Breiðfirðingur - 01.04.1983, Síða 12
10
BREIÐFIRÐINGUR
lengur? Á þeim tíma leitaði fólk í Breiðafjarðareyjar en
ekki öfugt. Sagt var að þar yrði aldrei matarskortur, að
þar væri mörg matarholan. Jón Espólín orðaði það
þannig að hvergi væri „gagnsamara“ á íslandi. Gömlum
Barðstrendingi, sem hafði þann sið að dvelja um tíma
árlega í Hergilsey, voru lögð þessi orð í munn:
„Sálin á himnum segir nei,
sakna ég matsins í Hergilsey."
Ungur heyrði ég sögu, sem vitnar um hvers konar
draumaland eyjarnar voru þeim sem bjuggu við árviss-
an útmánaðasult og fengu sjaldan nóg að éta.
Drengur nokkur inni í Þorskafirði var að leika sér á
jökum, þegar ís var að brjóta, snemma vors. Vindur
stóð út fjörðinn, og svo fór, að drengur gætti sín ekki
en rak frá landi á einum jakanum. Annað hvort hefur
þess ekki orðið vart, eða engin tök verið á að bjarga
honum, og rak strák út allan fjörð. Þegar út í fjarðar-
mynni kom, tókst svo gæfulega til að ferðalagi hans var
veitt athygli frá Skálanesi, þar sem bátur var tiltækur.
Þegar búið var að bjarga drengnum í land, aðþrengd-
um af kulda, var hann m.a. spurður, hvort hann hefði
ekki verið hræddur. „Nei,“ sagði strákur, „ég hlakkaði
bara til að komast út í eyjar - og fá nóg að éta.“ Hvort
hann hefur gert sér grein fyrir að þá voru ófarnir
u.þ.b. tíu km (um 6 sjómílur) yfir opinn flóa til næstu
byggðrar eyjar — og óvíst um landtöku í eyjunum — fylg-
ir ekki sögunni.
Matarholur eyjanna voru margar: Báðar íslensku
selategundirnar eiga þarna þéttsetin heimkynni, og hafa
veitt ómælda björg í bú frá upphafí vega. Þar að auki
kom vöðuselur árlega á Breiðafjörð fyrr á tímum og var
veiddur. Ymsar fuglategundir lögðu til mikið af eggjum
og kjötmeti á borð eyjamanna. Á fjörum mátti fá söl og
krækling. Hrognkelsi og stórlúða gengu allt inn á eyja-