Morgunblaðið - 29.08.2018, Qupperneq 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 29. ÁGÚST 2018
✝ Edda BergljótJónasdóttir
fæddist í Reykjavík
25. desember 1933.
Hún varð bráð-
kvödd á heimili
sínu 17. ágúst 2018.
Foreldrar Eddu
voru Björg Bjarna-
dóttir, f. 1909, d.
1999, og Jónas
Ólafsson stórkaup-
maður, f. 1901, d.
1980.
Edda útskrifaðist með stúd-
entspróf frá Verslunarskólanum
1954 og starfaði lengst af sem
skrifstofustjóri á Landspítalan-
um.
Edda giftist Guðmundi Jó-
hannssyni hinn 6.11. 1955. Börn
þeirra eru: 1) Jónas, f. 1956,
kvæntur Cristinu
Guðmundsson.
Börn Jónasar eru:
1.1) Þorvaldur, f.
1983, kvæntur Zhil-
in Huang, börn
þeirra eru Steinþór
Bjarni, f. 2009, og
Vigdís, f. 2014, 1.2)
Guðmundur Ragn-
ar, f. 1996, 1.3)
Samantha Rós, f.
2008, og 1.4) Nína
Birna, f. 2009. 2) Björg, f. 1966,
gift Kristbirni Orra Guðmunds-
syni. Hennar börn eru 2.1) Edda
Lind, f. 1989, 2.2) Karen Ösp, f.
1992, og 2.3) Regína Eik, f.
2002.
Útför Eddu fer fram frá Dóm-
kirkjunni í dag, 29. ágúst 2018,
og hefst athöfnin klukkan 15.
Mamma mín var 84 ára gömul
þegar hún dó skv. fæðingardegi
en allir sem þekktu til vissu að sú
tala átti engan veginn við hana.
Mamma hafði mun betra úthald
en flest okkar og minnið var ótrú-
legt, t.d. taldi hún nýlega bílana
sem hún mætti frá sumarbú-
staðnum að Mosfellsbæ og bar
saman við umferðarþunga á ýms-
um tímapunktum síðustu áratug-
ina, tölur sem hún hafði í höfðinu.
Mamma var alltaf góð með tölur
og var á sínum tíma dúx í stærð-
fræði. Hún var líka mikil mála-
manneskja, talaði frönsku og
þýsku og réð krossgátur á ís-
lensku og ensku en flestar réð
hún á dönsku. Við komumst líka
að því úti í Ameríku að mamma
las ítölsku. „Nei, nei, ég kann
ekki ítölsku“ sagði mamma,
„þetta er auðvelt því þetta er svo
líkt latínu“. Mamma var nefnilega
líka dúx í latínu.
Móðir mín var endalaust for-
vitin, hún las mikið um lífvísindi,
var virk í garðyrkjuhóp og vildi
alltaf vera að prófa nýjar matar-
uppskriftir. Mamma var bæði
frábær kokkur og gestrisin. Hún
gaf öllum sem kíktu inn að borða
hvort sem það var á Freyjugöt-
unni eða í sumó.
Eitt sinn vorum við á leið norð-
ur yfir Kjöl þegar við hittum hóp
vina minna á suðurleið. Ég skil
ekki ennþá hvernig hún fór að því
að bjóða vinunum í mat þarna á
hálendinu en það gerði hún með
einn pínulítinn pott og prímus úti
í móa.
Þvílík gæfa að vera úthlutað
móður sem styður mann í orði og
verki alla tíð. Sem dæmi skal tek-
ið að þegar það datt í mig að
langa að læra á skíðum, þá
nenntu foreldrar mínir, á fimm-
tugsaldri, að einhenda sér í sport-
ið. Árum saman fór fjölskyldan til
Austurríkis í febrúar, í Kerling-
arfjöll á sumrin, til Akureyrar um
páska og þess á milli Bláfjöll eða
Skálafell. Það voru alltaf kræs-
ingar í nestisboxinu og þegar við
komum þreytt heim af fjallinu, og
unglingurinn ég átti fullt í fangi
með að láta renna í baðið, fór
mamma í eldhúsið og reiddi fram
eitthvað svakalega flott því það
var jú helgi.
Mamma var snillingur í hönd-
unum og vann m.a. fyrstu verð-
laun í stórri hannyrðakeppni í
Bandaríkjunum. Hún átti orðið
margar prinsessur en ég var sú
fyrsta. Ég hef aldrei haft áhuga á
kjólum en hún mamma sá til þess
að ég á a.m.k. 365 lopapeysur.
Mér finnst fátt flottara eða betra
en lopinn og hef notað allt sem
mamma hefur prjónað handa
mér. Það er afrek út af fyrir sig
að vera í lopasokkum þegar hit-
inn í henni Ameríku fer í 40 stig.
Það eiga margir vinir og fjöl-
skyldumeðlimir handverk eftir
mömmu því hún var alltaf gjaf-
mild með afbrigðum. Dugnaður
foreldra minna er líka engu líkur.
Þau hafa haft vetrarsetu hjá mér
í USA síðustu 13 árin og þegar
mamma eldaði fyrir okkur þá
stóð hún gjarnan með prjónana
við pottana, því það má jú nýta
tímann á meðan suðan kemur
upp.
Mamma hefur örugglega viljað
fara á næsta tilverusvið í topp-
formi og ég er þakklát fyrir að
hún fékk það en það er óskaplega
erfitt að hafa ekki haft tækifæri
til að kveðja. Elsku mamma mín,
hafðu þakkir fyrir allt og allt. Ég
elska þig endalaust og að eilífu.
Sjáumst.
Þín
Björg.
Það var mikið áfall að fá þær
fréttir 17. ágúst sl. að elskuleg
tengdamóðir mín hún Edda
Bergljót Jónasdóttir hefði orðið
bráðkvödd um nóttina. Hún var
einhvern veginn síðasta mann-
eskjan sem mér hefði dottið í hug
að ætti stutt eftir af þeirri ein-
földu ástæðu að hún var í topp-
formi líkamlega og andlega. Þau
25 ár sem ég hef verið hluti af
fjölskyldunni man ég ekki eftir
Eddu öðruvísi en á fullu spani
hvort sem það var í vinnunni á
Landspítalanum, heima á
Freyjugötunni við eldamennsku,
bakstur eða hannyrðir eða uppi í
sumó í Svínadalnum þar sem hún
lagði mikla vinnu í gróður- og
trjárækt ásamt Guðmundi
tengdapabba.
Edda var með alveg ótrúlegt
minni og þekkingu og hitti varla
manneskju án þess að geta rakið
ættir niður í frumeindir. Það var
líka gaman að því hvað hún fylgd-
ist vel með nýjustu tækni sem er
líklega frekar óvenjulegt fyrir
manneskju á hennar aldri. Sem
dæmi man ég hvað ég var hissa
þegar ég fór á námskeið í heima-
síðugerð á vegum Blóðbankans
og hún var fyrsta manneskjan
sem ég mætti því hún, sjötug að
aldri, ætlaði jú líka að læra
heimasíðugerð. Það var því ekk-
ert óvænt við það að hún væri vel
nettengd á Freyjugötunni og
uppi í sumarbústað þótt hún hefði
minnst á það nýlega, eftir eigin
rannsóknir, að netsambandið í
dalnum væri bara frekar ömur-
legt því það væri bara 3G. Það
gerði henni samt kleift að fylgjast
vel með fréttum og að vera í sam-
bandi við vini og ættingja í gegn-
um netpóst eða á Facebook. Sér-
staklega þótti henni mikilvægt að
geta fylgst með barnabörnunum
og séð hvernig þeim gengi.
Edda reyndist mér einstak-
lega vel og studdi við mig á allan
hátt. Það er óhætt að segja að
hún hafi dekrað við mig. Sem lítið
dæmi útbjó hún oft Charlottu
russe sérstaklega fyrir mig því
hún vissi að það væri uppáhalds-
eftirrétturinn minn. Það er ómet-
anlegt að hafa haft þessa sterku
og góðu manneskju á bak við sig
og ég mun alltaf minnast þess.
Við Edda náðum vel saman og ég
mun sakna þess að geta ekki
spjallað við hana um lífið og til-
veruna eins og við gerðum þegar
við vorum tvö saman á ferð. Ég
kveð þig með miklum söknuði,
elsku Edda mín.
Orri.
Nú er allt í einu búið að taka
elsku ömmu mína frá okkur. Við
þurfum að læra að lifa án ömmu
sem flestum fannst líklegra að
myndi lifa að eilífu en að hún væri
á förum.
Ég var svo heppin að alast upp
í sama húsi og amma mín og
nafna. Lengi vel borðuðum við
stóra og litla Edda saman morg-
unmat uppi í rúminu þeirra
ömmu og afa á hverjum morgni.
Við systur gerðum okkur alveg
jafn heimakomnar uppi hjá afa og
ömmu og heima hjá okkur á neðri
hæðinni.
Ef ömmu fannst það verra að
við værum stanslaust að vaða inn
til þeirra lét hún okkur aldrei
finna það. Þvert á móti.
Ég man ekki eftir því að hafa
nokkurn tímann tekist að pirra
ömmu. Hún var, eins og ég, svo-
lítill nammigrís og eftir að ég
fann einu sinni nammi í nátt-
borðsskúffunni hennar sem ég
stalst í var ég ekki skömmuð
heldur setti amma sérstaklega
nammi í skúffuna fyrir okkur
systur allar helgar upp frá því.
Þannig var amma.
Eftir að við fluttum út til
Bandaríkjanna dvöldu amma og
afi hjá okkur á veturna. Þar hljóp
amma hringi í kringum okkur öll
og ef maður bauðst til að hjálpa
henni, sem alltaf var hjálpandi
öllum, fékk maður oftast nær að
heyra: „Ha, heldurðu að ég geti
þetta ekki?“ Þannig varð oft úr
því að ég labbaði út úr matvöru-
verslunum tómhent meðan amma
hélt á öllum pokunum.
Það gat líka enginn prjónað,
heklað eða saumað út eins og
amma. Hún þurfti varla að horfa
á prjónaskapinn meðan hún
prjónaði flókin mynstur á feikna-
hraða. Þegar ég minntist á það að
vilja helst vera í annarri peysu
undir lopanum til þess að klæja
ekki undan honum breytti hún
uppskriftunum til þess að geta
notað léttlopa svo mér yrði ekki
of heitt í tveimur peysum. Svo var
amma svo fljót að hún hefði getað
prjónað peysur á alla vega tvö
fótboltalið meðan flestir aðrir
prjónuðu eina peysu.
Þegar ég var lítil saumaði
amma handa mér þjóðbúning
með baldýringu, möttul og gervi-
pels. Þegar mamma gifti sig
saumaði hún handa okkur Karen
systur kjóla í stíl við brúðarkjól
mömmu. Öll jól fengum við
svakalega fallega útsaumaða
merkimiða sem voru á pökkunum
frá henni.
Þrátt fyrir þetta allt saman
hafði hún einhvern veginn tíma til
að baka ansi margar sortir og
elda stórhátíðarmatinn. Eftir að
ég fór að fullorðnast skemmtum
við amma okkur við að elda, baka
og fara í efnabúðir saman. Það er
eitthvað sem mér mun ætíð þykja
vænt um, en mikið óskaplega vildi
ég óska að við hefðum fengið að
gera þetta saman miklu lengur.
Elsku amma mín, þín er enda-
laust sárt saknað.
Þín nafna
Edda Lind.
Þó amma mín væri orðin 84 ára
þá bjóst ég aldrei við því að þurfa
að kveðja hana þar sem mér hafði
ekki dottið í hug að hún væri að
fara eitthvað.
Amma var alltaf til staðar fyrir
okkur. Hún og afi bjuggu fyrir of-
an okkur þangað til við fluttum til
Bandaríkjanna árið 2005 og þá
komu þau bara út og dvöldu með
okkur í nokkra mánuði á hverju
ári.
Ég var svo heppin að hafa ver-
ið svona náin ömmu. Hún var allt-
af að reyna að finna leiðir til þess
að hjálpa manni og gera mann
glaðan. Þegar ég var lítil gat ég
alltaf laumast upp til ömmu ef
mér fannst maturinn hennar eitt-
hvað meira spennandi en það sem
var í matinn niðri hjá okkur og
það gerði kötturinn okkar líka.
Amma var jólasveinninn okkar
og vildi helst að við settum skóinn
út í glugga síðast í fyrra því henni
fannst svo gaman að gefa. Hún
var gjafmildasta manneskja sem
ég hef nokkurn tímann kynnst.
Maður þurfti alltaf að passa sig
að segja ekki „vá flott“ upphátt
þegar maður sá eitthvað úti í búð
því þá fór hún beint í það að laum-
ast til þess að kaupa það fyrir
mann eða finna leið til þess að búa
það til sjálf.
Hún prjónaði á okkur öll og
skildi eftir her af lopapeysum. Ég
á u.þ.b. 10 lopapeysur inni í skáp
og svo prjónaði hún líka á nánar
vinkonur í gegnum árin. Hún var
rosalega flink í höndunum og
margir úti kannast við hana sem
„ömmuna sem gerir fallegu peys-
urnar“. Það kannast flestir sem
ég þekki við ömmu enda var hún
svo dugleg að mæta á alla við-
burði til að styðja mann og þá
spjallaði hún við alla. Hún var
með svo gott minni og vissi af
hvaða ættum flestir vinir og
kunningjar mínir voru.
Ég hef pælt í því nýlega að ég
þekki svosem ekki ömmur
margra vina minna en það þekkja
sko allir ömmu mína. Henni
fannst svo gaman að vera með
okkur og mínar bestu minningar
af henni voru þegar ég fór upp í
sumó með henni og afa og svo
þegar þau hjálpuðu mér að setja
upp sýningu hérna heima. Þau
gáfu mér aðstöðu til þess að mála,
hjálpuðu mér að smíða ramma og
hengja upp verkin og mættu svo
auðvitað á opnunina og amma
náði að spjalla við alla og taka
myndir. Amma vissi að mér þætti
möndlukaka góð og hafði hana
alltaf í boði í hvert skipti sem ég
kom í heimsókn sem var nánast á
hverjum degi þegar ég var á land-
inu. Ég mun alltaf hugsa til
ömmu þegar ég gæði mér á
möndluköku héðan í frá. Ég mun
halda í hefðir okkar og halda
áfram að borða möndluköku og
kaupa skafmiða fyrir okkur en
mikið verður það samt einmana-
legt án þín, amma mín.
Þín verður sárt saknað því þú
hefur verið svo stór partur af lífi
okkar og ég mun líklegast aldrei
venjast því að þú sért farin. Ég
elska þig, þú lifir í minningum
okkar.
Karen.
Við hjónin viljum þakka heið-
urshjónunum Eddu Bergljótu og
Guðmundi fyrir þá vinsemd, um-
hyggju og kærleika sem þau hafa
sýnt okkur og börnunum okkar
alveg frá því að við hittumst fyrst.
Núna þegar þau sorgartíðindi
bárust að Edda Bergljót hefði lát-
ist í svefni fylltumst við mikilli
sorg og söknuði en jafnframt
þakklæti fyrir allt það sem Edda
gaf okkur með kærleika sínum,
umhyggju, glaðværð og vinsemd.
Edda var einstök kona, sem
alltaf sýndi okkur mikla athygli
og kærleikurinn sem frá henni
streymdi gaf okkur mikið og nær-
vera við hana veitti okkar alltaf
vellíðan og styrk.
Edda og Guðmundur hafa allt-
af verið ein af okkar albestu vin-
um, þau hafa alltaf veitt ríkulega
af kærleiksbrunni sínum. Þau
hafa alltaf tekið á móti okkur með
mikilli umhyggju og sýnt högum
fjölskyldunnar mikinn áhuga,
börnunum og barnabörnunum.
Við viljum, með þessum fátæk-
legu orðum, minnast einstakrar
konu, konu sem var full kærleika,
einstakur vinur og frábær fyrir-
mynd.
Við viljum votta Guðmundi,
Björgu, Orra, Jónasi, Cristinu,
barnabörnunum og barnabarna-
börnum okkar innilegustu samúð
með von um að þau öðlist styrk til
þess að takast á við þetta áfall.
Algóður Guð blessi minningu
Eddu Bergljótar Jónasdóttur og
megi hún hvíla í friði.
Hrönn og Tómas.
Í dag kveð ég vinkonu mína og
granna, Eddu Bergljótu Jónas-
dóttur. Að eiga góða nágranna er
dýrmætt því það veitir gleði, ör-
yggi og vináttu. Hún Edda var
hlý kona og göfuglynd, hún hafði
yndi af öllum gróðri og bar heim-
ilið hennar þess merki, alls stað-
ar blóm. Eddu tókst meira að
segja að græða rót á afskorna rós
sem nú er orðin yfir tveir metrar
á hæð.
Síðustu misseri dvöldu þau
hjón árlega í nokkra mánuði í
Bandaríkjunum hjá dóttur þeirra
Björgu og hennar fjölskyldu og
ég passaði upp á blómin á meðan.
Alltaf kom hún heim færandi
hendi.
Hún Edda var listakona af
guðs náð, barnabörnin mín nutu
góðs af því. Hún útbjó handa
þeim útprjónaða vettlinga að
hausti og öðrum var laumað með
handa mér. Ein jólin gaf hún mér
handprjónaðan borðstofudúk, al-
gjöra gersemi, það lék allt í hönd-
um hennar.
Hún vinkona mín hafði húmor
fyrir lífinu, alltaf í byrjum des-
ember voru settir upp jólaeyrna-
lokkarnir skrautlegu, græna
jólatréð eða rauðu jólasveina-
lokkarnir, og auðvitað átti hún
peysur með jólaskrauti í stíl. Ég
er þakklát fyrir öll brosin og
hlýjuna sem hún gaf mér.
Ég votta ykkur elsku Guð-
mundur, Björg og fjölskylda
mína dýpstu samúð og ég bið
þess að hún Edda mín hvíli í friði
og rísi upp í fögnuði.
Guð blessi minningu hennar.
Gróa Jónsdóttir.
Á þessum tímamótum langar
mig að minnast Eddu Bergljótar,
móður Bjargar vinkonu minnar.
Fyrir um 30 árum lágu leiðir
okkar Bjargar saman þegar við
vorum að störfuðum báðar á
Landspítalanum. Fljótlega
kynntist ég öðru heimilisfólki
Bjargar á Freyjugötunni þar
sem þrjár kynslóðir bjuggu í
sama húsi. Nokkrum árum síðar
voru reyndar kynslóðirnar í hús-
inu orðnar fjórar. Þetta var gef-
andi fjölskylduform sem þekkist
vart lengur og gaman heim að
sækja.
Um leið og ég kom inn um
dyrnar á Freyjugötunni í fyrsta
sinn var mér mjög vel tekið af
Guðmundi föður Bjargar, Björgu
ömmu og auðvitað Eddu sem tók
öllum vinum barna sinna opnum
örmum. Hún bauð okkur ekki
einungis upp á líkamlega nær-
ingu þegar hún bætti aukadiski
eða diskum á matarborðið, heldur
fylgdu máltíðinni gjarnan fræð-
andi og skemmtilega samræður
um hvaðeina.
Edda, sem var á 85. aldursári,
upplifði sig aldrei sem gamla
konu. Aldur var ekki hindrun að
gera það sem hana langaði til eða
vera í samskiptum við fólk á öll-
um aldri. Þannig varð Edda
svona eiginlega hluti af vinkvenn-
ahópnum hennar Bjargar dóttur
sinnar.
Þegar við vinkonur Bjargar
héldum upp á sérstök tímamót í
lífinu svo sem stórafmæli, gifting-
ar eða útskriftir, þá var einhvern
veginn svo sjálfsagt að Edda og
Guðmundur væru hluti af því.
Þetta má glöggt sjá á vinkvenna-
mynd sem tekin var í fimmtugs-
afmæli Bjargar en þar er auðvit-
að að finna Eddu fremst á
myndinni.
Edda gaf sér ávallt tíma til að
setjast niður og spjalla við ætt-
ingja og vini, barnabörnin, barna-
barnabörnin og okkur, vini
Bjargar, og sýndi alltaf einlægan
áhuga á því sem viðmælendur
hennar voru að fást við hverju
sinni. Til að auðvelda enn frekar
samskiptin við yngri kynslóðina,
og mörg okkar í vinahópnum ,
heima og erlendis, tileinkaði hún
sér fljótt tækni og miðla eins og
iPad, Facebook og messenger.
Edda sat aldrei auðum hönd-
um eins og sjá má í stofu þeirra
Guðmundar þar sem gefur að líta
fjölda listilegra handverksmuna
eftir hana.
Hún gerði fallegar flíkur á sína
nánustu og stundum nutum við
vinir Bjargar góðs af hannyrðum
Eddu því hún gaukaði gjarna að
okkur fallegum hannyrðum að
gjöf, svo sem dúkum, vettlingum,
ullarsokkum og jafnvel peysum
sem voru svo fallegar að maður
tímdi ekki að ganga í þeim hvers-
dags.
Andlát Eddu bar óvænt að og
er aðstandendum hennar mjög
þungbært. Nú þegar komið er að
leiðarlokum er mér efst í huga
þakklæti til Eddu sem og fjöl-
skyldunnar allrar á Freyjugötu
fyrir allt það sem vinskapurinn
við þau hefur gefið mér síðastliðin
30 ár.
Ég bið Guð að blessa og varð-
veita minningu Eddu Bergljótar
og veita fjölskyldu hennar styrk í
sorginni.
Anna Bryndís.
Edda Bergljót
Jónasdóttir
Eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og
langafi,
HALLDÓR SKAFTASON
veitingastjóri,
lést á Landspítalanum laugardaginn
25. ágúst. Útförin verður auglýst síðar.
Ína Gissurardóttir
Arna Björk Halldórsdóttir
Hallur Halldórsson Petra Sigurðardóttir
Sigurveig Halldórsdóttir Hermann Haukur Aspar
barnabörn og barnabarnabarn