Morgunblaðið - 01.03.2019, Qupperneq 17
FRÉTTIR 17Erlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 1. MARS 2019
NÁTTÚRULEG HRÁEFNI • ENGIN AUKAEFNI
ENGINN VIÐBÆTTUR SYKUR • TREFJARÍKT
Norska lögreglan kvaðst í gær hafa
vaxandi áhyggjur af því að Anne-
Elizabeth Falkevik Hagen, eigin-
kona auðkýfingsins Toms Hagens,
væri ekki á lífi. Hennar hefur verið
saknað frá 31. október og talið er að
henni hafi verið rænt.
„Lögreglan hefur augljóslega
áhyggjur af því að engin sönnun er
fyrir því hún sé á lífi,“ sagði Tommy
Broske, sem stjórnar rannsókn lög-
reglunnar á málinu. „Það er eðlilegt
að lögreglan velti því fyrir sér, meira
en áður, hvort Anne-Elizabeth Hag-
en sé á lífi.“
Lögreglan tilkynnti í janúar að
fundist hefðu skilaboð á heimili Hag-
en þar sem krafist hefði verið
lausnargjalds fyrir hana. Kröfunni
hefði fylgt „alvarleg hótun“.
Hótuðu að myrða konuna
Norska blaðið Verdens Gang segir
að krafist hafi verið jafnvirðis 1,2
milljarða króna í lausnargjald og að
greiðslan hafi átt að vera í rafmynt-
inni monero sem erfitt er að rekja.
Blaðið segir að skilaboðin hafi verið
skrifuð á slæmri norsku og að hótað
hafi verið að Hagen yrði myrt ef fjöl-
skylda hennar leitaði til lögreglunn-
ar.
Lögreglan hefur ekki staðfest
þetta en sagt að hún hafi ráðlagt fjöl-
skyldu Hagen að greiða ekki
lausnargjaldið.
Rannsóknarmenn lögreglunnar
hafa náð sambandi á netinu við menn
sem segjast hafa rænt Hagen en
hafa ekki fengið neinar sannanir fyr-
ir því að hún sé í haldi þeirra eða sé
enn á lífi.
Lögreglan hefur fengið rúmlega
1.500 ábendingar frá almenningi í
tengslum við rannsóknina en engin
þeirra hefur komið að miklu gagni.
Hagen-hjónin nálgast sjötugt og
búa í Lørenskog, í grennd við Ósló.
Óttast um líf kon-
unnar sem hvarf
Konu norsks auðkýfings enn leitað
AFP
Rannsókn Lögreglufulltrúinn
Tommy Broske á blaðamannafundi.
Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Donald Trump Bandaríkjaforseti kveðst enn
vera vongóður um að samkomulag náist að lok-
um um kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu eftir
að tveggja daga viðræðum hans við Kim Jong-
un, einræðisherra landsins, lauk í gær án þess
að leiðtogarnir undirrituðu samning eða yfir-
lýsingu eins og vonir stóðu til. Nokkrir sér-
fræðingar í málefnum Norður-Kóreu töldu að
viðræðurnar hefðu ekki verið til einskis þrátt
fyrir þessa niðurstöðu og sögðu að enginn
samningur væri betri en slæmur. Óljóst er þó
hvernig Kim Jong-un bregst við því að hann
náði ekki fram kröfu sinni um afnám refsiað-
gerða.
Bandarískir embættismenn sögðu áður en
leiðtogafundinum lauk í Hanoi í Víetnam að
gert væri ráð fyrir athöfn þar sem samningur
yrði undirritaður og frekari viðræðum á há-
degisverðarfundi en hætt var við hvort tveggja.
Trump sagði að Kim hefði boðist til að loka
kjarnorkumiðstöðinni í Yongbyon sem Norður-
Kóreumenn hafa notað til rannsókna og fram-
leiðslu á plútoni í kjarnavopn. Talið er að þeir
framleiði einnig úran, sem hægt væri að nota í
kjarnavopn, í að minnsta kosti tveimur öðrum
kjarnorkustöðvum og bandarísk stjórnvöld
vilja að þeim verði einnig lokað.
Trump sagði að Kim hefði sett það skilyrði
fyrir lokun kjarnorkumiðstöðvarinnar í Yong-
byon að öllum refsiaðgerðunum gegn Norður-
Kóreu yrði aflétt og Bandaríkin gætu ekki fall-
ist á það. Utanríkisráðherra Norður-Kóreu
neitaði þessu í gær og sagði að Kim hefði aðeins
óskað eftir því að refsiaðgerðirnar yrðu mild-
aðar.
Trump kvaðst enn vera vongóður um að við-
ræðurnar leiddu að lokum til „mjög góðrar
niðurstöðu“. „Ég vil miklu frekar gera þetta vel
en gera það hratt.“ Forsetinn bætti við að Kim
hefði lofað að hefja ekki kjarnorku- og eld-
flaugatilraunir að nýju og áréttaði að samband
sitt við harðstjórann væri „frábært“.
Áfall fyrir Trump?
Fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins segir
líklegt að litið verði á niðurstöðu leiðtogafund-
arins sem áfall fyrir Trump sem hefur lýst
sjálfum sér sem afburðasnjöllum samninga-
manni og árangrinum af viðræðunum við ein-
ræðisherrann sem miklu afreki. Hann sagði
jafnvel eftir fyrsta fund sinn með Kim í Singa-
púr í fyrra að engin hætta stafaði lengur af
kjarnavopnum Norður-Kóreu. Fundinum í
Singapúr lauk þó aðeins með því að leiðtogarnir
undirrituðu samning með mjög óljósu loforði
um að löndin ynnu að „algerri kjarnorku-
afvopnun Kóreuskaga“. Talið er að einræðis-
stjórnin í Norður-Kóreu túlki þetta markmið
með öðrum hætti en bandarísk stjórnvöld og
vilji öryggistryggingar sem bandarísk stjórn-
völd hafa aldrei léð máls á. Þegar Norður-
Kóreumenn hafa talað um að þeir vilji kjarn-
orkuafvopnun Kóreuskaga hafa þeir sett þau
skilyrði að bandarísku hersveitirnar í Suður-
Kóreu verði fluttar þaðan og stjórnin í Wash-
ington skuldbindi sig til að beita ekki kjarna-
vopnum til að vernda landið. Margir fréttaskýr-
endur eru einnig efins um að einræðisstjórnin í
N-Kóreu sé í raun tilbúin að afsala sér kjarna-
vopnum nú þegar hún hefur orðið sér úti um
slík vopn og smíðað langdrægar eldflaugar.
Þeir telja að hún sé staðráðin í að öðlast við-
urkenningu sem kjarnorkuveldi og notfæra sér
þessa stöðu sína út í ystu æsar, meðal annars til
að binda enda á refsiaðgerðirnar gegn landinu.
Krafa Kims um tafarlaust afnám refsiaðgerða
virðist staðfesta þetta.
Eins og „kóreskt ástardrama“
Þótt viðræðurnar í Hanoi hafi borið enn
minni árangur en leiðtogafundurinn í Singapúr
sögðu nokkrir fréttaskýrendur í gær að þær
hefðu ekki verið til einskis, heldur nauðsyn-
legur þáttur í ferli sem tæki langan tíma. David
Kim, sérfræðingur í baráttunni gegn útbreiðslu
gereyðingarvopna, segir að líta megi á viðræð-
urnar og samband þeirra Trumps og Kims sem
„kóreskt ástardrama“ og skírskotaði m.a. til
þess að Trump lét svo um mælt nýlega að þeir
hefðu „orðið ástfangnir“ þegar þeir skiptust á
bréfum fyrir viðræðurnar. „Þetta er aðeins
byrjunin á langri ástarsögu,“ hefur fréttaveitan
AFP eftir David Kim. „Hún verður full af
spennu, vonbrigðum og hjartasorg en kærleiks-
sambandið milli þeirra helst óbifanlegt allt til
loka. Svo fremi sem báðir „elskendurnir“ eru
staðráðnir í að halda sambandinu áfram meg-
um við búast við góðri niðurstöðu þegar fram
líða stundir.“
Ankit Panda, sérfræðingur í öryggismálum
Asíuríkja, segir það ekki koma á óvart að fund-
urinn í Hanoi hafi borið lítinn árangur. Ekki sé
vitað hvernig Kim bregst við því að hann fékk
ekki það sem hann vildi á fundinum. Hann sé ef
til vill svo óánægður með niðurstöðuna að hann
vilji ekki halda viðræðunum áfram.
Harry Kazianis, sérfræðingur í öryggis-
málum Kóreuríkjanna, segir að Trump hafi
tekið rétta ákvörðun með því að hafna kröfu
Kims vegna þess að enginn samningur sé betri
en slæmur. „Vandamálið er að norðurkóresku
kjarnavopnin eru nú þegar orðin að veruleika,“
hefur AFP eftir honum. „Það væri miklu verra
að undirrita samning sem gerir lítið sem ekkert
til að uppræta þá ógn.“
Enginn samningur betri en slæmur
Niðurstaða leiðtogafundarins í Hanoi talin áfall fyrir Trump sem hefur stært sig af því að vera af-
burðasnjall samningamaður Viðræðum hans við einræðisherra N-Kóreu líkt við „langa ástarsögu“
AFP
Ástardrama? Vel fór á með Donald Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, einræðisherra
Norður-Kóreu, sem eru hér á göngu í garði hótels í Hanoi þar sem viðræður þeirra fóru fram.
Spenntir Pjongjangbúar lesa fréttir norður-
kóresks dagblaðs af leiðtogafundinum.
Niðurstaðan kom ekki á óvart
» Hópur flóttamanna frá Norður-Kóreu
kom saman í Seúl í Suður-Kóreu í gær til
að fylgjast með leiðtogafundinum og
sögðu niðurstöðuna ekki koma á óvart.
» „Þetta sagði ég!“ hrópaði einn þeirra.
„Ég vissi að Kim Jong-un myndi aldrei
láta kjarnavopnin af hendi,“ sagði annar
flóttamaður.
» Nokkrir fréttaskýrendur rekja niður-
stöðuna til skorts á undirbúningi. Ekki sé
nóg að byggja viðræðurnar á „frábæru
sambandi“ Trumps og Kims eins og for-
setinn hafði bundið vonir við.