Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Side 40
40 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2017
Skráning á aukaverkunum
Þáttur í ábyrgri áhættustjórnun væri að bæta við þetta gæðaskal
ákveðinni verklagsreglu með tilvísun á gagnagrunn þar sem skylt væri
að skrá öll tilvik aukaverkana ítarlega og hver beri ábyrgð á þeirri skrán-
ingu. En í verklagsreglunni stendur fyrir að „Áhættuaukaverkanir ber
að skrá í sjúkraskrá og eftir atvikum í atvikaskráningu LSH“. Einungis
fjórar áhættuaukaverkanir eru taldar upp og eru það blóðþrýstingsfall,
Há mænudeyfing með áhrif á öndun og meðvitund, öndunarletjun og
deyfing virkar ekki eða aðeins að hluta.
Þrátt fyrir mikla leit tókst ekki að finna upplýsingar um tíðni auka-
verkana og fylgikvilla af notkun mænurótardeyfingar í fæðingum. Hér á
landi og í öðrum Evrópulöndum eru aukaverkanir og fylgikvillar mænu-
rótardeyfinga líklega ekki skipulega skráðar. Á fæðingarvakt Landspít-
ala eru aukaverkanir skráðar í frjálsum texta í athugasemdardálk (munn-
legar upplýsingar Anna Sigríður Vernharðsdóttir, yfirljósmóðir, 13.
desember 2017).
Gæði í heilbrigðisþjónustu eru til marks um það að hve miklu leyti
veitt þjónusta eykur líkur á bættri heilsu og auknum lífsgæðum og að
hve miklu leyti þjónustan er veitt í samræmi við bestu mögulegu þekk-
ingu (Reglugerð nr. 1148/2008). Þegar ákveðið er að leggja mænu-
rótardeyfingu þyrfti að vera skýr ábending fyrir þörf á deyfingunni
og þannig að hugsanlegur ávinningur af lagningu deyfingarinnar vegi
þyngra en mögulegir áhættuþættir. Með því að tryggja að fræðsluþörf
til barnshafandi kvenna um mænurótardeyfingu í fæðingu sé uppfyllt er
hægt að tryggja betur gæði þjónustunnar þar sem konurnar eru þannig
betur í stakk búnar til að taka upplýsta ákvörðun.
Það er þekkt að víða erlendis þurfa konur að skrifa undir eyðublað
fyrir fæðingu sem sýnir að kona hefur fengið nægar upplýsingar til að
geta tekið upplýsta ákvörðun og samþykkir með undirskrift sinni að
leggja megi mænurótardeyfingu sé þess þörf. Til eru ýmis módel af
fræðslu og eyðublöðum sem hægt væri að aðlaga að okkar aðstæðum og
nýta í mæðraverndarfræðslu hér á landi.
Samkvæmt ráðleggingum „Obtaining Valid Consent“ (Clinical
Governance Advice No.6, January 2015) frá Royal College of Obstetrici-
ans and Gynaecologists er lagt upp með að ítarleg og góð fræðsla sé veitt
áður en samþykkis er óskað og þannig tryggt að konur geti veitt upplýst
samþykki fyrir lagningu mænurótardeyfingar í fæðingu. Mælst er til að
konur fái fræðsluna á meðgöngutímanum frekar en í fæðingunni sjálfri
þar sem sannað þykir að þá séu konur mun móttækilegri fyrir fræðslunni
og betur í stakk búnar til að vega og meta kosti og galla og koma með
spurningar til að skerpa á skilningnum. Einn meginþáttur gæða í heil-
brigðisþjónustu er einmitt rétt tímasetning.
Bætt verklag og gæði þjónustu
Til að bæta gæði þjónustunnar og byggja á öryggismenninguna væri rétt
að bæta verklag í mæðraverndinni til að tryggja að allar barnshafandi
konur fái viðeigandi fræðslu um mænurótardeyfinu til að geta tekið
upplýsta ákvörðun um notkun deyfingarinnar þegar kemur að fæðingu.
Til að tryggja gott verklag væri rétt að konur kæmu með undirritað
upplýst samþykki með sér á fæðingarstað sem staðfesti að konan hefði
fengið staðlaða viðurkennda fræðslu.
Einnig er þörf á að beita virkri áhættustjórnun og bæta úr skráningu
aukaverkana og fylgikvilla deyfingarinnar á fæðingarstað til að tryggja
betri yfirsýn svo hægt sé að endurbæta kerfið þegar frávik koma í ljós
(Staðallinn ISO 31000:2009).
Góður öryggisbragur einkennist af því að öryggi sjúklinga er sett
í öndvegi og áhættustjórnun er samofin öllu því sem gert er. Megin-
þættir til að bæta öryggisbrag eru að stofnanir tryggi öryggi sjúklinga,
viðhafi fagleg samskipti, samstarf og skráningu atvika (Reglugerð nr.
1148/2008).
Í Alþjóðasiðareglum ljósmæðra (1993) sem eru siðareglur Ljós-
mæðrafélags Íslands, er skýrt kveðið á um siðferðilega skyldu ljósmæðra
til að fræða konur og stuðla þannig að aukinni hæfni þeirra til ábyrgrar
ákvarðanatöku og jafnframt sýna sjálfræði þeirra virðingu. En þar segir:
Ljósmæður virða rétt kvenna til að taka upplýstar ákvarðanir og
stuðla jafnframt að því að konur taki ábyrgð á afleiðingum eigin
ákvarðana.
Ljósmæður vinna með konum og styðja rétt þeirra til að taka
virkan þátt í öllum ákvörðunum er lúta að umönnun þeirra. Ljós-
mæður starfa ásamt öðrum konum með heilbrigðisyfirvöldum að
því að skilgreina þá heilbrigðisþjónustu sem konur hafa þörf fyrir
og þær leitast við að tryggja að þeim gæðum sem standa til boða
sé réttlátlega skipt með tilliti til forgangs í heilbrigðisþjónustu og
aðgangs að henni.
Drög að úrbótum - tillögur
Þverfaglegt teymi heilbrigðisstarfsfólks, ljósmæðra og svæfingarlækna
komi saman að gerð staðlaðs fræðsluefnis sem byggir á gagnreyndum
upplýsingum og telst hnitmiðað, auðskilið og auðflutt, til að nota á
meðgöngu og/eða í fæðingu. Fræðsluefnið mun auka fagleg gæði þjón-
ustunnar og auka virði hennar.
Fræðsluefnið skal hafa þann tilgang að veita barnshafandi konum
fullnægjandi upplýsingar um virkni, ábendingar og frábendingar og
eins þekktar aukaverkanir mænurótardeyfinga í fæðingu.
Fræðsluefninu er ætlað að tryggja sjálfræði konunnar og getu til
að taka upplýsta og ábyrga ákvörðun um að óska eftir og/eða þiggja
mænurótardeyfingu í fæðingu.
Einnig skal útbúið staðlað eyðublað sem nota skal samhliða fræðslu-
efninu. Eyðublaðið skal staðfesta með undirskrift að kona hafi fengið
viðkomandi fræðslu og hvort hún samþykki lagningu deyfingarinnar
ef þörf er á.
Undir eyðublaðið skal einnig kvitta ljósmóðir sem veitir fræðsluna
og skal það vera dagsett. Eyðublaðið fylgir svo mæðraskrá konunnar
með henni á fæðingarstað.
Þegar fræðsluefni og eyðublað er tilbúið hefst innleiðingarferli
og skal það haft að leiðarljósi að sama fræðsla sé veitt alls staðar á
landinu.
Leggja skal þjónustukannanir bæði fyrir konur sem fá fræðsluna
og eins fyrir þær ljósmæður sem koma að þjónustu við konur í barn-
eignarferlinu til að mæla gæði þjónustunnar.
Útbúa skal og samhæfa gagnagrunn sem nýttur er til skráningar á
öllum aukaverkunum og fylgikvillum sem af mænurótardeyfingum í
fæðingu hljótast svo hægt sé að meta umfangið og vinna að úrbótum
alls staðar sem við verður komist.
SAMANTEKT
Til að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og draga úr áhættu þarf verklag
og ábyrgð að vera skýr og byggð á bestu þekkingu og reynslu á hverjum
tíma. Þjónustuþegar eiga að fá þjónustu sem er veitt í samræmi við
skilgreinda meginþætti gæða, þjónustan á að vera örugg, rétt tímasett,
skilvirk og samfelld, byggð á jafnræði og ekki síst notendamiðuð og
árangursrík (Laura Sch. Thorsteinsson og félagar, 2012).
Eins og fram hefur komið er fræðslu um mænurótardeyfingu til
barnshafandi kvenna hér á landi ábótavant og ekki í samræmi við lög
eða siðareglur. Bæta má með breyttu verklagi og litlum tilkostnaði gæði
og öryggi þessarar þjónustu, lagningu mænurótardeyfingar í fæðingu
í samræmi við lög og siðareglur (Lög nr. 74/1997; Alþjóðasiðareglur
ljósmæðra, 1993).
Til að endurspegla góða starfshætti þurfum við að geta svarað eftir-
farandi spurningum (Áhættustjórnunarstaðall, ISO 31000:2009);
Hvað getur gerst og af hverju? Með núverandi fyrirkomulagi er ekki
tryggt að kona í fæðingu geti tekið upplýsta ákvörðun þegar hún óskar
eftir og/eða þiggur mænurótardeyfingu. Hægt er að breyta því.
Hverjar eru afleiðingarnar? Fæðandi kona og barn hennar geta orðið
fyrir aukaverkunum sem fylgt geta mænurótardeyfingu. Afleiðingarnar
af því að viðhalda núverandi starfsháttum draga úr sjálfræði og ábyrgð
kvenna. Hægt er að draga úr líkum á óþarfa inngripum og þar með
líkum á aukaverkunum af þeim með fræðslu. Þekktar eru fjölmargar
aukaverkanir, misalvarlegar. Einstaka óalgeng en alvarleg tilfelli hafa
ratað í opinbera umræðu svo sem tilfelli ungrar 16 ára frumbyrju sem
fékk mænurótardeyfinu í fæðingu sem leiddi til þess að hún er 75%
öryrki eftir. Að hennar sögn var deyfingin lögð án allrar fræðslu og ekki
með samþykki hennar (DV, 3. febrúar 2016).
Hverjar eru líkurnar á endurtekningu í framtíðinni? Líkunum á
endurtekingu þarf að huga að og mæla en þar skiptir viðeigandi skrán-