Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.08.2018, Page 34
LESBÓK „Ég kaus að lýsa verkin með litum og fá mína litadýrð hingað inn– baða verk Ásmundar dýrðarljóma,“ sagði Hrafnhildur Arn-ardóttir Shoplifter þegar hún gerði Innrás í Ásmundarsafn á
dögunum. Síðasti dagur þess dýrðarljóma er á sunnudaginn.
Úr dýrðarljóma Shoplifter
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 12.8. 2018
Hólar í Hjaltadal: Árið 1625 skrifaðibiskupsdóttirin Halldóra Guðbrands-dóttir (Þorlákssonar) dönskum
stjórnvöldum bréf þar sem hún biður um stað-
arforráð á biskupsstólnum í veikindum föður
síns. Bréfið er það elsta, sem varðveist hefur
með undirskrift íslenskrar konu
Flórens á Ítalíu: Árið 1625 varð tónskáldið
og söngkonan Francesca Caccini fyrst kvenna
í heiminum til að semja óperu. La liberazione
di Ruggiero dall isola di Alcina nefnist hún, á
íslensku Frelsun Ruggiero frá eyju Alcinu.
Þótt konurnar tvær hafi hvor með sínum
hætti markað spor í söguna, virðast þær fátt
annað hafa átt sameiginlegt en að vera báðar
annálaðir kvenskörungar og uppi á sama
tíma. Hvort tveggja bréfið og óperan ásamt
sálmum úr Grallaranum, messubók Guð-
brands biskups frá árinu 1594, eru efniviðir
tónverksins Bréf Halldóru Guðbrandsdóttur
– 1625 – tvær konur, sem Kammerhópurinn
ReykjavíkBarokk frumflytur kl. 11, sunnu-
daginn 12. ágúst í Hóladómkirkju á Hólahátíð
í Hjaltadal og endurtekur svo leikinn í Hjalla-
kirkju í Kópavogi kl. 20 þriðjudaginn 14.
ágúst.
„Við teflum konunum saman og syngjum til
skiptis á íslensku og ítölsku. Samtal íslenskrar
konu á þessum tíma við dönsk stjórnvöld er af-
ar áhugavert. Og þar sem við fengum styrk frá
afmælissjóði fullveldishátíðarinnar fannst okk-
ur fara vel á að láta dagskrána hverfast um
Halldóru og þetta ákveðna bréf,“ segir Diljá
Sigursveinsdóttir, fiðluleikari, sem ásamt Guð-
nýju Einarsdóttur, organista, er hugmynda-
smiður og listrænn stjórnandi verksins.
Halldóra hefur áður verið Kammerhópnum
ReykjavíkBarokk innblástur enda kom hún við
sögu í tónleikhúsi sem hópurinn efndi til í
fyrra í tilefni 500 ára afmælis siðaskiptanna í
Evrópu. „Það var að vísu í allt öðru samhengi,
en okkur Guðnýju fannst við ekki vera búnar
að gera Halldóru nægileg skil. Hún togaði okk-
ur áfram í leit að meiri heimildum. Við vildum
Halldóru í fyrsta sæti.“
Félagar þeirra í hljómsveitinni voru
hjartanlega sammála, en átta af tólf taka þátt í
tónleikhúsinu að þessu sinni. Auk þeirra Diljár
og Guðnýjar, spila og syngja þau Jóhanna
Halldórsdóttir, einsöngkonan í hópnum, Hildi-
gunnur Halldórsdóttir og Íris Dögg Gísladótt-
ir, fiðluleikarar, Aðalheiður Jónsdóttir, blokk-
flautuleikari, Sigurður Halldórsson,
sellóleikari, og Arngeir Heiðar Hauksson,
lútuleikari.
Dömukór og raftónmyndir
„Með hljómsveitinni er Þórey Sigþórsdóttir
sem er allt í senn handritshöfundur, leikstjóri,
leikkona og sögumaður í sýningunni. Við fáum
líka til liðs við okkur sex ungar stúlkur úr
Dömukórnum Áróru, sem hafa verið í kór frá
unga aldri og syngja afskaplega fallega. Einn-
ig verðum við með raftónmyndir eftir Kristínu
Lárusdóttur,“ segir Diljá og útskýrir að raf-
tónlistarkonan semji lítil tónverk út frá text-
unum og stemmningunni í sýningunni og að
þau komi inn á milli í verkinu um Halldóru.
„Þannig mætast andstæðurnar og kallast á í
tvenns konar hljóðheimum. Annars vegar í
lágstemmdri tónlist aftur úr öldum, sem við í
ReykjavíkBarokk leikum á barokkhljóðfæri
með girnistrengjum og hins vegar raftónheimi
nútímans.“
Kammerhópurinn var stofnaður 2012 og
samanstendur af hljóðfæraleikurum sem leika
á upprunahljóðfæri. Markmið hópsins er að
auka veg barokktónlistar og vera gleðigjafi í
íslensku tónlistarlífi. „Flest okkar eru tónlist-
arkennarar og svo spilum við saman þegar við
höfum tíma og orku,“ segir Diljá.
Þótt sálmar úr Grallaranum hafi áður verið
fluttir opinberlega, m.a. á tónleikum Reykja-
víkBarokks á siðbótarafmælisárinu í fyrra, tel-
ur hún ólíklegt að óperan eftir Caccini hafi
nokkurn tímann verið tekin til flutnings hér á
landi, enda hafi þurft að sérpanta nóturnar.
Spurð um skilgreiningu á tónleikhúsi eins og
hún kallar flutninginn á verkinu á sunnudag-
inn, segir hún tónleikhús vissulega opið hugtak
og að sama skapi svolítið öðruvísi viðburður en
tónleikar. „Í stuttu máli hugsum við okkur tón-
leikhús sem vettvang þar sem við segjum sög-
ur á leikrænan hátt, sköpum ákveðin hughrif
með tónlistinni og umhugsun með textanum.“
Kammerhópurinn verður þó í sínum hefð-
bundnu, látlausu klæðum, en Diljá útilokar
ekki að Þórey birtist sem Halldóra í fullum
skrúða líkt og tíðkaðist á sautjándu öld.
Engar smákonur
Þær Diljá og Guðný fara ekki í launkofa með
að hafa lagt upp með að gera konum hátt undir
höfði; hafa skýrt kvennaþema í tónverkinu. Og
Diljá segir enga tilviljun að þær völdu að
heiðra þær Halldóru og Caccini. „Halldóra var
hægri hönd föður síns og hafði áhrif á gang
mála á ýmsum sviðum. Mér finnst ekki ólíklegt
að hún hafi hjálpað pabba sínum að prenta og
lesa yfir sálmatextana í Grallaranum og sungið
þá síðan í kirkjunni. Þá var Caccini heldur
engin smákona. Enda segir það sína sögu að
hún var hæst launaði tónlistarmaðurinn hjá
Medici-ættinni, valdamestu ættinni í Flórens á
þeim tíma. Ég er mjög spennt og finnst gaman
að fá tækifæri til að láta ljós þessara löngu
liðnu kvenna skína. Í rauninni er klassíski tón-
listarheimurinn alltaf að fást við sagnfræði.
Við erum oftast að spila gamla tónlist eftir
löngu látin tónskáld. Á tónleikunum sem við
helgum Halldóru Guðbrandsdóttur fáum við
hins vegar nýstárlegt og svolítið annað sjón-
arhorn með því að túlka fjögurra alda gamalt
handrit á Þjóðskjalasafni,“ segir Diljá að lok-
um. En ein spurning áður en hún hverfur á
braut: Af hverju er messubók Guðbrands Þor-
lákssonar kölluð Grallarinn?
„Hún kallast Graduale á latínu, sem þýðir
einfaldlega messubók, en Íslendingar gáfu
henni nafnið Grallarinn með stóru G, eins og
hún hefur verið kölluð æ síðan.“
ReykjavíkBarokk, Dömu-
kórinn Áróra og Þórey
Sigþórsdóttir fremst í
flokki í hlutverki Halldóru,
henni á vinstri hönd eru
Jóhanna Halldórsdóttir,
Guðný Einarsdóttir og
Diljá Sigursveinsdóttir.
Morgunblaðið/Kristinn Magnúss
Grallarinn og kvenskörungarnir
Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk stendur fyrir tónleikhúsi í Hóladómkirkju á Hólahátíð þar sem verkið Bréf
Halldóru Guðbrandsdóttur – 1625 – tvær konur, verður frumflutt sunnudaginn 12. ágúst.
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is
’ Í stuttu máli hugsum viðokkur tónleikhús sem vett-vang þar sem við segjum sögur áleikrænan hátt, sköpum ákveðin
hughrif með tónlistinni og um-
hugsun með textanum.“