Morgunblaðið - 13.11.2018, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 13.11.2018, Blaðsíða 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 13. NÓVEMBER 2018 Í Innlöndum Hannesar Péturs- sonar skálds, móður- bróður Sigga, er ljóð sem heitir „Kveðja“: Í morgun sastu hér undir meiði sólarinnar og hlustaðir á fuglana hátt uppí geislunum minn gamli vinur en veist nú í kvöld hvernig vegirnir enda hvernig orðin nema staðar og stjörnurnar slokkna. Snöggt augabragð dauðans er hastarlegt og tíminn einn, óskilj- anlegur, líknar vandamönnum í ljósi minninganna. Siggi kom sumarstrákur heim á Sauðárkrók æskunnar í átthaga móður sinnar og þar iðkuðum við þroskandi strákapör í hafgolunni og tengdumst vináttuböndum; reykjarlykt og sjávarselta fylla vitin við tilhugsun um þessa stutt- buxnadaga – í bland við heilræði fullorðins fólks … Siggi var aldrei í lognmollu, fremur hið gagn- stæða, gustmikill í þungamiðju dagsins, jafnan gleðigjafi í sam- skiptum, stakk á kýlum þjóð- félagsins með hárbeittu skop- skyni, sagði sögur; jafnaðarmaður að lífsskoðun og rétti fólki hjálp- arhönd með eðlislægri hlýju. Af honum stafaði bjarnyl vináttu og tryggðar, og faðmlag hans var þétt. Mikið óskaplega var gaman að glingra með honum við glas! Hann gekk einbeittur til verka, fyrst kennslu, síðar útgáfustarfa, síðast í eigin forlagi, vinmargur og alls staðar vel látinn og til forystu fallinn. Þau Rúna voru samhent hjón og börnin þeirra, barnabörn og venslamenn voru alltaf efst á baugi; frændgarði sínum öllum var hann hjálparhella. Svo er hann skyndilega allur, þessi stóri, sterki maður. Það syrtir að, er sumir kveðja, orti Davíð. Í Innlöndum Hannesar er ljóðið „Í Reykja- garði“, en þar hvílir Hannes Pét- ursson frá Skíðastöðum, langafi Sigga, afi og alnafni skáldsins, en enginn veit nú hvar leiði hans er í garðinum. Ljóðinu lýkur á þessum tveimur erindum: Týnd er gröfin. Ég geng milli leiða kvöldsvalt grasið. Hin græna breiða hylur moldu og menn og tíðir unz allt um síðir sefur í foldu sefur draumlaust að duldum vilja og æðsta boði – sem engir skilja. Sjá einhver stendur við stundaglasið og allt er grasið tvær óséðar hendur. Með þessum fallegu línum vil ég kveðja vin minn, tröllið hann Sigga, sem nú hefur stigið hið dimma fet, stundaglasið skyndi- lega tæmt. Við söknum hans öll. Síðasta útgáfa hans var ný bók eftir Hannes, Haustaugu, einstak- lega fallegt verk hið ytra sem innra. Það er reiðarslag þegar öflugir og góðir menn falla fyrir ljánum svo snemma, að óloknu dagsverki. Þyngsta höggið dynur á hans nán- ustu. Rúnu, börnum hans og öðr- um ástvinum sendi ég samúðar- kveðju. Megi sá sem gleðina vakti færa þeim líkn með þraut. Sölvi Sveinsson. Sigurður S. Svavarsson ✝ Sigurður S.Svavarsson fæddist 14. janúar 1954. Hann lést 26. október 2018. Útförin fór fram 7. nóvember 2018. Það var sár fregn- in um andlát vinar okkar Sigurðar Svavarssonar sem svo snögglega var burtkallaður og allt of fljótt. Kynni okk- ar urðu til á háskóla- árunum á áttunda áratug síðustu aldar. Það varð strax til einhver samhljómur milli okkar sveita- mannanna og þessa stóra Reyk- víkings sem þegar var orðinn þekktur handboltagarpur í höfuð- borginni. Til varð traust og ævi- löng vinátta. Þetta var á lokaspretti þeirra ára sem skólar tóku í að undirbúa okkur undir lífið, eins og það heit- ir, rétt eins og við værum ekki stödd þar, ár með basli og blank- heitum og góðum skammti af æðruleysi. Við áttum það meðal annars sameiginlegt að eiga ekk- ert nema svipaðan bakgrunn og líka sýn á lífið. Við þessar aðstæð- ur var það gæfa út af fyrir sig að eiga vináttu Sigga og Guðrúnar. Síðar, þegar leiðir skildi í mældum vegalengdum og sam- vistirnar urðu slitróttari, breytti það engu: það var jafnan eins og við hefðum kvaðst fyrir stundu, allt var óhaggað. Siggi fékkst við ýmislegt um ævina og fékk mörgu áorkað. Eftir háskólanám kenndi hann ís- lensku í Menntaskólanum við Hamrahlíð en fljótlega sneri hann sér að útgáfustörfum. Bókin varð ástríða hans. Hann reyndist dug- mikill og metnaðarfullur ritstjóri kennslubóka í útgáfu Máls og menningar á tímum þegar fram- haldsskólar kölluðu ákaft á kennslubækur enda nánast al- skortur á nothæfum bókum af því tagi. Síðan jókst honum frami hjá Máli og menningu og Bókaútgáf- unni Eddu. Síðustu árin starf- rækti hann eigið fyrirtæki sem gaf út bækur margskonar efnis og innan um stórvirki í bókaútgáfu, svo sem bókin Myndlist í þrjátíu þúsund ár. Það fór vel á því að síð- asta bókin sem hann náði að gefa út skyldi vera ljóðabók eftir móð- urbróður hans og snillinginn Hannes Pétursson. Þá gaf Siggi sig talsvert að félagsmálum á ís- lenskum og samnorrænum vett- vangi. Siggi hafði næmt skyn á það spaugilega í lífinu og var sérlega snjall í því að gefa atvikum nýtt líf í góðum sögum, hafði svo gott vald á því að láta atvikin laga sig að sögunni að þegar hann náði sér best á strik nálguðust tök hans á efninu hreina snilld; hann var sagnameistari. Okkur mönnunum er ekki öll- um lagið að komast vel af við fólk en hér lá styrkur hans öðru fremur. Samskipti við unga sem gamla, Íslendinga sem útlendinga, fólk af öllum stigum voru honum fyrirhafnarlaus, enginn manna- munur komst þar að – og ávann sér jafnan traust og velvild sam- ferðamanna innanlands sem utan. Maðurinn var stór og þéttvax- inn eins og hann átti kyn til en um leið fíngerður eins og lundin, ruddi sér ekki til rúms. Viðmót hans var hlýtt og faðmur hans þéttur sem varð mörgum til gleði og huggun- ar. Þetta voru strengir hans enda sérlega músíkalskur á lífið. – Af öllum mannkostum hans stendur upp úr hversu góður drengur hann var. „Hann er horfinn burtu / sá er hörpuna sló“ segir frændi hans í einu ljóða sinna. Með Lys og varme kveðjum við þig, góði vinur, og vottum Guð- rúnu, Svavari, Ernu og fjölskyld- um dýpstu samúð. Ásthildur Bjarnadóttir Ásmundur Sverrir Pálsson. Hvenær hitti maður Sigga fyrst? Að syngja með skandinav- ískum kennurum alla nóttina þar til glær dagur rann og ydda til- finningarnar með lýríkinni – skæla dáldið yfir Ætti ég hörpu hljómaþýða, hreina mjúka gígju- strengi og Jeg vil male dagen blå – fara út í Drangey með flokk af finnskum kennslukonum í kápum og hælaháum skóm sem urðu svo lofthræddar að það þurfti að flytja þær einsog drekkhlaðna vel mál- aða frystiskápa niður eyjuna og útí bát – taka massíf flissköst yfir útlistunum Sigga á fólki og fénaði – það var ekki venjulegt hvað maðurinn gat verið fyndinn. Smæstu smáatriði í fari fólks urðu lifandi í hans frásögn og alltaf laus við græsku. Hann hafði svo vökult auga djúpt í sínu stóra höfði og fylgdist vel með. Hann kunni fataskápana okkar utan að og helstu flíkur báru sérstök nöfn: af hverju ertu ekki í axminster, spurði hann þegar skokkurinn minn hefði átt best við. Ég tók við hans kennslubóka- ritstjórn hjá MM þegar lífið var einsog í löngum Friends-þætti. Siggi hafði kennt frá landnámi og þekkti hvern einn og einasta kennara á landinu fannst mér. Hann bar höfuð og herðar yfir mann í öllum skilningi. Alls kyns kennslubækur runnu út úr prent- smiðjunni og vertíðin var geggjuð, þetta voru gózzzentímar með mörgum zetum. Siggi var alltaf velviljaður og mildur, og skildi eft- ir vott af rakspíra í loftinu sem ekki hvarf. Rétturinn 517 á Asíu var partur af hinu daglega brauði hans og svo var það rauður prinz á eftir. Í hinu svokallaða stóra og yfirþyrmandi samhengi þótti hon- um eftirmaðurinn kannski ekki alltaf hafa lög að mæla eða feta rétta leið. Við fórum út á landsbyggðina á leiðinni til Frankfurt að hitta vín- bændur og vini mína. Á leiðinni rakti ég söguna af blóðugu háls- kirtlatökunni minni og hann spurði hvar styttan af kirtlunum væri. Siggi var farinn að tala ögn smámælta en reiprennandi þýsku eftir nokkra klukkutíma með heimamönnum, sem fylltust að- dáun og gleði yfir þessum augljósa lífsþorsta og geta ekki gleymt honum. Þetta stóra norræna tröll sem skolaði niður hvítvíninu þeirra einsog vatni sló út allar aðr- ar heimsóknir sem þeir höfðu fengið um dagana, svona hlýr og góður og hristist allur þegar hann hló – og svo byrjaði hann að syngja. Innilegar samúðarkveðjur til Rúnu og alls fólksins hans Sigga sem á svo góðs að minnast en á nú um sárt að binda. Védís Skarphéðinsdóttir. Þegar skeggjaða varnartröllið úr handboltanum fór að kenna ís- lensku og bókmenntir í MH var það okkur mörgum hugljómun. Siggi Svavars var mjög inspírer- andi kennari og ekki síst hvatti hann okkur til þess að njóta bók- mennta, enda bjó hann síðar til námskeið undir heitinu Yndislest- ur sem hefur farið sigurför um framhaldsskólakerfið. Við grín- uðumst með það að hefði hann fengið höfundarrétt að þessu hugarfóstri sínu væri hann ríkur maður. Siggi var hins vegar hugsjóna- maður um betri og áhrifaríkari kennslu með sama hætti og hann gladdist einlæglega yfir góðri og fallegri bók, þótt ekki væri met- sölubók eða á allra vitorði. Og svo var hann Framari. Fyrir mig var Siggi nokkur ör- lagavaldur. Hann hafði milligöngu um að ég hóf kennslu í MH og síð- ar fylgdi ég honum yfir í Mál og menningu til starfa við bókaút- gáfu sem hefur verið starfsvett- vangur minn að mestu síðan og lengst af við hans hlið. Alltaf var Siggi, Sívert eins og við kölluðum hann oft, þessi góði félagi sem hvatti til dáða, honum var eðlislæg þessi hvetjandi bjartsýni sem veit- ir stundum ekki af í bókaútgáfu. Hann virkaði á einhvern hátt oft á mig sem kjölfesta, hafði enda til þess alla burði. Siggi var gleðimaður. Það heiti lýsir honum einna best og enginn var fundvísari og snjallari í að búa til gleðistundir. Í MH bjó hann til „guttekvell“ sem hann kallaði, en þá fengum við strákarnir okkur bjór og vorum glaðir í karlmann- legri samveru, „hinni hlýju og röku samkennd búningsklefans“, sem Siggi nefndi svo og hann sjálf- ur ávallt fremstur í flokki í ein- lægri gleði, „jæja gutterne mine – nú skálum við!“ Og á árshátíðum passaði hann upp á að dansa við allar konurnar, eldri sem yngri. Alþjóðlega frægð sem gleði- maður öðlaðist Siggi svo í Frank- furt. Þar var hann hjartað og sálin í árlegri samkomu í kjallara rúss- neskrar veitingakonu sem náði slíkri hylli að ég minnist mektar- útgefenda sem sögðust eingöngu mæta á bókamessuna til þess að komast á kjallarasamkomuna. Þarna naut Siggi sín til fulls sem gestgjafi, söng norska lagið svo- kallaða sem að eilífu mun honum tengt, og lét hinar ýmsu sendi- nefndir syngja lög frá löndum sín- um og stýrði sjálfur okkur Íslend- ingunum í söng og leik. Svo dansaði hann í lokin við hina öldnu Mammúsku í hjartnæmum dansi. Allt mótaðist það sjónarspil af eðlislægri samkvæmisgleði og út- geislun Sigga. Á síðustu messunni, fyrir fáein- um vikum, lá óvenju vel á Sigga. Honum fannst hann kominn á góðan stað og fyrir vind með Opnu og hlakkaði til að gefa út ljóðabók Hannesar höfuðskálds, frænda síns. En þótt maðurinn með ljáinn hafi hér reitt hátt til höggs er rétt að minna á snjalla hendingu téðs stórskálds: Svo er því farið: Sá er eftir lifir deyr þeim sem deyr en hinn dáni lifir í hjarta og minni manna er hans sakna. Þeir eru himnarnir honum yfir. Við erum mörg sem munum sakna Sigga sárt. Sárastur er þó harmur fjölskyldunnar og ég sendi Rúnu, Svabba og Ernu, barnabörnunum og öllum ást- vinum mínar dýpstu samúðar- kveðjur. Páll Valsson. And now, the end is near And so I face the final curtain. (Og nú, er við mér blasir, að tjaldið fellur hinsta sinni.) Undir þessum ljóðlínum Frank Sinatra kvaddi ég Sigga Svavars í hinsta sinn í kjallaranum hennar Mamúsku heitinnar í Kröger- strasse í Frankfurt. Við hjónin vorum farin að búa okkur til brott- farar en Siggi hvatti okkur til að vera lengur enda stutt í My Way sem síðasta lag og engin ástæða til þess að fara strax. Og núna hefur þessi texti, þetta kvöld allt og síð- asta knúsið þarna í kjallaranum allt aðra og dýpri merkingu. Við Siggi kynntumst fyrst fyrir 30 árum eða þegar ég tvítugur starfaði með Birni Eiríkssyni fósturföður mínum við rekstur Bókaútgáfunnar Skjaldborgar. Siggi var þá kennslubókaritstjóri hjá Máli og menningu en varð síð- ar framkvæmdastjóri sama félags og útgáfustjóri Eddu útgáfu áður en hann stofnaði Opnu útgáfu árið 2008. HINSTA KVEÐJA Sigurður Svavarsson var framúrskarandi samstarfs- maður um árabil. Hann var ástríðufullur bókamaður og fagurkeri um alla gerð. Siggi var sannkallað tryggðatröll og drengur góður. Samúð er með fjöl- skyldunni við ótímabæran missi. Blessuð sé minningin ljúf. Páll Bragi Kristjónsson. Virðing, reynsla & þjónusta Allan sólarhringinn 571 8222 Svafar: 82o 3939 Hermann: 82o 3938 Ingibjörg: 82o 3937 www.kvedja.is svafar & hermann Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, tengdasonur, afi og langafi, GRÉTAR HREIÐAR KRISTJÓNSSON sjómaður frá Gilsbakka, Hellissandi, lést á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð að morgni föstudagsins 2. nóvember. Útförin fer fram frá Boðunarkirkjunni í Hafnarfirði föstudaginn 16. nóvember klukkan 13. Jarsett verður í Gufuneskirkjugarði. Guðný Sigfúsdóttir Jóhann Grétarsson Marife Legaspi Gagay Sigfús Sigurðsson barnabörn og barnabarnabörn Okkar kæri LOFTUR ÞÓR SIGURJÓNSSON, Boðagranda 7, Reykjavík, lést á Landspítalanum í Fossvogi sunnudaginn 4. nóvember. Útför hans fer fram frá Fossvogskapellu fimmtudaginn 15. nóvember klukkan 11. Þórunn Edda Sigurjónsdóttir Leifur Magnússon Sigurjón Halldórsson Gunnlaug Thorlacíus Kjartan Þór Halldórsson Hulda S. Bjarnadóttir Þórunn Edda, Halldór Hrafnkell og Katla Sólrún Harpa og Hekla Særún Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, BÁRA HELGADÓTTIR, Njarðarvöllum 6, Njarðvík, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja miðvikudaginn 7. nóvember. Hún verður jarðsungin frá Ytri-Njarðvíkurkirkju fimmtudaginn 15. nóvember klukkan 14. Jóhanna G. Egilsdóttir Skúli H. Hermannsson Helgi G. Steinarsson Aneta Grabowska Árni Einarsson Áslaugur S. Einarsson Guðrún Jóna O'Connor Arnar Einarsson Guðfinna Eðvarðsdóttir Guðlaug Einarsdóttir Hafsteinn Ingibergsson barnabörn og barnabarnabörn Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, stjúpmóðir, tengdamóðir og amma, AGNES GEIRSDÓTTIR, Stekkjargötu 21, Reykjanesbæ, lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sunnudaginn 28. október. Útförin fer fram frá Bústaðakirkju föstudaginn 16. nóvember klukkan 13. Þeim sem viljast minnast hennar er bent á styrktar- og líknarsjóð Oddfellow. Guðjón Guðmundsson Geir Rúnar Birgisson Laufey Ólafsdóttir Hrafnhildur Birgisdóttir Aðalsteinn Sigurðsson Kristín Guðjónsdóttir Gísli Stefán Sveinsson Hildur Guðjónsdóttir Arnar Snæberg Jónsson og barnabörn Myndir | Hafi mynd birst í tilkynningu er hún sjálfkrafa notuð með minningargrein nema beðið sé um annað. Ef nota á nýja mynd skal senda hana með æviágripi í innsendikerfinu. Hafi æviágrip þegar verið sent er ráðlegt að senda myndina á netfangið minning@mbl.is og láta umsjónarmenn minningargreina vita. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.