Skessuhorn - 10.10.2018, Blaðsíða 5
Undanfarna daga hafa fjölmiðlar landsins keppst við að rifja upp fjár-
málahrunið sem hér varð fyrir áratug. Hver með sínum hætti. Ekki úti-
lokað að tilburðir hafi verið til að haga þeirri söguritun með þeim hætti
sem hentar viðkomandi fjölmiðli eða öllu heldur eigendum þeirra. Slíkt
er gert með því að velja „rétta“ viðmælendur og hleypa ekki hverjum sem
er að. Nú hef ég ekki lagt það á mig að lesa t.d. viðhafnarútgáfu Hann-
esar Hólmsteins á sérpöntuðu skýrslunni um Hrunið, um hversu vond-
ir Bretar voru við okkur, hversu vel þáverandi seðlabankastjóri stóð sig á
vaktinni og hversu frábærlega stjórnmálamenn stóðu sig í þessum ólgu-
sjó. Fjármálaráðherra bað hann jú að skrifa þessa skýrslu og vafalítið er
hún fróðleg. En af því að ég hef ekki lesið hana get ég ekki dæmt hana
sem góða, slæma eða einhvers staðar þar á milli. Því hef ég ekki forsend-
ur til að meta hvort þetta hafi verið hlutlaust plagg þótt það hafi vissu-
lega verið skrifað af þeim sem ég myndi álíta að stæði hvað tæpast á hægri
bjargbrún pólitíska litrófsins. Gaman væri að fílósófera um hvernig þetta
plagg hefði litið út ef til dæmis sósíalistinn Gunnar Smári hefði ritað það
í umboði vinstri manns í fjármálaráðuneytinu. En pólitík er alltaf spurn-
ing um lobbýisma og það ber að hafa í huga. Nú sýnist mér auk þess að
álitsgjafar séu búnir að merkja starfsmenn RUV á hið pólitíska litróf og
engu líkara en sumir haldi að þar starfi einungis illa þenkjandi fólk sem
vilji ekkert fremur en knésetja pólitísk öfl. En það er ekki svo. Á öllum
fjölmiðlum starfar jú ágætis fólk sem vill vel. Það helgast ekki síst af því að
skortur hefur verið á atvinnutækifærum fyrir blaðamenn og við þær að-
stæður segja fræðin að meðaltalið batni. Ég trúi því allavega. Samt er ég
ekki alveg sannfærður um að það hafi verið gott „move“ hjá Davíð að láta
Agnesi Braga skrifa um verkalýðsmál, fremur en ef ég færi til dæmis að tjá
mig fjálglega um skipulagsmál í Reykjavík.
En þegar hrunið og afleiðingar þess er gert upp er fínt að líta í eigin
barm. Hvernig hefur okkur vegnað frá þessum „Guð blessi Ísland“ degi
fyrir tíu árum? Persónulega er ég bara nokkuð sáttur. Allavega lifði ég af
hjartaáfallið sumarið 2009 sem ég skrifa alfarið á álagið sem fylgdi því að
reka fyrirtæki við þær vonlausu aðstæður sem þá ríktu. Þá var ég líka svo
stálheppinn að eiga hvorki innistæður í banka, Sjóði 9 né hlutabréf í fyr-
irtækjum þegar ósköpin dundu yfir. Enginn missir jú það sem hann ekki
á. Húsnæðislánin tóku að vísu risastökk á verri veg. Ekki síst lánið sem
bundið var gengi einhverra erlendra gjaldmiðla. Krónan féll jú í þá átt
sem sólin ekki sést og því hækkaði höfuðstóllinn þannig að eigið fé okkar
hjóna í íbúðinni varð nánast ekkert. En svo eftir nokkur ár var það leið-
rétt að hluta. Nú er höfuðstóll húsnæðisskuldarinnar nánast upp á krónu
jafn hár og hann var við kaupin fyrir sextán árum. Það er jú svo fallega ís-
lenskt eitthvað að slíkar upphæðir lækka ekki og helgast það af gjaldmiðli
sem við kjósum að nota, verðtryggingu og vaxtastigi sem ég vil ekki tala
um núna, af því ég vil reyna að vera á jákvæðu nótunum. Það sem hins
vegar hefur unnið með okkur er að húsnæðisverð hefur hækkað og þar
með aukist það sem kalla má eigið fé í húsnæðinu. Það er jákvætt. Þá get
ég nefnt að sjálfur þarf ég ekki að kaup nærri eins mikið vatn af Orku-
veitunni til að fylla baðkarið. Samt er ég enn með sama karið! Á þessum
árum hef ég þannig byggt upp margvíslegan varaforða til að mæta því ef
næsti skellur verður stór. Ég áætla til dæmis að ég gæti lifað á vegan fæði
í allavega tvær eða þrjár vikur yrði knýjandi þörf til þess. Það hefði ég sko
ekki getað eftir 6. október 2008.
Megi Guð, Geir alþjóðabankastjóri og aðrar góðar vættir halda áfram
að blessa Ísland.
Magnús Magnússon.
TIL HAMINGJU
BORGARBYGGÐ
Öll heimili í þéttbýli Borgarbyggðar verða
tengd við Ljósleiðarann í nóvember.
Skráðu þitt heimili á ljosleidarinn.is svo að við
getum látið vita um leið og þitt heimili tengist.
Ljósleiðarinn býður 1000 megabita
gæðasamband sem er með sama
hraða í báðar áttir.
Söluaðilar Ljósleiðarans: