Skessuhorn - 28.02.2018, Blaðsíða 10
MIÐVIKUDAGUR 28. fEBRúAR 201810
Víða á þjóðvegum landsins er nú
farið að bera á skemmdum á slitlagi
eftir erfiða tíð í vetur. Dæmi um það
er þjóðvegurinn frá Borgarnesi og
áleiðis norður í land. Þar er á nokkr-
um stöðum og upp í Norðurárdal að
myndast djúpar og hættulegar holur,
einkum í hjólförum. Meðfylgjandi
mynd sýnir dæmi um holur í vegin-
um á móts við afleggjarann að Ein-
arsnesi í Borgarhreppi. Sambæri-
legar holur er einnig að finna meðal
annars við Gufuá, Beigalda og efst í
Stafholtstungum.
Þá er slitlag á neðsta hluta Borg-
arfjarðarbrautar frá Seleyri og upp-
fyrir Skeljabrekku illa farið, en þar
virðist sem yfirlögn sem að hluta til
er frá síðasta sumri hafi mislukkast.
Slitlagið sem lagt hefur verið yfir er
að leysast upp og töluverð lausamöl
og grjótkast sem því fylgir. „Þessi
vegarkafli er um sjö kílómetra lang-
ur og yfirlagnir misgamlar. Líklega
er um einn þriðji frá því í fyrra. Við
hjá Vegagerðinni getum lítið sagt
um þetta nema fara á staðinn og
skoða nákvæmlega skemmdirnar,“
sagði G Pétur Matthíasson upplýs-
ingafulltrúi Vegagerðarinnar sem
svar við fyrirspurn Skessuhorns frá
því í lok síðustu viku.
Pétur segir að eftir veturinn og
umhleypingatíð megi alltaf búast
við skemmdum í slitlagi hér á landi.
„Hinsvegar má leiða líkur að því að
umfangið sé meira en þyrfti þar sem
viðhaldið hefur ekki fylgt þeirri við-
haldsþörf sem Vegagerðin telur vera
fyrir hendi. En þrátt fyrir að stjórn-
völd hafi heldur aukið fjárveitingar
til viðhaldsins og sýnt því skilning
hefur það þó ekki náð að fylgja þörf-
inni og því mikill hali sem þarf að
vinna upp. Síðan ræður veðurfarið
auðvitað miklu. Mikil vatnsveður og
frost í kjölfarið hjálpa ekki til. Auk
þess má rekja hluta þess til aukins
snjómoksturs sem fer líka illa með
slitlagið. Þannig að það leggst allt á
eitt við þetta,“ segir Pétur.
mm
Slitlag vega er víða illa
farið eftir veturinn
Djúpar holur eru komnar í Þjóðveg 1 víða í Borgarhreppnum.
Viðbragðsaðilar á öllu sunnanverðu
Vesturlandi voru síðdegis á sunnu-
daginn ræstir út með forgangshraði
eftir að tilkynning barst um slys þar
sem rúta með um 30 manns hafði fok-
ið út af Borgarfjarðarbraut, skammt
austan við Kvígsstaði í Andakíl, og
hafnað á hliðinni. Rútan fékk á sig
sterka vindhviðu á stað sem þekktur
er fyrir mikla sviptivinda. Í fyrstu var
óttast að farþegar hefðu lent undir
bílnum. fljótlega kom í ljós að mun
betur hafði farið en óttast var í fyrstu.
Allir sem í rútunni voru reyndust
hafa verið í öryggisbeltum og skipti
það öllu um að ekki fór illa. Einung-
is tveir voru fluttir á slysadeild, lítið
slasaðir. Hópurinn samanstóð af 28
frönskum ungmennum á aldrinum
15-17 ára, fjórum fararstjórum og ís-
lenskum bílstjóra.
Rauði krossinn í Borgarnesi opn-
aði fjöldahjálparstöð í Menntaskóla
Borgarfjarðar í Borgarnesi og var
fólkið úr rútunni flutt þangað, hlúð
að því og þar gengust allir undir
læknisskoðun. Um kvöldið var ung-
mennunum ekið í björgunarsveitar-
og einkabílum suður í Ölfus, þar sem
hluti hópsins veigraði sér við að fara
að nýju upp í hópferðabíl, enda var
veður þá ekki gengið niður nema að
hluta.
Það má teljast mikil lukka að all-
ir í rútunni voru í bílbeltum, en þó
ekki tilviljun. Magnús Kristjánsson
er frönskumælandi bílstjóri rútunn-
ar. Hann tjáði blaðamanni Skessu-
horns að þau hafi verið að koma úr
dagsferð í Reykholtsdal. Við Deild-
artungu hafði hann í tvígang tilkynnt
farþegum sem í rútunni voru að allir
ættu skilyrðislaust að vera í bílbeltum
og ef bíllinn færi t.d. á hliðina ætti að
halla sér að miðjugangi hennar. „Það
var kannski tilviljun að ég ákvað að
brýna þetta fyrir fólkinu á einmitt
þessum stað og á þessari stundu.
Veðrið uppi í Borgarfirði var mjög
skaplegt fyrr um daginn, en ég vissi
að það ætti að hvessa. Þessi ákvörð-
un, á þessum tímapunkti, að taka þau
í kennslustund í hvernig bregðast ætti
við óhöppum sem þessum var engu
að síður tilviljun. Krakkarnir urðu
hins vegar ótrúlega þakklátir mér eft-
ir þetta óhapp þegar við vorum kom-
in hér í hús. Sum hver föðmuðu mig
og kysstu og sögðu mig einfaldlega
hafa bjargað lífi þeirra,“ sagði Magn-
ús þegar blaðamaður ræddi við hann
í fjöldahjálparstöðinni í Borgarnesi.
Magnús sagði vindhnútinn sem
hann fékk á bílinn þarna á Borgar-
fjarðarbrautinni hafa verið ótrúlega
öflugan. „Ég fullyrði að rútan hefði
fokið á hliðina jafnvel þótt hún hefði
verið kyrrstæð. Ég hef aldrei lent í
öðru ámóta veðri, en sjálfur hef ég
starfað við akstur í tvo áratugi og
kynnst ýmsu þann tíma. Mitt mat er
þó að bílbeltin hafi haft allt um það
að segja að allir sluppu án alvarlegra
meiðsla. Það er algjört skilyrði að
vera í öryggisbeltunum og ég legg
mikla áherslu á það hvort sem fólk
er í stórum eða litlum bílum,“ segir
Magnús Kristjánsson.
mm
Rúta með yfir þrjátíu manns fauk á hliðina
Enginn vafi að öryggisbeltin komu í veg fyrir stórslys
Í fyrstu var óttast að margir hefðu slasast og var útkall viðbragðsaðila því á hæsta forgangi.
Magnús Kristjánsson er frönskumælandi bílstjóri.
Þarna má glöggt sjá förin eftir framhjól rútunnar í vegkantinum.
Í Borgarnesi gengust allir sem í rútunni voru undir læknisskoðun og hlúð var að
fólkinu.