Skessuhorn


Skessuhorn - 21.11.2018, Blaðsíða 20

Skessuhorn - 21.11.2018, Blaðsíða 20
MIÐVIKUDAGUR 21. NÓVEMBER 201820 Hjónin Arnór Páll Kristjánsson og Auður Jónasdóttir frá Eiði við Kolg- rafafjörð fagna demantsbrúðkaupi sínu á morgun, fimmtudaginn 22. nóvember. Þau voru gefin saman í hjónaband árið 1958 í Setbergs- kirkju af séra Magnúsi Guðmunds- syni. Arnór hefur búið alla sína ævi á Eiði að undanskildu síðasta ári en þau hjónin fluttu í þjónustuíbúið í Grundarfirði í árslok í fyrra. Arn- ór er fæddur á Eiði 9. október 1935 og var hluti af stórum barnahópi á bænum. Arnór hefur skráð minn- ingarbrot úr langri ævi. Þau bár- ust í hendur ritstjórn Skessuhorns sem fékk Tómas Frey Kristjánsson fréttaritara til að kíkja í heimsókn til þessara heiðurshjóna til að fá aðstoð við að færa minningarnar á prent. Nafn að launum fyrir greiðann „Fyrsta minningin sem ég á var þeg- ar ég var tveggja eða þriggja ára og týndist á meðan fólk var í heyskap. Það var gerð mikil leit að mér og meðal annars leitað í hlöðunni því óttast var að ég hefði orðið und- ir heyi í öllum hamaganginum. Ég fannst þó þar sem ég lá sofandi und- ir tóftarbroti úti á túni en minningin sem ég á er einmitt þar sem ég ligg undir berum himni í glaða sólskini,“ segir Arnór í spjalli við fréttaritara. Þegar Arnór var fimm ára útskýrði faðir hans fyrir honum hvernig nafn hans var tilkomið, en hann hafði verið háseti á togaranum Karlsefni RE á vetrarvertíðum en með honum á sjó var maður sem hét Páll. „Páll þessi bauð föður mínum að gista hjá sér og eiginkonu sinni í vertíð- arlok á meðan beðið var eftir skips- ferð heim. Faðir minn var búinn að segja þeim hjónum að kona sín ætti von á barni þegar liði á sumarið en þessi hjón voru barnlaus. Þegar faðir minn vildi gera upp gistinguna vildu þau ekki taka neitt fyrir, en fóru fram á að þetta barn fengi nafn þeirra en eiginkonan hét Arnórína og maður- inn Páll,“ rifjar Arnór Páll upp. Eignaðist fyrsta búst- ofninn eftir fjárskiptin Arnór undi hag sínum vel á Eiði en bræður hans sóttu sjóinn og unnu við fiskvinnslu í landi og seinna meir sóttu þeir nám í þessum atvinnugeira og urðu ýmist skipstjórar eða vél- stjórar. „Ég fór aldrei til sjós og dag- aði eiginlega uppi á mínum fæðing- arstað enda hneigðist hugur minn til bústarfa frá unga aldri,“ segir Arnór sem ákvað snemma ævistarf sitt og köllun. „Ég fermdist sumarið 1949 en það sumar var ákveðið af ráða- mönnum að skera niður allan fjár- stofn á Snæfellsnesi vegna mæðu- veiki sem hafði lagst á allan fjár- stofninn. Í framhaldinu voru fengin líflömb frá Barðaströnd og úr Arn- arfirði en þangað barst mæðuveikin ekki,“ segir Arnór. „Foreldrar mín- ir áttu rétt á að fá nokkur lömb en þau ákváðu að þiggja það ekki og komu þau því í minn hlut.“ Þannig var Arnór einungis 14 ára og kom- inn með 12 lömb til að hugsa um. „Ég þurfti að afla fóðurs fyrir lömb- in því ræktað land var eingöngu ætl- að kúnum á bænum. Þetta gekk allt upp en enginn sauðburður var þetta fyrsta vor,“ rifjar hann upp. Þannig hófst búskapur Arnórs Páls Krist- jánssonar á Eiði í Eyrarsveit. „Ég reyndi að fjölga fénu með kaupum á gimbrum og svo voru allar gimbrar sem fæddust settar á þannig að árið 1956 átti ég 130 ær,“ bætir hann við, en Arnór átti alltaf heimili hjá foreldrum sínum og vann hjá þeim við þeirra búskap sem var að mest- ur sjálfsþurftarbúskapur eins og víða tíðkaðist þá. Árið 1955 var sérstakt ár en það einkenndist af rigningum og mik- illi vætutíð. Illa gekk að þurrka mó sem notaður var til kyndingar og því var tekin upp olíukynding til eld- unar og húshitunar en ári síðar kom svo rafmagn á bæinn. „Heyskapur gekk mjög illa þetta sumar og voru engin hey hirt fyrr en í september. Sem betur fer var góð tíð eftir það og það voraði snemma sumarið eftir sem bjargaði öllu,“ segir Arnór. Þau Arnór og Auður kynnast um þetta leiti en þá voru samgöngur litlar og einungis sveitasíminn sem allir gátu hlustað á. „Kom þegar sólin var hæst á lofti“ „Það var í júnímánuði árið 1955 sem ég fór í bændaferð á vegum Búnað- arsambandsins,“ rifjar hann upp, en þá var farið norður og austur á land á þremur rútum. „Í þessari ferð voru hjón úr Staðarsveit og í sam- tali við þau spurði ég að því hvern- ig þau kæmust frá búi þennan tíma. Þau sögðust eiga dóttur sem væri efni í góða búkonu sem sæi um búið á meðan,“ segir Arnór þegar hann rifjar þetta upp. Ári síðar eða árið 1956 var Arnór enn að hugsa um þetta góða búkonuefni úr Staðar- sveitinni. „Ég gerði mér ferð til að sjá hana og hún sá mig. Þá voru engir vegir færir nema yfir sumar- tímann og enginn sími utan sveita- símans” segir Arnór. Eitthvað hef- ur búkonuefnið úr Staðarsveit ver- ið ofarlega í huga Arnórs því í árs- byrjun 1957 sendi hann henni bréf. „Það mætti líklega kalla það bón- orðsbréf,“ viðurkennir Arnór. „Um vorið fæ ég svo svarbréf, en hún hefur sjálfsagt borið bréf mitt und- ir föður sinn og móður eins og sagt er í vísunni. Um sumarið 1957 hitt- umst við svo að nýju og við staðfest- um svo samband okkar 22. nóvem- ber sama ár. Búkonan sem um ræðir var Auður Jónasdóttir sem fædd er í Hagaseli í Staðarsveit, en ólst upp á Neðri-Hól í sömu sveit. Og Arnór heldur áfram: „Þann 22. júní 1958 flutti hún til mín, þegar sól var hæst á lofti og mér finnst að hún hafi ver- ið það síðan,“ segir Arnór við endur- minninguna. Auður brosir líka, þeg- ar húsbóndi hennar rifjar þetta upp. Þau voru svo gefin saman í hjóna- band 22. nóvember sama ár eins og áður sagði. Keyptu jörðina og byggðu upp Fljótlega eftir brúðkaup þeirra Arn- órs og Auðar kaupa þau jörðina Eiði sem þá var tvíbýlisjörð. „Hluta föð- ur míns fylgdu þrjár kýr og Willis jeppi, en hluta Gunnars Stefánssonar þrjár kýr og þrjátíu kindur, en kaup- verðið var allt greitt með milliskrift á reikningi Kaupfélagsins og þegar þessi kaup voru gengin í gegn áttum við jörðina skuldlausa,“ segir Arnór. „Við hófum fljótlega sölu á mjólk beint til neytenda í Grundarfirði og fluttum hana sjálf til fólks á hverjum degi eða þar til mjólkurstöð tók til starfa í þorpinu árið 1964.“ Eftir að mjólkurstöðin var byggð var meiri áhersla lögð á kúabúskapinn. „Við byggðum fjós fyrir 28 kýr og áður höfðum við byggt hlöðu fyrir allan heyfenginn,“ segir hann. Hjónin frá Eiði fagna 60 ára brúðkaupsafmæli „Hún kom þegar sól var hæst á lofti og mér finnst að hún hafi verið það síðan“ Arnór Páll og Auður búa nú í þjónustuíbúð í Grundarfirði. Ljósm. tfk. Arnór og Auður gengu í hjónaband 22. nóvember árið 1958. Horft heim að Eiði frá brúsapallinum við veginn. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.