Skírnir - 01.09.2001, Blaðsíða 252
516
GAUTI SIGÞORSSON
SKÍRNIR
innbyrðis tengslum sem ekki er hægt að útiloka þegar „þjóðlegar bók-
menntir“ eru rannsakaðar, og því er „fjöl-“ (poly-) forskeytið engin til-
viljun í kenningum Even-Zohars. Lögð er áhersla á tengsl og samspil
kerfa, ekki stranga aðgreiningu þeirra. Því gerðu þýðingafræðingar í Evr-
ópu, einkum á Niðurlöndum, sér snemma Ijóst að kenningar fjölkerfis-
skólans í ísrael gætu auðveldlega átt við um önnur „lítil“ tungumál, líkt
og hollensku, sem reiða sig að miklu leyti á þýðingar til þess að færa nýj-
ungar inn í bókmenntir síns málsvæðis. Ein ástæða þess hve vel fjölkerfis-
kenningar eiga við í þýðingafræði er hin kerfisbundna sýn á bókmennt-
irnar, þ.e. að líta á þær út frá tengslum aðskildra kerfa sem hvert um sig er
í þróun. Þannig er hægt að losna úr viðjum þess þjóðhverfa hugtakaforða
sem rannsóknir á „bókmenntum þjóðlanda" hvíldu á. Þess í stað er hægt
að skilgreina bókmenntir hvers málsvæðis út frá þýðingatengslum við
önnur bókmenntakerfi.9
Nýjungin er mikilvægur eiginleiki þýðinga í kenningum Lefeveres og
sýnir vel tengsl hans við formalisma og fjölkerfiskenningar, því að líkt og
Even-Zohar lítur hann til hlutverks þýðingarinnar (nær óháð frumtextan-
um) í nýju samhengi. Hlutverk nýjungarinnar er ekki bara tæknilegt eða
formlegt, heldur er litið á hverja þýðingu sem sérstakan nýjan texta. En
þá er úr vöndu að ráða. Formalískar aðferðir gagnast vel við textagrein-
ingu, en þær þrýtur erindi þar sem samhengi textans byrjar. Ef nýjungin
á sér ekki bara stað innan tímalauss kerfis tækninnar, heldur er bundin
stað og tíma, þá þarf þýðingarýnandi að búa yfir hugtakaforða til þess að
gera grein fyrir samhengi og sögu. Lefevere virðist sækja í menningarlega
efnishyggju þegar hann greinir þýðingar á þessum forsendum, og fjar-
lægist formalisma fjölkerfisfræðinnar.10 Eins og segir hér að framan bein-
ir hann sjónum sínum að hugmyndafræði og valdi í mjög hlutbundnum
skilningi, með hliðsjón af stofnunum og valdatengslum. Það er einkum sú
sannfæring Lefeveres að kanna verði bókmenntir og þýðingar í tengslum
við valdskipan á öðrum sviðum, t.d. í menntakerfinu, sem tengir kenning-
ar hans við menningarlega efnishyggju. Þetta hugtak er óneitanlega notað
á marga vegu, en almennt vísar það til þess að litið er á „menningu" í
mannfræðilegum skilningi sem „það sem fólk gerir og skapar“ í tilteknu
samfélagi, að menningin sé þess vegna áhrifavaldur í samfélaginu, hún sé
vettvangur átaka um efnahagsleg gæði, vald og stöðu, bæði milli einstak-
linga og hópa. Þessi átök eru svo samtvinnuð menningunni að í fræðileg-
9 Sjá Gentzler, Contemporary Translation Theories, 5. kafli: „Polysystem Theory
and Translation Studies", bls. 105—43.
10 Edwin Gentzler bendir á að um leið og Lefevere tekur að þróa hugtakaforða
sinn um viðtökur og ritunarsamhengi þýðinga fjarlægist hann fjölkerfiskenn-
ingar, einkum þar sem hann forðast „v£sindalegt“ orðfæri þeirra og fullyrðing-
ar um „hlutlægni" í rannsóknum. Sjá Gentzler, bls. 140-42.