síðan 1998 þegar eina mark
leiksins kom á 95. mínútu. Á áhorfendapöllunum mátti einn-
ig sjá vísi að öðrum sögulegum sigri þar sem áhangendur
liðsins héldu meðal annars uppi stórum borða sem á stóð
#NoBan4Women. Myllumerkið vísaði til þess að allt frá
byltingunni 1979 hafa íranskar konur ekki fengið að fylgj-
ast með knattspyrnuleikjum karla á knattspyrnuleikvöngum
– en það átti eftir að breytast. Fáeinum dögum síðar var
Azadi-leikvangurinn í Teheran nefnilega opnaður fyrir báð-
um kynjum og leik Írana gegn Spáni var sjónvarpað.
Ástæða bannsins mun að hluta til sú að trúarleiðtogar
telja rétt að vernda konur frá háhreysti og blótsyrðum
karlkyns áhangenda. Forseti landsins, Hassan Rohani, hef-
ur hins vegar ítrekað gagnrýnt bannið, sem nýtur lítilla vin-
sælda meðal almennings. Ekki eru þó allir á sama máli og
sagði ríkissaksóknarinn Mohammad Jafar Monazeri að mál-
ið væri skammarlegt.
„Sumar kvennanna tóku slæðurnar af höfðum sér og hófu
að syngja og dansa,“ sagði hann. „Þetta er vanvirðing við
píslarvotta okkar og svik við byltinguna.“
Erfitt er að segja til um hvort blandaðir leikvangar séu
komnir til að vera í Íran en knattspyrna hefur lengi valdið
yfirvöldum erfiðleikum. Þegar landsliðið vinnur leiki þeysa
bæði konur og karlar á götur út, syngjandi og dansandi, og
lögreglan má sín lítils gegn skaranum enda alls ótækt að
handtaka heila þjóð.
Frægasta aðdáandanum úthýst
Ef einhver getur eignað sér titilinn frægasti knattspyrnu-
áhangandi heims er það hinn spænski Manolo El del
Bombo. Hann heitir réttu nafni Manuel Cáceres Artesero
en gælunafnið vísar í bassatrommuna „El bombo de Esp-
aña“ sem ferðast með honum á alla leiki spænska landsliðs-
ins. Bassatromman er ekki eina sérkenni Manuels, en hann
er auðþekkjanlegur af klæðaburði sínum sem inniheldur
meðal annars alpahúfu frá Baskalandi og rauða treyju
merkta númer tólf.
Manuel og tromman góða hafa mætt á síðustu 10 heims-
meistaramót karla í knattspyrnu. Þau voru á sínum stað í
fyrsta leik Spánverja en síðan þá hafa öryggisverðir meinað
Spánartrommunni inngöngu í stúkurnar. Manuel er eðlilega
í öngum sínum vegna málsins og hefur biðlað til spænska
knattspyrnusambandsins og jafnvel Rússlandsforseta eftir
aðstoð
„Pútín, vinur, hjálpaðu vini,“ sönglaði hann fyrir fjöl-
miðlamenn eftir æfingu spænska liðsins í liðinni viku og
felldi jafnvel tár. Óvíst er að þau nái að bræða téðan vin
enda hefur forsetinn litla ástæðu til að aðstoða Spánverja
fyrir næsta leik þeirra. Sá er nefnilega gegn Rússlandi og
fer fram í dag, sunnudag.
Helsta baráttumál íranskra stuðningsmanna er að konum verði leyft að horfa á karla leika knattspyrnu.
AFP
Manolo El del Bombo fylgir spænska landsliðinu á öll stórmót.
Svisslendingurinn Xherdan Shaqiri fékk bágt fyrir fagn sitt gegn
Serbíu enda þótti það lykta af pólitík.
Víkingaklappið ber nafn með
rentu enda rændu Íslendingar
iðjunni af skosku félagsliði.
Kólumbíumenn fagna mörkum iðulega með samhæfðum salsasporum sem kallast „salsa choque“.