Skessuhorn - 22.03.2017, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 22. MARS 201718
Grundfirðingurinn Marta Magn-
úsdóttir var á dögunum kjörin
skátahöfðingi Íslands. Varð hún þar
með yngsti skátahöfðinginn í sögu
Bandalags íslenskra skáta, aðeins
23 ára gömul. Hún er jafnframt að-
eins önnur konan sem gegnir emb-
ættinu. Skessuhorn hitti Mörtu að
máli síðastliðinn fimmtudag og
ræddi við hana um nýja embættið
og skátastarfið. Hvers vegna ákvað
hún að gefa kost á sér sem skáta-
höfðingi? „Það var reyndar ekki
vegna áskorana, ég hafði ekki fengið
margar svoleiðis. Ég hef bara mjög
mikinn áhuga á og ástríðu fyrir vel-
ferð ungmenna og tel að hægt sé að
tryggja hana að hluta til í gegnum
skátastarfið,“ segir Marta.
„Ég vildi leggja mitt af mörkum
og ákvað því að gefa kost á mér til
forystu. Á kjördag kom í ljós að aðrir
skátar voru bara mjög ánægðir með
mitt framboð,“ segir hún og þakkar
traustið. „Ég hef fundið fyrir mikl-
um stuðningi frá mörgu fólki og lít á
þetta embætti sem skóla fyrir mig,“
segir hún og leggur áherslu á að
við stjórn skátahreyfingarinnar og
í skátafélögunum sé áhersla lögð á
samstarf. „Þetta er sjálfboðaliðastarf
eins og önnur störf innan hreyfing-
arinnar, enda byggist allur okkar
kjarni á sjálfboðavinnu,“ segir hún.
Neistinn kviknaði
í skátaferð
Sjálf kveðst hún ekki hafa átt von
á því þegar hún mætti á sinn fyrsta
skátafund að átta árum síðar yrði
hún skátahöfðingi Íslands. Það sem
meira er, hún var ekki einu sinni viss
um að hún myndi verða skáti yfir-
höfuð. „Þegar ég byrjaði í skátunum
15 ára gömul þá hafði ég ákveðna
ímynd af skátum og skátastarfinu.
Þó ég eigi enn eftir að hitta þann
skáta sem endurspeglar þá ímynd
sem ég hafði þá truflaði þetta mig á
fyrsta fundinum og ég var ekki alveg
sannfærð. En skátarnir eru þann-
ig að maður þarf að gefa þeim smá
séns þegar maður kemur alveg nýr
inn. Ég fattaði sjálf ekki hvað skát-
arnir snúast um eftir fyrsta viðburð-
inn. Það vildi bara þannig til að
þegar ég mætti á fyrsta fundinn þá
skráði ég mig í skátaferð og borg-
aði fyrir hana. Ég ákvað því að gefa
þessu smá séns og fara í ferðina. Þar
small einhvern veginn allt og ég hef
ekki séð neitt nema skátana síðan,“
segir Marta. „Ég áttaði mig ekki á
því fyrr en síðar að það var í þessari
ferð sem ég tók fyrst eftir því hvað
almennt allir í skátunum eru örugg-
ir með sig, ánægðir, glaðir og hjálp-
samir,“ bætir hún við.
Allir hluti af hópi
„Það er mjög góður andi og hvatn-
ing í skátunum. Þar er reynt að
mæta hverjum og einum á þeirra
eigin forsendum og gleðin höfð
í fyrirrúmi í öllum verkefnum og
ferðum. Þegar farið er svona að
þá eflist sjálfstraust hvers og eins.
Markmið skátanna er að efla ungt
fólk til virkni í samfélaginu. Flest
verkefna skátanna eru samvinnu-
verkefni eða samfélagsverkefni og
skátahreyfingin fagnar öllu sam-
starfi skátanna og annarra félaga,“
segir Marta. Hún fræðir blaða-
mann um það að í heiminum séu
um 40 milljónir skátar sem geri
skátahreyfinguna að stærstu æsku-
lýðs- og friðarhreyfingu í heimin-
um. „Allir skátar í heiminum sverja
sama skátaeiðinn og skátastarfið
byggir alls staðar á sama grunni.
Þær eru nokkurs konar siðaregl-
ur skátaheimsins, eiga að vísa veg-
inn í rétta átt. Skátar upplifa sig alls
staðar þannig að þeir séu mikilvæg-
ur hluti af hópi; fyrst þeirra eigin
skátahópi, svo sínu skátafélagi, síð-
an skátahreyfingunni í sínu landi
og loks alheimsskátahreyfingunni,“
segir Marta.
Skátastarfið er fyrst og fremst ætl-
að börnum og ungmennum á aldr-
inum 8-25 ára. Það er hinn eiginlegi
skátaaldur. „En „eitt sinn skáti, ávallt
skáti“ og til að geta mætt öllum börn-
um og ungmennum og veitt þeim
þá leiðsögn sem við viljum geta veitt
þeim, þá þarf að sækja í mannauð
þeirra sem eldri eru,“ segir Marta og
bætir því við að síðustu ár hafi það
færst í vöxt að fólk prófi skátastarf-
ið í fyrsta sinn á unglingsaldri, eins
og hún sjálf, eða jafnvel þegar það er
komið yfir tvítugt og á fullorðinsár.
„Ég mæli með skátastarfi fyrir alla á
öllum aldri. Það fylgir því ótrúlega
mikil gleði og skátastarf snýst mikið
um að læra á lífið. Þau verkefni sem
lögð eru fyrir á skátafundum eiga að
vera skemmtileg og gagnleg. Hvort
manni tekst að leysa þau er aukaat-
riði, það er lífsýnin og hæfnin sem
maður fær út úr því að reyna sem er
aðal atriðið. Þess vegna er skátastarf
fyrir alla, hvort sem fólk vill starfa
í innsta hring og koma að vikulegu
starfi skátafélaganna eða vera í bak-
landinu og geta stokkið í tilfallandi
verkefni. Það geta allir gert gagn og
fengið hlutverk við sitt hæfi,“ segir
hún.
Gott starf á Vesturlandi
Á Íslandi eru starfandi 25 skátafélög.
Þau er að finna í hverjum landshluta
en þó ekki í hverju bæjarfélagi. „Það
var þannig einu sinni að skátafélög
voru í hverjum bæ, en ekki leng-
ur. Verkefni síðustu ára hefur verið
að hvetja fólk sem vill sjá skátastarf
í sínu bæjarfélagi til að stofna félag
eða endurvekja skátastarf sem hef-
ur af einhverjum ástæðum lagst af,“
segir Marta og hvetur alla áhuga-
sama um slíkt til að hafa samband
við skrifstofu Bandalags íslenskra
skáta. „Starfsfólkið þar og sjálfboða-
liðar eru boðnir og búnir að aðstoða
við að endurvekja eða stofna skátafé-
lög,“ segir hún.
Á Vesturlandi eru starfandi fjögur
skátafélög; á Akranesi, Borgarnesi,
Grundarfirði og Búðardal. „Skáta-
starf á Vesturlandi er að mínu mati
gott og mjög skemmtilegt samstarf
á milli félaganna. Einkum Akra-
ness og Borgarness annars vegar og
svo Grundarfjarðar og Búðardals
hins vegar. Félögin hafa í samein-
ingu staðið að ferðum og fjölmörg-
um viðburðum. Það veitir skátum á
hverjum stað einstakt tækifæri til að
kynnast öðrum í sínum landsfjórð-
ungi,“ segir Marta. „Góður kjarni
skátaleiðtoga og fullorðinna halda
uppi mjög faglegu og góðu starfi á
Vesturlandi. Skátarnir sjálfir virðast
vera ánægðir með starfið og það er
það sem skiptir mestu máli,“ bætir
hún við.
Almennt segir Marta skátahreyf-
inguna vel setta og starfið gott. „Við
erum mjög ánægð með okkar starf.
Í framtíðinni ætlum við að reyna
að gera enn betur til að skátar geti
notið sín á sama tíma og við bjóð-
um nýja skáta velkomna. Öll tann-
hjól snúast, við erum eins og er með
gott fólk víða um land sem vinnur
að fundum og viðburðum og síðan
vinnur skrifstofan og vinnuhópar
sjálfboðaliða að stoðefni sem sjálf-
boðaliðar á hverjum stað geta nýtt
sér,“ segir hún. „Við munum halda
áfram að hvetja fólk til að taka þátt
í skátastarfi, hvort sem það hefur
gert það áður eða ekki og við bjóð-
um nýja og gamla félaga velkomna í
hópinn,“ bætir hún við.
Heimsmót á
Íslandi í ágúst
En það er ýmislegt spennandi á döf-
inni hjá íslenskum skátum. Marta
hefur orð á því að á sumri kom-
andi verði haldinn hér á landi stærsti
viðburðurinn í sögu skátahreyf-
ingarinnar á Íslandi. „Eitt af því
skemmtilegasta sem skátar hvar sem
er í heiminum gera er að fara á al-
þjóðlegt skátamót. Ástæðan er sú að
skátar hafa allir svarið sama eiðinn.
Þeir lifa því eftir sömu gildum og
hafa svipaða lífssýn. Það er því búið
að brjóta ísinn þegar margir skát-
ar koma saman og skátar eiga mjög
auðvelt með að kynnast innbyrð-
is,“ segir hún. „Hér á Íslandi verð-
ur í byrjun ágúst haldið heimsmót
Roverskáta, það er að segja skáta á
aldrinum 18-25 ára. Við eigum von
á um fimm þúsund skátum frá öll-
um heimsálfum, til dæmis ætla 300
skátar frá Brasilíu og 500 ástralskir
að leggja á sig ferð yfir hálfan hnöt-
inn til að mæta á þetta mót,“ segir
hún. „Mótið stendur yfir í átta daga.
Búið er að skipta skátunum upp í 50
manna hópa, en hver hópur inni-
heldur tvo frá hverju landi. Fyrstu
fjóra dagana munu þessir skáta-
hópar sinna samfélagsverkefnum
víðs vegar um landið, þar á meðal
á Akranesi,“ segir hún og bætir því
við að áhugasamir skátar af Vestur-
landi geti haft samband við sín fé-
lög eða skrifstofu bandalagsins og
fengið að taka þátt í þessum verk-
efnum. „Síðustu fjóra dagana hittast
síðan allir á Úlfljótsvatni og verð-
ur þar því eina helgi eitt af stærri
bæjarfélögum landsins og tvímæla-
laust það fjölbreyttasta þar sem fjöl-
breytileiki, gleði og vinátta fær að
njóta sín,“ segir Marta. „Heimsmót-
ið verður einstakur viðburður fyrir
íslensk ungmenni og íslenskt sam-
félag,“ segir Marta Magnúsdóttir,
skátahöfðingi Íslands, að lokum.
kgk
„Skátastarf snýst mikið
um að læra á lífið“
-segir Marta Magnúsdóttir í Grundarfirði sem
nýverið var kjörin skátahöfðingi Íslands
Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi Íslands.
Skáti og verðandi skátahöfðingi í helgarferð í Húsafelli.
Þátttakendur í Skátapeppi, skátamóti sem haldið var í Grundarfirði haustið 2015.
Um 80 ungmenni tóku þátt í mótinu.
Grundfirskir skátar á Landsmóti á Úlfljótsvatni á síðasta ári.