Skessuhorn - 18.05.2016, Page 12
MIÐVIKUDAGUR 18. MAÍ 201612
Eins og Skessuhorn hefur áður
greint frá standa yfir framkvæmd-
ir við náttúrulaugar Krauma við
Deildartunguhver. Fyrsta skóflu-
stungan var tekin 26. apríl 2015,
eða fyrir rétt rúmlega einu ári. Síð-
an hafa eigendur Krauma, hjónin
Dagur Andrésson og Bára Einars-
dóttir, og Sveinn Andrésson og Jóna
Ester Kristjánsdóttir, haft í nógu að
snúast. Blaðamaður rak inn nefið í
Krauma að morgni síðasta miðviku-
dags og ræddi við Dag og Jónu Est-
er. Framkvæmdir stóðu sem hæst
þegar Skessuhorn bar að garði.
Smiðir voru að slá upp mótum á
laugasvæðinu, múrarar og málarar
að störfum innandyra og gröfumað-
ur vann í lóðinni. Hellulagninga-
meistarinn var mættur á svæðið að
taka stöðu mála og síðar sama dag
var von á fimm mönnum sem ætl-
uðu að ljúka við að einangra og tyrfa
þakið. Þá eru ekki öll verk talin sem
unnin voru þann daginn.
„Eins og þú sérð er allt á fullu
núna og hlutirnir gerast hratt,“
sagði Dagur þar sem hann leiddi
blaðamann um svæðið. -En hve-
nær stendur til að opna Krauma?
„Við stefnum að því að opna í byrj-
un júlí,“ segir Dagur, en þá verða
aðeins rúmir 14 mánuðir liðnir síð-
an stunguskófla rauf yfirborð lóðar-
innar fyrsta sinni. „Þetta hefur allt
gengið mjög vel,“ segir Jóna Est-
er. Þau segja að auðvitað hefði verið
óskandi að opna fyrr um sumarið en
það skipti samt ekki öllu máli í stóra
samhenginu. „Við ætlum að vera
með heilsársopnun og leggjum upp
með að hafa langan opnunartíma
alla daga vikunnar,“ segir Jóna. Þau
eiga ekki von á að slíkt verði neinum
vandkvæðum bundið. „Hér er mik-
il umferð allt árið og stöðugt vax-
andi yfir vetrarmánuðina. Við erum
svo heppin að það er mikill áhugi hjá
fólki í héraðinu að vinna hjá okkur
og við eigendur og fjölskyldur okk-
ar munum að sjálfsögðu standa vakt-
ina,“ segja þau.
Hámarka gæði
hvers og eins
Samtals verða byggingarnar um
640 fermetrar, að minni húsun-
um meðtöldum, og gert er ráð fyr-
ir að á laugasvæðinu rúmist allt að
140 manns í senn. „Krauma er ekki
markaðssett til að taka á móti mikl-
um fjölda fólks í einu, heldur verð-
ur kappkostað að hámarka þægindi
hvers og eins gests,“ segir Dagur.
Laugarnar eru hugsaðar sem lúxus-
böð og það mun kosta 4.900 krón-
ur inn.
Lagt upp úr hönnun
Heitar laugar verða fimm talsins
og munu innihalda vatn úr Deild-
artunguhver sem verður kælt með
vatni úr Rauðsgili. Engum klór eða
sótthreinsiefnum verður bætt í vatn-
ið en þess í stað verður tryggð næg
endurnýjun vatnsins í pottunum.
Á laugasvæðinu verða tvö aðskilin
gufuböð, kaldur pottur og slökun-
arherbergi með legubekkjum, ró-
andi tónlist og arineldi. Arkitekt
bygginga, laugasvæðis og lands-
lags er Brynhildur Sólveigardóttir.
Hönnun hennar miðar að því að allt
svæðið myndi eina heildstæða mynd
sem fellur vel að umhverfinu, en er
á sama tíma vel sýnileg. Gluggar
verða stórir á þeirri hlið hússins
sem snýr að hvernum og fyrir utan
verður hellulögð stétt. Þakið verð-
ur tyrft, eins og áður sagði, einnig
víða tyrft upp að útveggjum, viðar-
klæðning að utan í svörtum lit, sem
og pottar og hellur á laugasvæði.
Allt innanstokks verður í bjart-
ari stíl. Ljósir veggir og loft, hlý-
leg leðurhúsgögn, viðarklæðning-
ar úr aski verða ríkjandi en til mót-
vægis verða margar borðplötur úr
svartri steypu og innihurðir dökk-
ar. Til að ná fullu samræmi verða til
dæmis á salernum og í sturtuklefum
sérsmíðuð svört blöndunartæki frá
Hans Grohe. „Allt mun þetta verða
til þess að setja staðinn í ákveðinn
klassa,“ segir Dagur.
Gert ráð fyrir
að geta stækkað
Í Krauma verður veitingastaður,
bar og setustofa með arni. Veit-
ingasalurinn mun taka 60 manns í
sæti og útisvæði annað eins. Farin
var sú leið við hönnun hússins að
hafa eldhúsið mjög rúmt og gæti
það auðveldlega annað fleiri gest-
um en sætafjöldi segir til um. „Við
ákváðum að hafa eldhúsið stórt svo
ekki þyrfti að breyta því þegar við
þurfum að stækka. Ég segi þeg-
ar, ekki ef, því við gerum fastlega
ráð fyrir því að þurfa að bæta við í
framtíðinni,“ segir Dagur. Nú þeg-
ar er búið að ráða kokk til starfa og
eru þau Dagur og Jóna afar ánægð
með það. „Einhverjir höfðu varað
okkur við því að erfitt gæti orðið
eða nær ómögulegt að fá kokk út á
land en svo reyndist ekki vera,“ seg-
ir Dagur. „Það kom því skemmti-
lega á óvart hve margir sýndu þessu
áhuga. Við vorum í það minnsta svo
heppin að geta valið úr umsókn-
um frá matreiðslumeisturum sem
finnst þetta spennandi verkefni og
vildu vera með frá upphafi,“ bætir
Jóna við.
Barinn verður steyptur og beint
inn af móttökunni. Þar geta gestir
pantað sér drykk og tyllt sér í setu-
stofuna og slakað á. Hönnun bars-
ins og setustofunnar mun kallast á
við hönnun hússins alls. Í verslun-
inni verður meðal annars hægt að
kaupa lífrænar sápur og snyrtivörur
frá Sóley Organics. Boðið verður
upp á sápur í sturtuklefum frá Sól-
eyju og einnig mun hún búa til ilm-
olíur fyrir gufuböðin.
Hægt verður að ganga að Krauma
frá Deildartunguhver eftir upphit-
uðum göngustíg meðfram volgum
læk sem gufa stígur upp af. „Það
mun sveipa staðinn ákveðinni dul-
úð frá fyrstu mínútu,“ segir Jóna. „Í
sunnanátt leggur gufuna frá hvern-
um yfir staðinn og með rétt út-
færðri lýsingu í myrkri verður þetta
áreiðanlega mjög dulmagnaður
staður að vera á,“ segja Dagur og
Jóna að lokum.
kgk
Stefnt að opnun Krauma í byrjun júlí
Eigendur Krauma. F.v. Hjónin Dagur Andrésson og Bára Einarsdóttir, og Jóna Ester Kristjánsdóttir og Sveinn Andrésson.
Ljósm. Krauma.
Dagur á framkvæmdasvæðinu.
Hluti laugasvæðisins. Í byggingunni fyrir miðju verður slökunarherbergi með legubekkjum, róandi tónlist og arineldi. Þar til
vinstri verða tvö aðskilin gufuböð. Hægra megin við slökunarherbergið er grunn laug og næst í mynd er kuðungur.
Verið að slá upp mótum til að geta steypt einn af stærri pottunum.
Svona mun laugasvæðið líta út að framkvæmdum loknum. Ljósm.
Krauma.
Horft að Krauma frá væntanlegu bílastæði að ofanverðu. Á þaki
hússins má sjá bretti með einangrun og torfur, en síðar þennan dag
stóð til að ljúka við að einangra og tyrfa þakið.
Sú hlið hússins sem snýr að Deildartunguhver. Stórir gluggar eru
í veitingasalnum og setustofunni. Viðarklæðningin verður síðan í
svörtum lit.