Breiðfirðingur - 01.04.1983, Page 52
50
BREIÐFIRÐINGUR
fyrir ofan sig í rúminu. Ég sat líka oft hjá henni við
hlóðirnar og horfði með henni í eldinn. Hún kenndi
mér bænir og vers og minnti mig á við lestur þeirra á
löngum kvöldum. Hún kenndi mér líka að gleðjast yfir
litlu, hún kenndi mér að sigrast á sjálfri mér í sorgum
lífsins. — Heilræði hennar hefi ég ávallt í huga borið, all-
ar götur síðan ég sat á hvallið við hlóðirnar í gamla Sel-
látursbænum. Þau heilræði voru reynd og hert í eldi
sárrar lífsreynslu.
Kröpp voru kjör þessarar konu. Hún varð móðir átta
barna og tveggja manna ekkja. Nú var hún komin á
leiðarenda, komin til frændfólks og vina, þar sem hún
naut hlýju og varð strax ein af fjölskyldunni. Börnin
hennar voru tvístruð um veröldina, jafnvel í öðrum
heimsálfum. Onnur áttu aðeins litla þúfu í kirkjugarði
langt í burtu. Hún átti líka mann, son og tengdadóttur
í votri gröf hafsins. Oll störf þessarar konu voru þjón-
ustustörf í þess orðs bestu merkingu. Henni átti ég svo
ótal margt að þakka. — Hún huggaði mig þegar ég var
hrygg og niargar sögur sagði hún mér af æsku sinni.
Þá var engin uppfræðsla í skólum, síst fyrir ungar stúlk-
ur. Hún sagði mér t.a.m. hvernig hún reyndi sjálf að
læra að skrifa. Hún yddaði spýtuflís og rak hana í hrím-
ið á pottunum en páraði síðan á fjalarbút. Hún reyndi
líka að skrifa með skeljabroti í sandinn í fjörunni.
Þessi kona var Sigríður Bjarnadóttir. Hún var fædd
19. mars 1848, dóttir hjónanna Guðríðar Jónsdóttur og
Bjarna Jónssonar frá Drápuhlíð í Helgafellssveit. Sig-
ríður ólst upp hjá föðurömmu sinni Sesselíu Pálsdóttur
Hjaltalín og manni hennar Níelsi Jónssyni. Þau bjuggu
í Höskuldsey. Sesselía var tvígift, átti fyrr Jón Bjarna-
son, hann varð skammlífur. Þau áttu Bjarna fyrir son,
föður Sigríðar. Guðríður Jónsdóttir, móðir Sigríðar var
dóttir Guðríðar Pétursdóttur frá Höskuldsey og manns
hennar, Jóns Nikulássonar frá Arnabotni. Þau bjuggu í
Akureyjum í Helgafellssveit.