Faxi

Årgang

Faxi - 01.12.2019, Side 2

Faxi - 01.12.2019, Side 2
2 FAXI Útgefandi: Málfundafélagið Faxi, Keflavík Ritstjóri: Svanhildur Eiríksdóttir, sími 894 5605, netfang svei@simnet.is Blaðamaður: Dagný Maggýjar Blaðstjórn: Eysteinn Eyjólfsson formaður, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ríkharður Ibsen, Kristinn Óskarsson, Hannes Einarsson og Kristján Jóhannsson. Öll prentvinnsla: Stapaprent ehf. Grófin 13c, 230 Reykjanesbær sími 421 4388, netfang: stapaprent@gmail.com Netfang vegna auglýsinga: eysteinne@gmail.com Auglýsingasími: 698-1404, veffang: www.mitt.is/Faxi Forsíðumynd: Rán Ísold Eysteinsdóttir 1. tölublað - 79. árgangur - 2019 Al l i r myndatextar í þessu og öðrum heftum Faxa eru b laðsins Fylgt úr hlaði Jólablað Faxa í ár er sannkallað stórviðburðablað, því hér er hverjum stórviðburðinum á fætur öðrum gerð skil. Fyrst er að nefna stórafmæli málfundafélagsins Faxa, sem varð 80 ára 10. október sl. Eysteinn Eyjólfsson Faxafélagi og formaður blaðstjórnar rifjar hér upp upphafsár málfundafélagsins og félagatal tekið saman af Kristni Óskarssyni er birt. Faxamenn gerðu sér ferð á Bessastaði í tilefni afmælisins og eftir höfðinglegar móttökur á Bessastöðum var Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands gerður að heiðursfélaga, þeim 16. í röðinni. Árið 2020 mun 80. árgangur Faxa líta dagsins ljós. Við vekjum einnig athygli á 20 ára afmæli Tónlistarskóla Reykjanes- bæjar og Óperufélagsins Norðuróps á árinu. Haldið var upp á þessi tímamót með uppsetningu á söngleiknum Fiðlaranum á þakinu í Stapa, sem sannarlega féll í góðan jarðveg hjá Suðurnesjamönnum. Uppsetningin var gríðarleg vinna fyrir þátttakendur, en ekki síður mikill og góður skóli fyrir þá. Þá varð Reykjanesbær 25 ára á árinu og rifjaður er upp aðdragand- inn að stofnun sveitarfélagsins og hasarinn í kringum nafngiftina. Þrír bæjarfulltrúar úr fyrstu bæjarstjórn Reykjanesbæjar, þau Drífa Sigfúsdóttir, Jóhann Geirdal og Jónína Sanders leyfa okkur að skyggnast inn í tíðarandann. Sælasjoppa eða Biðskýlið í Njarðvík hefur verið hluti af sjoppumenn- ingu okkar í 60 ár. Á árum áður var sjoppan miðpunkturinn í bæjar- lífinu í Njarðvík og var jafnvel hálfgerð félagsmiðstöð. Við rifjum upp sögu hennar í Sögu húsanna. Við rifjum líka upp sögu Bókabúðar Keflavíkur m.a. með viðtali við Þorstein Marteinsson, Dodda í bókabúðinni, en hann er sá eigandi Bókabúðarinnar sem starfaði þar lengst. Í sumar var rekstri bóka- búðar hætt í húsnæðinu við Sólvallargötu 2 og hún flutt í Krossmóa. Það var sama þó bókabúðin hafi verið orðin hluti af keðju Eymunds- sonar, fólk talaði enn um Bókabúð Keflavíkur. Annar áberandi Suðurnesjamaður fær einnig sinn stað í jólablaði Faxa. Guðríður Vilbertsdóttir, Gauja húsvörður eins og hún er gjarnan kölluð, er að láta af störfum sem umsjónarmaður fasteignar í Njarðvíkurskóla eftir tæp 40 ár í starfi. Hún Gauja hefur ekki farið hefðbundna leið á sínum starfsferli sem skemmtilegt er að rifja upp með henni. Fyrrverandi og núverandi nemendur fara fallegum orðum um Gauju og sumir halda að skólinn hætti að vera til þegar hún yfirgefur hann í árslok. Hannesarættin í Keflavík er stór ætt og telur hátt í þúsund manns í dag. Helmingur þeirra eða 500 ættmenni komu saman í sumar til þess að minnast látinna ættingja sem margir settu svip sinn á samfélagið. Líklega hefur þar verið um að ræða stærsta ættarmót landsins það árið. Faxamaðurinn Hannes Einarsson er úr Hannesar- fjölskyldunni og naut liðsinnis Dagnýjar Maggýjar við að skrásetja sögu hennar. Eiríkur Hermannsson sagnfræðingur og Rannveig Traustadóttir fornleifafræðingur hafa kortlagt stríðsminjar á Suðurnesjum og gefið út ítarlega skýrslu, sem m.a. var send til Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Eiríkur gerði útdrátt fyrir Faxa sem birtur er hér. Fjölmargir Suðurnesjarithöfundar og skáld eru að gefa út bækur nú fyrir jólin og við birtum lista yfir þær. Við lítum líka yfir farinn veg með Einari Fali Ingólfssyni sem yfirgaf Keflavík eftir nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja til að mennta sig frekar, m.a. í bókmenntafræði og ljósmyndun. Einar Falur bregður upp skemmtilegum myndum frá Heiðarveginum í Keflavík með orðum út frá 50 ára gömlum ljósmyndum í pistlinum Þá og þar. Séra Fritz Már Jörgensen prestur í Keflavíkurkirkju, og spennusagna- höfundur, talar í pistlinum Hér og nú um kærleika jólanna og hvernig hann birtist í hjálpsemi við náungann og þeirra sem minna mega sín. Fritz læðir að þeirri góðu hugmynd að láta þann jólaanda lifa áfram. Þannig lifi náungakærleikurinn allt árið um kring. Með þessum orðum sendum við jólakveðjur til lesenda með ósk um kærleika og frið á komandi ári. Svanhildur Eiríksdóttir ritstjóri Dagný Maggýjar blaðamaður

x

Faxi

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Faxi
https://timarit.is/publication/678

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.