Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Blaðsíða 15
15LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2017
hafa verið birtar niðurstöður sem sýna að aldur við fyrstu blæðingar,
trú kvenna á að blæðingar hafi áhrif á hegðun og notkun verkjalyfja við
tíðaverkjum hefur áhrif í þá veru að konur eru líklegri til að hlutgera
sig (Sveinsdóttir, 2017). Hér er athyglinni beint að tíðaverkjum og þeir
skoðaðir í ofangreindu samhengi.
Tíðaverkir
Tíðaverkir hefjast venjulega einu til tveimur árum eftir fyrstu blæðingar
um svipað leyti og stöðugleiki kemst á tíðahringinn (Kannan, Chapple,
Miller, Claydon og Baxter, 2015). Að öllu jöfnu hefjast verkirnir
nokkrum klukkustundum áður en blæðingar hefjast og standa yfir í
hálfan sólarhring og allt upp í þrjá sólarhringa. Verkirnir geta verið
misslæmir frá einni konu til annarrar en styrkleika tíðaverkja má flokka
eins og aðra verki í væga, meðalslæma og mjög slæma (Kural, Noor,
Pandit, Joshi og Patil, 2015). Vægir verkir eru taldir valda óþægindum
eða tilfinningu um vanlíðan en hafa ekki áhrif á starf eða nám konunnar.
Meðalslæmir og slæmir verkir geta hins vegar truflað persónulegt og
félagslegt líf kvenna, dregið verulega úr framtakssemi þeirra og leitt
til fjarvista úr vinnu eða skóla (Weissman, 2004). Ekki er algengt að
truflunin sé mjög alvarleg (Ju, Jones og Mishra, 2014).
Tíðaverkir virðast mjög algengir en greint hefur verið frá því að allt
að 93% kvenna fái þá (Habibi, Huang, Gan, Zulida og Safavi, 2015;
Kural o.fl., 2015) og má ætla að 10-33% kvenna fái slæma tíðaverki
(Aktaş, 2015; Habibi o.fl., 2015; Kural o.fl., 2015; Patel, Tanksale,
Sahasrabhojanee, Gupte og Nevrekar, 2006). Hérlendis hefur algengi
tíðaverkja mælst 78,4% hjá háskólastúdentum á aldrinum 19 til 48 ára
(Herdís Sveinsdóttir, Ragna Ásþórsdóttir og Ragnheiður Halldórsdóttir,
2015). Konur leita sjaldan aðstoðar vegna tíðaverkja (Aktaş; 2015,
Fraser, Mansour, Breymann, Hoffman, Mezzacasa og Petraglia, 2015)
þó flestar með verki greini frá því að einkennin hamli þeim við ýmsar
daglegar athafnir og íþróttaiðkun og hafi neikvæð áhrif á andlega og
líkamlega líðan (Grandi o.fl., 2012; Parker, Sneddon og Arbon, 2010;
Seven, Güvenç, Akyüz og Eski, 2014).
Ýmsir áhættuþættir hafa verið nefndir fyrir slæma tíðaverki en
niðurstöður rannsókna eru þó misvísandi. Ungur aldur við fyrstu
blæðingar hefur tengst verri tíðaverkjum (Gagua, Tkeshelashvili
og Gagua, 2012; Grandi o.fl., 2012; Patel o.fl., 2006; Khodakarami,
Masoomi, Faradmal, Nazari, Saadati og Sharifi, 2015) þótt það sé ekki
algilt (Al-Jefout, Seham, Jameel, Randa og Luscombe, 2015). Miklar
tíðablæðingar, fleiri dagar á blæðingum, reykingar, offita, áfengisneysla,
mikil neysla koffíns, sykurs og salts, barnleysi, hreyfingarleysi, of hár
eða of lágur líkamsþyngdarstuðull og ættgengi og hefur allt verið nefnt
sem áhættuþættir tíðaverkja (Gagua o.fl., 2012; Grandi o.fl., 2012; Lee,
Chen, Lee og Kaur, 2006; Ozerdogan, Sayiner, Ayranci, Unsal og Giray,
2009; Navvabi Rigi o.fl., 2012). Rannsóknir á sambandi verkjanna við
óreglulegar blæðingar hafa ekki staðfest slíkt samband (Patel, Karelia
og Piparva, 2016; Shah, Monga, Patel, Shah og Bakshi, 2013).
Heilsutengd lífsgæði (HL) hafa lítið verið skoðuð í samhengi við
blæðingar, en hugtakið lífsgæði er mikið notað sem útkomubreyta í
hjúkrunarrannsóknum í þeim tilgangi að lýsa heildarlíðan einstaklinga
(Fulton, Miller og Otte, 2012). Við mat á HL er verið að meta skoðun
fólks á gæðum lífs síns og hvernig heilsufar þess hefur áhrif þar á.
Hugtakinu er ætlað að ná yfir almenna heilsu, líkamlega og andlega
þætti, tilfinningalíf, vitræna þætti, hlutverk og félagslega færni og
innihalda jákvæða og neikvæða þætti lífsins (Kolbrún Albertsdóttir,
Helga Jónsdóttir og Björn Guðbjörnsson, 2009). Engin rannsókn fannst
þar sem mælitækið Short Form 36 Health Survey (SF-v36), sem er
notað í þessari rannsókn, var notað til að skoða tíðaverki og HL. Þetta
mælitæki er eitt algengasta tækið til að mæla HL og hefur þann kost að
hafa verið notað hjá mismunandi hópum og við margs konar aðstæður
(Poradzisz og Florczak, 2013). Hins vegar fundust þrjár rannsóknir
þar sem notaðar voru aðrar og einfaldari skilgreiningar á lífsgæðum
og niðurstöður þeirra sýndu að tíðaverkir hafa áhrif á almenn lífsgæði
(Onur o.fl., 2012; Unsal, Ayranci, Tozun, Arslan og Calik, 2010;
Weisberg, McGeehan og Fraser, 2016).
Viðhorf kvenna til blæðinga hafa verið rannsökuð meðal mismunandi
hópa og í mismunandi menningarsamfélögum og gefa niðurstöður
vísbendingu um að viðhorf til blæðinga hafi áhrif á og stýri jafnvel
hegðan kvenna (Herdís Sveinsdóttir o.fl., 2015; Sveinsdóttir, 2017).
Rannsóknir á viðhorfum til blæðinga og tíðaverkja benda til þess að
konur með mikla tíðaverki eigi erfiðara með að sjá tíðir sem eðlilegt
fyrirbæri (Sönmezer og Yosmaoğlu, 2014; Rempel og Baumgartner,
2003; Schooler o.fl., 2005).
Hugtakið hlutgerving (e. objectification) vísar til menningar sem
hlutgerir einstaklinga. Oftast eru það konur sem eru hlutgerðar og hefur
það þau áhrif að á einhverju stigi mótast félagsþroski stúlkna og kvenna
þannig að þær fara að meðhöndla sjálfar sig sem hlut sem sé metinn
eftir útlitinu. Þær fara að samsama sig sjónarmiði þess sem hlutgerir
þær, verða ofuruppteknar af líkamlegu útliti sínu sem þær telja að
stjórni því hvernig þeim farnast í lífinu og fara að líta á líkamann sem
hlut sem þær líta stöðugt gagnrýnum augum. Afleiðingarnar geta birst
í skömm á eigin líkama og að forðast að samsama sig honum (Herdís
Sveinsdóttir o.fl., 2015; Sveinsdóttir, 2017; Slater og Tiggemann 2015).
Engin rannsókn fannst þar sem tíðaverkir voru skoðaðir í samhengi við
hlutgervingu.
Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar eru í framvarðasveit
heilbrigðiskerfisins og í lykilaðstöðu til að hafa áhrif á viðhorf
fullorðinna kvenna jafnt sem ungra stúlkna sem eru að hefja blæðingar.
Það er því mikilvægt að þær þekki og taki þátt í gagnrýninni umræðu
um blæðingar, viðhorf til þeirra, hlutgervingu, heilsutengd lífsgæði og
áhrif þessa á líf kvenna. Þessi rannsókn er innlegg í þá umræðu.
Markmið úrvinnslunnar hér er að a) skoða samband heilsutengdra
lífsgæða, viðhorfa til blæðinga, hlutgervingar, upphafs blæðinga,
núverandi blæðinga, líkamsþyngdar og tíðni líkamsræktar hjá
íslenskum konum á aldrinum 18 til 40 ára við tilvist tíðaverkja; b)
greina hvað spáir fyrir um styrk tíðaverkja hjá konum með tíðaverki.
AÐFERÐ
Rannsóknarsnið
Rannsóknin var lýsandi þversniðskönnun þar sem gagna var aflað með
heimsendum spurningalistum.
Úrtak
Þýði rannsóknarinnar var 54186 konur á aldrinum 18–41 árs.
Handahófskennt úrtak 1000 kvenna var tekið úr þjóðskrá og er
úrtaksvilla viðunandi eða aðeins +31,1 (95% öryggisbil) (Þórólfur
Þórlindsson og Þorlákur Karlsson, 2003). Tólf konur töluðu ekki
íslensku og 69 spurningalistum var skilað þar sem heimilisfang var
rangt. Lokaúrtakið var því 919 konur og svörun var 35% (n=319).
Gagnasöfnun
Gagna var aflað í október og nóvember 2013 og var byggt á heildaraðferð
Dillman (1991). Samkvæmt þessari aðferð voru spurningalistar
póstsendir til þeirra sem lentu í úrtaki ásamt skýringabréfi og frímerktu
skilaumslagi. Ítrekun var send þátttakendum bréfleiðis tvisvar og í
síðara skiptið fengu þátttakendur auk ítrekunarbréfs spurningalistann
og svarumslag sent aftur.
Mælingar
Tíðaverkir voru mældir með einni spurningu: „Finnur þú fyrir
tíðaverkjum á meðan á blæðingum stendur?“ og voru svarmöguleikar
já/nei. Þátttakendur, sem svöruðu spurningunni játandi, voru spurðir
um styrk verkjanna á tölukvarða frá 0 (engir verkir) til 10 (mjög miklir
verkir).
Heilsutengd lífsgæði (HL) voru mæld með SF-36v2 heilsukvarðanum
(Short Form 36 Health Survey). Kvarðinn er samsettur af átta
undirkvörðum sem meta heilsu, virkni og vellíðan, en þeir deilast
svo í líkamlega og andlega heilsu. Spurningarnar eru 36 og er þeim
öllum svarað á raðkvarða sem hafa mismunandi svarmöguleika eftir
eðli spurninga. Við úrvinnslu SF-36v2 er hrágögnum umbreytt í stig
byggð á lykli frá rétthafa mælitækisins (Quality Metric Inc. Lincoln,
Bandaríkjunum). Við þessa umbreytingu liggja stigin frá 0 til 100 og
fleiri stig benda til meiri lífsgæða. Almennt má túlka stigafjöldann
þannig að fleiri stig en 50 séu yfir viðmiði fyrir almenning (hér
bandarískar konur á aldrinum 18 til 94 ára) og stig undir 50 undir
því viðmiði (Ware, Kosinski, Bjorner, Turner-Bowker, Gandek og