Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans - 01.06.1972, Blaðsíða 16
skemmtifund á Ljósavatni, gekk hann gjarnan inn í stofu og fékk
bók að lesa úr stóru heimilisbókasafni, meðan jafnaldrar hans
dönsuðu.
Um fyrstu eiginlegu námsspor Jónasar í Hriflu og kynni af
skólum segir Jónas Kristjánsson svo í áðurnefndu æviágripi:
„Þegar Jónas var sautján vetra gamall, var um sumartíma í
Hriflu kaupamaður sá er Brynjólfur hét og var Magnússon,
kynjaður sunnan úr Holtum, en fékkst um þessar mundir við
barnakennslu í Leiru að vetrinum. Brynjólfur fékk dálæti mikið á
Jónasi og þótti hann skýr piltur og skemmtilegur. Bauð hann
honum að dveljast hjá sér vetrarlangt við ýmis léttastörf, og hét
jafnframt að veita honum nokkra tilsögn. Fór Jónas um haustið
með skipi frá Húsavík suður um land og dvaldist hjá Brynjólfi
um veturinn í góðu yfirlæti. Um vorið gekk hann frá Leiru til
Reykjavíkur. Stóð þar við fáeina daga og skoðaði höfuðstaðinn
meðan hann beið eftir skipsferð norður . . . Þetta var hin fyrsta
för Jónasar út í heiminn. Hún var aðeins öðrum þræði til lærdóms
gjörð, en má þó kallast fyrsti áfanginn á námsbraut hans. í þess-
um leiðangri kynntist hann veröldinni og vandist við að standa
einn og óstuddur. En jafnframt mátti hér sjá fyrsta vott þess að
losna kynni um þau bönd sem tengdu hann við æskuheimili og
ættarbyggð“.
Líklegt verður að telja, að Jónas frá Hriflu hefði á næstu missir-
um leitað sér mennta í einu menntastofnuninni norðan lands,
þar sem efnalitlir menn gátu gert sér vonir um að komast inn fyrir
dyr, þótt Brynjólfur hefði ekki boðið honum suður. Eigi að síður
hefur vinarbragð Brynjólfs við þennan fátæka ungling orðið
mikil hvatning, ef ekki beinlínis riðið baggamuninn um það, að
Jónas afréð að fara í Möðruvallaskóla þegar næsta haust 1903.
Skólinn fluttist þá til Akureyrar eftir brunann á Möðruvöllum.
Jónas hafði heyjað sér mikinn, almennan fróðleiksforða af
lestri bóka, en var vanbúinn til náms í stærðfræði og málum.
Ungur gáfumaður í Þingeyjarsýslu, Ásgeir Finnbogason, bróðir
Guðmundar landsbókavarðar, veitti honum þó ofurlitla undir-
búningstilsögn í erlendum málum, áður en hann hélt í Akureyrar-
skóla, og Jónas reyndist undrafljótur að ná tökum á enskri tungu,
enda alla tíð frábær málanámsmaður, en lagði minni rækt við
stærðfræði.
Suðurferð Jónasar og vist með Brynjólfi veturinn áður hefur
vafalaust átt sinn þátt í því fasmikla öryggi, sem þegar kom fram
í námi og félagsstarfi Jónasar í skólanum. Hann hafði þar þegar
12