Kraftur - 01.01.2015, Blaðsíða 23

Kraftur - 01.01.2015, Blaðsíða 23
23 Kraftur 1. tbl. 2015 Bókaumfjöllun Ógnþrungið ævintýri Ástin, drekinn og dauðinn heitir ný bók eftir Vilborgu Davíðsdóttur Í bókinni lýsir hún vegferð sinni og eiginmanns hennar, Björgvins Ingimarssonar, með sjúkdómi sem þau vissu að myndi draga hann til dauða og fyrsta árinu eftir að hún varð ekkja. Í fyrsta hluta bókarinnar segir Vilborg frá því þegar Björgvin greinist með krabbamein í heila árið 2006 og velheppnaðri meðferð sem hann gekkst undir í Edinborg þar sem fjölskyldan var þá búsett. Fimm árum síðar tók meinið sig upp aftur og hálfu ári eftir það var Björgvin allur. Bókin er fleyguð bloggpistlum sem Vilborg skrifaði og vöktu mikla athygli á sínum tíma. Ástin, drekinn og dauðinn veitir í senn innsýn í veröld krabbameinsins og djúpa sorg þess sem hefur elskað og misst. En hún er ekki síður óður til kærleikans, hvatning til að lifa í árvekni og sættast við að dauðinn er órjúfan- legur hluti af lífinu. Vilborg hefur hlotið lof fyrir skáld- sögur sínar þar sem sterkar konur fyrri alda takast á við örlög sín. Hér lendir hún sjálf í ógnþrungnu ævintýri sem lætur engan ósnortinn. Bókin hefur hlotið afar góðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda sem eru á einu máli um að þetta sé bók sem láti engan ósnortinn en um leið ómet- anleg fyrir alla þá sem ganga í gegnum mikla sorg. Um það vitna ótal ummæli um bókina. Kraftur mælir af öllu hjarta með þessari bók sem ætti í raun að vera skyldu- lesning á hverju heimili. „Afskaplega raunsæ, falleg og algjörlega væmnislaus lýsing á því hvernig það er að ganga í gegnum það að maðurinn sem þú elskar greinist með banvænan sjúkdóm … sterkasti hlutinn í bókinni er e.t.v. eftir að hann deyr … Ég er mjög „impressed“ af þessari bók … Ég held að það geti allir samsamað sig og fundið styrk í þessari bók – ein- mitt út af þessu æðruleysi: Þetta er bara eitt af því sem lífið réttir manni og maður bara vinnur úr því eins vel og maður getur. Afrek.“ Friðrika Benónýsdóttir / Kiljan „Úrvinnsla Vilborgar á þessu efni er einstaklega vönduð og skemmst er frá því að segja að bókin sker hvaða harð- jaxl sem er í hjartað. Hún er vel skrifuð og aldrei væmin, myndræn og skáldleg og um leið er hún ofurraunsæ … Sorg og dauða fylgir ekki bara táraflóð, sorg og reiði heldur líka æðruleysi og nýr lærdómur. Um það fjallar Vilborg ákaflega vel og viturlega. Áttatíu lítrar er víst meðaltalið af tárum sem við fellum yfir ævina og hluta þeirra mun lesandinn vafalítið fella við lestur þessarar fallegu bókar.“ Steinunn Inga Óttarsdóttir / Kvennablaðið Vilborg Davíðsdóttir, rithöfundur. Kápa bókarinnar, Ástin, drekinn og dauðinn

x

Kraftur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kraftur
https://timarit.is/publication/982

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.