Morgunblaðið - 01.12.2018, Blaðsíða 44

Morgunblaðið - 01.12.2018, Blaðsíða 44
44 MENNING MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2018 Hér er gripið ofan í kafla þar sem Jóna, næstelsta dóttir Kambshjóna, segir frá lífinu í aðdraganda þess að eigur fjölskyldunnar eru boðnar upp: Veikindi mömmu mörkuðu fjöl- skyldulífið, hún var berklasjúklingur og dvaldi þar af leiðandi nokkrum sinnum á Vífilsstöðum. Hún var með lokaða berkla, sem kallað var, og því smitaði hún okkur ekki. Mér er sagt að fyrst hafi orðið vart við berklana hjá henni þegar hún var í kringum tví- tugt, en það er fyrst í september 1927 sem hún er lögð inn á berkla- spítalann á Vífilsstöðum þar sem hún dvaldi samfleytt næstu tvö árin eða fram í mars 1929. Á þessum tíma voru nothæf lyf til þess að takast á við sjúkdóminn ekki komin til skjalanna og því var reynt að takast á við hann með því að ein- angra sjúklingana frá samfélaginu, gefa þeim góðan og hollan mat og sjá til þess að þeir dveldu sem mest í hreinu og góðu útilofti. Það er ekki fyrr en um miðja öldina, sem fyrst koma nothæf lyf til að berjast við sjúkdóminn, sem varð til þess að lífs- líkur berklasjúklinga bötnuðu mjög og baráttan við sjúkdóminn tók að skila árangri, sem lauk með fulln- aðarsigri. Fram til þess tíma voru berklarnir viðvarandi ógn hjá öllum sem einu sinni höfðu sýkst. Stundum dúraði veikin, lagðist í dvala, en áður en varði tók hún sig upp á ný og þá varð að bregðast við. Þannig gekk þetta hjá mömmu, stundum betra og stundum verra og þegar verst gekk varð hún að fara á spítala. Það gerðist til dæmis þegar ég var um það bil hálfs árs gömul, en áður en hún fór suður var mér komið fyrir í Kolbeinsvík hjá góðu fólki og þar var ég í fóstri næsta árið. Heima í Veiðileysu voru Pálína og Ágúst í umsjá fólksins þar. Í þetta sinn dvaldi mamma ekki á spítalanum nema í þrjá mánuði, en það dróst samt á langinn, í heilt ár, að hún treysti sér til að taka mig aftur til sín, kannski vegna ótta um að ég gæti smitast, ég veit það ekki. Þegar að því kom var ég orðin eins og hálfs árs og ekki enn farin að ganga. Fósturfólkið vildi gjarna hafa mig lengur en mamma tók það ekki í mál, því henni var það mikilvægast af öllu að halda fjöl- skyldunni saman. Þegar ég kom heim fannst mömmu ekki eðlilegt, að ég væri ekki farin að ganga eins og önn- ur börn, svo hún tók til sinna ráða, hún mokaði í mig lýsi, fiskilifur, nýj- um fiski, mjólk og öðru góðmeti eins og hún gat í mig troðið. Árangurinn lét ekki á sér standa, því á nokkrum vikum braggaðist ég svo að ég var farin að hlaupa um og hef æ síðan verið frekar létt á fæti. Vegna berklaveikinnar var mamma viðvarandi heilsulítil og þurfti af og til að dveljast á Vífils- stöðum, alveg fram yfir miðja öldina. Af heilsuleysinu leiddi að hún átti oft erfitt með að ganga til daglegra verka og því vöndumst við Pálína snemma á að sinna verkum bæði úti og inni. Mörg þessara verka voru varla talin barnaverk á betri bæjum, eins og að elda mat, þvo þvott, mjólka kýr og yfirleitt öll tilfallandi störf sem þurfti að vinna og mamma gat ekki sinnt. Ekki bætti úr skák að pabbi var oft að heiman svo að fjárhirðing og önnur bústörf lentu á Pálínu og Gústa um lengri eða skemmri tíma í senn. Einhvern veginn æxluðust hlut- irnir þannig að þar sem ég var meiri innimanneskja en Pálína tók ég að mér inniverkin meðan Pálína gösl- aðist úti og vílaði ekkert fyrir sér. Ofan í berklaveikina fékk mamma magasár, sem hún þurfti að glíma við oft og lengi og þegar verst lét þoldi hún alls ekki matinn sem var daglega á borðum á Kambi; siginn fisk, salt- fisk eða saltkjöt, sjaldan nýmeti þar sem lendingin var oft ófær svo ekki varð komist á sjó og mjólk og mjólk- urmatur af skornum skammti. Þegar mömmu leið sem verst varð að grípa til þeirra ráða sem í boði voru svo hún fengi eitthvað sem hún þyldi og héldi niðri. Byssa var til á bænum, en þrátt fyrir að Pálína væri aðeins óharðn- aður unglingur dó hún ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn þegar nauðsyn krafði. Þá tók hún byssuna og nokkur skot og gekk niður í fjöru þar sem æðarfuglinn sat uppi í stórum hópum. Hann styggðist ævinlega fram á sjó- inn við mannaferðina svo ekki varð komið skoti á hann, en aftur á móti hlupu oft stórir hópar af sendlingum um fjöruna og tíndu í sig góðmeti á milli steina. Pálína hugsaði sem svo að kjöt væri kjöt, sama hvaðan það kæmi, og þar sem mömmu bráðvant- aði nýmeti skaut hún stundum send- linga sem ég matreiddi. Þannig leyst- um við matarvandamálin á bænum þegar kreppti verulega að, annars get ég staðfest að bringan á sendling- unum er alveg ótrúlega stór og kjötið er gott. Það var aldrei spurt um hlutina þegar í nauðir rak, hvort sem þurfti að skjóta fugl í matinn eða annað sem úrlausnar krafðist, aðeins gert það sem gera þurfti hverju sinni og hægt var að bjargast við. Magaveikin var þrálát ekki síður en berklarnir og fór stöðugt versn- andi. Að endingu varð mamma að fara til Reykjavíkur vorið 1953 að leita sér lækninga og var í framhald- inu lögð inn á Landspítalann þar sem stór hluti magans var fjarlægður. Þrátt fyrir öll veikindin missti mamma hvorki kjarkinn né baráttu- þrekið, það var eftirminnilegt að fylgjast með henni sitjandi við saumavélina og sauma, hún saumaði allan fatnað á okkur systkinin meðan við vorum öll heima, stundum hall- aðist hún fram á saumavélarborðið og hélt um magann meðan verstu verk- jakviðurnar gengu yfir og hélt svo áfram við saumaskapinn þegar aftur dúraði. Hún gafst aldrei upp hún móðir okkar, uppgjöf var nefnilega aldrei til í hennar orðabók. Árið 1949 varð fyrst í alvöru vart við veikindin hjá pabba, sem lýstu sér í þrekleysi og lystarleysi, hann guln- aði allur í framan og var með stöðuga og vaxandi verki eftir því sem á leið. Sjúkdómsgreiningin var krabbamein, óafturkræfur dauðadómur yfir hverj- um manni á þessum árum. Veikindin urðu til þess að hann var frá vinnu löngum stundum og gat aldrei sinnt neinu sem tók líkamlega á. Sjúkdóm- urinn lagðist hart á hann, krabba- meinið dreifðist hratt um allan líkam- ann og hjó skörð í andlega heilsu hans þegar á leið. Veikindin leiddu til þess að hann varð óvinnufær seinustu tvö árin sem hann lifði, andlegri heilsu hans hrakaði verulega og hann tók stundum rangar ákvarðanir, sem kostuðu peninga; skuldir hrönnuðust upp sem aldrei fyrr, þá fyrst og fremst við sveitarfélagið og Kaup- félag Strandamanna í Djúpuvík. Fátæktin tók fjölskylduna heljar- tökum á þessu tímabili, hún stóð ein uppi algjörlega varnarlaus, enga að- stoð var að hafa af hálfu samfélags- ins, það var eins og allir biðu eftir endalokunum, að þá fyrst yrði eitt- hvað hægt að aðhafast. Kannski hef- ur hugmyndin um að leysa heimilið upp og setja okkur á sveitina verið farin að búa um sig í huga ráðamanna samfélagsins strax á þessum tíma. Seinasta haustið sem pabbi lifði var mjög erfitt, mamma heilsulítil að vanda og lítt vinnufær, með stöðug magavandamál og pabbi rúmfastur, fárveikur og leið miklar þjáningar svo vinnan og ábyrgðin hvíldi á okkur Pálínu af fullum þunga, ég 16 ára og Pálína 17 ára. Um nokkurra mánaða skeið sprautaði ég pabba oft á sólar- hring með morfíni, sem héraðslækn- irinn skildi eftir heima hjá okkur í þessu skyni. Ég sinnti honum eins og ég gat jafnframt öllum inniverk- unum, meðan Pálína, með aðstoð elstu systkinanna, annaðist öll úti- verkin. Undir það síðasta var pabbi fluttur suður á Landspítalann í Reykjavík, þegar við réðum ekki lengur við að hjúkra honum. Það er erfitt að hugsa til baka, til þessara daga, hvernig við lögðum okkur öll fram um að halda í horfinu, sinna skepnum og nauðsynlegu heim- ilishaldi og á kvöldin sátum við krakkarnir og mamma, þögul og hnípin og biðum þess sem verða vildi; veikindi mömmu ágerðust dag frá degi og við vissum að lokin hjá pabba væru ekki langt undan. Jólin voru döpur, myrkur og lát- lausar hríðar með nístingsfrosti og lítið til að borða. En einhvern veginn stóðum við þetta af okkur og þrátt fyrir veikindin talaði mamma í okkur kjarkinn; við vorum öll meðvituð um hversu staða fjölskyldunnar var erfið og vorum því mjög samtaka um að hjálpast að, gefast ekki upp og leggja okkur fram af alefli til að gera það sem við orkuðum hvern einasta dag á meðan týrði á dagsbirtunni. En ekki var hægt að halda öllu í horfinu. Stöðugt hallaði undan fæti á meðan þessar hamfarir sjúkdóma, fá- tæktar og bjargarleysis gengu yfir heimilið. Pabbi dó á Landspítalanum 9. jan- úar 1953 og nokkrum mánuðum síðar varð mamma að fara suður til lækn- inga eins og áður sagði. Eftir sátum við systkinin á Kambi í óvissu um framhaldið; það yrði allavega ein- hvern veginn, en við vorum staðráðin í að takast á við hlutina af fullri ein- urð, hvað sem á kynni að dynja. Og það gerðum við. Engu gleymt, ekkert fyrirgefið Bókin Kambsmálið – Engu gleymt, ekkert fyrirgefið segir frá átökum fátækrar fjölskyldu við hreppsyfirvöld í Árneshreppi á sjötta áratug 20. aldar, en 4. júni 1953 mætti hreppstjóri Árneshrepps að bænum Kambi til að bjóða upp dánarbú heimilisföður- ins, sem látist hafði fyrr á árinu, þegar húsmóðirin var á berklahælinu á Vífilsstöðum en heima fyrir einungis börnin, átta talsins. Höfundur bókarinnar er Jón Hjartarson, fyrrverandi fræðslustjóri, en það er Bókaútgáfan Sæmundur sem gefur út. Basl Það sem eftir er af íbúðarhúsinu á Kambi í Veiðileysufirði. Samhent Sjö systkinanna á Kambi, en þau voru átta uppboðsdaginn. 3ja herbergja íbúð á jarðhæð ásamt bílastæði í bílgeymslu í mjög vönduðu fjölbýli við höfnina í Keflavík. Stærð 107,9 m2. Verð kr. 41.900.000. Víkurbraut 15, 230 Reykjanesbæ Nánari upplýsingar á skrifstofu s. 420 6070 eða eignasala@eignasala.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.