Heimsmynd - 01.09.1986, Blaðsíða 72
HULDA HÁKONARDÓTTIR
ennþá meira mál fyrir þær sem hafa ekki
alist upp við ofbeldi og djöflagang.
Mér fannst hins vegar engin skömm að
því að fara og ég þorði alveg að segja
fólki frá því hvar ég væri. Sterkasta til-
finningin sem ég fann fyrir var þakklæti.
Þakklæti yfir að það skyldi vera hægt að
komast á svona stað og komast að því í
leiðinni að maður er ekki einn í svona
tilfinningabasli. Það var líka gott og heil-
mikill lærdómur að geta rætt málin við
hinar konurnar. Mér fannst við flestar
eiga það sameiginlegt að drykkja á heim-
ilinu er aðalorsakavaldurinn. Þegar
menn eru búnir að drekka ákveðið magn
eru þeir komnir með svo mikil geðræn
vandamál. Það verður á þeim persónu-
leikabreyting, sem oft er miklu erfiðara
að vinna á en að setja tappann í flöskuna.
Alltof margar konur virðast halda að
þær þurfi að koma allar lemstraðar til
þess að fá inni í Athvarfinu. Það er mesti
misskilningur því það er hægt að kvelja
mann á svo margan hátt og þó að oft sé
þröngt í Athvarfinu er samt alltaf pláss.
Eitt af því, sem mér fannst ómetanlegt
þar, var að í seinni skiptin sem ég var þar
var kominn barnastarfsmaður. Yndisleg
manneskja, sem krakkarnir elskuðu. Og
hvað sjálfa mig varðar, þá liggur mér við
að fullyrða að veran í Kvennaathvarfinu
hafi bjargað geðheilsu minni á þessum
tíma.“
-En það kom ekki til greina að fara í
foreldrahús?
„Ég hef verið spurð að þessu áður og
mín svör eru þau að það sé vísasta leiðin
til þess að enda aftur heima í óbreyttu
ástandi. Ég var búin að reyna að leita til
ættingja áður en ég fór í Athvarfið. Allir
vilja ráða manni heilt og ráðskast með
mann, sem gerir mann bara ráðvilltari. í
Athvarfinu gat ég hugsað málin sjálf í
næði. Svo eru fjölskyldur auðvitað ólíkar
og það getur verið bæði óþægilegt og
niðurlægjandi að þurfa að setjast upp hjá
skyldmennum, sem búa kannski við mis-
jafnar aðstæður til þess að taka við nið-
urbrotinni konu með barnahóp og óðan
mann á hælunum.
Konum gengur líka misjafnlega vel að
koma undir sig fótunum og þó að maður
eigi ekki að alhæfa svona, þá finnst mér,
af því sem ég hef séð að dæma, stelpunni
í fiskinum oft takast það betur en konu
forstjórans. Stelpan í fiskinum er vön að
þurfa að sjá um sig sjálf. Kona forstjór-
ans er miklu háðari karlinum, allt er á
hans nafni og hún er búin að vera svo
lengi í feluleiknum að henni gengur enn
verr að horfast í augu við sjálfa sig. Kon-
ur, sem eiga menn í áberandi stöðum,
virðast líka stundum hafa af því áhyggjur
að þær séu að kasta rýrð á nafn mannsins
með því að viðurkenna að hann mis-
þyrmi þeim. Samt skil ég þetta allt vel.
Maður missir alla viðmiðun í svona
ástandi. Þú reynir að velta fyrir þér mál-
unum og finna einhverja lausn; en því
meira sem þú hugsar því þrengri verður
hringurinn. Svo verður þú svo hrædd að
þú getur ekkert gert.“
Eftir viku í Kvennaathvarfinu treysti
hún sér samt ekki til annars en að fara
heim aftur. „Ég var í vinnu, með börn í
skóla og vissi að við fengjum hvort eð er
aldrei frið.“ Ástandið fer stigversnandi;
drykkjan og ofbeldið aukast, hún „frýs“
alltaf meira og meira, hann hættir að
vinna, „lifir á plastinu“, en getur samt
ekki hugsað um yngri börnin „af því að
það var svo mikið að gera hjá honum við
að gera ekki neitt.“ Um haustið fer hún
aftur í Athvarfið eftir að hann hefur
ráðist á hana - hún man ekki lengur af
hverju - en flytur heim eftir nokkra daga
þegar hann fer í meðferð.
Elann kemur heim „útskrifaður“ og
segist vera „búinn að læra að drekka“.
Galdurinn sé sá að drekka aldrei daginn
eftir. Eftir því fer hann í einhvern tíma
en ástandið skánar lítið frá hennar bæjar-
dyrum séð og aftur vill hún skilja. „Það
er talað um að alkóhólistinn þurfi að
finna sinn botn,“ segir hún „en ég held
að hinn aðilinn þurfi það ekkert síður og
ég var komin niður á minn. En hann vildi
ekki skilnað, var reyndar alltaf mjög
brotinn eftir að hann hafði sleppt sér, og
þetta lafði svona mánuðum saman. Ein-
staka sinnum reyndum við að vera eins
og venjuleg hjón og fara til dæmis út
saman. En það er ekkert gaman að slíku
þegar maður veit að það er fyrirfram
dauðadæmt." Um áramótin féll síðan
reglan um að drekka ekki nema einn dag
í einu endanlega úr gildi. Eftir nokkurra
sólarhringa fyllerí kemur hann heim og
segist allt í einu vilja skilja. Hann flytur
út í bæ en aldrei allur ... er alltaf með
annan fótinn heima. Hann er kominn
með vinkonu úti í bæ. „Það besta sem
hann gat gert mér. Ég mátti passa mig að
hrópa ekki húrra.“
En hann heldur áfram að koma heim
og hún þorir ekki að skipta um lása. „Það
er svo auðvelt að sparka upp einni hurð.“
Sama sagan endurtekur sig með ýms-
um tilbrigðum þangað til eina nótt í fyrra
að nágrannarnir verða að ganga á milli.
Hún flýr í Athvarfið og er þar í hálfan
mánuð. í þetta sinn skilur hún við hann.
Nú á hún ekkert nema „búslóðina og
börnin“.
En hann hættir ekki að ógna henni þó
hann sé nú hættur að drekka og hún
hefur enga tölu á því hve oft hún hefur
þurft að biðja um lögregluvernd. Hann
hótar að stytta þeim báðum aldur og
hefur reynt hvort tveggja. Hún hefur ver-
ið „heppin" hingað til. Fólk hefur komið
henni til bjargar og lögreglan er inni í
málinu og fljót á staðinn þegar hún veit
að hann er annars vegar. Hræddust af
öllu virðist hún næstum vera við það sem
hann kann að gera sjálfum sér til að ná
sér niðri á henni. Hann er búinn að slasa
sig einu sinni. Lét hana vita áður svo hún
væri ekki í vafa um að það væri henni að
kenna. Aðkoman var ljót en hann lifði.
Þegar hún kom til hans á spítalanum
brosti hann til hennar.
„Ég sé hana ekki,“ segir hún þegar ég
spyr hana hvernig hún sjái framtíðina
fyrir sér.
72 HEIMSMYND