Skessuhorn


Skessuhorn - 02.05.2018, Blaðsíða 16

Skessuhorn - 02.05.2018, Blaðsíða 16
MIÐVIKUDAGUR 2. MAÍ 201816 Um miðja síðustu viku kom út bók þar sem sögusviðið er Akranes og Vesturland. Höfundur bókarinn- ar, Marrið í stiganum, er Eva Björg Ægisdóttir sem er fædd og uppalin á Akranesi. Marrið í stiganum er fyrsta bók Evu Bjargar og hlaut verðlaun- in Svartfuglinn. Svartfuglinn er verð- laun sem spennusagnahöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jón- asson komu á fót í samvinnu við út- gáfufyrirtæki sitt, Veröld. Eva Björg er með fjögurra vikna gamla dóttur sína í fanginu á meðan hún spjallar við blaðamann. Sú litla kippir sér lít- ið upp við spjallið, heldur steinsefur. „Það er mikill heiður að vinna þessi verðlaun,“ segir Eva. „Þetta er mik- ill stökkpallur fyrir mig, bæði að fá þennan stimpil á bókina og að fá um- boðsmann úti.“ Opnar dyr á nýjan markað Svartfuglinn var afhentur í fyrsta sinn í ár, en um þrjátíu handrit voru send inn til keppni. Verðlaunin eru afhent höfundum sem eru að senda frá sér sína fyrstu glæpasögu og fela í sér 500.000 króna verðlaunafé auk hefðbundinna höfundarlauna. Sig- urvegaranum býðst einnig samning- ur við umboðsmanninn David H. Headley sem tímaritið Bookseller útnefndi sem einn af hundrað áhrifa- mestu mönnum breskrar bókaútgáfu árið 2015. Hún segir að nálaraugað í bókaútgáfu í Bretlandi sé þröngt. Það sé erfitt að koma bókum að hjá bóka- forlögum og útgefendum. „Þú getur ímyndað þér hvernig það er. Bara í keppnina um Svartfuglinn voru send hátt á þriðja tug handrita og hún var auglýst með mjög stuttum fyrirvara.“ Bresk útgáfufyrirtæki taki ekki við handritum nema í gegnum umboðs- menn sem sé treyst svo samningur við umboðsmann í Bretlandi opnar henni margar dyr. Til að geta lifað af bókaskrifum á Íslandi er höfundum nær nauðsynlegt að geta selt bækurn- ar á erlendan markað. Eva Björg seg- ir að hún geti vel hugsað sér að starfa við skriftir í framtíðinni. Í áliti dómnefndar segir að bók- in sé grípandi og spennandi sam- hliða því að veita innsýn í myrkan og sáran veruleika. Fléttan sé fagmann- lega unnin, söguþráður sterkur og sögulokin komi lesandanum á óvart. Blaðamaður Skessuhorns settist nið- ur með Evu Björgu á heimili foreldra hennar á Akranesi, þar sem hún var í helgarheimsókn. Sjálf býr hún í Vest- urbænum í Reykjavík ásamt manni sínum Gunnari Kristjánssyni, jarð- fræðingi og þremur börnum á aldr- inum fjögurra vikna til níu ára. Verðlaun í smásagnakeppni Eva Björg segir að hún hafi allt- af verð bókhneigð og hafi frá unga aldri sótt í að lesa og síðar byrjað að skrifa sjálf. Aðeins fimmtán ára vann hún til verðlauna í smásagnakeppni og þá hafi hún gert sér grein fyrir því að skriftir væru ef til vill eitthvað sem hún gæti hugsað sér að gera í framtíð- inni. Leiðin lá þó ekki beint í skrift- irnar. Hún kláraði BA-nám í félags- fræði við Háskóla Íslands með bók- menntir sem aukagrein. Síðar flutti hún til Þrándheims í Noregi og lærði alþjóðavæðingu við Tæknihá- skólann í Þrándheimi. Smábæjarlíf í stórborginni Eva Björg bjó alla sína æsku á Akra- nesi þar sem hún gekk í grunnskóla og útskrifaðist úr fjölbrautaskóla. Hún þekkir samfélagið vel. „Það var mjög þægilegt að alast upp hérna og að geta alltaf hlaupið yfir til ömmu. Það er allt svo nálægt,“ segir hún. Henni finnst svipað andrúmsloft ríkja í Vesturbænum, þar sem hún er búsett núna. „Þetta er eins og lítið bæjarfélag og mikið líf í hverfinu.“ Virkt ímyndunarafl og vandvirk frásögn „Ég sá fyrir mér vitann,“ segir Eva Björg þegar hún er spurð af hverju hún velji Akranes sem sögusvið. „Hann er svo fallegur en samt svo óhugnanlegur. Skemmtilegt að láta eitthvað gerast þar; drepa einhvern þar,“ segir hún og hlær. Valið á sögu- sviði bókarinnar lá nokkuð ljóst fyr- ir strax í upphafi. „Mér finnst þetta smábæjarlíf svo heillandi,“ segir Eva. „Mig langaði að láta eitthvað gerast í smábæ og Akranes er smá- bær sem ég þekki mjög vel.“ Í bók- inni finnst ung kona myrt við gamla vitann á Breiðinni á Akranesi. Hin látna reynist hafa búið á Akranesi sem barn. Lögreglukonan Elma, sem er nýflutt aftur á Akranes, rann- sakar málið ásamt samstarfsmönn- um sínum. Upp á yfirborðið koma ýmis skuggaleg mál úr fortíðinni en Elma þarf líka að takast á við atburði úr eigin lífi sem hröktu hana aftur heim á æskuslóðirnar. Eva Björg býr yfir ógrynni af hug- myndum og segir að það hafi verið erfitt að velja bara eina hugmynd til að vinna úr. „Ég vissi í raun aldrei hvað ég ætlaði að skrifa á hverjum degi, það kom bara af sjálfu sér.“ Hún segir bókina ekki byggða á neinu úr raunveruleikanum, hvorki persónur né atburðir. „Þetta kemur allt úr hausnum á mér,“ segir hún. Tvær meðgöngur á stuttum tíma Bókina skrifaði Eva Björg á níu mánaða tímabili, þegar hún starf- aði sem flugfreyja hjá WOW air. Vaktafríin í flugfreyjustarfinu gerðu henni kleyft að skrifa heilu dagana, á meðan eldri synir hennar tveir voru í leikskóla og skóla. „Ég er ekki viss um að ég hefði getað þetta ef ég hefði verið að vinna í venju- legri níu til fimm vinnu. Sumir rit- höfundar þurfa að skrifa á kvöldin, þegar börnin eru farin að sofa. Ég er ekki viss um að ég hefði orku í það.“ Þegar Marrið í stiganum var skrifuð átti hún enn bara tvö börn, nú hef- ur eitt bæst í hópinn. Hún hlær og segir að henni finnist næstum eins og hún hafi gengið í gegnum tvær meðgöngur á stuttum tíma. Góð gagnrýni Þegar skrifuð er sakamálasaga, líkt og Marrið í stiganum, þurfa rit- höfundar oft að leggja á sig mikl- ar rannsóknir svo til dæmis verk- lag lögreglu og atburðir séu eins nálægt raunveruleikanum og hægt er. Eva Björg er þar engin undan- tekning. „Þetta var meiri rannsókn- arvinna en ég hélt að þetta yrði,“ segir hún hugsandi. „Maður er að skrifa um heila starfsstétt og ég vil ekki að einhver sem hefur þekk- ingu á málunum hugsi að svona sé þetta ekki.“ Hún vildi því vanda vel til verka þegar hún skrifaði um starf rannsóknarlögreglunnar í bók- inni. Hún fékk ráðgjöf frá rann- sóknarlögreglumanni sem starfaði áður við tæknideild lögreglunnar í Reykjavík til að gera verklag lög- reglunnar í bókinni sem trúverð- ugast. „Ég fékk einmitt mjög góða gagnrýni frá einum lögreglumanni um að rannsóknin á morðmálinu í bókinni sé mjög raunveruleg. Ég er hæstánægð að heyra það.“ Hún segir að við skrifin hafi hún farið að velta fyrir sér ólíklegustu hlutum, sem hún hafi aldrei áður velt fyr- ir sér. „Til dæmis hvernig manns- lík rotna. Hvað myndi gerast ef það myndi liggja svona lengi í sjó? Hvernig ber tæknideildin sig að? Og margt fleira.“ Skriftir í fæðingarorlofinu Undirbúningur að næstu bók er hafinn, því eins og fyrr segir er Eva uppfull af nýjum hugmynd- um. „Ég er samt ekki búin að gera upp við mig ennþá hvort ég ætli að skrifa aftur um sömu persónur eða hvort ég ætli að skrifa um eitthvað allt annað.“ Hún viðurkennir þó að síðustu vikur hafi hún haft í nógu að snúast. „Það eru fjórar vikur síð- an hún kom í heiminn,“ segir hún og á við kornabarnið. „Bókin fór í prentun viku áður en hún kom út og ég var að vinna í henni alveg fram að því.“ Síðasta föstudag hélt hún útgáfuteiti í Pennanum Ey- mundsyni í Austurstræti. Í kringum hundrað manns mættu til að fagna útgáfunni, berja nýja höfundinn augum og næla sér í áritað eintak af bókinni. „Það var gaman að sjá hve margir komu ofan af Skaga,“ seg- ir hún glaðlega. Hún vonast til þess að geta skrifað í fæðingarorlofinu. „Ég er að vona að ég geti farið að vinna í næstu bók. En það fer svo- lítið eftir henni,“ segir hún og horf- ir á sofandi barnið í fangi sér. klj Vann fyrsta Svartfuglinn Eva Björg Ægisdóttir sigraði í glæpasagnakeppninni Svartfuglinum Eva Björg á samt Gunnari, manni sínum, Benjamín Ægi yngri syni sínum og Óliver Dreka eldri syni sínum. Eva Björg segir að hún hafi alltaf verið bókhneigð og hafi snemma fundið áhuga fyrir skriftum. Marrið í stiganum er fyrsta bók Evu Bjargar og hlaut verðlaunin Svartfug- linn sem voru afhent í fyrsta sinn í ár. Fyrir fjórum vikum bættist Embla Steinunn í fjölskylduna. Eva Björg ætlar að nýta fæðingarorlofið til að skrifa næstu bók.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.