Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.08.2018, Blaðsíða 31
er bannað, enda getur árekstur við önnur loftför verið
stórhættulegur. Þyrluflugmaðurinn Jón K. Björnsson
var á leið í útsýnisflug í morgun þegar hann sá með-
alstóran dróna álengdar í um 800 fetum. Jón tilkynnti
það til flugturnsins, sem tilkynnti svo lögreglu um
málið. „Drónar eiga ekkert með að vera í lofthelgi
flugvallar. Það er mikið um að vera á Reykjavíkur-
flugvelli í góðu veðri og við getum ekki haft óboðna
gesti inni á okkar svæði,“ segir Jón í samtali við
mbl.is. Svo var Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarð-
stjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, spurður
hvort náðst hefði í skottið á drónaþjösnanum. Hann
sagði að sá sem stýri dróna geti verið hvar sem er:
„Þeir drífa hátt í 10 km þannig að það er ekkert sem
við gátum gert. Hann bara hvarf.““
Þarna eru óskráðar reglur
Það er sjálfgefið og eins þótt að reglur séu ekki til um
það allt, að drónar eru bannaðir á flugvallarsvæðum
og öðrum sambærilegum svæðum. En það eru fleiri
svið þar sem drónar geta verið til bölvunar, óþurftar
eða leiðinda. Þeir geta birst sem uppivöðslusamir
dónar þegar minnst varir og verst gegnir. Þá geta
þeir verið litlu betri en myndavélar á tám sem öfug-
uggar nota til að mynda undir pils kvenna, svo ótrú-
legt sem það er. Það eru strangar reglur um það hvað
menn geti haft háar girðingar eða gerefti í kringum
sína litlu garða. Þær eru m.a. miðaðar við að tryggja
persónulega friðsemd gegn óþörfum kíkjum náung-
ans eða annarra. Þeir sem fara með dróna yfir slík
svæði eða láta þá mynda inn um glugga þar sem fólk
má ætla að það sé í friði, rétt eins og í heitum pottum í
görðum sínum eru í fullkomnum órétti skráðum eða
óskráðum.
Komi drónar fljúgandi lágt yfir land annars sem
hefur byssuleyfi þá leiðir það að sjálfu að hann skýtur
fyrst og spyr síðar. Hann má skjóta hrafn og kjóa sem
fljúga yfir land hans sem oftast er ekki minnsta
ástæða til. En líflaust vélarskrifli sem kemur óboðið
og viljandi af eigandans hálfu í erindum sem enginn
getur vitað hver eru, er óvelkomið í öllum tilvikum,
getur ekki tekið það nærri sér fái það varmar við-
tökur.
Erfitt ástand og hættulegt
Svo örlítið sé skyggnst um gáttir heimsmála eru ýms-
ar ástæður til að hafa áhyggjur. Tyrkir, sú merka
þjóð, er í miklum erfiðleikum núna. Ýmsir leggja illt
til Erdogans forseta og geta vissulega nefnt margt til.
Á árum fyrr hittist svo á að bréfritari talaði oft við Er-
dogan út undir vegg á fundum og smáboðum í
tengslum við það. Eins hafði hann gjarnan þann hátt á
þegar hann átti erindi vestur um haf, t.d. vegna funda
SÞ að láta vita svo bréfritari gæti átt með honum
spjall yfir léttum málsverði úti í Flugstöð á meðan vél
hans var fyllt eldsneyti og öðru slíku og iðulega á ferð-
um út og heimleiðis.
Erdogan var þá forsætisráðherra en hafði áður ver-
ið borgarstjóri í Istanbul og reyndar verið fangels-
aður í tæpt ár fyrir að fara opinberlega með bann-
færðan skáldskap. Var hann hinn vinsamlegast í
öllum þessum samtölum hér heima sem annars stað-
ar, var yfirvegaður og sagði áhugaverða hluti.
Margt hefur á daga hans drifið síðar. Hann beitti
sér fyrir því að styrkja vald forsetans verulega áður
en hann sóttist eftir því sjálfur og jók svo við það eftir
að hann hafði verið kosinn til þess embættis. Þetta
gerði hann eftir gildandi reglum landsins og efndi til
kosninga af þessum tilefnum.
Eftir tilraun hersins, eða hluta hans, til valdaráns,
sem engu mátti muna að tækist, hefur Erdogan hert
mjög öll tök og gengið fastar gegn andstæðingum sín-
um, meintum sem öðrum, en samræmist þeim reglum
sem gilda í þeirri tilveru sem Tyrkland hefur marg-
lýst yfir að vilji þess standi til að eiga samleið með.
Erdogan var hársbreidd frá því að falla fyrir árás-
um eigin flughers sem að sjálfsögðu hefur haft mikil
og langvarandi áhrif á hann, án þess að það réttlæti
alla framgöngu síðar.
Gülen
Fáir utan Tyrklands höfðu veitt Muhammed Fethul-
lah Gülen athygli áður en að Erdogan beindi kastljós-
inu að honum fljótlega eftir misheppnaða byltingartil-
raun hersins. Gülen er ýmist sagður 77 ára og þá
fæddur 27. apríl 1941 eða þá tæplega áttræður og þá
fæddur 10. nóvember 1938.
Síðari dagsetningin er táknræn því hún er dánar-
dægur Mustafa Kemal Atatürk, landsföður Tyrk-
lands nútímans. Fylgismenn Gülens eru taldir í millj-
ónum og hann hefur verið þýðingarmeiri í
tyrkneskum stjórnmálum lengi og sem prédikari í
trúarlegum efnum en borist hefur út. En fréttaskýr-
endur, sem taldir eru þekkja vel til málefna Tyrk-
lands, efast þó margir um að áhrif hans séu jafnmikil
og Erdogan vilji vera láta. Sumir orða það svo að Gü-
len sé fyrir Erdogan það sem Leon Trotsky var fyrir
Stalin. Grýla og réttlæting í senn.
Tyrkland hefur krafist framsals á Gülen frá Banda-
ríkjunum þar sem hann hefur búið lengi. Bandaríkin
neita. Tyrkir hafa haldið bandarískum presti, Adrew
Brunson, fangelsuðum og svo í stofufangelsi og talið
er að það sé spil í deilunni um framsal Gülen. Trump
forseti hefur tekið prestinn upp á sína arma og beitt
verulegu afli gegn Tyrkland og m.a. hótað hörðum
verndartollum, sem orðið hefur til þess að tyrkneska
líran, sem átti undir högg að sækja, lenti í frjálsu falli.
Efnahagslegar ógöngur eru mikið hættuspil fyrir Er-
dogan þar sem þær bætast við önnur og sáraukafull
átök í kjölfar byltingartilraunar hersins og hertar
skrúfur að málfrelsi, stjórnmála- og félagafrelsi og
óöryggi um persónulegt frelsi fjölda fólks.
Það er sérlega vont í landi sem ræður fyrir stærsta
her Nato-ríkis í Evrópu, landi sem gerir tilkall til að
teljast evrópsk þjóð og í landi sem heldur 3 milljónum
flóttamanna innan girðingar gegn greiðslum frá
Brussel og hótar reglubundið, beint og óbeint, að
ljúka upp hliðunum með ófyrirsjáanlegum afleið-
ingum fyrir tilveru ESB og evrunnar.
Þar er ekki á bætandi.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
’Það er sjálfgefið og eins þótt að reglurséu ekki til um það allt, að drónar erubannaðir á flugvallarsvæðum og öðrumsambærilegum svæðum. En það eru fleiri
svið þar sem drónar geta verið til bölvunar,
óþurftar eða leiðinda. Þeir geta birst sem
uppivöðslusamir dónar þegar minnst varir
og verst gegnir.
12.8. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31