Morgunblaðið - Sunnudagur - 19.08.2018, Qupperneq 17
19.8. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17
sem er að gerast í umhverfinu og ekki bara
hugsa að af því að maður sjálfur hafi það fínt,
þá skipti ekkert og enginn annar máli.“
Þarf ekki að gæta þess hvert viðfangsefni
spunans er?
Sigga kinkar kolli og segir að ákveðnar regl-
ur gildi um það hvað sé tekið fyrir. „Við gerum
ekki grín að hlutum sem eru alvöru-
harmleikur, þótt það sé hægt að finna húmor í
skrýtnum aðstæðum sem eru sorglegar. Við
gerum til dæmis ekki grín að sjálfsmorði. Við
gerum ekki grín að ungbarnadauða.“
Hann var til og skipti máli
Dóttir Siggu úr fyrra sambandi er Lára Björk
sem var rúmlega fimm ára þegar Nói Hrafn
dó. Sigga segir að hún hafi strax ákveðið að
tala opinskátt við Láru um það sem gerðist.
„Ég held að það hafi hjálpað mikið að sam-
skipti mín og pabba hennar eru svo góð og fjöl-
skyldan hans er alveg frábær. Hann sótti hana
í leikskólann þegar ég gat það ekki, alveg sama
þótt hún ætti ekki að vera hjá honum á þeim
tíma. Og það var líka tekið svo vel á þessu í
leikskólanum hennar, þar sem vinnur stór-
kostlegt fólk. Og leikskólakennarar eru svo
sannarlega ekki bara að passa börn,“ segir
Sigga með áherslu.
„Lára lærði bara strax að tala um þetta. Ég
vil ekki gera dóttur minni það að sitja uppi
með áfallið. Ég vil að hún geti haldið áfram
sínu lífi án þess að sitja uppi með eitthvað sem
ég gat ekki talað um. Nógu mikið er það nú
samt sem ekki má ræða. Þetta er auðvitað eitt
það hræðilegasta sem fólk getur hugsað sér en
við verðum að tala um þetta. Við verðum að
opna þessi sár til að þau fái að gróa.“
Sem fyrr segir vinnur Sigga mikið við tal-
setningu barnaefnis. Hún hafði nýlega lokið
við að talsetja í teiknimyndinni Inside Out
þegar Nói Hrafn lést. Myndin fjallar um Dag-
nýju og hvernig tilfinningar hennar, sem eru
persónugerðar, vinna saman eða stangast á.
Gleðin, sem Sigga talar fyrir, hefur að mestu
leyti ráðið ríkjum hjá Dagnýju en tilfinning-
arnar reiði, sorg, ótti og óbeit koma einnig
mikið við sögu í lífi hennar þegar hún eldist og
þroskast. Myndin var frumsýnd á Íslandi sum-
arið eftir að Nói Hrafn dó og Sigga segir að
þær mæðgur hafi farið saman á frumsýn-
inguna, en Lára var þá alveg að verða sex ára.
„Tilfinningarnar í myndinni eiga sína liti;
gleðin var til dæmis gul, reiðin var rauð og
sorgin blá. Það var svo gott að ég hafði talað
fyrir gleði í myndinni og fékk að vera gul því
heima var ég alltaf blá … Lára sagði að ég
væri alltaf grátandi, alltaf blá. Eðlilega … Ég
er frekar glaðvær manneskja en þarna var
Lára svolítið búin að missa mömmu sína eins
og hún þekkti hana. Rétt eins og ég hafði gert.
Ég man eftir því að hafa fundist ég missa svo-
lítið mömmu mína. Og ég var sár og skildi
þetta aldrei þá. En ég skil þetta betur í dag.“
Sigga þagnar stutta stund. „Það var alltaf tal-
að mikið um Bjarka á heimilinu eftir að hann
dó. Kannski líka svolítið af því að vinir hans
voru svo mikið hjá okkur.“
Sigga segist hafa heyrt ótalmargar sögur um
eldri konur sem hafa legið banaleguna og ósk-
að eftir að fá að tala um barnið sem þær misstu
og fengu aldrei að tala um. Þær hafi jafnvel far-
ið í gegnum lífið reiðar og sárar vegna þess að
þær fengu aldrei að vinna úr ólýsanlegum sárs-
auka. Sigga leggur þó áherslu á að fólk verði
auðvitað að hafa í huga að það sé staður og
stund fyrir allt og ekki viðeigandi að ræða þessi
mál hvar og hvenær sem er.
„En maður gleymir aldrei þessu barni sem
fæddist og dó. Og maður vill ekki að heimurinn
gleymi því. Fólki má heldur aldrei finnast vont
að hafa minnt mig á Nóa Hrafn, eins og hefur
gerst þegar ég hef hitt einhvern sem vissi að
við Kalli ættum von á barni en ekki að það væri
dáið. Það er aldrei vont að vera minntur á
barnið sem maður átti. Ég hugsa um hann á
hverjum degi. Ég gleymi honum aldrei. Ég
dýrka þegar einhver segir nafnið hans. Ég vil
alltaf segja Nói Hrafn. Og það er stór hluti
ástæðunnar fyrir minningartónleikunum um
bróður minn. Þetta er svolítið gert fyrir
mömmu og pabba og bræður mína. Bjarki
bróðir minn má ekki gleymast. Hann var til.
Og hann skipti máli.“
Morgunblaðið/Valli
’Og það er stór hluti ástæð-unnar fyrir minningartón-leikunum um bróður minn. Þettaer svolítið gert fyrir mömmu og
pabba og bræður mína. Bjarki
bróðir minn má ekki gleymast.
Sigga einbeitir sér að mestu að tónlistinni í dag og
síðustu ár hefur hún unnið mikið við talsetningar
á teiknimyndum og barnaefni. Hún undirbýr nú
stórtónleika í Hörpu til að heiðra minningu bróð-
ur síns, sem lést úr heilahimnubólgu árið 1993.
hennar hafi auðvitað líka misst barnabarnið
sitt, líkt og foreldrar Kalla. En hún segir þau
hafa staðið þétt við bakið á sér og Kalla.
„Mamma og pabbi gerðu allt svo rétt á þess-
um tíma. Og reyndar bara allir í kringum okk-
ur, við erum auðvitað einstaklega heppin með
fjölskyldu og vini. En það var bara eins og
mamma og pabbi hefðu fengið handbókina.“
Sigga þagnar augnablik. „Sem þau náttúrlega
höfðu fengið. Þegar Bjarki bróðir dó.“
Aðspurð hvað hún eigi við með því að for-
eldrar hennar hafi gert allt rétt segir hún að
þau hafi til dæmis aldrei spurt þau Kalla óvið-
eigandi eða asnalegra spurninga. „Mamma var
rosa mikið að koma og taka til; gekk í það sem
þurfti að gera á heimilinu. Við gátum ekki gert
margt og ég var auðvitað að jafna mig eftir erf-
iða fæðingu. En þau pabbi komu aldrei án þess
að láta okkur vita áður. Og þau bara tékkuðu á
stöðunni, hvort allt væri í lagi.“
Sigga segist hafa getað rætt hluti við móður
sína sem hún gat ekki rætt við neinn annan.
„Stundum upplifði ég einhverjar tilfinningar,
einhver hafði kannski sagt eitthvað við mig og ég
ræddi það við mömmu. Þá sagði mamma bara:
Já, ég veit. Þetta á eftir að gerast. Það hjálpaði
mér að geta rætt alls konar við hana sem enginn
annar gat skilið. Ég myndi samt aldrei segja
sjálf við mömmu mína að ég skilji hana. Því það
geri ég ekki, en ég get tengt við þessa sorg. Ég
hafði sjálf til dæmis gengið í gegnum fósturlát
og það er ekki sambærileg reynsla við það sem
ég svo seinna upplifði. En sorgin er samt til stað-
ar. Og það er hægt að tengja við sorgina.“
Heldurðu að það sé hægt að vinna sig út úr
svona mikilli sorg? Komast yfir hana að fullu?
„Nei. Þú getur lært að funkera. Þú getur lært
að treysta. Ég hugsa, í okkar tilfelli, að þegar
við fáum einhvers konar niðurstöðu í málinu
komumst við alla vega á næsta stig. Það er eitt
að jafna sig eftir barnsmissi en svo annað að
vera með svona stórt mál í gangi; sem ég held að
skipti ekki bara okkur máli heldur allt sam-
félagið. Að svona gerist ekki aftur. Þetta kom
fyrir okkur og hefur komið fyrir miklu fleiri.“
Að hlusta er kjarninn
Eitt af því sem Sigga segir hafa hjálpað sér
mikið að takast á við áfallið er leiklistarspuni,
en spuni er skilgreindur sem óundirbúið skap-
andi atferli þar sem þátttakendur semja efnið
á staðnum um leið og þeir flytja það. „Stuttu
eftir að Nói Hrafn dó var ég barnlaus og í fæð-
ingarorlofi, sem er hræðileg staða að vera í. Þá
hringdi Bjarni Snæbjörns vinur minn í mig, en
hann var þá byrjaður í Improv Ísland, og
hvatti mig til að fara á námskeið hjá þeim sem
var þá að byrja,“ segir Sigga.
Dóra Jóhannsdóttir leikkona stofnaði leik-
hópinn Improv Ísland snemma árs 2015 en
hópurinn býður bæði upp á námskeið í spuna
og sýningar. Sigga segist hafa ákveðið eftir
smáumhugsun að skella sér á námskeiðið og
eftir það hafi ekki verið aftur snúið. Hún hafi
farið á fleiri námskeið og þegar hópurinn vildi
prófa að spinna söngleiki hafi Kalli verið feng-
inn til liðs við hann sem tónlistarstjóri. Sigga
segir spunann eitt það besta sem fyrir sig hafi
komið eftir áfallið. „Spuni á ekki að vera ein-
hver þerapía en hann getur orðið það. Það er
svo mikil núvitund í spunanum, þetta er svo
mikil hugleiðsla. Maður fer bara í einhvern
trans og allur fókusinn er á það sem maður er
að gera einmitt þá stundina. Heimurinn fyrir
utan skiptir ekki máli. Og allir sem taka þátt í
spunanum, hvort sem þeir eru að taka þátt í
því atriði sem er að gerast akkúrat þá stundina
eða standa hjá á hliðarlínunni, verða að taka
fullan þátt. Maður er alltaf að fylgjast með og
alltaf tilbúinn að stökkva inn í og koma til
hjálpar. Og hlusta. Hlustunin er kjarninn í
spunanum. Alltaf. Ef þú ert ekki að hlusta á
það sem er að gerast í kringum þig getur allt
hrunið. Og í mínu áfalli var ég einmitt að kljást
við afleiðingar þess að það var ekki hlustað á
okkur Kalla.“
Sigga mælir með spuna fyrir alla, hvort sem
þeir eru leiklistarmenntaðir eður ei. „Þetta er
svo gott fyrir hjartað. Og hausinn á manni. En
þetta hentar ekkert öllum; sumir leikarar til
dæmis finna sig ekki í spuna,“ segir Sigga.
„Áður en við förum á svið í spunanum segj-
um við I got your back, það er svona lykilsetn-
ing sem allir segja hver við annan. Og mér
finnst hægt að heimfæra þessa setningu upp á
allt í lífinu. Til dæmis ef þú ert úti að labba og
dettur í götuna; þá á náunginn að koma til
hjálpar. Við eigum að fylgjast með og hlusta á
allt sem er að gerast í kringum okkur. Ég er
samt ekki að segja að við eigum að vera með
nefið ofan í öllu sem aðrir eru að gera,“ segir
Sigga og brosir. „En maður á að hugsa um það