Skírnir - 01.09.2001, Blaðsíða 325
MYNDLISTARMAÐUR SKÍRNIS
Þorvaldur Þorsteinsson:
Listamaður í gangvirki samfélagsins
Það er kunnara en frá þurfi að segja að Þorvaldi Þorsteinssyni er margt
til lista lagt: Hann er myndlistarmaður sem er líka rithöfundur; hann er
rithöfundur sem er líka leikritahöfundur; hann er leikritahöfundur sem er
líka kvikmyndagerðarmaður. Er Þorvaldur einn eða margir?
Menntun sína hefur hann fyrst og fremst sótt í myndlistarskóla. Fyrst
á Akureyri, þar sem hann ólst upp, síðan, eftir viðkomu í bókmennta-
fræði við Háskóla íslands, lá leið hans í gegnum Myndlista- og handíða-
skólann, og loks til Maastricht í Hollandi á árunum 1987-89. Frá því
sjónarmiði er hann fyrst og fremst myndlistarmaður. Of langt mál yrði að
telja upp allar sýningarnar sem hann hefur staðið fyrir eða tekið þátt í,
bæði í sýningarsölum og á opinberum stöðum. En það er ástæða til að
nefna sérstaklega að margar af metnaðarfyllstu sýningunum sem Þorvald-
ur hefur tekið þátt í hafa verið á erlendri grund. Hann hefur sýnt við fjöl-
mörg tækifæri annars staðar á Norðurlöndum, í Hollandi, Þýskalandi og
Frakklandi.
Jafnhliða myndlistarstarfi hefur Þorvaldur stundað ritstörf, starfað í
leikhúsi og við fjölmiðla. Þetta er kannski sú hlið á listamanninum Þor-
valdi sem íslenskur almenningur hefur kynnst best. Barnabækur hans
hafa notið mikillar hylli, en sú fyrsta, Skilaboðaskjóðan, kom út 1986 á
vegum Máls og menningar. Sú saga var sett á svið í Þjóðleikhúsinu árið
1993 sem söngleikur, við miklar vinsældir. Þorvaldur gaf seinna út tvær
barnabækur, Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó, og Ert þú
Blíðfinnur? Ég er með mikilvæg skilaboð, og í október 2001 frumsýndi
Borgarleikhúsið leikrit byggt á sögunum af Blíðfinni. En þótt barnabæk-
urnar og barnaleikritin komi fyrst upp í hugann þá hafa ritstörf Þorvalds
og afskipti af leikhúsi verið afar fjölbreytt. Flestir hafa sjálfsagt kynnst
sérstæðu leikhúsi Þorvalds fyrst með því að hlusta á vasaleikrit hans, sem
flutt voru í útvarpi á árunum 1991 og 92. En síðan þá hafa mörg verk eft-
ir hann verið sett á svið, t.d. hjá Hermóði og Háðvöru í Hafnarfirði, í
Loftkastalanum, Kaffileikhúsinu, og Nemendaleikhúsinu. Verk hans hafa
einnig verið sýnd í sjónvarpi, bæði RUV og Stöð 2.
Ein leið til að lýsa listsköpun Þorvalds er að fjalla um hann sem dæmi-
gerðan „fjölhæfan" listamann, eins og sagt er, þar sem myndlist hans er
tekin fyrir og lýst eins og hún tilheyri einum einstaklingi, og bókmennt-
Skímir, 175. ár (haust 2001)